Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að virða þau tímamörk sem hér eru sett. Ég vil í fyrsta lagi segja um málsmeðferðina að ég hafði beðið um þessa umræðu á mánudaginn var og féllst á að fresta henni til fimmtudags. Á mánudaginn var lá ekkert þingskjal fyrir um þetta mál.
    Ég þakka ráðherra fyrir svör hans og harma að hann skuli ekki fá meira rými í þessum umræðum því að ég viðurkenni það að ég nestaði hann með nokkuð mörgum spurningum. Ég fagna því út af fyrir sig ef það er niðurstaðan að hér verði aðeins um nokkurra mánaða frestun að ræða. En ég er því miður hræddur um að svo verði ekki vegna þess að framkvæmdatíma þessa árs er að verða lokið. Og þessar framkvæmdir frestast allar fram á næsta ár meira og minna. Ég er ekki að tala um Egilsstaðaflugvöll sérstaklega í þessu sambandi. Þetta mál er miklu víðtækara en svo að þar sé um hann eingöngu að ræða. En að sjálfsögðu er það mjög veigamikil framkvæmd sem Austfirðingar binda miklar vonir við.
    Ég tel það óhæft að það samráð sem nauðsynlegt er í þessum efnum sé svona seint á ferðinni. Úr þessu verður að bæta og ég vona að fjvn. taki þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar og bæti úr þeim annmörkum sem hér eru á og í framtíðinni verði það samráð við þingmenn sem nauðsynlegt er í þessum málum með eðlilegum hætti. Það sé ekki tekið upp eins og nú þegar framkvæmdatíminn er að verða liðinn. Það hefur verið beðið um samráðsfundi t.d. með þingmönnum Austurl. en ekki fyrr en eftir að þetta mál komst hér á þingskjöl. Í bréfi til fjvn. mun hafa verið talað um það samráð en bréfið var sent núna í byrjun október, sem er náttúrlega allt of seint.