Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Jöfnun orkukostnaðar í landinu er mjög mikilvægt verkefni þessarar stjórnar, hefur verið mikilvægt verkefni fyrri stjórna, undir það tek ég. Ég mótmæli því hins vegar að ekkert hafi verið gert í stjórnartíð þessarar stjórnar til þess að jafna þennan mun. Þvert á móti hefur mjög mikið verið gert og ég skil ekki í því að þingmenn skuli hér halda þessu fram vegna þess að sú yfirtaka á skuldum sem ákveðin var fyrir Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins á liðnu ári hefur dregið mjög úr þeim mun sem annars væri milli taxta þessara fyrirtækja og annarra rafveitna í landinu. Þeir menn sem ekki sjá þetta hljóta að vera slegnir einhvers konar blindu, enda er þetta ljósast af því að bilið á milli þessara taxta hefur ekki verið mjórra í annan tíma undanfarinn áratug eins og ég rakti áðan.
    Vegna þess sem kom fram hér hjá hv. 2. þm. Austurl. þá er það rétt hjá honum að heimilisnotkuntaxtinn var svona fjórðungi hærri á árunum 1981 -- 1983 en er nú rúmlega 20% hærri þannig að þetta hlutfall hefur ekki verið lægra í annan tíma frá árinu 1980 og var reyndar orðið hærra aftur. Svipuðu máli gegnir með iðnaðartaxtana. Sama máli gegnir um hlutfall húshitunartaxta með raforku og hitaveitukostnaðar. Þetta eru staðreyndir í málinu. Ef menn kjósa að neita þeim verður erfitt að finna betri lausnir í málinu á næstunni. Hins vegar vil ég segja það að ég hef hug á því að leita þarna nýrra lausna, lausna sem geta skilað árangri eins og náðst hefur að undanförnu. Þannig verða menn að taka á þessu en ekki með því að búa sér til heim, ímyndaðan heim um það hvernig þetta sé.
    Það var eitt athyglisvert í máli hv. 4. þm. Austurl. Hann sagði: Það getur vel verið að þetta bil sé mjórra en það skiptir bara ekki máli. Mér þótti það merkileg yfirlýsing og hún verður líklega í minnum höfð. Hann sagði: Það skiptir mestu máli hvert þetta verð er. ( EgJ: Auðvitað.) Og það er rétt, hv. þm. Það hefur ekki verið lægra í raungildi í annan tíma frá árinu 1980. Það er nú einfaldlega þannig að orkuverð í hlutfalli við almennt verðlag í landinu, byggingarvísitölu eða framfærslukostnað, hefur ekki verið lægra frá árinu 1980 og miklu lægra er það nú á þennan almenna mælikvarða en það var velflest ár þessa nýliðna áratugs.
    Þetta eru staðreyndirnar í málinu. Með því er ég ekki að draga úr því að mikilvægt sé að taka á því og það verður líka gert en það verður að gera það skipulega og af fjárhagslegri fyrirhyggju.