Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Níels Árni Lund :
    Virðulegur forseti. Það hefur verið býsna fróðlegt að hlusta á þessa umræðu um álmálið svokallaða sem hófst sem utandagskrárumræða sl. mánudag en er nú orðin í bland umræða um skýrslu iðnrh. um stöðu samninga um fyrirhugað álver á Keilisnesi. Hv. 1. þm. Reykv. óskaði eftir þessari umræðu og markmiðið tel ég hafa verið það annars vegar að koma ríkisstjórninni í hár saman út af þessu máli og hins vegar, vonaði ég alla vega, að í ljós kæmi skýr stefna Sjálfstfl. til þessa máls. Hvorugt hefur nú samt tekist svo vel sé. Annars vegar er það að samstaða ríkisstjórnarinnar er nú líklega mun meiri en búist var við og ef marka mátti fjölmiðla og það sem hafði komið þar fram. Að vísu eru raddir eins og hér heyrðust í ræðustóli áðan að menn eru ekki allir sannfærðir enn þá og að sjálfsögðu gott að hlusta á varnaðarorð en alltént held ég að samstaðan sé þó meiri en búast mátti við og alla vega meiri en sjálfstæðismenn hafa líklega búist við.
    Í ræðum ráðherra og annarra stjórnarþingmanna hefur vissulega verið áherslumunur en langtum minni en ætla mátti. Helst hefur verið gagnrýnd málsmeðferð hæstv. iðnrh. og þá sér í lagi hvernig unnið var að ákvörðun um staðarval fyrirhugaðrar verksmiðju. Um þann þátt má í sjálfu sér hafa langt mál en óþarft í raun og veru þar sem svo margir hafa rætt þann kafla. Hins vegar vildi ég gjarnan koma hér upp sem fulltrúi Reykjaneskjördæmis og lýsa þá aðeins annarri skoðun varðandi fyrirhugað staðarval þessarar verksmiðju.
    Vissulega er full þörf á auknum atvinnutækifærum fyrir Suðurnesjamenn ekki síður en aðra landsmenn. Staðreyndin er að á svæðinu hefur helsti atvinnuvegur þess til fjölda ára, sjávarútvegurinn, dregist verulega saman, fiskiskipum hefur fækkað, fiskvinnslufyrirtækjum hefur verið lokað og afli seldur brott af svæðinu. Auðvitað hefur þetta veruleg áhrif á afkomu fjölda íbúa og margir þeirra líta vonaraugum ekki síður en aðrir landsmenn til atvinnutækifæra í fyrirhugaðri verksmiðju.
    Í annan stað er líka rétt að benda á að allar líkur eru til þess að verulegur samdráttur verði hjá þeim fyrirtækjum sem starfað hafa á Keflavíkurflugvelli, þessari ,,mjólkurkú`` á Suðurnesjum sem svo margir hafa talið Völlinn vera. Í hugum allt of margra er það svo að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum, þar sé Völlurinn, þar sé herinn og þar sé ætíð nóg atvinna. Þetta er í sjálfu sér alrangt. Vissulega hafa margir fengið þar atvinnu, Suðurnesjamenn sem aðrir, en komi til samdráttar í framkvæmdum er ljóst að fá eða engin atvinnutækifæri verða þar til staðar fyrir fjölda manns. Svo er skylt að geta þess einnig að fjölmargir vilja hvorki né geta fengið vinnu á þessum ágæta stað sem herinn stýrir. Það er því fullkomlega eðlilegt að fólk á Suðurnesjum líti vonaraugum til nýrra atvinnutækifæra á svæðinu og í hugum þess skiptir ekki máli hvort hv. þingmenn telja Keilisnes til Suðurnesja eða Seltjarnarness. Fólkið veit einfaldlega þá staðreynd að verksmiðjan yrði á atvinnusvæði þess og jafnframt að Keilisnes telst ótvírætt innan lögsögu byggða á Suðurnesjum.
    En það eru líka til staðir á hinu svonefnda höfuðborgarsvæði sem verða að treysta á ný atvinnutækifæri. Í því sambandi vil ég sérstaklega minna á þá staðreynd að nú nýverið bárust fréttir af því að enn ætti að selja fyrirtæki í sjávarútvegi brott úr Reykjaneskjördæmi og að þessu sinni Hvaleyri í Hafnarfirði með búnaði, skipi og aflakvóta og jafnframt að öllu fólki þar sé sagt upp frá og með áramótum. Vart trúi ég öðru en að það fólk sé nokkuð uggandi um framtíð sína. Það þarf nefnilega líka atvinnu eins og aðrir jafnvel þótt búsett sé á Suðurnesjum. Auðvitað skil ég vel áhyggjur manna á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem atvinnutækifæri vantar tilfinnanlega og ég get vel tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem telja að eitthvað verði að koma í staðinn svo að ekki komi til frekari byggðaröskunar. Á því máli verður núv. hæstv. ríkisstjórn og næstu hæstv. ríkisstjórnir að taka. Von mín er sú að með tilkomu nýs álvers skapist m.a. aukin tækifæri á smærri verksmiðjum á landsbyggðinni sem m.a. mundu nýta sér það hráefni sem álverksmiðjan mundi framleiða. Þetta vil ég láta koma fram af minni hálfu í þessum umræðum varðandi staðarvalið.
    Sé aftur litið til þeirrar umræðu sem hér hefur staðið yfir og stendur enn met ég það svo að málið sé í nokkuð góðum farvegi. Þegar er búið að ná samkomulagi um mikilsverða þætti og þá sér í lagi skattamálin og öðrum er verið að vinna að. Ég er sannfærður um að stjórnarliðar munu ná samstöðu um málið og afgreiða það fyrir áramót. Spurningin er hins vegar þessi: Hvað ætlar stjórnarandstaðan sér í málinu?
    Mér virðist afstaða Samtaka um kvennalista nokkuð skýr. Ekkert álver, punktur basta og útrætt mál. Við því er ekkert að segja og þar með er það afgreitt af þeirra hálfu. Aftur á móti þykir mér kynlegra að ekki komi greinilega fram, m.a. í þessum umræðum, af hálfu stærsta stjórnmálaflokks landsins, Sjálfstfl., skýr afstaða til þessa afmarkaða máls. Í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals aðfaranótt sl. þriðjudags taldi hann að öllum Íslendingum væri fullkunnugt um afstöðu síns flokks til stóriðju. Þ.e. að virkja skyldi fallvötn landsins og nota orku þeirra. Gat þingmaðurinn þess sérstaklega að þeirra stefna væri hin sama og Einars Benediktssonar skálds í þessum efnum. Nú, nú, allt um það og vera má að stefna Einars hafi verið ljós á sínum tíma, en því fer fjarri, að mínu mati, að menn séu nokkru nær um það hvort Sjálfstfl. standi að þessari fyrirhuguðu framkvæmd sem er nýtt álver á Keilisnesi. Það er nákvæmlega það atriði sem fróðlegt væri að vita, en enn hefur það ekki komið fram í umræðunni. Tekið skal fram að Sjálfstfl. ber engin skylda til að upplýsa afstöðu sína en vissulega væri fróðlegt að heyra hana. Enn hefur stefnan ekki komið í ljós þótt sex hv. þm. úr þeim flokki hafi talað.