Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það kemur auðvitað ekki á óvart að hæstv. forsrh. hafi ekki tíma til að vera hér við þessa umræðu og má kannski einu gilda, en ég hélt að ég hefði komið þeirri beiðni mjög skýrt til hæstv. forseta að ég óskaði eftir því að hann yrði viðstaddur þessar umræður, sér í lagi vegna þess að komið hafa upp mismunandi fullyrðingar milli einstakra ráðherra um það hvaða ákvarðanir hafa verið teknar í ríkisstjórn og hvernig þetta mál standi þar. Sýnir þetta einungis að stjórn þingsins er það slöpp að hún ræður ekki við einstaka ráðherra og getur ekki séð til þess að nauðsynleg svör séu gefin hér á hinu háa Alþingi þegar mál eru tekin til meðferðar. Raunar er svo komið í formlegum fyrirspurnatímum á Alþingi að forseti þingsins telur sig ekki hafa neinar skyldur við þingmenn til að knýja fram svör frá framkvæmdarvaldinu ef einstakir ráðherrar neita að svara beinum fyrirspurnum sem til þeirra er beint með þinglegum hætti. Við það verður að sitja um sinn.
    Ég vil spyrja hæstv. landbrh. að því hvort það hafi verið rétt skilið þegar ég hlýddi á ræðu hans hina fyrri sl. mánudag að engin ákvörðun hafi verið tekin í ríkisstjórninni um það hvar álverinu yrði valinn staður. Ég vakti athygli á þessu atriði á þriðjudagsnótt. Hér inni er hæstv. iðnrh. og hann vék ekki einu einasta orði að þessu sérstaka atriði í ræðu sinni hér áðan. Hann gerði mikið úr því hversu merkilegt starf hans hefði verið í sambandi við það að reyna að koma álverinu út á land. Við sjáum nú hver niðurstaðan í því er.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir er tekið fram í niðurstöðum sem eru á síðustu prentuðu síðunni að það sé álit ráðgjafarnefndar um umhverfisáhrif iðjuvera að umhverfisröskun við byggingu og rekstur álvers verði minnst á Keilisnesi, nokkru meiri í Eyjafirði en mest í Reyðarfirði. Síðan segir orðrétt:
    ,,Talsverður munur er að þessu leyti á tveimur fyrrnefndu stöðunum og Reyðarfirði. Miðað við þá vitneskju sem nefndin hefur aflað sér þá er það álit hennar að með byggingu álvers af þessari stærð í botni Reyðarfjarðar væri tekin meiri áhætta en svo, að það teldist verjandi.``
    Ég veit ekki hvort ég átti að skilja ummæli hæstv. iðnrh. svo að honum hafi verið ókunnugt um þessa niðurstöðu nefndarinnar á fundi Fjórðungssambands Norðlendinga síðustu helgina í ágústmánuði. Ég efast satt að segja um að svo sé. Það má vel vera að þessi nefnd, umhverfisnefndin, hafi haldið þessum heimildum fyrir ráðherranum. Það getur líka vel verið að hæstv. ráðherra hafi ekki séð ástæðu til þess að spyrja nefndina að hvaða niðurstöðu hún hefði komist áður en hann fór norður til Sauðárkróks. En eftir þeim upplýsingum sem við þingmenn Norðurl. e. höfum eftir fund okkar í byrjun ágústmánaðar með formanni ráðgjafarnefndar og ýmsum öðrum fulltrúum iðnrn. lá þá ljóst fyrir í hugum þeirra manna að Reyðarfjörður væri ekki inni í myndinni. En ég skildi hæstv. iðnrh.

svo að honum hefði ekki verið kunnugt um þessa niðurstöðu umhverfisnefndarinnar fyrr en í septembermánuði, kannski ekki fyrr en í október. Það er svo að skilja. Auðvitað er ekkert við því að segja. Hann hafði falið öðrum mönnum að fylgjast með þessu starfi og kannski þess vegna ekkert við því að segja þó að honum hafi verið ókunnugt um þessa niðurstöðu umhverfisnefndar.
    Ég vil í öðru lagi segja að ekki hefur verið upplýst nú við umræðurnar af einstökum ráðherrum hvort það sé rétt sem fleygt hefur verið að innan ríkisstjórnarinnar hafi menn verið þeirrar skoðunar, kannski forsrh., kannski fleiri ráðherrar, að orkusamningarnir væru í höndum stjórnar Landsvirkjunar. Hins vegar hefur verið upplýst að stjórn Landsvirkjunar var synjað um upplýsingar þó svo að formaður stjórnar Landsvirkjunar væri sami maður og formaður ráðgjafarnefndar. Það er því alveg ljóst að hæstv. ráðherra vildi ekki leyfa stjórn Landsvirkjunar að fylgjast með þeim upplýsingum sem fengust í viðræðum við hina erlendu viðsemjendur. Það er líka ljóst og hefur verið yfirlýst af tveimur fulltrúum í ráðgjafarnefndinni að iðnrh. hafði synjað þeim um upplýsingar vegna þess að þessi samningsgerð átti að vera í höndum stjórnar Landsvirkjunar.
    Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. landbrh. hvort það sé rétt skilið hjá mér í fyrsta lagi að ríkisstjórnin hafi ekki gengið frá staðarvalinu með formlegum hætti. (Gripið fram í.) Það er rétt skilið. Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir stendur á hinn bóginn að samningar hafi verið gerðir við sveitarfélög á Suðurnesjum um að miða fasteignagjöld við fasteignamat álvers sem jafngildi 160 millj. Bandaríkjadala í ísl. kr. og fleiri setningar lúta að því að búið sé að ná samkomulagi við sveitarfélögin á Suðurnesjum um einstök atriði varðandi samskipti þeirra við álverið og ég held að af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. iðnrh. um það hvort þeir samningar hafi þá verið gerðir með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar eða hvort hæstv. iðnrh. telji sig hafa heimild til bindandi samkomulags af þessu tagi óháð því hvað ríkisstjórnin samþykki en bindi sig eingöngu við Alþingi í þeim efnum og þær samþykktir sem Alþingi kann að gera. Ef svo er er það auðvitað yfirlýsing um að iðnrh. telur sig hafa heimild til þess að fara með þetta mál í trássi við ríkisstjórnina og telur sig ekki þurfa að starfa í umboði hennar að samningagerð við hina erlendu aðila eða íslensk sveitarfélög ef svo stendur á.
    Nú hefði auðvitað verið fróðlegt, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. hefði getað verið hér við til þess að kveða upp úr um það hvernig hann lítur á þetta mál. Hér liggur fyrir skýrsla iðnrh. sem er lögð fram sem stjfrv., og þess vegna hlýtur samþykki ríkisstjórnarinnar að vera á bak við þessa skýrslu, um að staðurinn sé ákveðinn. Þetta er formleg skýrsla ráðherra borin fram í umboði ríkisstjórnar. Ráðherra, sem hér er staddur í salnum, segir á hinn bóginn að ríkisstjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um staðarvalið og eins og ég sagði hér um nóttina hefur það vakið athygli að

hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson hefur gaman af því að gera því skóna í sínu austfirska málgagni að Alþingi geti tekið völdin af iðnrh. í þessu máli.
    Það er annað atriði sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á og það er spurningin um hvort hinum erlendu aðilum sé heimilt að vísa ágreiningi sem upp kemur til alþjóðlegs gerðardóms, eins og stundum er komist að orði, en slíkt ágreiningsefni verði ekki endilega leyst fyrir íslenskum dómstólum. Á bls. 12 í skýrslu iðnrh. undir staflið j stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Íslensk lög verði ráðandi um túlkun og framkvæmd samninga og að ágreiningsmál verði almennt leyst samkvæmt íslenskum lögum fyrir íslenskum dómstólum eða gerðardómi samkvæmt íslensku gerðardómslögunum.``
    Þetta orð ,,almennt`` hefur í þessu samhengi samkvæmt minni málvitund merkinguna yfirleitt. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvernig beri að skilja orðið almennt í staflið j. Þýðir ,,almennt`` í þessu sambandi ávallt eða þýðir það yfirleitt? Það er þetta sem mér þætti nauðsynlegt að fá upplýsingar um.
    Víðar er talað um gerðardóm í þessari skýrslu. Stundum er tekið fram að heimilt sé að skjóta máli til gerðardóms samkvæmt íslensku gerðardómslögunum. Stundum er látið við það sitja að tala um gerðardóm. Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort það beri að skilja svo að þegar talað er um gerðardóm í þessu samkomulagi sé ávallt átt við íslenskan gerðardóm samkvæmt íslensku gerðardómslögunum eða hvort samkomulag hafi orðið um það að ágreiningsmál verði lögð fyrir alþjóðlegan gerðardóm undir einhverjum mjög sérstökum kringumstæðum sem hljóta þá að vera nákvæmlega skilgreindar.
    Ég tel nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þetta komi fram. Í fyrsta lagi virðist það liggja fyrir, a.m.k. varðandi Reyðarfjörð, að vitneskja um að álver gæti ekki risið þar af mengunarástæðum hefur legið fyrir mjög lengi. Í öðru lagi virðist ljóst að innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um það hvar álver skuli vera og engin samþykkt hefur verið gerð innan ríkisstjórnarinnar um það að álver rísi á Keilisnesi. Í þriðja lagi vil ég óska eftir að fá upplýsingar um þessi sérstöku atriði.
    Ég læt svo að síðustu aðeins í ljós þá skoðun að erfitt sé fyrir einstaka þingmenn að glöggva sig á öllum staðreyndum þessa máls. Ég fór t.d. fram á það í byrjun ágústmánaðar að fá, sem þingmaður Norðurl. e. og fyrir hönd Sjálfstfl., send þau gögn sem þá lágu fyrir varðandi staðarval og var vel tekið í það. Síðan eru liðnir tveir mánuðir rúmir og mér hafa ekki borist gögnin enn, þannig að vilji ráðherra virðist ekki standa til þess að einstakir þingmenn stjórnarandstöðu fái sömu gögn í hendur varðandi álmálið og dreift er meðal stjórnarþingmanna.