Vernd barna og ungmenna
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Níels Árni Lund :
    Herra forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni. Ég fagna fram komnu frv. til laga um vernd barna og ungmenna. Ég hef ekki í sjálfu sér átt þess kost að fara yfir þetta ítarlega en það er þó eitt atriði sem ég vildi koma hér inn á og vekja athygli á, altént þeirrar nefndar sem fær þetta til umfjöllunar, og eins leita þá svara hjá hæstv. menntmrh. ef hann hefur tök á því nú að leiðrétta mig ef það er rangt sem ég ætla að nefna hér. Það varðar umgengnisrétt foreldra við barn sitt og viðurlög ef þar er á brotið. Mér er kunnugt um eitt slíkt dæmi þar sem svo hagar til að annað foreldrið hefur forræði fyrir barninu og svo er kveðið á að hitt foreldrið skuli einnig fá að njóta samvista við það, eftir ákveðnum leiðum og á ákveðnum tímum. Það hefur samt sem áður alls ekki náð fram að ganga. Viðkomandi aðili hefur alfarið neitað hinu foreldrinu um að sjá barnið og hafa nokkurt samneyti við það. Þetta hefur staðið núna í langan tíma og leitað hefur verið til ráðuneyta um það hvort hægt sé að beita einhverjum ákvæðum sem geta knúið fram rétt þess foreldris sem ekki hefur barnið í sinni forsjá, að þau fái að hittast en þar hefur skort á lagaákvæði, að mér hefur verið tjáð. Ég hef sjálfur athugað þetta fyrir viðkomandi foreldri.
    Í barnalögum frá 15. apríl 1981 er kveðið svo á í 40. gr., með leyfi forseta:
    ,,Nú torveldar það foreldri, sem hefur forsjá barns, að hitt fái að umgangast barnið, og getur dómsmrn. þá knúið það að viðlögðum allt að 200 króna dagsektum, er renni til ríkissjóðs, til að láta af tálmunum.``
    Þegar farið er að gá að þessu er mjög óskýrt í lögum hvað þessar 200 kr. þýða. Er hér átt við að frá og með þeim degi sem þetta er nú torveldað skuli koma 200 kr. á hverjum degi þaðan í frá eða eru þetta einungis 200 kr. fyrir þann dag sem hefur verið kveðið á um að foreldrið megi hitta barn sitt og þar brýtur á? Eða við hvað er átt? Þar fyrir utan má náttúrlega nefna það að verðgildi þessara 200 kr. breytist í sjálfu sér ár frá ári. Mér var tjáð, að ég tel, að þegar ætti að skoða og leggja fram frv. um vernd barna og ungmenna yrði sérstaklega tekið á þessum þætti. Ég beið eftir því í fyrra að þetta frv. kæmi hér fram. Hæstv. menntmrh. nefndi að það hefði verið lagt fram til kynningar en ekki fengið neina umfjöllun og ég átti þess ekki kost að sitja þá á Alþingi. Mér er því ókunnugt um frekari framgang málsins hér.
    Í 34. gr. þessa frv. segir einmitt svo, með leyfi forseta:
    ,,Kveða skal á um fóstur í skriflegum samningi milli fósturforeldra og barnaverndarnefndar. Í fóstursamningi skal kveða á um:`` --- og síðan kemur d-liður: ,,umgengni barns við kynforeldra og aðra``. Og í 36. gr. segir enn fremur svo, með leyfi forseta, þar sem kveðið er á um umgengni barns í fóstri við kynforeldra: ,,Barn, sem er í fóstri með eða án samþykkis kynforeldra, á rétt á umgengni við þá og aðra sem eru barninu nákomnir. Kynforeldrum er skylt að rækja

umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar.
    Kveða skal á um umgengni í fóstursamningi, sbr. d-lið 34. gr.`` sem ég vitnaði í áðan.
    Samt sem áður kemur ekkert fram hvað skuli gera ef þetta atriði nær ekki fram að ganga.
    Í athugasemdum við þetta frv. segir svo á bls. 37 um 36. gr., með leyfi forseta:
    ,,Engin lagaákvæði eru til um umgengnisrétt barna í fóstri við kynforeldra sína og aðra sem standa barni nær. Það er því brýn nauðsyn að bæta þar úr og lögfesta slíkan rétt, enda mun almennt talið að um raunverulegan rétt barnsins sé að ræða ef mögulegt er að koma honum við þannig að umgengni þjóni hagsmunum þess.``
    Þessu er ég fyllilega sammála og enn fremur segir svo neðar í sömu grein, með leyfi forseta:
    ,,Rétt þykir að kveða á um umgengni og það hvernig henni skuli háttað í fóstursamningi, eins og gert er ráð fyrir í 34. gr. frv., til þess að taka af tvímæli og draga úr líkum á vandamálum þegar fer að reyna á framkvæmd umgengni. Þrátt fyrir ákvæði um umgengni í fóstursamningi er ljóst að barnaverndarnefnd verður að hafa vald til þess að breyta umgengnisháttum ef aðstæður breytast þannig að slíkt teljist nauðsynlegt eða heppilegt. Nefndin verður einnig að geta úrskurðað um niðurfellingu umgengnisréttar, hugsanlega í ákveðinn tíma eða jafnvel til frambúðar, ef augljósar ástæður eru fyrir hendi sem réttlæta slíka ráðstöfun að mati nefndarinnar. Enn fremur getur verið nauðsynlegt að ákveða umgengni í hvert skipti.``
    Hér er sem sagt rætt mjög ítarlega um þessi mál og tekið á þeim hvað það varðar að skyldurnar eru ljósar. Því fagna ég að auðvitað, enda er ótækt annað, hvað svo sem upp á kann að koma í hjónabandi eða sambúð foreldra, en að barn fái að njóta þess sjálfsagða réttar að vera samvistum við báða foreldra sína. En af því að ég þekki það af eigin raun að svo er ekki þar sem til mín hefur verið leitað með slíkt mál, veit ég að í þessu geta komið upp hin mestu vandræði og lagaheimildir virðist skorta til að geta tekið á þessu.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að mér var tjáð að von væri á breytingum í þessi efni þar sem yrði ótvírætt kveðið á um það hvernig sektarákvæðum yrði beitt ef svona lagað kæmi upp, þannig að þetta væri nánast ekki hægt, en mér sýnist það skorta á hér. Ef það vantar í þetta frv. vildi ég benda þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um það hvort eðlilegt sé að þetta komi hér inn og eins þykist ég vita að hæstv. menntmrh. geti svarað því hvort þetta hafi átt að koma hér inn og hafi fallið niður eða hvort mönnum hafi ekki sýnst vera hægt að gera það eða þá að menn eru enn að vitna í að ákvæði séu um þetta í barnalögum, en þá er því til að svara að þau lög duga engan veginn eins og mál standa í dag. Ef möguleiki er á að koma þessu ákvæði inn í það frv. sem hér er lagt til að verði samþykkt legg ég því til

að það verði gert.