Vernd barna og ungmenna
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að flytja þetta frv. hér. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn farið yfir það svo ég geti rætt það efnislega. En ég sit í þeirri nefnd sem um það mun fjalla og kynnist því þá ítarlega. Það er svo vandasamt og mikilvægt málefni sem þetta frv. fjallar um að það hlýtur að vera nauðsynlegt að endurskoða lögin öðru hvoru miðað við þær miklu breytingar sem eru sífellt að verða á okkar þjóðfélagi og þá hvernig hægt er með löggjöf að bregðast við þeim vanda sem aðstæðurnar skapa.
    Þó við séum öll sammála um að löggjöf þurfi að vera sem best og vönduðust þá býst ég við, og það hefur reyndar komið fram hér í máli ræðumanna sumra a.m.k., að lögin ein stoði ekki. Við verðum að varast að hafa það sem afsökun fyrir okkur að við reynum bara að setja góð lög og síðan eigi aðrir að sjá um að þau leiði til þess að hlutirnir verði í góðu lagi. Því miður er málið ekki svo einfalt. Við sjáum það eins og hér hefur verið vikið að hversu margt er öðruvísi en það ætti að vera í þessum efnum.
    Ég verð að viðurkenna eftir veru mína í dómsmrn. að ömurlegustu málin sem ég kynntist þar voru skilnaðir og deilur um forræði yfir börnum og annað sem af því leiddi þar sem oft virtist ómögulegt, og var auðvitað ómögulegt, að leysa málin á farsælan hátt fyrir börnin. Aðstæðurnar voru orðnar þannig. Spurningin var aðeins hvað var hægt að gera skást.
    En það sem óneitanlega kom í huga minn hér við umræðuna er efni 68. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ef maður hvetur barn eða ungmenni til lögbrota, lauslætis, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða leiðir það með öðrum hætti á siðferðilega glapstigu þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum.`` Þá vaknaði hjá mér spurningin, hvað er hvatning? Er ekki verkleg kennsla hvatning? Og vegna þess sem hér var vitnað í grein í Tímanum í dag og eins það sem hv. 18. þm. Reykv. sagði um bjórinn, þá vitum við það að Alþingi hélt uppi mjög miklum áróðri og hvatningu til neyslu áfengs öls núna fyrir tveimur árum með sinni afstöðu. En síðan er það sem ég hef gagnrýnt og það er að ríkisvaldið heldur uppi verklegri kennslu í áfengisneyslu með því að veita það alls staðar við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Og hvar eru komin mörkin við þau ákvæði sem segir í 68. gr. um að varði við lög?
    Það sem ég vildi segja með þessu er að ég held að okkur öllum hætti til þess að reyna að friða samviskuna með lagasetningu og öflugu eftirliti og segja svo að málið komi okkur ekkert við. Það var seinast í nótt sem ég kom hingað í bæinn og stöðvaði bílinn þegar ung manneskja stóð á götunni, óskaði að fá flutning í annað bæjarhverfi og sagði að sér liði illa. Það er heldur ömurleg sjón sem mætir okkur hér alltaf þegar við komum út á göturnar og sjáum hversu margir hafa farið þar illa með sig, að við tölum nú ekki um það sem einstaklingarnir ráða ekki við, þ.e.

börnin skapa ekki aðstæðurnar sem eru í þjóðfélaginu. Það eru aðrir sem gera það og þau verða svo fórnarlömb umhverfisins. Auðvitað er þetta ástand í þjóðfélaginu ekkert af öðru en því hvernig við sem eldri erum sköpum umhverfið. Og út yfir tekur þó þegar nú er staðfest að neysla verðandi móður á áfengi veldur skaða á ófæddu barni, bæði andlegu og líkamlegu atgjörvi. Og að ríkisvaldið skuli vera að veita það efni sem sannað er að veldur slíku tjóni á óbornum kynslóðum. Mér finnst eitthvað vanta í samhengið þegar fólk segir svo að nú þurfi að gera allt sem hægt sé til þess að koma í veg fyrir þetta tjón og þetta ástand.
    Það sem ég vildi vekja athygli á með orðum mínum er sem sagt þetta: Ég held að það þurfi gjörbreyttan hugsunarhátt í okkar þjóðfélagi þar sem menn skilji ábyrgð sína, hver og einn, sem einstaklingar. Og þó að ég taki undir það að við þurfum að setja vönduð lög þá nægja þau ekki ef skilningurinn sem ég vék að er ekki fyrir hendi.