Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Ævintýrið um Münchausen barón þar sem hann dró sjálfan sig og hest sinn upp á hárinu er einhver ágætasta lýsing á sjálfumgleði sem um getur. Ævintýri eru að sjálfsögðu góðra gjalda verð, en þegar menn fjalla um stjórnmál fer betur á því að menn haldi sér að raunveruleika og staðreyndum. Nú hefur verið flutt stefnuræða hæstv. ríkisstjórnar. Hún fól í sér, að mínu mati, of margar tilraunir til þess að búa raunveruleika og staðreyndir í ævintýrabúning. Lítum á nokkur dæmi:
    Að sönnu hefur rofað til í íslenskum þjóðarbúskap þó enn séu dökkar blikur á lofti. En hvers vegna? Fyrir tveimur árum, á árunum 1987 og 1988, mættum við miklum ytri erfiðleikum, Íslendingar. Það varð verðfall á afurðum okkar á erlendum mörkuðum og gengisþróun gekk okkur á móti. Fyrir vikið lentu íslensk útflutningsfyrirtæki í verulegum erfiðleikum. Í dag hefur þetta snúist við. Það er ekki einasta að verð hafi hækkað á erlendum mörkuðum heldur er það nú hærra en nokkru sinni fyrr og gengisþróun á mikilvægustu mörkuðum okkar í Evrópu hefur gengið okkur í haginn. Þetta eru staðreyndir. Þetta er raunveruleiki þegar ævintýraljóminn hefur verið dreginn frá.
    Annað atriði sem skiptir máli í þessu sambandi er frumkvæði
forustumanna launþega og atvinnurekenda fyrr á þessu ári þegar þeir tóku völdin af ríkisstjórninni og sögðu sem svo: Við sættum okkur ekki lengur við þá efnahagsstefnu sem hér er fylgt og þá verðbólgu sem fylgir í kjölfarið og þá miklu kaupmáttarrýrnun sem af henni hlýst. Og þeir gerðu þjóðarsátt sem hefur leitt til þess að kaupmáttarrýrnunin varð minni á þessu ári en að var stefnt og verðbólgan er komin á viðráðanlegt stig. Þetta er annað dæmi um raunveruleika þegar ævintýraljómanum er varpað frá.
    Að sönnu er það einnig rétt sem fram kemur að það var ágreiningur í fyrri ríkisstjórn um aðgerðir í efnahagsmálum. Við sjálfstæðismenn lögðum þá til að ytri vandamálum, ytri áföllum sem þjóðarbúið varð fyrir yrði mætt með markvissum aðgerðum. Þar lögðum við fram heildstæðar tillögur sem m.a. byggðu á því að aðlaga gengi krónunnar að þeim veruleika sem við stóðum þá frammi fyrir. Þeim tillögum var hafnað. Það var mynduð ný ríkisstjórn og formaður Framsfl. lýsti því yfir að hún byggði á þeirri hugsun að falla frá viðurkenndum vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála. Og það voru innleiddir nýir millifærslusjóðir sem við höfðum ekki kynnst áratugum saman.
    En hver er nú afleiðingin af því að menn fengust ekki til þess að taka með raunhæfum hætti á aðsteðjandi vanda fyrir tveimur árum og fóru inn á millifærsluleiðir? Afleiðingin er í fyrsta lagi sú að framleiðni hefur verið minni en ella í íslenskum atvinnuvegum. Hagvöxturinn hefur af þeim sökum verið minni og kaupmáttarrýrnunin varð af þeim sökum meiri. Til viðbótar hafa erlendar skuldir vaxið. Það hefur verið sett nýtt Íslandsmet í söfnun erlendra

skulda sem eru komnar yfir 50% af landsframleiðslu en áður hafði tekist að koma þeim niður í 40%. Og síðast en ekki síst er afleiðingin af þessu sú að skattgreiðenda bíður að taka á sig í millifærslusjóðunum a.m.k. 5 milljarða kr. af óleystum vanda að kosningum loknum. Það er hefðbundin afleiðing stjórnaraðgerða af þessu tagi.
    En þó þannig séu stigin víxlspor skiptir hitt miklu meira máli að nú ríkja frjálslyndir vindar. Það er almenn samstaða um frjálslynd viðhorf við stjórn efnahagsmála. Formælendur miðstýringar og forsjárhyggju eru smám saman að gera sér grein fyrir því að þeir hafa áratugum saman haft rangt fyrir sér.
    Fyrir fimm árum höfðum við sjálfstæðismenn forustu um margvíslegar breytingar í stjórn efnahags - og atvinnumála. Það var samþykkt ný, frjálslynd bankalöggjöf. Það voru opnaðir möguleikar fyrir ný þjónustufyrirtæki í fjármagnsviðskiptum. Bankar og peningastofnanir fengu frelsi til að ákveða vexti með tilliti til markaðarins. Fyrsta ríkisbankanum var breytt í hlutafélag. Það var ákveðið að hefja umbyltingu skattkerfisins í nútímahorf og fyrsta stóra skrefið í því efni var að taka hér upp staðgreiðslu skatta samhliða verulegri lækkun tekjuskatta einstaklinga. En úrtöluraddirnar voru margar og úrtöluræðurnar voru margar. Þær voru allar efnislega samhljóða úrtöluræðum sem fluttar voru fyrir 30 árum þegar viðreisnarstjórnin afnam verslunarhöftin. Sumir tóku stórt upp í sig, aðrir ekki. Sumir tóku svo stórt upp í sig að þeir sögðu: ,,Róm brennur.`` En jafnvel þeir sem þannig töluðu urðu á síðasta þingi að standa að því að leggja hér fyrir Alþingi skýrslu frá Seðlabankanum þar sem sagði að þessar breytingar á fjármagnsmarkaðnum sem gerðar voru væru forsenda fyrir því að nú erum við loks að eygja það að ná viðunandi jafnvægi á fjármagnsmarkaði. Þannig verða jafnvel úrtölumennirnir að viðurkenna smám saman að þeir höfðu rangt fyrir sér. Og það sem máli skiptir í dag er að nýta þá miklu samstöðu um aukin frjálslynd viðhorf við stjórn efnahagsmála. Horfa fram á veginn. Gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að skila Íslandi inn á nýja öld. Gera okkur grein fyrir því á hvaða verkefnum við þurfum að taka og með hvaða hætti við þurfum að stjórna efnahagslífinu á næstu árum til þess að við náum markmiðum okkar.
    Við höfum verið að staðna. Íslenskur þjóðarbúskapur er í stöðnun. Hagvöxtur er hér minni en annars staðar og það eru horfur á því að kaupmáttur minnki hér á næstu árum meðan hann vex annars staðar. Efnahagssérfræðingar halda því fram að við séum að falla úr hópi A - þjóða í lífskjörum niður í hóp C - þjóða um næstu aldamót. Við viljum ekki að þetta gerist. Og við vitum að við höfum tækifæri og möguleika til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Hvað eigum við þá að taka til ráða?
    Í fyrsta lagi þurfum við að leggja höfuðáherslu á, til að lyfta Íslandi úr fari stöðnunar inn á braut hagvaxtar og framfara, að tryggja að sú verðbólguhjöðnun, sem orðið hefur fyrir frumkvæði aðila vinnumarkaðarins, verði að varanlegum veruleika en ekki tímabundnu fyrirbrigði.
    Í öðru lagi þurfum við að opna hagkerfið meira og draga úr miðstýringu. Það er of mikil miðstýring í höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, bæði landbúnaði og sjávarútvegi, sem heftir framför þessara atvinnugreina. Og það hefur skort á að mótuð hafi verið heilstæð stefna í sjávarútvegsmálum. Á öllum þessum sviðum þurfum við að fylgja eftir hugmyndum um aukið frjálsræði.
    Í þriðja lagi þurfum við að koma í veg fyrir áframhaldandi skattahækkanir núv. hæstv. ríkisstjórnar. Hún hefur nú þegar hækkað skatta um 13 milljarða kr. Og ráðherrarnir veifa nú villandi samanburði um skatta á Íslandi og í öðrum löndum í þeim tilgangi að undirbúa frekari skattahækkanir. Einn ráðherranna hefur þegar viðurkennt að til þess að ná áformum ríkisstjórnarinnar um aukin ríkisútgjöld þurfi að hækka skatta um 6 -- 9 milljarða kr. Og útreikningar benda til þess að skattar á hverja fjögurra manna fjölskyldu muni hækka um 400.000 kr. á næstu tíu árum ef fram heldur sem horfir.
    Ef þetta verður þá er dregið úr möguleikum okkar til þess að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu. Þá getum við ekki hafið hér nýtt hagvaxtarskeið og stoðum er kippt undan velferðarþjóðfélaginu. Þess vegna þarf að koma í veg fyrir þessi áform. Þess vegna þarf að hafna ósk ríkisstjórnarinnar um endurnýjað umboð í næstu kosningum því ella heldur þessi skattaáþján áfram.
    Fjórða atriðið sem skiptir sköpum um það hvort við getum lyft Íslandi úr fari stöðnunar inn á braut framfara og hagvaxtar eru ákvarðanir um það hvernig við tengjumst nýrri Evrópu. Í þeim efnum þurfum við að leggja áherslu á þetta fyrst og fremst: Í fyrsta lagi að tryggja hindrunarlausan aðgang fyrir íslenskar afurðir, og fyrst og fremst sjávarafurðir, inn á þennan mikilvægasta markað okkar. Og í öðru lagi að tryggja að hér á landi gildi sömu leikreglur við stjórn efnahags - og atvinnumála og annars staðar í Evrópu því ella einangrumst við og drögumst aftur úr. Og í þriðja lagi skiptir það sköpum að tryggja áfram full og óskoruð yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni. Þetta eru meginatriðin.
    Fyrir ári síðan í umræðum um stefnumörkun gagnvart Evrópubandalaginu vöktum við sjálfstæðismenn athygli á því að engir mundu betur sjá um að gæta íslenskra hagsmuna en við sjálfir. Við töldum þess vegna eðlilegt að hefja sérstakar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið til að gæta þeirra hagsmuna. Þá var blásið á þau viðhorf. Nú viðurkenna allir að þau voru rétt og nauðsynleg. Nú viðurkenna menn að hugmyndin um evrópska efnahagssvæðið verður annaðhvort bráðabirgðalausn, stökkpallur fyrir hinar EFTA - þjóðirnar til fullrar aðildar, ellegar hún verður að engu. Við þurfum því á þessum tímamótum að huga að því hvernig við ætlum að skipa okkur í hóp Evrópuþjóða til lengri framtíðar.
    Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé kominn tími til að kveða upp úr um það með hvaða hætti við eigum endanlega að skipa okkur þar í sveit. En við þurfum

að taka á því verkefni í ljósi nýrra viðhorfa með opnum huga. Ef við ætlum að loka okkur af, ef við ætlum að útiloka fyrir fram einhverja kosti í þeim efnum, þá erum við fyrst og fremst að þrengja samningsstöðu okkar og gera það ólíklegra að við náum settum markmiðum.
    Ég tók eftir því á nýafstöðnu þingi Alþfl. að þar var mörkuð ábyrg, skynsamleg, opin, frjálslynd stefna í þessum efnum. En hvernig svaraði forsrh. þessari stefnumörkun? Hann svaraði með því að ítreka hin þröngsýnu, lokuðu viðhorf Framsfl. og sendi samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn jafnt sem andstæðingum á þingi hnútur fyrir vikið. En þetta hefur varpað ljósi á það að höfuðflokkar ríkisstjórnarinnar byggja viðhorf sín í þessu efni á ólíkum viðhorfum.
    Ég er þeirrar skoðunar að slík ríkisstjórn sé ekki líklegust til að leiða þessi mál til farsælla lykta fyrir okkur. Þvert á móti þurfum við nú að nýta það mikla bil, sem frjálslynd viðhorf hafa í þjóðfélaginu, til þess að efla þá til samstöðu sem eru reiðubúnir með opnum huga til að takast á við þessi verkefni í þeim tilgangi að lyfta íslenskum þjóðarbúskap úr stöðnun inn á braut hagvaxtar og framfara. Og við þurfum að gera heldur meira en þetta. Við þurfum að lyfta íslenskum stjórnmálaumræðum úr því fari sem þær hafa verið. Við þurfum að hefja nýtt gildismat í þeim efnum til vegs. Við þurfum að leggja meiri áherslu á orðheldni, trúnað og traust en víkja í burtu skrumi, skrautsýningum og ævintýrasögum. --- Góðar stundir.