Mannanöfn
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nú ekkert óeðlilegt að menn hafi ólíkar skoðanir á svona máli. Ég tel ekkert óeðlilegt við það frekar en öðrum málum. Ég tel það í sjálfu sér ekki veruleg tíðindi þó að menn hafi ýmsar skoðanir á málum af þessu tagi. Aðalatriðið er það að menn átti sig á því að lögin frá 1925 hafa ekki verið framkvæmd. Það hefur ekki reynst unnt að framkvæma þau vegna þess hvernig m.a. ákvæði þeirra eru, segjum um mannanafnaskrána. Þar er gert ráð fyrir því að það sé gefin út skrá yfir mannanöfn sem ekki er heimilt að nota. Sú skrá hefur aldrei verið gefin út. Og ef Alþingi breytir slíkum lögum þá er auðvitað eðlilegt að það séu a.m.k. strikuð út úr þeim þau ákvæði sem ekki eru framkvæmd, vegna þess að það er náttúrlega bara verið að hæðast að löggjafanum með því að vera með slík ákvæði í lagasafninu í stórum stíl eins og við höfum oft rætt um.
    Um þau atriði sem hér hafa verið nefnd af hv. þm. vil ég bara segja þetta: Það er grundvallarþáttur í þessu máli að mannanafnakerfið er veigamikill hornsteinn í íslenskri málþróun. Það er grundvallaratriði númer eitt. Og það er einkenni á íslensku máli sem ég held að sé ágæt samstaða um að varðveita. Þetta er sérstakt mannanafnakerfi sem á sér ekki margar ef nokkrar hliðstæður og það er ljóst að með því að ættarnöfn verði tekin upp í vaxandi mæli þá mun þetta gamla mannanafnakerfi okkar líða undir lok. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að líta á það sem lið í málrækt og málþróun Íslendinga að við reynum að hafa einhverjar reglur um þessi mál. Þær þurfa hins vegar, ef þær eru settar, að vera sanngjarnar og þær þurfa að vera ljósar þannig að fólki finnist ekki að það sé verið að ganga á rétt þess og að fólk skilji reglurnar, þær séu auðskildar og auðvelt að fara eftir þeim.
     Ég kann margar sögur af því hvernig ágætir prestar hafa á undanförnum áratugum leyst úr þessum málum af mikilli snilld. Það eru ekki nema um 30 ár síðan það kom upp sú hugmynd hjá foreldri að gefa barninu sínu nafnið Himinbjörg en prestinum tókst á síðustu stundu að benda foreldrinu á að í þessu tilviki væri í lagi að sleppa himninum þó það væri rétt að muna eftir honum alla jafna. Þannig hafa menn með sanngjörnum ábendingum oft á tíðum komið við lagfæringum.
     Ég veit ekki hvort menn hafa séð hér lista yfir nöfn í seinni tíð en það er alveg ljóst að við höfum í rauninni ekki ráðið neitt við neitt og ég tel að við eigum að hafa almennar reglur um þessi mál. Ég tel að við eigum ekki að opna allar flóðgáttir.
    Varðandi þau atriði sem fram komu hjá hv. þm. vil ég segja það að það er auðvitað, mér liggur við að segja fullkomið álitamál og smekksatriði hvort á að setja í lög ákvæði um það að nöfn megi ekki vera fleiri en tvö. Þetta er mál sem var dálítið rætt hér síðast og þingmenn verða bara að komast að niðurstöðu um þetta og reyna svona að hlíta því sem kallað er bestu manna yfirsýn í þessu efni. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn hafi neinar skoðanir á svona

máli aðrar en bara samvisku sína og eigin tilfinningu fyrir því hvað heppilegt er fyrir þróun íslenskrar nafnahefðar. Varðandi vald mannanafnanefndar sem hv. 3. þm. Vesturl. gat hér um áðan, þá er það auðvitað álitamál hversu mikið vald hún á að hafa. Ég get alveg viðurkennt að hún má helst ekki vera dómstóll. Ég er sammála hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur um það að það á auðvitað að setja tímamörk á nefndina. Ég tel að það sé fullkomlega rétt ábending. En spurningin er með hvaða hætti á að fara með mál ef ágreiningur kemur upp milli foreldris sem er að gefa barni nafn og nefndarinnar. Ég held að það verði að vera helst á fortölustigi sem mest, fremur en úrskurðar. Og í þeim efnum er brýnast að fólk hafi það í huga að nafnið er ekkert lítil tíðindi fyrir barnið sem þarf að bera það allt sitt líf og stundum finnst manni nú að hægt sé a.m.k. að nefna dæmi um það að fólk hefði mátt sýna meiri tillitssemi við nafngjafir þó það sé ljóst að breytingar hafi orðið í þessum efnum á síðustu áratugum, m.a. hjá frændum mínum hér á Vestfjörðum þar sem margt skemmtilegt nafnið var nú til hér áður og fyrr meir.
    Varðandi það sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir gat um þegar börn væru kennd til stjúpföður þá vísa ég henni til álits dómsmrn. um það mál sem liggur hér fyrir í fskj. með frv. og varðandi tólf ára mörkin í 12. gr. þá er ég sammála henni um það að það mál má skoða betur og það segir hér: ,,Sú ákvörðun skal jafnan háð samþykki barnsins sjálfs sé það orðið tólf ára.``
    Í frv. sem er hér á dagskrá síðar á þessum fundi er gert ráð fyrir því að í barnaverndarmálum verði skylt að leita álits tólf ára barna þegar úrskurðir snerta þau og gert ráð fyrir því að alla jafna sé leitað til eða reynt að fá álit barnanna jafnvel þó þau séu yngri. Þess vegna er það alveg hárrétt ábending hjá hv. þm. að það er hugsanlegt að þessi mörk eigi að vera eitthvað talsvert neðar.
    En eins og ég segi er hér mikið af álitamálum, einstaklingsbundnum og jafnvel tilfinningabundnum álitamálum og eðlilegt að menn hafi ólík sjónarmið í þessum efnum eins og gengur. En ég held að það væri nú samt gott ef þingið gæti afgreitt þetta mál vegna þess að mannanafnalögin frá 1925 eru óframkvæmanleg að allra mati og nauðsynlegt að breyta þeim.