Tollalög
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55 frá 30. mars 1987, með síðari breytingum. Er þetta 11. mál þingsins. Í grg. með frv. segir eftirfarandi:
    ,,Á Íslandi er hið svokallaða ,,cif-verð`` innfluttrar vöru (cost, insurance, freight) lagt til grundvallar þegar tollverð er ákveðið. Það felur í sér að innflytjandi er ekki einungis að greiða toll af innkaupsverði vörunnar heldur einnig af flutningsgjöldum, vátryggingum og öðrum kostnaði í sambandi við innflutninginn. Þessi regla kemur fram í 2. mgr. 9. gr. tollalaga þar sem segir að í tollverði skuli innifalið:
 ,,a. Flutningskostnaður hinna innfluttu vara til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
    b. Gjöld fyrir fermingu, affermingu eða meðferð hinna innfluttu vara vegna flutnings þeirra til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
    c. Vátryggingarkostnaður.``
     Þetta verður að telja í hæsta máta óeðlilega tollheimtu. Í fyrsta lagi er óréttlátt að innflytjandi greiði toll af kostnaði við að koma vörunni til landsins en ekki einungis af því verði sem hann greiðir hinum erlenda seljanda fyrir vöruna. Meginrökin gegn þessari tollálagningu innflutningskostnaðar eru þó að hún leiðir af sér hærra vöruverð í landinu. Íslenskir neytendur verða að greiða nógu hátt verð fyrir innflutta vöru og það er að bera í bakkafullan lækinn að flutningskostnaður og tengd gjöld séu reiknuð inn í tollverð vörunnar.
    Samþykkt þessa frv. felur hins vegar í sér að miðað verður við ,,fob-verð`` innfluttrar vöru (free on board) þegar tollverð er ákveðið og því einungis reiknaður tollur af innkaupsverði vörunnar.``
    Hæstv. forseti. Þetta mál sem ég mæli hér fyrir er gamalt baráttumál innflytjenda. Það hefur fengið jafnvel enn meira vægi við þær breytingar sem orðið hafa á tollskránni að undanförnu með EFTA - samkomulagi þar sem allar vörur innan EFTA - ríkjanna eru nú fluttar inn á 0% tolli og því krefjandi mál að innflytjendur fái að sitja við sama borð. Enda er, eins og kemur fram í grg. með frv., óeðlilegt að verið sé að taka toll af hlutum eins og flutningsgjaldi, tryggingum og alls kyns kostnaði sem vörur geta hlaðið upp á sig, hvort sem það er pökkun eða innanlandsfragt erlendis eða hverju nafni sem það nefnist. Auðvitað á eingöngu að greiða toll af vörunni eins og nú er gert og er í reynd viðurkennt þar með af vörum frá EFTA - löndum.
    Það liggur einnig ljóst fyrir að verði þessi leið farin, að reikna tollverð af fob - verði vöru, þá mun það leiða af sér lækkað vöruverð í landinu sem kemur að sjálfsögðu heimilunum og fjölskyldunum í landinu til góða því að ekki eru of miklir peningar í þeirra vösum þessa dagana eins og allir vita. Þetta mundi leiða af sér t.d. lækkun á vörum eins og fatnaði, íþróttavörum og alls kyns tækjum og vélum og varahlutum sem allir þjóðfélagsþegnar þurfa á að halda. Tekjutap af þessu mundi væntanlega skila sér að einhverju leyti

í kassann í gegnum aukna sölu, en að öðru leyti má mæta tekjutapi með því að notast við hið svokallaða vörugjald. Þegar maður fjallar um vörugjaldið, þá leiðir það reyndar hugann að því að tollun er með ólíkindum flókin hér. Við innflutning eru hvorki meira né minna en 23 aukagjöld sem hægt er að leggja á innflutning og notast þá við hina ýmsu bókstafi til að auðkenna þau. Ofan á þessa 23 eru a.m.k. tveir bókstafir með undirliði þannig að við bætast sennilega einir 10 -- 15 aukaliðir þar. Við erum þá að tala um 30 -- 40 aðferðir við að leggja á gjöld í innflutningi.
    Það er einnig staðreynd að flutningsgjald vegur mjög þungt í vöruverði og ég hygg að allir sjái ástæðuna fyrir því. Það er af eðlilegum ástæðum miklu dýrara að flytja vörur frá Bandaríkjunum, Japan, Tævan eða einhverjum slíkum löndum en t.d. frá Englandi, Þýskalandi eða Hollandi. Það er enda með ólíkindum og mjög óeðlilegt að fragt skuli vega jafnþungt í vöruverði og raun ber vitni og ástæðan er náttúrlega fyrst og fremst þessi tollunaráhrif. Auðvitað hefur þetta áhrif á vöruval innflytjanda þegar hann stendur frammi fyrir því hvaðan hann eigi að flytja inn ákveðna vöru, hvort hann eigi að taka hana frá EFTA - landi eða utan EFTA þar sem hin svokallaða ytri tollun ríkir. Þá velur hann að sjálfsögðu í flestum tilfellum að flytja hana inn frá EFTA þó að verðið sé óhagstæðara, þ.e. einingarverðið á vörunni og jafnvel gæðin minni. Þannig hefur þetta veruleg áhrif á val neytanda, hvað hann má og getur valið sér af vörum í verslunum, bæði hvað snertir gæði og verð.
    Auðvitað á að fella þetta niður. Það á að snúa sér að cif - tollum en það á að gera meira. Í raun ætti að fella alla ytri tolla niður og vinna það upp með vörugjaldinu í staðinn og þá að sjálfsögðu að taka öll þessi aukagjöld út sem ég var að tíunda hér áðan og er reyndar með hér á blaði fyrir framan mig ef einhver skyldi vilja heyra allan þann lista.
    Ég fagna því náttúrlega að hæstv. fjmrh. er viðstaddur þessa umræðu. Þetta er að sjálfsögðu málaflokkur sem fellur undir hans ráðuneyti og hann tjáir sig væntanlega eitthvað um þessar hugmyndir sem ég er hér að mæla fyrir. Ekki skal ég segja hvort hann getur sagt okkur hvað tekjutap yrði mikið eða um hversu háar upphæðir er að ræða, en hafi hann farið yfir heimavinnuna er hann sjálfsagt með þær tölur á takteinum.
    Fyrir nokkrum árum síðan var það þannig að ef maður flutti inn með flugfragt til að mynda, þá var veittur ákveðinn afsláttur á fragtinni sem gilti í tiltekinn tíma, tíu daga eða tvær vikur, ég man ekki hvort það var. Þetta var náttúrlega til þess að menn nýttu sér það í enn frekara mæli að flytja inn með flugfragt. Þetta var einhverra hluta vegna tekið af fyrir örfáum árum eins og ég sagði. Af hverju veit ég ekki, en hugsanlega getur fjmrh. enn á ný útskýrt hvers vegna það var. Auðvitað kemur það niður á þjónustu við neytendur að þetta var fellt niður enn á ný vegna þess að vöruverð hækkar við það að fragtin hækkar.
    Hæstv. forseti. Í mínum huga er þetta afskaplega einfalt mál og það á ekki að þurfa að mæla fyrir því

í löngu máli. Ég vona að sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar beiti sér fyrir því að afgreiða málið jákvætt. Ég vil því bara að lokum vísa þessu frv. til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.