Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég var bundinn við skyldustörf annars staðar þegar framhaldsumræða utan dagskrár um álmálið hófst hér í dag og gat af þeim sökum ekki mætt hér fyrr en nokkru fyrir kl. 3. Fékk þá þær undarlegu fréttir að hæstv. forseti sameinaðs þings, Guðrún Helgadóttir, hefði gert það að umræðuefni að mér fjarstöddum að umræðunni hefði verið frestað hér á þriðjudagsnótt að minni beiðni vegna þess að hæstv. forsrh. hefði ekki verið við umræðuna. Þarna er bæði máli hallað og þó ekki. Verst þykir mér að hæstv. forseti skuli hafa haldið að ég hafi ekki lokið minni ræðu. En greinilegt er af þeim spólum sem teknar voru upp af umræðum þá nótt að ég hafði lokið ræðu minni. Það er nú það fyrsta. Á síðasta þingi varð hæstv. forseta aftur á móti á að svipta mig rétti til að ljúka ræðu sem greinilegt var að ég hafði gert hlé á að beiðni forseta sameinaðs þings, og kemur kannski fáum á óvart að henni skuli takast fundarstjórnin með þessum hætti.
    Hitt var kjarni þess sem ég sagði, að umræður höfðu hafist hér utan dagskrár. Hv. 1. þm. Reykv. hafði beint fyrirspurnum til hæstv. forsrh. og fjmrh. Hæstv. forsrh. sá ekki ástæðu til að vera við umræðuna til þess að gefa fyrirspyrjanda tækifæri til þess að gera athugasemdir við hans svör sem er mjög óvenjulegt og auðvitað lítilsvirðandi fyrir þingið.
    Í öðru lagi lá það fyrir þessa nótt að hæstv. iðnrh. og hæstv. forseti sameinaðs þings töldu báðir að óþarfi væri að skýrsla iðnrh. til Alþingis um stöðu samninga um nýtt álver yrði rædd í þinginu. Ég vakti athygli forseta á því að óhjákvæmilegt væri fyrir einstaka þingmenn að þeir gætu fengið svör við misvísandi upplýsingum og misvísandi fullyrðingum sem einstakir ráðherrar höfðu gefið. Ég vakti líka athygli á því að hæstv. umhvrh. hafði ekki fengið tækifæri til þess að svara fyrirspurnum hæstv. landbrh.
    Forseti sameinaðs þings lýsti því yfir að hann gæti ekki fallist á beiðni mína um að umræðunni yrði frestað, sá heldur ekki ástæðu til þess að kalla á hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. Ég lét það gott heita en lagði á hinn bóginn áherslu á að ég mundi beita mér fyrir því ásamt átta þingmönnum öðrum að skýrsla iðnrh. til Alþingis um stöðu samninga um nýtt álver yrði rædd hér á hinu háa Alþingi. Það lá öldungis ljóst fyrir þá um nóttina að slík beiðni kæmi fram og lofaði hæstv. forseti því að greiða fyrir því að skýrslan mætti koma til umræðu svo fljótt sem verða mætti, þannig skildi ég orð forseta, um leið og slík beiðni hefði komið fram.
    Þetta er í stuttu máli það sem gerðist þessa nótt í samskiptum mínum við forseta hins háa Alþingis. Hitt er svo annað mál að hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson náði samkomulagi við forseta þingsins um það að umræðu yrði frestað og henni haldið áfram nú í dag, enda yrði ekki lögð fram sérstök beiðni um að skýrsla iðnrh. yrði tekin sérstaklega á dagskrá heldur rædd samhliða utandagskrárumræðunni. Ég tel óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að þetta komi fram. Hæstv.

forseti lýsti furðu sinni yfir því að ég skyldi ekki vera við þegar forseti talaði til mín hér í sameinuðu þingi í dag. Ég lýsi furðu minni yfir því að hæstv. forseti skuli ekki vera við núna til þess að svara þeim óhjákvæmilegu leiðréttingum sem hann hlaut að vita að ég kæmi á framfæri úr því að hann sá og vissi að ég var staddur í húsinu og mátti heyra það sem forseti sameinaðs þings sagði.