Rannsókn álmálsins
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 12 að flytja þáltill. um skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka álmálið:
    ,,Neðri deild Alþingis ályktar að skipa sjö manna rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka og gefa Alþingi og almenningi skýrslu um alla þætti álmálsins, þ.e. vinnu að mögulegum samningi við Atlantsálshópinn, og hafi rannsóknarnefndin heimildir til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, af embættismönnum og öðrum sem upplýsingar geta gefið.
    Rannsóknin taki til allra þátta málsins, svo og reynslu Íslendinga og annarra af álrekstri, þar á meðal mengunar, arðgjafar og annars sem máli skiptir.
    Einnig skal nefndin afla ítarlegra upplýsinga, þar með talið álits hlutlausra kunnáttumanna, um öll meginatriði sem tengjast mögulegum álsamningi, svo sem hvort bygging og rekstur álversins á þann hátt sem helst er um rætt samrýmist löggjöf landsins, þ.e. grundvallarákvæðum um jöfnuð manna í stjórnarskrá, skipulagslögum, lögum um varnir gegn mengun og um hollustuhætti og alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga. Einnig að greint verði frá mögulegum áhrifum mengunar bæði við daglegan rekstur og möguleg mengunarslys. Loks taki skýrslan til allra meginatriða um arðgjöf álreksturs, bæði einstakra þátta hans en sérstaklega allra veigamikilla atriða í sambandi við orkusölu til álversins. Aðrir orkusölukostir verði kannaðir, svo og önnur atriði sem nefndin telur ástæðu til að kanna.``
    Eins og fram kemur í þessari tillgr. eru margar ástæður fyrir flutningi þessarar þáltill. og ég vænti þess að þingheimur vilji fá upplýsingar um þessi mál í smáatriðum. Álverið og virkjanir sem því tengjast verða langstærsta framkvæmd á Íslandi til þessa og um ófyrirsjáanlega framtíð ef núverandi áform verða að veruleika, framkvæmd sem útilokar fjölmarga aðra atvinnumöguleika, bindur og mótar allt þjóðlífið a.m.k. um aldarfjórðung. Mikil mengun sem spillir náttúru og lífi fylgir álverinu. Líkur á stórauknum kröfum um alþjóðlegar mengunarvarnir og ný virk framkvæmd alþjóðareglna við Persaflóa gæti kippt stoðum undan álveri eins og því sem rætt er um að byggja. Einnig koma til möguleg skaðleg áhrif áls, t.d. í drykkjar- og matarílátum, sem draga verulega úr eftirspurn og verði áls og fleira mætti upp telja.
    Fjárhagsleg áhætta Íslendinga virðist margfalt meiri en áhættufé Atlantsálshópsins og arður miklu minni. Íslendingar þurfa að eyða bestu virkjunarkostum sínum án endurgjalds fyrir þá og það útilokar marga aðra vænlega kosti í atvinnumálum. Áhætta af kostnaði við virkjanir, umfram áætlaðan kostnað, svo og að virkjanir skili ekki áætluðu afli og afköstum, er öll á ábyrgð Íslendinga. Glöggir og varlegir útreikningar, byggðir á traustum gögnum, hafa ekki verið lagðir fram til athugunar fyrir almenning, heldur eru gefnar óljósar upplýsingar um ,,jaðarkostnað`` og ,,flýtingarkostnað`` Landsvirkjunar sem rök fyrir ágæti samningshugmynda.
    Samningaaðferðir íslenskra stjórnvalda virðast með eindæmum frumstæðar. Aðalsamningamaðurinn er allt í senn formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, formaður stjórnar Landsvirkjunar og formaður nefndar um orkufrekan iðnað og sætir í öllum greinum eftirliti eins og sama mannsins, þ.e. hæstv. iðnrh. Ákvörðun um staðarval er kynnt ein og sér eftir keppni milli þriggja héraða og fjmrh. tilkynnir að samningurinn um skattamál hafi náðst eftir næturfund. Önnur meginatriði samningsins eru óumsamin. Iðnrh. skrifar undir áfangasamning án umboðs Alþingis, ríkisstjórnar eða Landsvirkjunar. Formaður stjórnar Landsvirkjunar sýnir stjórninni það virðingarleysi að staðfesta samninginn sem formaður viðræðunefndar um orkufrekan iðnað og á væntanlega síðan að halda áfram viðræðum um þennan risavaxna samning við Atlantsálshópinn sem formaður stjórnar Landsvirkjunar. Ég hef það fyrir satt að þetta plagg sem hann skrifaði undir hafi verið daginn áður fyrir hönd Landsvirkjunar, en því breytt eftir fund Landsvirkjunar þar sem kom fram að hann hefði ekki haft umboð til slíkrar undirskriftar.
    Framanritað, sem liggur fyrir opinberlega, lýsir svo vafasömum vinnubrögðum í málinu að fráleitt er að Alþingi taki ákvörðun um það nema að fengnum faglegum, traustum og varlegum álitum og upplýsingum. Raunar er mikilvægi hins mögulega samnings slíkt að óhjákvæmilegt verður að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eigi það fram að ganga. Þarfir þjóðar og þings krefjast þess að rannsókn skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar fari fram og skýrsla verði gerð áður en málinu er lokið hér á hv. Alþingi.
    Margt fleira mætti hér upp telja til þess að rökstyðja þá nauðsyn sem er fyrir því að þetta mál sé rannsakað niður í kjölinn. Við fáum af því spurnir að vaxandi atvinnuleysi sé úti á landsbyggðinni og það sé sérstaklega aukið atvinnuleysi meðal kvenna. Ástæðurnar eru margar, þar með talið að mikið af sjávarafla er flutt úr landi óunnið. Ekki verður álver til þess að bæta þar úr því í ljós hefur komið að konur vinna ekki nema ein á móti hverjum tíu karlmönnum við svona verksmiðju. Og það er staðreynd að ef konurnar fara af landsbyggðinni, þá fara karlarnir með og börnin. Fram að þessu hafa það verið fyrst og fremst börnin, unglingarnir, sem hafa farið en nú virðist það blasa við að það verði ekki síður konurnar sem leiti þangað, eins og auðvitað reynslan sýnir, sem er helst að fá vinnu.
    Það er verið að tala um það að staðsetningu álversins fylgi einhver byggðastefna. Svona risafyrirtæki er andstæða byggðastefnunnar hvar sem það er sett niður vegna þess að það dregur til sín fólk og miðað við það sem heyrst hefur, meira að segja frá hinum mæta manni Þórði Friðjónssyni, framkvæmdastjóra Þjóðhagsstofnunar, að það þurfi að draga úr framkvæmdum annars staðar til þess að vega á móti þensluáhrifum álversins ef af því verði. Við þetta má einnig bæta að nefnd sem er að athuga langtímaáætlun í vegagerð var á sínum fyrsta fundi í gær og þar kom í ljós að ef álverið verður byggt á Keilisnesi, þá

þurfi að flýta því að gera tvöfalda akbraut þar suður eftir. Hvað þýðir það? Það þýðir það að einnig minnkar vegaféð annars staðar vegna þeirrar ákvörðunar sem virðist liggja á borðinu um það að byggja álver þó að það sé viðurkennt meira að segja af varaformanni Sjálfstfl. að samningsdrögin séu á þann veg að það verði tap á þessum rekstri fyrstu 15 árin, þrátt fyrir að eigi að taka ódýrustu virkjunarkostina og miða verðið við það sem er náttúrlega fjarstæða miðað við þær áætlanir sem Landsvirkjun hefur gert, þ.e. hefur gert áætlanir um virkjanir sem framleiða 8000 gwst. á ári, þ.e. 15 virkjunarkostir sem þar eru upp taldir, en fyrst á að tvöfalda þetta álver á næstu 10 -- 15 árum þá fara a.m.k. 3 / 4 hlutar af þessari orku til álversins og líklega vel það ef á nú að stækka það upp í 420 -- 430 þús. tonna framleiðslu áls á ári.
    Það eru dálítið merkileg vinnubrögð sem eru viðhöfð í þessu máli. Á fundi sem var haldinn í Sjallanum á Akureyri að tilhlutan þeirra sem vildu álverksmiðju við Eyjafjörð kom fram hjá Andrési Svanbjörnssyni að markaðsnefndin, hann er fulltrúi markaðsnefndar iðnrn. og Landsvirkjunar, hefði ekki getað athugað neitt annað en álverksmiðju að undanförnu, eins og hann sagði nákvæmlega, vegna manneklu. Og það kom í ljós á þessum fundi að hann, fulltrúi markaðsnefndarinnar, hafði ekki hugmynd um hvað er að gerast í Þýskalandi í sambandi við vetniframleiðslu. Það er sláandi hvernig vinnubrögð eru viðhöfð. Og hinn merki maður, ég tel hann merkan mann, Þórð Friðjónsson, forstöðumann Þjóðhagsstofnunar, hann ber í sínu áliti bara saman annaðhvort óbreytt ástand eða álverksmiðju, hvernig hagvöxturinn muni verða á næstu árum. Það er sem sagt ekki einungis ráðherra og sumir þingmenn, heldur embættismennirnir líka. Þeir sjá ekkert annað en ál, enga aðra möguleika. Hvernig væri nú að ráðherrarnir og þingmennirnir sumir sem eru að flækjast út um öll lönd í tíma og ótíma reyndu að kynna sér hvernig atvinnulífið erlendis er uppbyggt þar sem er verið að reyna að losna við álverksmiðjurnar og byggja upp eitthvað annað. Þeir kannski átta sig ekki á því fyrr en búið er að reisa hér nokkuð margar álverksmiðjur eins og sumir eru að gæla við og láta sig dreyma um. Það virðist vera að menn átti sig ekki á því að það dýrmætasta, það verðmætasta sem við eigum er hreint land, hreint loft, hreinn sjór. En svo á að offra þessu fyrir verksmiðju sem ég get ekki séð og enginn hefur getað rökstutt að við höfum hag af að semja um, a.m.k. sé áhættan veruleg. Ég veit að t.d. Svíar og Þjóðverjar eru að kanna hvaða áhrif álumbúðir utan um matvæli hafa á heilsu manna. Niðurstaða liggur að vísu ekki fyrir enn en þeir segja: Allt bendir til þess að þetta sé skaðlegt, og að vísu fleiri umbúðir, eins og t.d. kopar þar sem það er notað, og fleiri málmar.
     Við sjáum nú hvernig unnið er í þessu máli. Við þingmenn Norðurl. e. fengum stóriðjunefndina á fund okkar og þar mætti markaðsnefndin, fulltrúi frá iðnrn. og Landsvirkjun. Og þar sagði Jóhannes Nordal að það væri búið að strika út Reyðarfjörð. Á fjórðungsþingi Norðlendinga nokkru seinna upplýsti iðnaðarráðherra að allir þessir þrír staðir væru til athugunar. Ég sagði frá þessu á fjórðungsþinginu og ég sagði líka að ég léti þingheim um að gera það upp við sig hver þeirra segði satt. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að ályktunartillögur lúta sömu reglum um málsmeðferð og þáltill., þannig að ræðutími hans er 15 mín. og honum er drjúglega lokið.) Ég veit það.
    Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því að mér yrði gert aðvart og ég mun nú ljúka máli mínu og ætla ekki að níðast á forseta með lengri ræðu. En ég vil bara endurtaka það hér að það verður tekið eftir því hvaða afgreiðslu þessi þáltill. fær hér í hv. Alþingi. Því ég get endurtekið það sem ég sagði í umræðunum utan dagskrár á mánudaginn: Fjöldasamtökin í landinu sem standa á bak við Landvernd hafa sent öllum þingmönnum bréf og skorað á þá að hverfa frá fyrirhugaðri byggingu álvers.