Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þau svör sem hann veitti þó ég verði nú að viðurkenna að mér fannst þau heldur loðin því í rauninni er málið einungis í athugun en engin ákvörðun hefur verið tekin. Það er ljótt til þess að vita að Leikfélag Reykjavíkur og Íslenska óperan skuli í rauninni sett í þá aðstöðu að bítast um það litla fjármagn sem hér er um að ræða því samningar standa um það að fjárframlag sem nú er á fjárlögum til Leikfélags Reykjavíkur flytjist til Íslensku óperunnar og í staðinn taki borgin algjörlega við Leikfélagi Reykjavíkur. Ég er ekkert að segja að það sé í sjálfu sér slæmt ef þannig verður málum hagað en vont til þess að vita ef þessum tveim fyrirtækjum er att saman á einhvern hátt.
    Hæstv. menntmrh. hafði orð um það að sýna yrði aðhald í rekstri Íslensku óperunnar eins og annars staðar. Það er vissulega mála sannast en það er vert að taka það fram að aldrei hafa listafólki verið greidd þar full laun fyrir sína vinnu, ekki einn einasti listamaður hefur nokkurn tíma verið þar fastráðinn og t.d. í síðasta verkefni sem upp var sett, þá lækkuðu allir laun sín talsvert til þess að mæta vanda Íslensku óperunnar, beinlínis gáfu fé af sínum lágu launum til þess að sýningin mætti koma upp. Í þessum 75 millj. kr., sem talað er um sem lágmarksfjárþörf, er ekki gert ráð fyrir fastráðningu eins einasta listamanns, þannig að það er einungis verið að biðja um það að áfram geti söngvarar gert þetta í aukavinnu, fyrir utan sinn venjulega vinnutíma án þess að þetta sé sú atvinna sem þeir hafa sitt framfæri af. Það verður auðvitað að segjast að meðan svo er munum við búa áfram við flótta listamanna úr landi, það eru einungis þeir þrautseigustu sem halda út. Þess vegna verður jafnvel 75 millj. kr. fjárframlag lágmarksfjárþörf og er einungis til bráðabirgða. Það er í rauninni ekkert annað en framhald á því sem verið hefur, þ.e. að það hefur verið staðið undir, eins og ég sagði áðan, rekstri hússins, tækniliði og skrifstofuliði. Og þessar aukafjárveitingar sem hafa komið til hafa ævinlega verið til þess að mæta uppsetningum og það hefur verið um lítið fjármagn að ræða á hverju ári. Þannig að það brestur meira skilninginn þegar kemur að listamönnunum og steinsteypunni sleppir.
    Hæstv. menntmrh. sagði að endanlega réðist þetta af vilja Alþingis. Það er alveg rétt, það gerir það endanlega. Alþingi hefur stundum látið það um sig spyrjast og farið í söguna hvernig það kunni ekki að meta sína bestu dætur og syni. Nægir að nefna þegar nóbelsskáldið okkar fékk neitun hér um árið þegar hann langaði til útlanda til þess að skrifa bók. Án þess að ég sé að ætla einum manni allt það sem gert hefur verið í Íslensku óperunni þá fer ekki á milli mála að þar hefur Garðar Cortes haldið þannig um tauma að þessir hlutir hefðu ekki gerst án hans og ég vona að hann verði ekki afgreiddur á sama hátt og nóbelsskáldið var hér á árum áður.