Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Bæði virðulegur forseti og hæstv. forsrh. létu í ljósi þá skoðun að það væri mjög óvenjulegt að efnt væri til utandagskrárumræðu um mál sem þegar væri komið fram á þingskjali. Það má vel vera en ég hygg að það sé þó öllu óvenjulegra að setja lög til að hnekkja dómi og svipta fólk lýðréttindum.
    Það vekur undrun að hæstv. forsrh. skuli ekki treystast til að svara þessum spurningum, þó með skömmum fyrirvara sé, því hann lét sjálfur svo ummælt að auðvitað hefði farið fram ítarleg lögfræðileg athugun áður en bráðabirgðalögin voru sett. Ég trúi ekki öðru í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið síðan en að hæstv. forsrh. og aðrir ráðherrar hafi íhugað enn betur hvort lagasetningin stæðist fyrir dómi. Þessi lög sem varða því grundvallaratriði í lýðræðisríki, í réttarríki hljóta að hafa vafist fyrir hæstv. ríkisstjórn allri. Ég trúi ekki að þeir hafi gert það umhugsunarlaust að svipta fólk samningsrétti, félagafrelsi og öðrum atriðum sem teljast til grundvallarmannréttinda án þess að vera það vel undir það búnir að þeir geti svarað slíkum spurningum án langs fyrirvara. Ég skora því á hæstv. forsrh. að svara hér og nú, við getum svo rætt málin betur nk. þriðjudag, en að sitja ekki og leiða spurningar hjá sér í svo mikilvægu máli.