Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það að ég fagna framlagningu þessa frv. en ég verð því miður að segja að ég held að það muni ekki ná þeim tilgangi sem því er ætlað. Það er að mínu mati ekki nægilegt að afnema 28. gr. stjórnarskrárinnar til að koma hér skikkan á málefni löggjafar - og framkvæmdarvalds.
    Ég vil enn fremur minna á það að hæstv. núv. ríkisstjórn byrjaði sinn feril á því að misnota þessa 28. gr. Þar var um að ræða ráðstöfun á fjármunum upp á marga milljarða eins og allir muna. Ég dró gildi þeirra bráðabirgðalaga í efa á þeim tíma, þetta var um áramótin 1988 -- 1989, og skrifaði fjh. - og viðskn. þessarar hv. deildar bréf og óskaði eftir því að þau bráðabirgðalög yrðu send til Lagastofnunar í jólaleyfinu. Sú hv. nefnd ansaði ekki erindinu og ég sendi það því sjálfur. En þá brá svo við að sú ágæta lagastofnun hafði svo mikið að gera að hún mátti ekki vera að því að svara því. Ég fékk allan pakkann endursendan eftir þrjá daga. Spurningunum um réttmæti þeirra bráðabirgðalaga var því aldrei svarað. Hæstv. forseti, hvert eiga þingmenn að leita þegar um er að ræða efasemdir um ákvæði stjórnarskrár, hvort sem það eru bráðabirgðalög eða eitthvað annað? Það er auðvitað kjarni þessa máls. Það getur borið svo við að brýna nauðsyn beri til að gefa út bráðabirgðalög. Það á við um styrjaldir og náttúruhamfarir og eitthvað slíkt og við skulum vona að við þurfum ekki að setja slík lög, en þetta ákvæði er ætlað í slíkum tilvikum.
     Ég held að upphaflega muni ætlunin hafa verið sú að misnota þetta ekki en síðan hefur framkvæmdarvaldið séð þessa auðveldu leið til að redda einhverju klúðri í höfn á elleftu stundu. Ég held því að það sé ekki nægilegt að afnema þessa 28. gr., það þurfi eitthvað fleira að koma til.
    Ég minni á starfsemi umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu í nokkrum tilvikum að ráðherrar hafi ekki farið að skv. lögum eða stjórnarskrá. Það hefur ekkert gerst í því annað en hæstv. ráðherrar hafa bara brúkað munn í blöðunum og sagt að þessi umboðsmaður sé nú enginn dómari o.s.frv. Við erum því ekki komin nógu langt enn þá og því er spurning hvað við eigum að gera í þessu máli. Ég tel að 28. gr. stjórnarskrárinnar sé í fullu gildi og síðasta setningin í þessari 28. gr. hljóðar svo ef ég man rétt: ,,Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út ef Alþingi hefur afgreitt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.`` Hvað þýðir þessi setning? Í upphafi starfsferils þessarar hæstv. ríkisstjórnar ráðstafaði hún mörgum milljörðum eins og ég sagði áðan, að mörgu leyti til nauðsynlegra hluta, það viðurkenni ég. En ráðstafanir verða að standast stjórnarskrá landsins. Og hvað var ráðstöfun á mörgum milljörðum annað en bráðabirgðafjárlög? Það var engin heimild fyrir því að millifæra peninga t.d. úr Atvinnuleysistryggingasjóði o.s.frv. Það breytir engu um það hvort þetta var nauðsynlegt eða ekki. Það varð að standast stjórnarskrána. Annars bítur það í skottið á sér.
    Það var búfjártalning og fleira sem hér hefur farið fram og umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að standist ekki lög og stjórnarskrá. Og hæstv. sjútvrh. ætlar nú að fara að vera nokkurs konar ,,on line`` bráðum með því að kíkja á hvað við fáum mikinn fisk á hverjum degi. Er þetta ekki fulllangt gengið? Ætlar framkvæmdarvaldið að fara að reka þjóðfélagið eins og dagheimili? Á að passa þegna þjóðfélagsins eins og litla krakka? Manni ofbýður svona hugsun og svona athafnir.
    Ég held að kjarni þessa máls sé sá að hér vanti stjórnlagadómstól. Væri það þannig að ráðherrar ynnu undir aðhaldi mundu þeir ekki brjóta stjórnarskrá landsins eins og þeir hafa verið að gera. Það þurfa nefnilega allir að vera undir aðhaldi. Stjórnlagadómstóll er ekkert annað en nokkurs konar gæðaeftirlit á framkvæmdarvaldinu og jafnvel á löggjafarvaldinu. Sjálfstæður stjórnlagadómstóll sem kveður upp endanlega úrskurð tel ég vera það sem vantar í þessu landi. Það er alveg skýrt og alveg augljóst í mínum huga að t.d. fjármálaákvæði stjórnarskrárinnar, bráðabirgðalagaákvæði eru jafngild mannréttindaákvæðum. Sumir eru að tala um að framkvæmdarvaldið hafi öðlast hefð til að gera þetta eða hitt. En ég spyr: Getur framkvæmdarvaldið öðlast hefð til þess að setja fólk í tugthúsið án þess að leiða það fyrir dóm með því að gera það nógu oft? Það er alveg fráleitt. Og því eru fjármálaákvæðin jafngild og þetta bráðabirgðalagaákvæði, eins og þar stendur: ,,þegar brýna nauðsyn ber til``. Það væri þá verkefni stjórnlagadómstóls að komast að niðurstöðu um það hvort það hefði borið brýna nauðsyn til eða ei, hefðum við slíkan dómstól. Og ég held að við hér í hv. Alþingi ættum að sjá til þess að slíkur dómstóll geti tekið til starfa sem allra fyrst.