Rannsókn álmálsins
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Herra forseti. Ég vil nú þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað og talað jákvætt um þessa tillögu. Þó var ein --- ja, ég verð nú að segja fölsk nóta slegin hér í ræðustól áðan. Það var verið að tala um að kostnaður við þessa rannsóknarnefnd mundi verða fleiri milljónir, tugir milljóna. Það er talað um að þetta verði nefnd þingmanna og miðað við þær greiðslur sem þeir hafa fengið fyrir slík nefndarstörf þá held ég að það verði ekki háar upphæðir, a.m.k. miðað við það sem er búið að eyða í alla þessa endaleysu sem hefur verið í kringum þetta álver.
    Ég sagði það á fundi í sumar á Akureyri að það hefði aldrei staðið til að byggja álver, ef það yrði byggt á Íslandi, annars staðar en á Vatnsleysuströnd. Það var á fjölmennum fundi í Sjallanum og menn stóðu þar upp hver um annan þveran og sögðu: Er verið að hafa okkur að fífli? Því segirðu þetta? Ég sagði: Það er svo einfalt að sjá það því að hæstv. iðnrh. hefur alltaf sagt að þeir sem byggja álverið mundu ráða staðarvalinu. Ef hæstv. iðnrh. hefur skilið sjálfur hvað hann var að segja þá hefði hann ekki átt að mótmæla slíku eins og var gert á fundinum á Sauðárkróki.
    Það er gaman að lesa skýrsluna sem iðnrh. hefur útbýtt um þetta mál hér á hv. Alþingi. Ef maður les hana yfir þá er hver mótsögnin við aðra. T.d. á bls. 63 er sagt frá því að minnsta fjarlægð til Akureyrar frá fyrirhuguðu álveri í Hvammslandi séu 12 km. Annars staðar segir að að séu bara tíu bæir sem séu innan við þessi mörk. Á bls. 32 segir að það séu tíu bæir innan þessara marka sem um er að ræða og mjólkurkvótinn sem framleiðsluleyfi er fyrir á þessum tíu bæjum séu 109 þús. lítrar. Kvótinn í Hvammi er rúmlega 103 þús. lítrar. Og ef maður tekur það sem viðmiðun sem stendur í þessari skýrslu að það séu 6 km til allra átta, þá eru það 20 -- 30 bæir. Það er hálf leiðin frá Hvammi til Akureyrar og það eru ekki 109 þús. lítrar heldur eru það fleiri hundruð þúsund lítra á þessum bæjum sem framleiðslurétturinn er. Af því að maður hefur þetta fyrir framan sig, sem maður veit um, hvernig eru þá vinnubrögðin á öllu hinu? Er það eins, hæstv. forseti? Hv. 2. þm. Austurl. talaði um bréf iðnrh. sem hann gerði fyrir álfurstana, sem ég kalla. Hann sendi 29 sveitahreppum og 13 kaupstöðum slík bréf. Ég er alveg viss um að þau verða í minnum höfð, svo lengi sem land byggist, þessi vinnubrögð, því í bréfunum var leitað eftir því hvað menn vildu vinna til, hverju menn vildu slá af til þess að fá álverið til sín. Þetta var gert vegna þess að fólk var hrætt við atvinnuástandið og til að byrja með hugsuðu menn ekki nema um atvinnumöguleikana. En eftir því sem menn hafa farið að hugleiða þetta betur eru fleiri og fleiri orðnir á móti þessu. Og eins og ég gat um í fyrri ræðu minni samþykkti stjórn allra þeirra aðildarfélaga sem standa að Landvernd samhljóða, þar voru mættir átta af tíu stjórnarmönnum, að skora á Alþingi Íslendinga að hætta við þessa byggingu.

    Ég er alveg sannfærður um það að ef úr því verður að byggja vetniverksmiðju, sem ég tel yfirgnæfandi líkur fyrir og er innst inni viss um að verði gert, vegna þess að þjóðirnar sem búa við þessa mengun verða að gera eitthvað til þess að minnka hana og þá er ekki annað í sjónmáli hlýtur fyrsta verksmiðjan að verða á Reyðarfirði. En ég er viss um að Eyfirðingar gera kröfu til þess að sú næsta verði í Eyjafirði eins og mál standa.
    Það er alveg rétt sem hér kom fram að það er auðvitað alveg sama hvar er atvinnuleysi, það er ástand sem er ólíðanlegt. Þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi getur ekki unað slíku ástandi. Það skiptir ekki máli hvort það er á Reykjanesi eða annars staðar. En hv. 11. þm. Reykn. leysir ekki það mál með því að byggja álver.
    Ég var að athuga hvernig á því stæði að það hallaði svona á landsbyggðina eins og gerir. Ég athugaði skýrslur frá 1983. Þar kom í ljós að tekjur á hvern Reykvíking það ár voru 88 þús. kr. en í kaupstöðunum að meðaltali annars staðar 53 þús. kr. Standa menn jafnir? Er þetta ekki skýring á því hvernig ástandið er? Og vitnar kannski um það hvað við landsbyggðarmenn höfum verið linir í sókninni og ekki náð saman til þess að ná rétti okkar.