Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Atvinnulífið hér á landi hefur gengið í gegnum gífurlegar breytingar á síðasta áratug. Ástæðurnar eru ýmsar, svo sem framleiðslustjórnun til lands og sjávar og gjörbreytt vaxtastefna. Við höfum um langt árabil getað státað af vart mælanlegu atvinnuleysi en nú síðustu árin hefur það verið umtalsvert og ekkert sem bendir til að úr því muni rætast á næstu árum ef ekki kemur eitthvað nýtt, eitthvað virkilega nýtt til skjalanna. Framleiðsluatvinnugreinarnar eru njörvaðar niður, nýgreinar hafa ekki skilað því sem vonir stóðu til, við þurfum að auka framleiðslu í landinu. Eins og staðan er í dag eru of margar geldar kýr í fjósinu. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt að hugað sé að stóriðju hér á landi, landi fallvatna og ónýttrar orku.
    Allt bendir til að Alþingi standi innan tíðar frammi fyrir því að taka afstöðu til samnings um nýtt álver. Ég ætla ekki að rekja málsmeðferðina eða hvernig málinu hefur miðað á síðustu mánuðum en það eru ýmsar spurningar sem hafa leitað á hugann eftir að fyrir lá að staðsetningin yrði Keilisnes. Spurningin sem hefur verið ofarlega í huga þeirrar sem hér stendur og sem snýr að eigin samvisku er sú hvort það sé hægt að styðja álver í Eyjafirði eða á Reyðarfirði en að vera á móti álveri á Keilisnesi. Þessi spurning hlýtur að hafa leitað á fleiri þingmenn sem bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, og það hefur reyndar komið fram í umræðunni hér í kvöld. Maður ætti kannski ekki að gera því skóna að á hv. Alþingi fyrirfinnist fulltrúar sem ekki beri hag landsins alls fyrir brjósti, en það er nú svo að maður leyfir sér stundum að efast.
    Það hefur oft á tíðum verið með ólíkindum að hlusta á umræðuna um þetta mál, eins og t.d. þegar þingmenn og jafnvel ráðherrar hafa látið hafa eftir sér, sagt berum orðum að staðsetningin skipti ekki máli, hún sé bara eins konar aukaatriði. Auðvitað skiptir gífurlegu máli hvar 600 manna vinnustaður er settur niður. Það hefði t.d. hentað einstaklega vel fyrir atvinnulíf í Eyjafirði að fá 600 manna vinnustað á svæðið til viðbótar því atvinnulífi sem þar er til staðar. Ég geri mér grein fyrir því að staðsetningin er ákveðin af hálfu Atlantsálsaðilanna og spurningin í dag snýst því fyrst og fremst um það hvort það nást viðunandi eða góðir samningar af Íslands hálfu um orkuverð.
    Í mínum huga eru um aðgerðir samhliða uppbyggingu álvers á suðvesturhorninu mjögmikilvægar. Mig langar í því sambandi að vitna í minnisblað Byggðastofnunar frá því í síðasta mánuði en þar stendur orðrétt, með leyfi forseta: ,,Fari svo að álverið rísi á Keilisnesi teljum við nauðsynlegt að gripið verði til umfangsmikilla mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að staðarvalið valdi meiri skaða fyrir þróun byggðar í landinu en nauðsynlegt er. Þau áhrif sem bygging og rekstur álvers munu hafa á þjóðarhag skapa forsendur til þess að veita auknu fjármagni til slíkra aðgerða. Í þessu efni skiptir árangurinn í Eyjafirði mestu máli í upphafi vegna stöðu atvinnumála

þar enda munu Austfirðingar njóta virkjunarframkvæmdanna á næstu árum, hvort sem álver verður staðsett þar eða ekki.``
    Mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að ríkisstjórn sem leggur upp með það veganesti að hún muni beita sér fyrir jafnvægi í byggðaþróun muni ekki ætla sér að grípa til umfangsmikilla mótvægisaðgerða. En ég verð að viðurkenna að ég hef heyrt frekar lítið af þeim tillögum.
    Ég leyfi mér að nefna eitt stórt mál sem er stórkostlegt byggðamál og gæti verið liður í mótvægisaðgerðum, en það er efling háskólans á Akureyri og ýmiss konar rannsóknastarfsemi sem honum tengist. Ég hefði áhuga á að fá svar frá hæstv. iðnrh. um það hvernig þeirri vinnu miðar að móta umfangsmiklar mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegrar byggingar álvers á Keilisnesi.
    Mig langar einnig í þessu sambandi að spyrja um veltuskatt af álveri. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem liggur fyrir Alþingi að í bréfi iðnrn. til sveitarfélaga um staðsetningu álvers hafi verið rætt um að ráðstafa mætti 3 / 4 hlutum veltuskatts til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni en 1 / 4 hluti rynni til sveitarfélagsins þar sem álverið yrði staðsett. Veltuskatturinn ætti að geta orðið 100 millj. kr. á ári. Hvað er meiningin að leggja til af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Mér finnst það vera óljóst.
    Það kemur einnig fram að fasteignagjöld munu renna til þess sveitarfélags þar sem álverið yrði reist, þ.e. Vatnsleysustrandarhrepps. Þarna er e.t.v. um að ræða 70 millj. kr. á ári. Ég vil lýsa efasemdum um að þetta sé réttlætanlegt í tilfellum sem þessu þó svo að íslensk lög geri ráð fyrir slíku. Það hljóta að þurfa að gilda alveg sérstök lög um það atvinnufyrirtæki sem hér um ræðir og engin ástæða til að ákveðinn hreppur fái stórkostlegar tekjur af starfseminni þó svo hann hafi orðið fyrir valinu um staðsetningu. Ávinningurinn er svo mikill samt sem áður, bæði beinn og óbeinn.
    Það er ljóst að samkeppnin um byggingu hugsanlegs álvers verður hörð. Nýlega var greint frá því í blöðum að finnskt-íslenskt fyrirtæki sé að huga að kaupum eða leigu á Stálvík í Garðabæ með málmsmíði við væntanlega byggingu álvers í huga. Það hefur einnig komið fram að fjölmarga hluti í verksmiðjuna mætti smíða fyrir norðan rétt eins og fyrir sunnan. Forsvarsmenn málmiðnaðarfyrirtækja á Akureyri hafa rætt saman um möguleika á að ná til sín einhverjum verkum ef af byggingu verður. Ég spyr því hæstv. iðnrh.: Gildir það sama um þetta og staðsetninguna, hafa Íslendingar ekkert um það að segja hver hlýtur verkið? Væri hugsanlegt að hægt væri að koma inn í samninga einhverju ákvæði þar um? Að öðrum kosti sér maður fyrir sér að fyrirtæki spretti upp eins og gorkúlur og leggi síðan upp laupana þegar verki er lokið og íslensk fyrirtæki fengju minna en ekkert út úr krafsinu. Þetta finnst mér vera stórt mál.
    Hæstv. forseti. Togstreitunni sem ríkt hefur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis verður að linna. Þetta margnefnda álversmál hefur ekki orðið til að

flýta því að svo geti orðið. Þar vil ég nefna og etv. kenna um framkomu og málflutningi ýmissa Reyknesinga sem ég sinni nú ekki að nefna hér þar sem ég er í hópi þeirra sem vilja frið milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
    Hæstv. forseti. Það sem ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á í máli mínu og ítreka nú er þetta: Stuðningur við álver á Keilisnesi af minni hálfu er háður því að gripið verði til mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir að staðarvalið valdi meiri skaða fyrir þróun byggðar í landinu en nauðsynlegt er. Þetta yrði þjóðfélaginu öllu fyrir bestu.