Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. vita var Íslenska óperan á sínum tíma stofnuð af ótrúlegri bjartsýni, dugnaði og krafti þess fólks sem lagði nótt við dag, ég vil segja árum saman, til þess að gera þann draum að veruleika að hér á Íslandi tæki ópera til starfa.
    Þessi starfsemi hefur verið rekin í allnokkur ár en við nokkurn fjárskort. Eins og hæstv. menntmrh. gat um áðan var ljóst fljótlega að ríkið yrði að hlaupa undir bagga og gerður var samningur fyrir nokkrum árum um þátttöku ríkisins í starfsemi Íslensku óperunnar. Jafnframt var gengið frá þeim skuldum sem hvíldu á fyrirtækinu, þ.e. lausaskuldum. Þessi samningur var gerður eftir bestu manna yfirsýn um fjárþörf Íslensku óperunnar einhver ár fram í tímann. Því miður hefur það reynst svo að fjárþörfin hefur verið meiri þannig að nú stefnir í vandræði og nú stefnir í það að þessi starfsemi verði lögð niður.
    Ég vil láta þá skoðun mína hér í ljós að ég tel að það yrði mjög miður ef svo færi. Ég tel að Íslenska óperan hafi helgað sér þann sess í menningarlífi okkar Íslendinga að það yrði mikill sjónarsviptir að því ef Óperan hyrfi úr okkar menningarlífi. Þess vegna vil ég segja það við hæstv. menntmrh. að ég styð þær aðgerðir hans að reyna að koma þarna til bjargar. Ég flyt ekki neina gagnrýni á hann í þessu máli. Ég tel að ráðuneytið hafi gert allt það sem hægt hefur verið til þessa til þess að halda Óperunni á floti, getum við sagt. En ég vil hins vegar aðeins vara við því, mér fannst svolítill tónn í ræðu hæstv. menntmrh. að því leyti að það væri verið að færa þungann og ábyrgðina í þessu máli yfir á Reykjavíkurborg. Nú er það svo að borgin hefur hingað til ekki tekið þátt í starfsemi Íslensku óperunnar þó hún hafi stutt og stuðlað að ýmsu menningarlífi öðru hér í borginni. Auðvitað er það mjög gott ef Reykjavíkurborg getur og treystir sér til að leggja þarna fé af mörkum. En mér finnst að miðað við sögu málsins og hvernig ríkið hefur áður gert samninga við Óperuna um starfsemi hennar þá sé ekki rétt að setja einhverja ábyrgð á Reykjavíkurborg ef illa fer í þessari starfsemi. Ég tel að ríkið eigi að hafa þarna frumkvæði enda er þetta starfsemi sem nýtist öllum landsmönnum þó hún sé staðsett hér í höfuðborginni. Ég tel að ef sveitarfélögin eiga að koma þarna til aðstoðar þá eigi að leita til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en ekki setja allan þunga á þessu máli yfir á borgina.
    Þessar athugasemdir vildi ég láta fram koma, virðulegi forseti.