Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 5 hef ég borið fram fsp. til iðnrh. um jöfnun orkukostnaðar. Spurt er:
 ,,Hvað verður gert á næstunni af hálfu stjórnvalda til að jafna orkukostnað í landinu:
    a. til húshitunar,
    b. til heimilisnota,
    c. til fyrirtækja?``
    Ég minni á að í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er tvívegis fjallað um orkuverð. Þar segir: ,,Endurskoða skal verðmyndun á orku með það að markmiði að jafna orkuverð og efla innlendan orkubúskap.`` Og í öðru lagi: ,,Gerðar verða ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu.``
    Þarna er húshitunin sérstaklega tekin. Við ræddum fyrir nær réttu ári þetta mál hér í sameinuðu þingi þar sem ég bar fram fsp. til hæstv. ráðherra. Þar kom fram að hæstv. ráðherra hafði þá í undirbúningi tillögur varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar sérstaklega. Ég ber þessa fsp. m.a. fram til þess að fá fram hverjar eru tillögur hæstv. ráðherra til þess að jafna orkukostnað frá því sem nú er, en munurinn er mjög tilfinnanlegur. Samanburðurinn á rafhitun og hitun með heitu vatni, annars vegar hjá Hitaveitu Reykjavíkur og hins vegar hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sýnir að verðmunurinn er um 2,5-faldur miðað við gefnar forsendur, víða auðvitað meiri. Á almennum heimilistaxta er verðmunurinn 22,5% eins og stendur, þ.e. til ljósa og eldunar á heimilum, en á iðnaðartaxta er munurinn minni, eða 13,6%, eftir upplýsingum sem ég hef fengið frá Rafmagnsveitum ríkisins og hefur minnkað verulega vegna þess að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur hækkað verulega sinn iðnaðartaxta.