Mannanöfn
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að þegar rætt er um mannanöfn og mannanafnaskráningu, hvaða nöfn skuli leyfð og eins breytingar á mannanöfnum, þá er að sjálfsögðu alltaf um mikið tilfinningamál að ræða. Ég ætlaði aðeins að fara örfáum orðum um það frv. sem hér liggur frammi og langaði mig fyrst til þess að beina spurningu til hæstv. menntmrh. varðandi mannanafnanefnd, hvort ekki væri ástæða til að hafa ákvæði í lögunum um það hversu langan tíma hún hefur til þess að úrskurða um leyfileg nöfn. Ég tel mjög nauðsynlegt að nefndin geti unnið hratt og birt úrskurði sína innan skamms tíma. Ég hef svo sem ekki á reiðum höndum ákveðna hugmynd um hversu langur sá tími ætti að vera, en ég tel nauðsynlegt að nefndin hafi ákveðinn frest þar sem henni verður gert skylt að birta úrskurð sinn.
    Þá langaði mig aðeins til að minnast hér á nafnbreytingar í sambandi við ættleiðingu barna. Það virðist nú vera nóg svona við fyrstu sýn að börn skipti um foreldra, hvað þá heldur að skipta um nafn líka. Það segir hins vegar í grg. með frv. að þetta sé ekki síst með tilliti til erlendra barna sem eru ættleidd hingað til lands en á seinni árum hafa allmörg börn verið ættleidd. Býst ég við að í 7. gr. ráði sjónarmiðið um að halda íslensku nöfnunum sem reglu en ég efast hins vegar um þessi mörk við tólf ára og tel í raun og veru fráleitt að það sé hægt að skipta um nöfn á börnum án samráðs við þau sjálf upp að tólf ára aldri. Það er annað sem ég vildi minnast á varðandi ættleiðingu erlendra barna. Eftir því sem ég best veit eru þau öll mjög ung sem hingað koma þannig að ég gæti ímyndað mér að það væri óhætt að hafa þessi mörk mun lægri.
    Það var aðeins eitt enn. Ég hafði reyndar hugsað mér að gera athugasemd við 12. gr. um að börn séu kennd við stjúpföður sinn en væntanlega fáum við sem erum í menntmn. að heyra um það hvaða athugasemdir það eru sem koma frá dómsmrn. þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í það. En það var aðeins eitt til viðbótar sem ég vildi minnast á. Það er nú hreinlega málfarslegt atriði og er síðasta málsgrein 14. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Hafi maður tekið ættarnafn maka síns er honum frjálst að taka upp að nýju upprunalegt kenninafn sitt þegar hjúskap er lokið.`` --- Ég hefði heldur viljað sjá þarna ,,ef til hjúskaparslita kemur``. Mér þykir þetta einum of ákveðið, eins og það sé sjálfgert að til hjúskaparslita komi.
    Þetta voru aðeins örfáar vangaveltur um frv. svona í fyrstu lotu, en mín aðalspurning til hæstv. menntmrh. var varðandi frest mannanafnanefndar til þess að skila sínum úrskurðum.