Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Fyrirspyrjandi ( Þórhildur Þorleifsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Íslenska óperan hefur nú starfað í u.þ.b. 11 ár. Upphaflega naut Íslenska óperan engra opinberra styrkja en fljótlega kom í ljós að slíkt gekk ekki þrátt fyrir góða aðsókn og mikinn áhuga almennings. Kom þá í hlut ríkisins að hlaupa undir bagga og þá venjulega eftir á þegar sýnt var að endar næðu ekki saman. Síðar náðust samningar við ríkið um að ríkið greiddi fastan rekstrarkostnað Íslensku óperunnar, þ.e. fyrst og fremst rekstur hússins og laun fastra starfsmanna, sem vert er að taka fram að eru ekki listamenn heldur einungis skrifstofu - og tæknifólk.
    Þrátt fyrir þetta er nú svo komið að ekkert annað blasir við en að Íslensku óperunni verði lokað. Hún verður ekki opnuð aftur nema einhver úrlausn fáist í hennar málum. Þó er ekki um stórar upphæðir að ræða í raun og veru. Skammtímaskuldir Íslensku óperunnar munu vera um 24 millj. kr. Það er tiltölulega lítið sem Íslenska óperan skuldar í húsnæði sínu, Gamla bíói við Ingólfsstræti, en það hús mun vera metið á u.þ.b. 200 millj. kr., svo hér er í rauninni um stóreignafyrirtæki að ræða sem ekki ræður við skammtímaskuldir sínar.
    Sl. sumar var sett á laggirnar nefnd á vegum menntmrn. og fjmrn. til þess að reyna að finna lausn á málunum. Sú nefnd hefur nú skilað áliti. Þar er talið að lágmarksfjárþörf Íslensku óperunnar sé 75 millj. kr. á ári. Er þá miðað við tvær uppsetningar á ári og að Íslenska óperan geti sjálf aflað um helmings þessarar upphæðar eða u.þ.b. 40 millj. kr. en afgangurinn yrði að koma frá opinberum aðilum.
    Í því frv. sem nú hefur verið lagt fram til fjárlaga eru Íslensku óperunni ætlaðar u.þ.b. 15 millj. kr. Ég þykist vita að það sé ekki endanleg upphæð sem hún fær og ég veit að það hafa verið uppi einhvers konar umræður á milli borgarinnar og ríkisins um hvor hlypi undir bagga en ekki ljóst hvernig þeim málum lyktar. En ljóst er að ef á að verða af einhverri starfsemi í vetur þá verður eitthvað að koma til fljótt. Því spyr ég hæstv. menntmrh. hvort einhver áform séu uppi um að leysa þann fjárhagsvanda Íslensku óperunnar sem nú blasir við og hvort ætlunin sé að tryggja rekstur og framtíð Íslensku óperunnar.