Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Ellert Eiríksson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu, álmál, byggir fyrst og fremst á því að Íslendingar eru að velja sér leið til þess að koma þjóðarauð sínum með einhverjum hætti í verð. Í áranna rás hafa iðnaðarráðherrar gengnir á undan þeim hæstv. sem nú starfar leitað leiða til þess að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Markaðsnefnd iðnrn. hefur verið að leita að fyrirtækjum í ýmsum iðngreinum sem hafa viljað fjárfesta hér á landi. Niðurstaðan sem liggur fyrir í dag er sú að hagstæðast er að fjárfesta í áliðnaði.
    Það er ljóst að ekki allir þingmenn, og ekki allir landsmenn, eru sammála um að setja skuli meira fé eða meira af áhættu Íslendinga í áliðnað. Það fer þó ekki hjá því að stór hluti landsmanna er því sammála að svo skuli gert. Menn telja að hér hafi ekki verið hlaupið að ákvörðun, hún hafi verið vel athuguð, hún sé vel ígrunduð, og þetta er niðurstaða sem stærsti hluti þjóðarinnar sættir sig við.
    Þá kemur að hinu. Hvað er það sem við eigum að fá í staðinn fyrir að setja á stofn álver á Íslandi? Hvað erum við að selja? Við erum að selja raforku, við erum að selja fallvötn þjóðarinnar og við erum að selja vinnuafl þjóðarinnar. Það er það sem við bjóðum upp á fyrst og fremst. Tölur um atvinnuleysi gera það að sjálfsögðu að kröfu hvers tíma til þingmanna og annarra að við leitum leiða til að selja vinnuafl sem er á lausu jafnt og fallvatn sem rennur óbeislað til sjávar. Ef það getur bætt stöðu þjóðarbúsins finnum við leið til að selja þá orku sem þar rennur óbeisluð.
    Ég á heima á Suðurnesjum og hef því ekki farið varhluta af því að hreppapólitísk sjónarmið og annarleg mörg hafa verið sett fram í þessu máli. Hér setja sumir hv. þm. fram þá staðreynd að þeir telji að Suðurnes séu á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að hryggja menn með því að Suðurnesjamenn vilja ekki enn þá telja sig til höfuðborgarinnar. Þeir eru jú landshlutinn vestast á Reykjanesskaganum og hafa verið þar a.m.k. frá því að land byggðist, Suðurnesjamenn en ekki Reykvíkingar. Við erum í landnámi Ingólfs, það er ljóst. Ef það er þess vegna einhver grundvöllur til niðurstöðu í þessu máli að álver skuli rísa á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu tel ég að vel megi fallast á það, eins og hæstv. forsrh. segir, að við drögum línuna við Straumsvík. Þá er álverið á Keilisnesi á landsbyggðinni.
    Í mínum huga er það hins vegar ekki grundvallaratriði að álver sé á landsbyggðinni. Grundvallaratriði er að iðjuver, eins og í þessu tilfelli álver, sé staðsett á þeim stað á landinu þar sem það gefur mesta hagnaðarvon og með leyfi forseta vil ég aðeins lesa hér örstutt á bls. 37, niðurstöðu um staðarval, í skýrslu iðnrh. Þar segir svo:
    ,,Ekki er unnt að andmæla því áliti fyrirtækjanna að rekstraröryggi álversins yrði best tryggt á Keilisnesi. Álver þar mun væntanlega skila meiri arði en álver sem reist yrði við Dysnes eða í Reyðarfirði. Skatttekjur af rekstri þess yrðu því meiri ef það rís á Keilisnesi. Það virðist ljóst að ekki geti tekist samningar nema um að velja hagkvæmasta staðinn sem jafnframt felur í sér minnsta áhættu.``
    Hér hafa menn fjallað um að áhætta sé af þessum samningum, þeir séu svo mjög á hálum ís og þunnum að það sé varla af þeim arður. Er hægt að búast við því, ef valinn verður staður nr. 2 eða nr. 3 í hagkvæmni, að við getum fengið meiri arð en ef við veljum besta staðinn? Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að fyrst veljum við stað ef við á annað borð ætlum að reisa álver. Í þessu tilfelli, sem hér er til umræðu, hafa menn komist að raun um það, bæði íslenskir og erlendir aðilar, að hagkvæmast, hvað varðar skattalegt tillit, hvað varðar afrakstur af fyrirtækinu, sé að reisa það á Keilisnesi.
    Þá kemur hinn þátturinn, að þeir sem tala hér gegn þessu máli geta að sjálfsögðu sagt, og ég tek fullkomlega tillit til þeirra skoðana, að við eigum ekki að reisa álver, við eigum ekki að fjárfesta í áliðnaði. Það er sjónarmið. En ef við erum með það sjónarmið að réttlætanlegt sé að fjárfesta í áliðnaði og það sé þá skásti kosturinn sem við höfum í dag hlýtur það að vera svo að sé farið með þetta fyrirtæki á annan stað á landinu verði hagurinn minni.
    Ég geri mér grein fyrir því, að sjálfsögðu, að landið getur snarast ef vöxtur höfuðborgarsvæðisins heldur áfram sem horfir. En þá er það spurningin, og ég spurði mann á Húsavík: Er það Húsvíkingum hagstætt ef álver rís á Dysnesi? Mun það stöðva flóttann frá Kópaskeri, Raufarhöfn eða Húsavík? Hann sagði nei. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að íbúar þessara bæja sem flyttust til Eyjafjarðarsvæðisins mundu verða eftir í Norðurlandi eystra. Þeir mundu hins vegar ekki vera bústoð eða búhnykkur í þeim byggðarlögum sem þeir bjuggu í fyrr og hlytu því að verða eftir óseljanlegar fasteignir í öðrum byggðarlögum á landinu þó svo álver hefði verið reist á Dysnesi.
    Niðurstaðan af þessu sem hér liggur fyrir er sú að vesturhluti Reykjanesskagans, Keilisnesið, hefur verið valinn. Iðnrh. hefur undirritað áfangasamning í þessu máli við Atlantsálsfyrirtækið. Þetta liggur fyrir. Hvernig svo vandamál ríkisstjórnarinnar, hvort iðnrh. hafi haft til þessa umboð eða hvað hann er að gera, hvort hann eða aðrir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn eru sammála því sem hann er að gera, verður ríkisstjórnin að sjálfsögðu að gera upp við sig sjálf. Hins vegar af þeirri þekkingu og því sem ég hef komist í kynni við þetta mál hefur iðnrh., hvað mig varðar, unnið mjög vel í þessu máli. Samskipti okkar Suðurnesjamanna, ég þekki þau náttúrlega frá þeirri hlið, við starfsmenn ráðuneytisins, starfsmenn markaðsskrifstofunnar og fleiri hafa verið fagleg og góð.
     Það er reynt að telja mönnum trú um það að annarleg sjónarmið hafi ráðið gerðum iðnrh. eða þeirra og þeir hefðu valið Keilisnes fyrir löngu síðan, þeir hafi verið að blekkja landsbyggðarmenn með því að halda fram einhverju öðru. Það má vel vera, ég ætla ekki að draga fjöður yfir það, að þetta séu hugsanir iðnrh. og hafi alla tíð verið, hann hafi alla tíð ætlað

að velja Keilisnes. Það má vel vera. Ég hef ekki spurt hann að því sjálfur. Ég veit þó annað frá aðilum sem eru erlendir og eru að staðsetja álver á Íslandi og hafa tekið þátt í því.
    Um mitt þetta ár átti ég viðræður við einn af þeim starfsmönnum sem tóku þátt í staðarvalinu. Þá segir hann í trúnaðarsamtali, sem er náttúrlega ekki trúnaðarsamtal lengur, að Reyðarfjörður sé hvað þá varðar, hina erlendu aðila, mjög líklega út úr myndinni, vegna mannfæðar á því svæði. Inni í myndinni þá, á miðju sumri, í hugum þessara erlendu aðila eru bæði Dysnes og Keilisnes. Þetta samtal fór fram á flughótelinu í Keflavík. Þetta var ekki iðnrh. að segja mér þetta, þetta voru engir Íslendingar, þetta voru staðarvalsmenn Atlantsálshópsins. Og þá kom hvað þyrfti að gera til þess að álver risi á öðrum hvorum þessum stað. Það hefur komið hér fram að það er ekki, að þeirra mati, jafnhagstætt að reisa álver á Dysnesi eins og Keilisnesi. Hins vegar, væri meðgjöf með upp á nokkra milljarða, ótilgreinda, mætti vel skoða það að færa risaálverið á Dysnesið. ( Gripið fram í: Einn milljarð samkvæmt skýrslu sem þú vitnar í.) Gott og vel, einn milljarð. Þá get ég bara sagt hv. þm. hvað þessi ágæti herramaður sagði: 6 milljarðar lágmark. Hvernig hann fékk töluna er svo hans mál. En það er verulegur kostnaðarmunur þar á.
    Síðan kemur hitt sem ekki er kannski síður mikilvægt. Hvað verður næsta skref Íslendinga í atvinnumálum? Verður það álver eða verður það eitthvert annað iðjuver? Ætlum við að selja meiri raforku til stóriðju? Ef við gefum okkur það að næsta og þriðja skrefið yrði álver og staðsett hefði verið á næstbesta stað, sem nú er til umræðu, hver hefði samkeppnisaðstaða þessa fyrirtækis sem hér er til umræðu, Atlantsáls, verið? Að sjálfsögðu gefa þeir ekki kost á því að ræða annað en að velja besta stað.
    Niðurstaðan af þessu er einfaldlega sú að þetta hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt, ef við lítum á síðustu línu á bls. 37 í niðurstöðu um staðarval, með leyfi forseta: ,,Því er gert ráð fyrir að ATLANTSÁL rísi á Keilisnesi.`` Ég held að öllum sé ljóst að grundvallarforsendur fyrir því að hámarksafrakstri af auðlindum landsins verði náð eru að reisa álver á Keilisnesi.