Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Síðasta laugardag svaraði fyrrverandi, og að eigin sögn tilvonandi, forsætisráðherra landsins spurningum sem fyrir hann voru lagðar í útvarpsþætti. Hann var spurður þeirrar grundvallarspurningar hvort hann kynni að festa tölu og svaraði hann því neitandi. Ekki kvaðst hann heldur vera liðtækur við matseld. Hins vegar vafðist ekki fyrir honum að svara því játandi að hann teldi að hann yrði næsti forsætisráðherra að loknum kosningum á vori komanda.
    Þessi svör leiða hugann að því hvað það er mótsagnakennt að geta ekki sinnt eigin frumþörfum en telja sig þess umkominn að ráða fyrir öðrum í stóru og smáu.
    Ekki ætla ég að vera með neinar getgátur um það hvort núverandi forsætisráðherra er jafnbjargarlaus og sá fyrrverandi, en óneitanlega verður maður þess oft áskynja hvað valdsmenn landsins eru tengslalausir við daglegt líf og kjör þorra landsmanna og stjórnunaraðferðir þeirra endurspegla það svo sannarlega.
    Stefnuræða hæstv. forsrh. er glöggt dæmi þar um. Mótsagnirnar eru himinhrópandi, eða réttara sagt það hvað dregið er fram í dagsljósið, sjálfum sér til dýrðar og hvernig það gleymist sem gæti varpað skugga þar á. Alls staðar er dreginn taumur hins sterka, ekki minnst á þann veika. Það kynni þó ekki að vera orsökin fyrir þessari lífssýn að tengslin vantar? Í líkingum talað að hvorki hann né sumir samráðherra hans kunni að festa tölu.
    Sá sem hvorki kann né þarf að sinna eigin frumþörfum, að ég tali nú ekki um annarra, er vís til að loka augunum fyrir mikilvægi þess að þeim sé fullnægt. Finnst sjálfsagt að það sé í annarra verkahring svo hann geti sjálfur gengið ótruflaður að öðrum störfum sem hann álítur merkilegri. Þannig skiptir hann lífinu niður í hólf, sér ekki samhengið á milli, missir öll tengsl, opnar bara þau hólf sem hann þekkir og skilur og sinnir þeim málefnum sem þar eru geymd. Hin hólfin eru rammlæst og jafnvel gleymd. Þessi hólfaða hugsun er stórhættuleg, skekkir alla sýn, veruleikinn brenglast og menn lifa í ímynduðum veruleika, sjá það sem þeir vilja sjá, annað ekki. Slíkt leiðir til valdhroka, ef ekki beinlínis valdníðslu eins og dæmin sanna.
    Nærtækasta dæmið eru náttúrlega bráðabirgðalögin sem sett voru í ágúst sl. til að ómerkja samning ríkisvaldsins og BHMR. Hæstv. forsrh. sagði að ríkisstjórnin hefði ekki átt annarra kosta völ. Hún tekur sér sjálfdæmi, skeytir ekki um niðurstöðu dómstóla og fótumtreður lög um samningsrétt. Í einu hólfinu var sem sagt líf ríkisstjórnarinnar og þjóðarsáttarinnar svokölluðu en hólfið sem hafði að geyma lýðræði og mannréttindi var lokað og gleymt.
    Ríkisstjórn sem ástundar svona vinnubrögð er til alls vís og enginn veit hvar hún ber niður næst eða hvað ríkisstjórnir framtíðarinnar kunna að gera í skjóli þessa fordæmis ef þetta verður látið óátalið. Verður e.t.v. ákveðið að ekki skuli greitt fæðingarorlof, vegna

þess að það sé of dýrt, eða að lækka skuli ellilífeyri og örorkubætur, eða að nemendur greiði skólagjöld í menntastofnunum landsins? Hver veit hvað verður næst?
    Það skyldu þeir hafa í huga sem hlakka yfir því að hálaunafólkið í BHMR fékk ekki umsamda launahækkun að þetta mál snýst ekki um krónur heldur um grundvöll lýðræðis og mannréttinda. Það er valdníðsla og siðblinda og ekkert annað að taka sér þennan rétt sem ríkisstjórnin gerði, að ákveða undir þessum kringumstæðum að hún ætti ekki annarra kosta völ.
    En víkjum aftur að hólfum. Þegar hæstv. forsrh. hafði lokað hólfinu með bráðabirgðalögunum sem ómerktu langvinna kjarabaráttu háskólamenntaðs fólks opnaði hann næsta hólf og fór að tala um mikilvægi þekkingar og sagði nútímakjör byggja á henni. Lét í ljósi áhyggjur af þekkingarflótta sem mundi leiða til lakari lífskjara. Ekki eru nú samgöngur greiðar milli hólfanna.
    Hæstv. forsrh. verður tíðrætt um þann árangur sem náðst hefur í stjórn efnahagsmála. Efnahagsmál heimilanna eru greinilega í rammlæstu hólfi því ekki er minnst einu orði á jafnvægisleysi þar. Ekki varð vart við áhyggjur af því að stöðugt fjölgar þeim sem þurfa að leita á náðir félagsmálastofnana um allt land. Fjölgunin er sums staðar talin í tugum prósenta. Fullfrískt vinnandi fólk getur ekki einu sinni séð sér farborða í þessu efnahagsjafnvægi. Gjaldþrotum fjölgar, ekki bara fyrirtækja heldur líka heimila og þau gjaldþrot eru líka alvarleg. Ekki hafa heimilin neina opinbera sjóði til að sækja í til að halda sér gangandi, enda væri það líka í hæsta máta óeðlilegt því fólk á að geta framfleytt sér á launum sem það fær fyrir vinnu sína. Auðvitað má í sumum tilfellum kenna um eigin óráðsíu og ofneyslu, líkt og gerist hjá sumum fyrirtækjum, en það er ekki einhlít skýring.
    Það má nema þann fróðleik í nýútkominni þjóðhagsáætlun að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi rýrnað um 3% á árinu 1988, um 10% á árinu 1989 og talið er að hann rýrni um 3,5% milli áranna 1989 og 1990. Þarna er auðvitað um meðaltalstölur að ræða því í svona skýrslum er ekkert verið að fjölyrða um það hverra kaupmáttur rýrnaði mest, né hverjir máttu síst við þessari rýrnun en urðu samt að þola hana. Tekjuskiptingin er ekki til umræðu enda í hólfi sem ekki er vert að opna. Þá skekkist myndin fallega um of. Sannleikurinn er auðvitað sá að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu er óþolandi, bæði hvað varðar skiptingu milli stétta og kynja. Það eru þeir sem síst skyldi sem hafa borið hitann og þungann af þjóðarsáttinni og gert hana mögulega. Það eru þeir sem hægt er að koma böndum yfir, það eru launþegar, þeir sem vinna eftir umsömdum töxtum og eiga sér engrar undankomu auðið. Þarna eru konur auðvitað í miklum meiri hluta.
    Þeir sem settust að samningaborði og sömdu við ríkisstjórnina um þessa þjóðarsátt reyndust samkvæmt upplýsingum af skattskýrslum flestir hafa tekjur sem skiptu nokkrum hundruðum þúsunda á mánuði. Þeir máttu vel við kaupmáttarrýrnun. En ekki það fólk sem þeir sömdu fyrir, sem í sumum tilfellum telur jafnmarga tugi og umbjóðendur þeirra hundruð þúsunda upp úr launaumslögum sínum. Er furða þótt hæstv. forsrh. dásami það ágæta samstarf sem náðst hafi milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins? Það eru fleiri en valdhafar sem þjást af hólfaðri hugsun.
    Einnig gerir hann að umtalsefni að ekki hafi ræst sú spá að atvinnuleysi gæti orðið 4 -- 5% og sé einungis um 2%. Enn eru hólfin allsráðandi og meðaltölin látin nægja. Honum láist algjörlega að geta þess að atvinnuleysi kvenna er sýnu meira en karla og fer vaxandi. Sums staðar er það að nálgast þessi hættulegu 4% og engar ráðstafanir í augsýn til að bæta úr. Atvinnuvandi kvenna, ekki síst í dreifbýli, er þríþættur. Nátengt atvinnuleysinu sjálfu er reyndar að atvinna margra er ótrygg, atvinnutækifærin fábreyttari en karla og launin lægri. Fram hjá þessu er algjörlega horft og einblínt á einu og sömu lausnina --- álver. Allt tal um nýsköpun í atvinnulífinu er orðin tóm, a.m.k. hvað viðkemur konum. Og byggðastefnan stendur allsnakin eins og laufvana hrísla.
    Bygging álvers mun, auk annarra ókosta, leiða til byggðarröskunar sem verður tilviljanakennd og óskipulögð sem aldrei fyrr. Dregið verður úr öðrum framkvæmdum og það bitnar óhjákvæmilega á landsbyggðinni. Atvinnuleysi þar mun því aukast, alls staðar nema á Suðurnesjum og þar um kring. Vissulega er atvinnuvandi á því svæði, en þar má ekki síst kenna um stefnu stjórnvalda í stjórn fiskveiða. Fiskveiðikvóti hefur í stórum stíl verið seldur þaðan en það er bein afleiðing af lögum um stjórn fiskveiða þar sem afnot af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar eru lögð í hendur eigenda skipa sem skeyta síðan ekkert um hag byggðarlagsins eða fólksins sem býr þar, geta selt og ráðskast með fiskinn í sjónum eins og þeim þóknast og auðgast af.
    Hæstv. forsrh. hefur vissulega af þessu áhyggjur og segir óhjákvæmilegt að skoða þennan þátt í stjórn fiskveiða. En var það ekki eitt síðasta verk hans áður en þingi lauk í vor að samþykkja lög um stjórn fiskveiða sem heimila einmitt þetta? Því samþykkti hann ekki tillögur Kvennalistans um byggðakvóta sem hefðu létt af honum þessum áhyggjum? Var áhyggjuhólfið lokað þá?
    Stofnun umhverfisráðuneytis er eitt af afrekum núverandi ríkisstjórnar. Það er í sjálfu sér gleðiefni ef mál hefðu ekki æxlast þannig að eitt af fyrstu verkum þess sama ráðuneytis er að leggja blessun sína yfir byggingu álvers og þá mengun sem af því hlýst. Það er helst að skilja að við Íslendingar mengum svo lítið, mælt á alheimsmælikvarðann, að ekkert geri til þó við aukum dálítið við. Fyllum upp í ónotaðan kvóta okkar í alheimsmenguninni. Hvað munar um einn kepp í sláturtíðinni?
    En aftur hvarflar hugurinn að hólfunum títtnefndu. Í einu hólfi er ferðamannalandið hreina og ómengaða sem á að laða útlendinga að sem þrá hreint loft og ómengað umhverfi. Í sama hólfi er matvælaframleiðslulandið þar sem dreginn er heilbrigður fiskur úr hreinum sjó. En við komuna til landsins opnast annað hólf. Ekið er fram hjá herstöð. Hernaður og allt

sem honum fylgir fellur nú varla undir umhverfisvernd. Síðan er mönnum ætlað að aka fram hjá tveim álverum. Skyldi ekki mörgum ferðamanninum bregða í brún og efast um hreinleika landsins og framleiðslu þess? Það kann að reynast erfitt að selja þessi tvö hólf samtímis.
    Hæstv. forsrh. gerði líka að umtalsefni í ræðu sinni þá samninga sem nú standa yfir um evrópskt efnahagssvæði. Hann segir að undir engum kringumstæðum munum við láta af yfirráðum yfir auðlindum okkar og landi. Sjávarútvegur og fiskvinnsla verði að vera í okkar höndum. Hann varar líka við þeim óábyrgu aðilum sem muni nú hefja máls á því að Íslendingar sæki um fulla aðild að Evrópubandalaginu og lýsti því hvað af slíku mundi leiða fyrir fámenna þjóð. Við yrðum lítið annað en áhrifalaus útkjálki, eins konar hráefnamiðstöð. En hvað yrðum við annað í evrópsku efnahagssvæði? Staðreyndin er sú að þeir samningar sem nú standa yfir milli EFTA og EB munu, ef þeir nást, byggjast fyrst og fremst á lögum og reglum EB og til þess gerðir að tryggja hagsmuni þess. En samningarnir reynast erfiðari en margir ætluðu. Það gæti orðið okkur til bjargar að samningaviðræður rynnu út í sandinn. Þá mundum við kannski snúa okkur að því sem hefði átt að gera miklu fyrr, því að láta á það reyna hvers virði íslenskt hráefni og vonandi fullunnar vörur eru löndum Evrópubandalagsins. Einnig yrði þá e.t.v. farið að leita annarra markaða til að bindast ekki um of einu svæði og vera háð því í einu og öllu. Þá gætu opnast ný hólf.
    Enn eitt dæmið um hólfaða hugsun er einmitt sú staðreynd að innan þeirrar ríkisstjórnar sem hæstv. forsrh. stýrir er að finna ötulustu talsmenn þess að við lokum okkur inni með peningaþursunum stóru, þeim sem hann varaði við í ræðu sinni.
    Ótal fleiri dæmi mætti taka um lokuðu og opnu hólfin í orðum og gjörðum núverandi ríkisstjórnar en tíminn leyfir það ekki.
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. minntist á kosningar sem fram undan eru. Ég vil þá líka gera þær að umtalsefni og beina því til þeirra sem á mig hlýða að nota nú tímann fram að kosningum til að skoða hug sinn vel. Hvaða hólf ætla þeir að kjósa? Bara sum eða öll? Hvað um öll hólfin sem ekki var minnst á í títtnefndri ræðu? Hvað um heimilin? Fjölskylduna? Börnin? Skólana? Dagvistunina? Menningarmálin? Og atvinnu kvenna, laun þeirra og kjör, svo fátt eitt sé talið. Allt þetta sem er í lokuðu og gleymdu hólfunum. Er ekki kominn tími til að senda þessa hólfuðu stjórnmálamenn í smá frí? Þeir gætu þá notað tímann og farið á hússtjórnarnámskeið, lært að festa tölur og búa til mat. Lært af hinni hagsýnu húsmóður. Þá fyrst er von til þess að veggirnir milli hólfanna hyrfu og þeir fengju þá heildarsýn sem nauðsynleg er til að stjórna landinu þannig að það sé fleirum í hag en þeim sem hafa völd og peninga.
    Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.