Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við þetta frv. og vil aðeins taka örfá atriði til umfjöllunar. Hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson vitnaði í orði mín frá 111. löggjafarþingi þar sem ég taldi ástæðu til þess að þrengja heimild ríkisstjórna til útgáfu bráðabirgðalaga. Það er alveg rétt. Ég taldi nauðsynlegt að þrengja það ákvæði, en ég hef sannfærst æ betur um það síðan að nauðsynlegt er að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskránni með öllu. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar að ef ókleift er af einhverjum ástæðum, t.d. af náttúruhamförum eða vegna styrjalda eða einhvers óvanalegs ástands, að kalla Alþingi saman þá eru til ýmis neyðarréttarákvæði í stjórnskipunarrétti þannig að það á ekki að vera nauðsynlegt að hafa þessa heimild inni og því eðlilegast að afnema hana með öllu.
    Ég áttaði mig ekki alveg á hvað hv. 11. þm. Reykn. átti við þegar hann talaði um sýndarmennskufrv. og get þar af leiðandi ekki svarað því en ég túlka orð hans þannig að hann hafi ekki verið að tala um það frv. sem hér er til umræðu.
    Hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir taldi ekki rétt að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskránni og vísaði þá til þessara neyðarréttarsjónarmiða. En ég held að það sé á einhverjum misskilningi byggt. Það kom einnig fram í máli hennar að hún taldi eðlilegt að nefnd sú sem forsetar hafa sett á laggirnar með það í huga að endurskoða ýmis fleiri ákvæði stjórnarskrárinnar fái þetta frv. til meðferðar. Ég hef út af fyrir sig ekkert að við það að athuga að þeir sem þar sitja taki þetta frv. og líti á það. En ég vil alls ekki að því sé blandað saman við þá endurskoðun vegna þess að við það starf situr ákveðinn hópur manna sem þarf þá að komast að einhverju ákveðnu samkomulagi, en þetta er mál út af fyrir sig sem eðlilegt er að fjallað sé um á venjulegan hátt í þinginu.
    Ég vil, hæstv. forseti, mælast til þess að frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.