Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram í upphafi að ég tel ekki að sá tími sem fer til umræðna eins og þessarar sé of naumt skammtaður. Það er undantekning að þjóðþing leyfi jafnmiklar og langar umræður, um mál utan dagskrár sérstaklega, og tíðkast hér á hinu háa Alþingi og ég efast um að niðurstaðan af umræðunum sé í neinu hlutfalli við lengd þeirra. Það sem hefur gerst hér er því það að Alþingi hefur vakið athygli á vandamáli sem verður síðan tekið til úrlausnar og skoðunar í nefndum þingsins eins og rétt er að gera. Það mundi hins vegar litlu bæta við það þó að menn hefðu eitthvað meira málskraf um það hér á málfundum á vegum þingsins.
    Ég vil aðeins láta það koma fram að rekstur Flugmálastjórnar er ekki hér til umræðu. Það er mál sem við skildum meira og minna eftir í lausu lofti við afgreiðslu síðustu fjárlaga, vegna þess m.a. að sérstök nefnd var að skoða það mál og eru nú niðurstöður hennar væntanlegar fyrir afgreiðslu fjáraukalaga.
    Ég leyfi mér hins vegar aðeins að benda á það að framkvæmdatíma er nú að mestu lokið. Mig uggir að mörgum eða a.m.k. sumum af þeim verkum sem verið er að ræða um í bréfi til fjvn. að þurfi að vinna til viðbótar við það sem ákveðið var í afgreiðslum Alþingis á flugmálaáætlun sé lokið nú þegar. Þannig að það verður ekkert snúið til baka með það. Og ég býst varla við að það mikið sé eftir af framkvæmdatíma þessa hausts að hægt sé að gera miklar aðrar ráðstafanir umfram það sem Fugmálastjórn hefur þegar gert. Það er ekkert óeðlilegt við það og kemur oft fyrir að með samþykki þingmanna í einhverju tilteknu kjördæmi sé fært á milli framkvæmda í því kjördæmi og það hefur t.d. verið gert með samráði þingmanna Vestf. í sambandi við flugmálaáætlun, fært á milli viðfangsefna á sama svæði. Hitt er miklu óeðlilegra að breytt sé til um meginstefnu í framkvæmdaáformum þeim sem Alþingi hefur tekið með því að hætta við, eins og virðist vera stefna í því bréfi sem komið hefur frá Flugmálastjórn, framkvæmdir sem búið er að ákvarða á tilteknum landsvæðum til þess að auka framkvæmdamagnið um sömu fjárhæð á öðrum. Þetta eru ekki þau eðlilegu vinnubrögð sem við þekkjum, hvorki úr framkvæmd Vita - og hafnamálastjórnar né Vegagerðar ríkisins. En án þess að vilja fullyrða of mikið um þetta mál núna áður en okkur hefur gefist tækifæri til að ræða við embættismenn Flugmálastjórnar þá virðist það vera af bréfinu að þetta hafi verið gert eða standi til að gera. Það er ekki eðlileg afgreiðsla.