Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að um það mál sem hér er rætt utan dagskrár fari fram umræða nú í þingbyrjun svo stórt mál sem hér er á ferðinni og umdeilt. Ég ætla að nota hér tækifærið til þess að koma nokkrum sjónarmiðum á framfæri sem varða málið, meðferð þess og framhald, og e.t.v. að inna hæstv. ráðherra eftir vissum þáttum sem varða málið því hér eru viðstaddir þrír hæstv. ráðherrar sem allir fara með málið fyrir hönd sinna flokka í ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. sem forgöngumaður þessa máls.
    Ég ræddi hér í gær af tilefni þáltill. um rannsókn þessa máls svolítið um málsmeðferðina eins og hún kemur mér fyrir sjónir. Ég skal ekki endurtaka það nema örfá atriði af því að hæstv. iðnrh. var ekki þá viðstaddur.
    Þetta mál var afar umdeilt þegar þessi ríkisstjórn var mynduð og þegar það kom fyrst til tals innan Alþb. að verða þátttakandi í myndun nýrrar ríkisstjórnar var látið að því liggja, og ég tók það sem svo að það væru boð frá þeim sem síðar settist í forsæti í ríkisstjórninni, að myndun stjórnar Framsfl., Alþfl. og Alþb. hefði það í för með sér m.a. að menn legðu til hliðar áform um erlenda álbræðslu í Straumsvík sem unnið hafði verið að í tíð ríkisstjórnarinnar næst á undan. Við ræddum spurninguna um stjórnarmyndun í ljósi þessara fregna og boða sem formaður Alþb. bar inn í þingflokk þess og um skeið var það svo að það var inni í drögum að stjórnarsáttmála að ekki yrði ráðist í nýja álbræðslu með eignaraðild útlendinga hérlendis í tíð ríkisstjórnarinar.
    Við í þingflokki Alþb. ræddum þessa stjórnarmyndun í ljósi þessa og það var ekki fyrr en á lokastigi stjórnarmyndunar, aðfaranótt þess að stjórnin settist á stóla, að Alþfl. sneri við blaðinu að þessu leyti, heimtaði þau ákvæði út úr drögum að stjórnarsáttmála sem vörðuðu nýja álbræðslu og fékk því framgengt að ekki væri tekið með inn í stjórnarsáttmálann að slík álbræðsla skyldi ekki byggð eða ekki unnið að slíkri álbræðslu í tíð ríkisstjórnarinnar. Í stað þess gaf hæstv. forsrh. verðandi stjórnar yfirlýsingu um það opinberlega að ekki yrðu samþykktar ákvarðanir um slík stórmál, eins og stóriðju, með stuðningi stjórnarandstöðu því þá væri það fráfararatriði fyrir ríkisstjórnina.
    Ég tel nauðsynlegt að nefna þetta hér í upphafi míns máls vegna þess að þetta varðar stöðu málsins frá upphafi í þessu stjórnarsamstarfi. Það sem samþykkt var af Alþb. hálfu við stjórnarmyndunina og ráðherrar þess féllust á var að lokið yrði umsaminni hagkvæmnikönnun vegna nýrrar álbræðslu, allt að 200 þús. tonna stærð, sem samið hafði verið um af fráfarandi iðnrh. Friðrik Sophussyni með undirskrift 4. júlí 1988. Sú hagkvæmnikönnun skyldi til lykta leidd en ekkert ákveðið um framhald málsins. Þessi athugun fór fram og hún reyndist neikvæð, þ.e. aðilarnir sem að henni stóðu kváðu upp úr um það sumarið 1989 að þeir teldu ekki fært að halda áfram athugun málsins, væru því fráhverfir. En í stað þess að þá væri tekið á málinu og reynt að sameina stjórnarflokkana um lyktir málsins hélt iðnrh. á eigin spýtur áfram að teygja lopann og nú var tekið til við að kanna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Einnig það reyndist ekki hafa byr hjá viðræðuaðilunum sem iðnrh. ræddi við og hann rak í strand með það í desembermánuði 1989, fyrir tæpu ári síðan, en það nægði hæstv. ráðherra ekki því hann hóf þegar leit að nýjum aðilum, nýjum samstarfsaðilum, og á fjörur hans rak í staðinn fyrir Austrian Metal, sem gengið var úr skaftinu, og Alusuisse, hinn kæra samstarfsaðila um álbræðsluna í Straumsvík og langalengi viðmælanda íslenskra stjórnvalda, bandaríska stórfyrirtækið, auðhringinn Alumax sem kunnugt er. Og það hefur leitt til þess sem nú er rætt hér að iðnrh. er í einleik sínum í þessu máli kominn með ,,memorandum of agreement``, undirritað af honum ásamt þremur erlendum stórfyrirtækjum þann 4. okt. án þess að ríkisstjórnin hafi í nokkru skuldbundið sig til aðildar að málinu, hvað þá að Alþb. hafi gert það, og iðnrh. hæstv. lá svo mikið á að honum láðist, og formanni samninganefndarinnar, verkamanni hjá honum í ráðuneyti, að gæta þess hver það væri sem ætti að semja um raforkumálin í þessu samhengi, afhendingu á 3000 gwst. af raforku til þessa stórfyrirtækis.
    En það gerðist svo á sl. sumri að fram fór sá átakanlegi leikur sem hæstv. iðnrh. setti á svið í sambandi við staðsetningu þessa fyrirtækis, þar sem byggðarlag eftir byggðarlag var dregið á asnaeyrunum og látið standa í samkeppni um það að hreppa þetta fyrirtæki og gera gott betur, að bjóða niður skilmálana fyrir slíkt fyrirtæki innan sinna marka. Og hæstv. iðnrh. gerðist póstberi fyrir hin erlendu fyrirtæki til að koma spurningalistum til þeirra, svona sem milliliður, um það hvað væri í boði af þeirra hálfu ef þessum erlendum aðilum hentaði að nema land innan marka þeirra. Þetta eru einhver ósæmilegustu vinnubrögð sem fram hafa farið fyrr og síðar af stjórnvalda hálfu hér í landinu, og það verður að segja að þetta eitt, þessi málafylgja ein, ætti að nægja til þess að Alþingi færi að hugsa sinn gang og kanna það með hvaða hætti er haldið á málum að þessu leyti. Og síðan er verkið kórónað með því, sem allir vissu sem áttuðu sig á því eftir hvaða leikreglum þarna væri farið, að hinum útlendu aðilum hentaði að setja fyrirtækið niður þar sem fýsilegast er fyrir þá miðað við allar aðstæður, hér í næsta nágrenni við höfuðstaðinn. Og ríkisstjórn sem ætlaði að reisa merki byggðastefnu í þessu landi er nú ætlað það af hæstv. iðnrh. og flokki hans að taka ákvörðun um það og jarða sína byggðastefnu og sín áform í byggðamálum með því að taka ákvarðanir um að þetta stórfyrirtæki skuli rísa í næsta nágrenni við höfuðstaðinn.
    Ég hef ekki verið hvatamaður þess að hér verði hlaðið undir erlend fyrirtæki í landinu sem forræðisaðila og meirihlutaaðila í orkufrekum iðnaði. Ég hef varað við því, jafnt í mínum flokki sem hér á Alþingi. Ég er ekki andvígur orkufrekum iðnaði í landinu og tel að meðan ég starfaði í iðnrn. sæjust þess nokkur merki að ég hafði áhuga á að kanna opnum huga og vítt út frá ákveðnum forsendum möguleika á

að nýta innlendar orkulindir í þágu iðnaðar í þessu landi, með ákveðnum skilyrðum, byggt á ákveðnum forsendum. Ein af þessum forsendum var og er að staðsetning slíkra fyrirtækja sé valin af fyrirhyggju og miðað við þjóðarhagsmuni, víðtæka þjóðarhagsmuni.
    Á þessum árum var einnig til athugunar, og er ástæða til að minnast á það hér og nú, að nýta orkulindirnar til framleiðslu á eldsneyti, fljótandi eldsneyti. Það voru gerðar athuganir á því 1980 og árin þar á eftir hvort hagkvæmt væri í kjölfar olíuverðshækkunarinnar miklu 1979 og þær rannsóknir nýtast vonandi við framhaldsathugun málsins nú þegar breytt viðhorf eru í orkumálum heimsins, enn og aftur, og þessi kostur færist nær, að við getum nýtt okkar orkulindir, vatnsafl og jarðvarma, til framleiðslu á öðrum orkugjöfum.
    Við hljótum hins vegar að líta á fleiri þætti þessa máls þó að þessi hugmynd um staðsetningu álbræðslunnar geti ein út af fyrir sig nægileg verið ásamt eignarhaldi til þess að menn vísi þessum hugmyndum alfarið frá. En hvað þá um aðra þætti málsins? Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að stikla hér á nokkrum atriðum.
    Þeir þættir sem koma inn í þetta mál sameinast í spurningunni um þjóðhagslega arðsemi slíks fyrirtækis. Og það er mjög eðlilegt að menn líti á það og spyrji: Hver gæti orðið þjóðhagsleg arðsemi slíks fyrirtækis? Og hvað lesum við í þeim gögnum sem hæstv. iðnrh. hefur nýlega lagt hér inn í þingið? Jú, við lesum þar að vöxtur þjóðartekna, viðbót þjóðartekna, vegna þessa fyrirtækis gæti orðið um 2% og vöxtur landsframleiðslu þaðan af meiri.
    Þetta sjáum við í fylgiskjali með skýrslu hæstv. iðnrh. á bls. 52 -- 56 í skýrslu hans og þar er það skýrt tekið fram að Þjóðhagsstofnun, á forsendum þess sem gengið er út frá við þetta mat á hagkvæmni álbræðslu, þjóðhagslega hagkvæmni, miðar við það sem grunn að ekkert gerist annað í íslensku atvinnulífi, engar aðrar fjárfestingar, svo heitið geti, verði hér í þjóðfélaginu, engin sérstök ný atvinnuuppbygging fari fram, heldur komi þessi álbræðsla algjörlega sem viðbót ofan á í rauninni sléttan grunn. Þannig fær Þjóðhagsstofnun út þessa niðurstöðu og ég vænti þess að hv. alþingismenn hafi tekið eftir þessum forsendum í málinu, eins og þær eru hér fyrir lagðar. Það er rómað og prísað hvaða happadráttur þetta geti orðið fyrir íslenskan þjóðarbúskap, en það er reist á þessum núllgrunni sem þarna liggur fyrir í mati Þjóðhagsstofnunar. Það er alveg glæfralegt að sjá framreiddar slíkar tölur og slíkt mat af iðnrh. sem áður var forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Það er svona álíka eins og þegar hann reyndi að telja þjóðinni trú um það hér sl. vetur í ræðu og riti að eitt tonn af áli jafngilti einu tonni af þorski upp úr sjó á Íslandi fyrir íslenskt þjóðarbú. Og þó að Þjóðhagsstofnun sé kannski ekki mjög glögg að reikna þá fann hún það þó út aðspurð að hér væri farið a.m.k. með þrefalt rugl í þessu efni af hæstv. iðnrh. og reyndar gott betur ef tekið var með allt sem til frádráttar heyrir í þessu máli eins og afborganir og vextir vegna erlendra lána. Menn verða að líta á þessar köldu staðreyndir hér á Alþingi Íslendinga þegar verið er að fjalla um þetta mál, að þeir sem bera það fram ganga fram með slíkar blekkingar, útbúa þannig gögn í hendur Alþingis eins og hér liggur fyrir.
    Ég held að ef menn reyndu að vera bjartsýnir á forsendur þessa fyrirtækis og áhrif þess á þjóðarbúskapinn, svokölluð margfeldisáhrif á íslenskan þjóðarbúskap, komist menn samt ekki með nokkru móti yfir 1% vöxt eða viðbót í þjóðartekjum og þarf að leggja þó mjög vel á til þess að það fái staðist. Það eru nú öll ósköpin miðað við þær forsendur að öðru leyti sem gefnar eru í þessu dæmi. Og hver er svo vinningurinn og á hverju er hann byggður? Jú, stóru þættirnir í þessu máli, hagrænir, eru rafmagnssamningurinn, þær tekjur sem menn eiga að fá af rafmagnssölu, og það eru skattar og skatttekjur.
    Og nú hefur hæstv. iðnrh. og samningamenn hans fundið upp á því snjallræði að tengja hvort tveggja við heimsmarkaðsverð á áli. Og mennirnir sem töluðu um og andmæltu því að Íslendingar ættu að vera burðarásar í orkufrekum iðnaði í landinu og ekki fara hraðar en geta okkar leyfði til fjárfestinga og sem svaraði áhættu og sögðu: Þetta er ekki hægt. Við verðum bara að vera með útlendinga í þessu af því að þetta er svo áhættusamur rekstur --- þeir koma nú með hinn þáttinn, rafmagnssamninginn, nákvæmlega inn í sömu áhættu og markaðsverðið á afurðinni. Þeir eru búnir að ganga hring í gegnum sjálfa sig í þessu máli.
    Og hverjar eru svo viðmiðanirnar? Við skulum líta á rafmagnsverðið og álverðið sem er tengt því. Við skulum aðeins virða það fyrir okkur: Jú, það er reiknað með því að álverð verði að meðaltali á tímabili þessa samnings, 25 ára tímabili, um 1900 Bandaríkjadalir á tonn, 1850 -- 1900, 1900 lengst af. Og hvernig blasir nú sú hugmynd við þegar litið er til reynslunnar, hvert álverð hefur verið á liðnum árum samkvæmt útreikningum og mati Þjóðhagsstofnunar, þar sem þeir færa álverð til sama verðgildis yfir þennan tíma? Ætli það séu 1900 dollarar á tonn, eða ætli það sé ekki gott betur því að menn hljóta að vera með vaðið fyrir neðan sig? Onei, það er reyndar ekki. Ef lagðar eru saman tölurnar frá 1960 koma út um 1760 Bandaríkjadalir á framleitt tonn af áli allt þetta tímabil, langt undir meginforsendum hæstv. iðnrh. Og ef við lítum yfir 10 ára tímabil, 1980 -- 1989, við skulum taka þau því 1980 var hátt álverð, hvert skyldi meðaltalið hafa verið síðustu tíu árin? Ætli það hafi verið 1800 dollarar á tonn? Ætli það hafi verið 1700 á tonn? Ónei, það eru 1650 Bandaríkjadalir á tonn --- 1650. Og ef við tökum árið í ár, sem líklega skilar nálægt 1800 Bandaríkjadölum á tonn, yrðu tíu árin frá 1981 til 1990 rétt um 1600 Bandaríkjadalir á tonn, sem sagt óralangt undir því viðmiðunarverði sem þarna er lagt til grundvallar sem meginviðmiðun inn í raforkuverðið og hverju þetta eigi að skila. Og það er með svona uppsetningu sem samningamenn iðnrn. koma fram með örlítinn plús út úr þessum samningi. Góður samningur, segir hæstv. forsrh., en að vísu dálítið áhættusamur. Eitthvað á þá leið. Er þessi áhætta takandi, hæstv. forsrh., ef litið er til reynslu síðustu tíu ára og álverðið á undanförnum tíu árum liggur í 1650 Bandaríkjadölum? Og þá er horft fram hjá því að þetta meðaltal lækkar ef tekið er lengra tímabil. Það er í rauninni aðeins á sex árum allan þennan tíma, á sex árum frá 1960 sem álverðið hefur náð því meðaltali sem á að verða gildandi yfir allt samningstímabilið, 25 ár. Og ef álverðið verður 5, 10, 15% lægra en þarna er verið að leiða líkur að, sem enginn getur sagt fyrir um og ómögulegt er að rökstyðja af nokkru viti að verði niðurstaðan, þá er þessi spilaborg hrunin. Algjörlega hrunin.
    Það eru fleiri þættir inni í þessu sem eru ekki á traustari grunni reistir heldur en þetta. Vaxtaforsendan, raunvextirnir inn í þetta mál, 5,5% raunvextir, hvernig standast þeir mælikvarða liðinnar tíðar, síðustu 10 ára? Hvað ætli það gefi hjá Landsvirkjun? Ætli það séu 5,5% raunvextir? Nei. Skyldu það hafa verið 6% á lánum Landsvirkjunar? Nei, nei, nei. 6,5%. Og á langtímalánum í Bandaríkjunum í kringum 7% undanfarin 10 ár. En síðan taka reiknimeistararnir hjá Landsvirkjun, samningamennirnir og iðnrn., bara tímabilið frá 1960 því þá fá þeir inn áttunda áratuginn með neikvæðum raunvöxtum og geta sýnt aðrar tölur og sagt: Þetta hlýtur að standast. Yfir 30 ára tímabil eru raunvextirnir lægri.
    En það eru fleiri áhættuþættir í þessu máli. Gengið, viðmiðunin við Bandaríkjadal er auðvitað augljós áhættuþáttur. Bandaríkjadalur hefur farið lækkandi eins og fjöl, eins og hallandi fjöl allan þennan tíma með smávegis breytingum. Einnig það er stór áhættuþáttur inni í þessu máli. Og stofnkostnaðurinn, rekstrar- og stofnkostnaður virkjananna. Hvernig ætli sé haldið á því? Jú, það er borð fyrir báru, segja menn. Það er reiknað með af hálfu starfsmanna Landsvirkjunar að reikna með því að --- ráðherrann genginn á dyr, virðulegi forseti, kannski nóg boðið. ( Forseti: Forseti kann ekki við að spyrja ráðherra að því hverra erinda hann hafi gengið út úr salnum. Ég vænti þess að hann komi mjög skjótt aftur.) En starfsmenn iðnrn. sem hafa verið að meta stofnkostnað segjast hafa borð fyrir báru upp á eitthvað 15 -- 20% í stofnkostnað. Það er borðið. Og ekki má þar miklu skeika því það þyrfti ekki nema 10% frávik á reiknuðum stofnkostnaði til þess að þessi hagnaður sem Landsvirkjun reiknar sér inn í dæmið, bara sá þáttur einn, setji hagnaðinn niður á núll.
    Hver ætli sé reynsla sögunnar hjá Landsvirkjun í sambandi við byggingu virkjana? Hæstv. forsrh. kannast við það. Hann veit eflaust að ein virkjunin, sú sem fór lakast þangað til kom að Blöndu, ég veit ekki nákvæmlega í prósentum hvar Blanda stendur, en ég nefni það hér á eftir. En það er Sigölduvirkjun. Stofnkostnaður Sigölduvirkjunar reiknaður á framleidda einingu fór nálægt að tvöfaldast frá áætlunarverðinu að raunverðinu. Það var nú reynslan þar. Svo eru menn að reikna hér borð fyrir báru í stofnkostnaði upp á 15 -- 20%. Og Blönduvirkjun, hvar ætli hún standi núna í höndum Landsvirkjunar? Áætlanir um framleiðslukostnaðarverð frá Blönduvirkjun voru innan við 20

mill. --- Hæstv. ráðherra, ég var að fara yfir stofnkostnaðarþáttinn og nefna að ekki þyrfti röskun á honum nema sem svaraði 10% til þess að reiknaður hagnaður Landsvirkjunar út úr þessu dæmi væri kominn niður á núll. ( Viðskrh.: Varúðarálag verkfræðinga er miklu hærra en það.) Varúðarálag verkfræðinga er miklu hærra, þess vegna var ég að nefna það, hæstv. ráðherra, sem ég efast ekkert um að þú hafir kynnt þér, að í framkvæmdum Landsvirkjunar hefur það nú gengið svo í ýmsum tilvikum að framkvæmdakostnaðurinn hefur farið miklu hærra, hann hefur tvöfaldast í dæminu Sigölduvirkjun og þegar litið er til Blönduvirkjunar, sem átti að skila orkuverði undir 20 millum á framleidda einingu, þá stefnir hann í það samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja miðað við 610 gwst. framleiðslu á ári að fara upp undir 30 mill. Og það er auðvitað mjög snjöll lausn að kippa svo bara þeim pakka burtu, ekki satt? Það er best að sýna hann ekki. Kippa honum bara burtu. Hann er þarna hvort sem er, segja menn, það er ekkert hægt að fá fyrir orkuna, við tökum því eins og það er, við gleymum því bara.
    Þá eru það skattarnir. Ég heyri það mér til verulegrar ánægju að það hafi tekist að fá hina erlendu aðila til þess að skrifa upp á það að íslensk skattalög eigi að gilda í meginatriðum í sambandi við þetta fyrirtæki, ef einhvern tímann yrði reist. Það er auðvitað prýðilegt og einnig að gerðardómslög Íslands eigi að gilda. Það er sagt að þetta eigi að gefa heilmikið inn í ríkiskassann og það verði jafnvel hægt að létta skattana út á þetta. Ég hef heyrt nefnda allt upp í 20 milljarða sem þetta eigi að skila á samningstímanum, 19 milljarðar tekjuskatturinn einn. En hvernig ætli sú tala sé nú, þessir 19 milljarðar sem við lásum um í Morgunblaðinu um helgina? Þegar farið er að átta sig á þeirri tölu þá er þetta upphlaðið á verði hvers árs. Það er ekki á núvirði sem þetta liggur. Ef þessi upphæð er núvirt þá er hún komin niður í 11 milljarða. Ætli hún sé örugg í hendi? Ég hef ekki séð skattasamninginn, hæstv. ráðherra, það væri ágætt að fá hann, eins og hann liggur fyrir. Ég hef lesið þær forsendur sem standa í skýrslunni. Og hvað lesum við þar? Jú, skattarnir eru beint tengdir inn á álverð eins og rafmagnið. Fyrstu níu árin er ekkert að hafa. Ekkert, segir hæstv. ráðherra í sinni skýrslu. Bara ekkert í skatta. Ef farið er að líta síðan á hvaða áhrif breytingar á álverði hafi inn á þetta skattadæmi, það á að hreyfast frá 1650, það eru lægri mörkin eftir þessum samningi skilst mér, hreyfast frá 1650 upp í 1900 dollara á tonn, þá fer nú að ganga á þessa upphæð. Það virðist ekki þurfa nema sem svarar --- við skulum segja að það væri meðalverð síðustu 10 ára sem er um 1650 dollarar á tonn. Hverju ætli skattarnir skili þá á samningstímanum? Þeir virðast skila eitthvað nálægt 6 milljörðum á núvirði, eitthvað nálægt 6 milljörðum. Það getur vel verið að þetta séu ekki nákvæmir reikningar en þetta er það sem virðist liggja í spilunum. Við höfum ekki fengið þessa samninga útfærða þannig að það er ekki hægt að ábyrgjast þetta upp á milljón eða milljarð en þetta er hreyfingin, þetta er óvissan.

Þetta sýnir sem sagt eðli þessara samninga. Öll er þessi spilaborg byggð á mikilli bjartsýni og trú. Trú hæstv. iðnrh. á álverð og þróun álverðs. Og hann segir þjóðinni: Menn þurfa bara að vera nógu einbeittir í trúnni. Þá getur þetta allt saman gengið upp. Við trúum á álið, við trúum á dollarann og þá höfum við þetta. ( HBl: Það er nú líka góð tvenna.) Ja, það má nú segja.
    Þetta er grunnurinn og inn á þennan grunn heyrist mér að Framsfl. ætli að fara að hlaupa. ( Gripið fram í: Eigum við frekar að hlaupa inn á rúbluna?) Ja, nú veit ég ekki. Ég man hvað það heitir í Búlgaríu, ég hef aldrei komið þangað, en ætli það sé ekki eðlilegt að Framsókn miði frekar við búlgarska mynt en rússneska. Ég held að þeir séu vanari að handleika hana. Og ég segi þetta hér vegna þess að ég undrast það að hæstv. forsrh. --- hvar er hæstv. forsrh., virðulegur forseti, ég ætlaði að beina máli mínu til hans --- hæstv. forsrh. virðist vera búinn að ganga langleiðina inn á að játast þessari trú hæstv. iðnrh. Hann trúir á álið og trúir á dollarann og hæstv. forsrh. segir: Þetta er bara þokkalegur samningur en það er óskaplega mikil áhætta í honum. Þetta segir hann við þjóðina. Er hann búinn að kanna þessar forsendur lið fyrir lið? Þær eru allar í hámarki og efri mörkum og langt upp fyrir það sem eðlilegt er að áætla þegar verið er að reikna forsendur fyrirtækis og fjárfestinga af þeirri stærð sem hér um ræðir. Og ætlar svo liðið að fylgja foringja sínum? Ætla þingmenn Framsfl. hér á Alþingi, ofan í staðsetninguna, að hlaupa inn á þessa fjárfestingu út á einhverja --- ég veit ekki hvað á að segja, aura, einhverja ábót, einhverja fyrirgreiðslu hér og fyrirgreiðslu þar? Ég varð fyrir miklum vonbrigðum að heyra í þingmanni Norðurl. e. sem talaði þessum tungum, var að rétta fram höndina hérna. Ég skal rétta upp höndina ef þið leggið eitthvað í lófa minn til Háskólans á Akureyri. Halda menn að málin gangi svona upp? Hvers konar blekkingaleikur er þetta? Hvers konar blekkingar eru þetta?
    Menn voru farnir að tala um það að það ætti jafnvel að jafna raforkukostnaðinn í landinu núna næstu árin út á tekjurnar af þessum ósköpum, sem Davíð Oddsson var nú nógu skynugur til þess að sýna fram á að verða minna en engar í 15 -- 20 ár, eins og hann orðaði það. Samt ætlar hv. guðfaðir þessa máls, hæstv. fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophusson, að vera reiðubúinn að hjálpa til. Ef einhverjum skyldi nú skrika fótur á stjórnarheimilinu í þessu máli þá er hann reiðubúinn að hlaupa til og veita stuðning og rétta þó svo að varaformaður hans, sá sem ýtti honum til hliðar í Sjálfstfl., sé búinn að reikna það út að þetta gefi minna en ekkert í 15 -- 20 ár og gerir auðvitað gys að því ef ríkisstjórnin ætlar að fara að jafna raforkukostnað í landinu út á minna en ekki neitt. Þetta er nokkuð sérkennilegt. Ætla menn að reyna að kaupa landsbyggðina á Íslandi með þeim hætti að segja: Við hleypum fram þessari gölnu fjárfestingu við bæjardyr Reykjavíkur gegn því að þið fáið smávegis dúsu í hvert kjördæmi, svona einhvern vonarpening. Það væri nú varla fast í hendi ef áætlanirnar ganga upp, að

stimpla þetta út hér á Alþingi fyrir jólin. Það er afskaplega raunalegt að vita til þess að greindir og gegnir menn, og sem eiga meira að segja að kunna á reiknistokk eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, skuli leggja nafn sitt við forsendur af því tagi sem hér eru fram bornar varðandi þetta mál. Það er aldeilis stórmerkilegt. Og það skuli þurfa --- ja, lítt reiknifróða menn, a.m.k. ekki sprenglærða á því sviði eins og borgarstjórann í Reykjavík til þess að segja mönnum frá vissum grunnstaðreyndum í málinu. En stundum er það svona. Sérfræðingarnir, þeir sem sérfróðastir teljast vera, reikna sig inn í myrkviðinn. Það virðist vera það sem er að gerast hér og það fer í rauninni mjög vel á því með fyrrv. þjóðhagsstjóra sem forgöngumann málsins. ( Gripið fram í: Hann er nú enn þá þjóðhagsstjóri.) Að vísu, hann hefur það í bakhöndinni eins og kannski fleira.
    Við hljótum að spyrja: Ja, eru þá ekki einhverjir þættir í sæmilegu lagi varðandi málið? Einn þáttur er ónefndur hér, það eru umhverfismál. Þau eiga nú að vera aldeilis í topplagi. Við erum komnir með umhverfisráðuneyti, við erum komnir með ráðherra sem hefur haft mikið umleikis frá því hann kom í embætti, eðlilega. Þetta er stór málaflokkur og með mikil verkefni og hann hefur verið á fleng víða um lönd til þess að kynna sér eitt og annað, þar á meðal mengunarvarnir að mér skilst vestur í Bandaríkjunum, austur í Svíþjóð og sjálfsagt suður í heimi líka. Síðast í gær fékk hann skeyti frá Japan um það að best væri að leysa þetta með kalki og steypa gifs. Auðvitað sá maður strax styttuna af hæstv. umhvrh. fyrir utan álverið mikla á Keilisnesi í margfaldri stærð úr gifsi. ( Gripið fram í: Hún verður sett í brons.) Síðar, þegar þetta fer að skila hagnaði, í von um að þetta skili einhvern tíma hagnaði áður en afskrifað yrði, þá væri athugandi að setja þetta í brons já, steypa hæstv. ráðherra í brons.
    En sannleikurinn er sá að það er hreint með ósköpum hvernig á þessum þætti málsins hefur verið haldið, því sem snýr að umhverfismálunum. Það virðist sem hæstv. ráðherra hafi hvergi fótað sig, hvar hann ætli að koma niður í málinu, hver á að vera undirstaðan. Hæstv. iðnrh. hafði marglofað mönnum hér á Alþingi að það yrðu fullkomnustu mengunarvarnir sem beitt yrði við þessa bræðslu, fullkomnustu mengunarvarnir. En þegar kemur að stykkinu, þá er strax farið að spara, þá er það orðið samningsatriði, þá er allt í lagi að sleppa fyrirtækjunum við milljarða í stofnkostnaði út á mengunarvarnir. Þá fara menn að reikna sig niður og hæstv. umhvrh. gerist þátttakandi í þeim leik. Það er afar alvarlegt mál þegar fagráðherra þeirra mála, nýkominn í embætti í nýtt umhverfisráðuneyti sem við höfum bundið miklar vonir við, virðist ekki fóta sig betur en raun ber vitni í þessu máli. Og þjóðin stendur agndofa. Það koma skeyti héðan og þaðan um nýjar lausnir í málinu. Ég bíð spenntur að vita hvað kemur í kvöld, hvort það verður Ástralía eða Patagónía eða hverjir leggja hér eitthvað af mörkum til að leysa þetta mál.
    En mönnum skal vera rórra því hæstv. iðnrh. upplýsti í fréttatilkynningu eftir undirritun sína 4. okt. eftirfarandi um þessi fyrirtæki: ,,Atlantsálsfyrirtækin þrjú eru þekkt fyrir góðar mengunarvarnir í verksmiðjum sínum.`` Amen. Og hæstv. iðnrh. er búinn að fara austur í Sundsvall og lykta í verksmiðju Gränges í Sundsvall, að vísu bæði af nýrri framleiðslu og gamalli, þar sem umhverfisráðherra Svía stendur í málaferlum og deilum opinberlega í Svíþjóð út af örlögum sinna nánustu í þeirri fabrikku.
    Auðvitað ætla ég engum ráðherra í ríkisstjórn Íslands það að koma hér upp álbræðslu af lélegustu gerð, það ætla ég engum. En þegar kemur að málinu sjálfu og hinum harða kjarna þess, að þetta kostar stefnumörkun, það kostar festu að standa á rétti sínum varðandi íslenskt umhverfi, þá mega menn ekki hafa neitt til sölu, þá mega menn ekki fara að slaka út milljörðum til samningsaðila eins og spilapeningum inn í þetta dæmi, nóg er nú samt.
    Síðan er þess að geta í sambandi við umhverfismálin að verið er að bera þetta saman við bræðslur sem fyrir eru og eru ekki til fyrirmyndar og það er sagt að það megi taka tillit til aðstæðna á staðnum. Það eigi ekki að gera sömu kröfur, ekki sömu grunnkröfur á Keilisnesi og á Reyðarfirði eða í Eyjafirði eða hvar það hefur komið til tals að setja þessa verksmiðju niður. Það eigi að fara eftir staðbundnum aðstæðum. Ég las í morgun, og var nú ekki mjög uppörvandi lesning, þar sem fjallað er um þetta mál í skýrslu hæstv. iðnrh. Hann segir einmitt hér varðandi umhverfismál og leyfi: ,,Nýjar aðferðir, aðgerðir eða tæki til að stjórna útrennsli, útstreymi eða losun lofts, vatns eða fasts efnis, hafa, á grundvelli alþjóðlegra sáttmála, almennt verið skyldubundnar og komið til framkvæmda í álverum í OECD - ríkjunum sem hönnuð eru á u.þ.b. sama tíma og Atlantsálverið og með áþekkri tækni og Atlantsálverið.`` Sem sagt, leyfið verður einungis endurskoðað eða því breytt ef nýjar aðferðir af þessum toga koma fram. Takið þið eftir orðalaginu á þessari grein. Minnir hún ekki óþyrmilega á ákvæði þegar samið var um álbræðsluna í Straumsvík á sínum tíma? Að vísu eru aðrar kröfur, aðrar viðmiðanir, en einmitt í þessa áttina, eins og við lesum hér. Það er meira á þessari skrá því þarna segir: ,,Breytingar á álverinu er leiða af breytingum á starfsleyfi skulu gerðar í áföngum á eðlilegu tímabili og að teknu tilliti til fjárhagslegra aðstæðna við framkvæmd slíkra breytinga í OECD - ríkjunum.`` Þetta er staðan sem verið er að setja okkur inn í í þessu sambandi.
    Hæstv. iðnrh. er að segja okkur það að vothreinsun sé nú bara af hinu vonda í þessu dæmi. Honum virðist alls ekki hafa hugkvæmst að það væri hægt að gera kröfur bæði um lítinn brennistein í rafskautum og hafa einnig vothreinsun í fyrirtækinu. Það hefur hann ekki orðað, ekki í mín eyru. Og hann hefur látið að því liggja að ef sett er upp vothreinsun þá búum við bara við rafskaut með 6 -- 8% brennisteinsinnihaldi og útkoman verði lakari en án vothreinsunar. Svona eru röksemdirnar á þeim bæ. Það væri, virðulegur forseti, hægt að segja margt fleira um þessa

sérkennilegu sögu að því er snýr að umhverfisþáttum málsins en ég ætla ekki að lengja hana hér og nú.
    Ég ætla hins vegar aðeins að víkja að því hvaða hugsun býr að baki þessu ofurkappi í iðnrn. og á fleiri bæjum að koma upp þessari álbræðslu, álbræðslu sem gefur líklega undir 1% í viðbót í þjóðartekjur hér á þessum tíma? Jú, ástæðan er sú að menn hafa ekki trú á að það sé neitt annað betra að hafa. Menn vilja halda uppi lífskjörum í landinu, treysta grunninn, auka fjölbreytni o.s.frv., en koma ekki auga á aðra kosti.
    Hér er komið að stórum þætti sem vert væri að ræða. Það er satt að segja skelfilegt að heyra og lesa það sem sagt er í þeim efnum. Það er ekki mikið verið að spá í það hvað hægt sé að gera úr þeim náttúrulega auðlindagrunni sem við höfum hér í landinu og höfum byggt okkar farsæld og lífskjör á á þessari öld öðru fremur, íslenskum sjávarútvegi. Það er beinlínis látið að því liggja í þessum lesningum sem maður fær hér úr ráðuneytunum að þar séu menn bara algerlega komnir í strand. Þar sé ekkert meira að sækja, fiskstofnarnir fullnýttir og ekki að sjá neina týru varðandi það að auka verðmæti með úrvinnslu á íslensku sjávarfangi. Það er aldeilis skelfilegt að reyna það hér á Alþingi Íslendinga að menn skuli taka þannig á málum þegar augljóst má vera að með skipulegum vinnubrögðum og fjármagni og þekkingu er hægt að sækja mikið í íslenskan sjávarútveg með fullvinnslu og markaðssókn á því sviði og áreiðanlega margfaldar upphæðir á við það sem verið er að vísa á í því happdrætti sem hér er verið að ræða og sem getur orðið okkur hinn alvarlegasti baggi ef í verður ráðist.
    Menn hafa verið að reikna arð úr mörgum framkvæmdum, þar á meðal úr samgöngubótum í landinu. En ætli eigi að hraða þeim á næstu árum? Nei, ætli þær verði ekki eitt hið fyrsta sem verður sett undir hnífinn þegar kemur að því að skapa pláss fyrir þessar framkvæmdir í íslensku efnahagskerfi á næstu árum. ( FrS: Er það tillaga hæstv. samgrh.?) Er það tillaga? Hefur hæstv. samgrh. verið að bera þetta mál hér fram? Hvers konar útúrsnúningar eru þetta? ( FrS: Ég spyr.) Ég les það hins vegar úr þeim gögnum sem hér eru framreidd. Ég les að þetta sé talið nauðsynlegt og mjög brýnt. Það eru þungar áherslur í skýrslu hæstv. iðnrh. að þessu leyti. Þar eigi ríkið að vera forgönguaðili um að tryggja samdrátt til móts við þessar framkvæmdir til þess að hér fari ekki allt úr böndunum í íslensku efnahagslífi og verðbólgan upp úr öllu valdi. Fullkomlega eðlilegt að menn hafi áhyggjur af slíku, fullkomlega eðlilegt. Og það er einn þáttur þessa máls sem menn hljóta að taka með inn í dæmið þegar menn skoða þau áform sem hér liggja fyrir.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara hér út í þá mörgu möguleika sem eru til þess að skjóta traustari fótum undir íslenskan þjóðarbúskap með öðrum og skynsamlegri hætti en hér er verið að leggja til. Það getur beðið betri tíma. En ég hef nefnt hér einn gildan þátt sem varðar málið og ég get haldið þar áfram býsna lengi ef farið væri niður í saumana á þeim hugmyndum. Því miður hefur ekki verið tekið samstillt á því og hefur mér þó ekki auðnast að lesa nýjustu skýrslur eða nefndarálit sem varða atvinnumál og komið hafa frá stjórnvöldum. E.t.v. eru þar gagnlegar hugmyndir, ég vil ekki fullyrða neitt annað á meðan ég hef ekki lesið það, m.a. gula bók sem ég hygg að hæstv. umhvrh. hafi átt einhvern þátt í að tekin var saman.
    En hver er þá staða þessa máls? Jú, hún er þessi: Hæstv. iðnrh. stendur hér einn með málið á Alþingi enn sem komið er, einn af stjórnaraðilum. Hverjir ætla að feta slóðina með hæstv. iðnrh. út á þennan veika ís sem hér er lagður varðandi efnahagslegar forsendur málsins, að ekki sé nú talað um byggðaáhrif og áhrif á íslenskt umhverfi? Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég heyrði tóninn frá hæstv. forsrh. hér á dögunum varðandi þetta. En vonandi hefur hæstv. forsrh. skoðað þessi gögn betur og þann veika grunn, svo ekki sé nú sagt hola grunn, sem er undir þessari byggingu og þessum hugmyndum efnahagslega séð. Og þá gæti verið að einhverjir af liðsmönnunum í Framsfl. færu að hugsa sitt ráð svolítið betur og staldra við. Er nú rétt að hlaupa til og stuðla að því að þessi áform nái fram að ganga?
    Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur sagt hér fyrir hönd Sjálfstfl. að mér skilst, a.m.k. birtir málgagnið Morgunblaðið það undir stórri fyrirsögn: ,,Sjálfstæðisflokkurinn reiðubúinn til að bjarga málinu,`` og hefur að engu þó einstaka þingmenn úr röðum Sjálfstfl. hafi lagt síðu eftir síðu til að segja landsmönnum að Sjálfstfl. mundi aldrei samþykkja staðsetningu þessa máls, það væri landsfundarsamþykkt fyrir því að Sjálfstfl. stæði ekki að því að svona verksmiðja risi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta las ég eftir einum góðum þingbróður austan af landi, fulltrúa úr Sjálfstfl. Hann hefur kannski ekki komið sínu máli og sínum skoðunum á framfæri við hv. þm. Friðrik Sophusson.
    Ekki virðast allir sjálfstæðismenn vera ginnkeyptir fyrir því að hlaupa inn á þennan völl með hv. þm. Friðriki Sophussyni. Það er hik á einhverjum enn þá. Ég veit ekki hvað hv. þm. Halldór Blöndal hefur sagt við sitt fólk í kjördæminu um það hvernig hann ætli að standa að þessu máli ef á reyndi liðsinni Sjálfstfl. ( FrS: Hver er stefna Alþb.?) Og varaformaður Sjálfstfl. hefur sagt sína skoðun í stjórn Landsvirkjunar, að mér skilst. Ég heyrði í honum í sjónvarpi og honum leist ekki alveg nógu vel á þetta. Ekki alveg nógu vel. Gæfi ekkert í aðra hönd í 15 -- 20 ár og svo væru bara einhverjar tölur sem enginn vissi hvort gengju eftir. Það kann því að fara eftir mörgu hvernig þessi mál ráðast hér á Alþingi Íslendinga, það held ég að sé alveg ljóst. Og það gæti vel verið og það væri auðvitað langbest að hæstv. iðnrh. þyrfti ekki aðeins að setja málið til nánari skoðunar í stjórn Landsvirkjunar, svona að athuguðu máli, heldur bæði hann e.t.v. Þjóðhagsstofnun að reikna dæmið upp á nýtt, fengi óháða aðila til að meta aðeins forsendur þessa máls, tæki veturinn í það og leyfi þjóðinni að kjósa um hugmyndir sínar að þessu leyti og ætlaði ekki Alþingi Íslendinga að fara að stimpla þetta mál hér og

afgreiða frá þinginu með lagasetningu í skammdeginu, nánast blindandi hvað tíma snertir.
    Ég hef, virðulegur forseti, mælt hér nokkur aðvörunarorð varðandi þetta stóra mál. Ég hef mikinn áhuga á því að okkur takist að gera orkulindir landsins að raunverulegri auðlind fyrir land okkar og þjóð. Þar eru margir kostir sem við hljótum að skoða og eigum að skoða. Það áldæmi sem hér er framreitt er ekki næsti leikur. Það er ekki það næsta skref sem við eigum að stíga að því leyti. Þetta er langtum áhættusamara fyrirtæki en eðlilegt er og í rauninni allt of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenskar aðstæður. Síðan koma fylgifiskar málsins eins og þeir eru fram bornir, að gera þetta að lóði sem fer lengra með að sporðreisa landið og byggðina í þessu landi heldur en nokkuð annað sem við höfum séð framan í um langt skeið. Ég get ekki hugsað mér að ríkisstjórn sem hefur sett það inn í sinn málefnasamning að hún vilji stuðla að byggðaþróun í landinu, rétta við landsbyggðina með athöfnum í atvinnumálum, gefi þeim orðum sínum, samþykktum og hugmyndum langt nef eins og verið er að gera með þessum áætlunum.
    Ég treysti því, virðulegur forseti, að þetta mál fái mikla umræðu og athugun hér í þingsölum. Þeim tíma er vel varið ef það verður til þess að menn átti sig á þeim fúnu stoðum sem þessi málatilbúnaður allur er reistur á. Og við skulum ekki spara einhverja aura til þess að lýsa inn í afkimana í þessu máli því þeir munu gefa vexti ef þeir leiða okkur á skynsamlegri brautir en hér eru lagðar.