Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þá er farið að leika aftur á bak fyrsta kafla hljómkviðunnar um bráðabirgðalögin, ópus u.þ.b. 260. Vitur maður sagði einhvern tíma að gerði maður mistök þá væri leiðin til að leiðrétta þau að spila líf sitt aftur á bak líkt og tónverk þar til maður stæði í þeim sporum þar sem mistökin voru gerð, en fataðist manni á leiðinni yrði maður að byrja upp á nýtt og ekki láta deigan síga fyrr en maður hefði spilað rétt aftur á bak að þeim punkti sem leitað var að.
    Það má kannski gleðjast yfir því að þessi sjálfskoðun ríkisstjórnarinnar er nú hafin og hún byrjuð að spila aftur á bak þessa óheillahljómkviðu sína. Það er mikil kokhreysti hvernig hæstv. fjmrh. lýsti því hér að hann hefði lagt til niðurfellingu virðisaukaskatts af íslenskum bókum. Það er að vísu rétt að hann gerði það en ég hygg þó að það hafi verið vegna þrýstings alls staðar að en ekki vegna þess að löngun hans hafi svo mikið staðið til þess.
    Ég vil minna á að þegar frv. til laga um virðisaukaskatt var hér til umræðu á Alþingi á 110. löggjafarþingi þá fluttu kvennalistakonur í báðum deildum brtt. við það frv., sem þær voru nú reyndar á móti í heild en gerðu auðvitað líka tilraun til þess að fá einstökum greinum þess breytt. Þar lögðum við einmitt til fyrir þremur árum að undanþegnar virðisaukaskatti yrðu bækur útgefnar á íslensku. Þessar tilraunir voru svo margendurteknar, bæði af okkur og öðrum, svo fyllstu sanngirni sé nú gætt, en það var sem sagt ekki á þær hlýtt.
    Við umræðu um breytingar á virðisaukaskattslögunum um sl. áramót gerðum við tilraun til þess að fá breytt virðisaukaskattslögunum í þá veru að niðurfellingu á virðisaukaskatti af bókum yrði flýtt, þ.e. að í stað þess að hún skyldi taka gildi 16. nóv. 1990 lögðum við til að flýtt yrði til 16. sept. 1990 og miðuðum þar við uppgjörstímabil. Þá var ekki hægt að ljá máls á þeirri flýtingu. Þó voru ein helstu rök þá í máli okkar að það væru helst íslenskir námsmenn sem mundu gjalda fyrir að niðurfellingin kæmi ekki til framkvæmda fyrr en í nóvember þar sem þeir yrðu þá að kaupa flestar sínar námsbækur meðan virðisaukaskattur væri enn af bókum, en það voru ekki gild rök. En þegar ríkisstjórnin þarf að reyna að koma í veg fyrir að þjóðarsáttin þeirra bresti, þá allt í einu uppljómast hugir þeirra og þeim detta í hug þessi snjallræði sem þeir reyna svo að hreykja sér af að hafi verið gert af einhverjum áhuga fyrir íslensku, íslenskri menningu, íslenskum bókum, íslenskum námsmönnum. En það dylst auðvitað engum að eini tilgangur verksins er að reyna að koma í veg fyrir bresti í hinni svokölluðu þjóðarsátt sem stendur ekki traustari fótum en þetta. En þrátt fyrir allt er maður kominn í þá kátlegu stöðu að verða þó að lýsa yfir stuðningi við það frv. sem hér liggur frammi vegna þess hversu samhljóða það er þeim tillögum sem Kvennalistinn hefur æ ofan í æ borið fram á þingi.