Guðrún J. Halldórsdóttir :
     Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. hefur flutt okkur stefnuræðu sína. Allir munu vera sammála honum um það að jafnvægi í efnahagsmálum er mikilvægt fyrir einstaklinga, heimili og þjóðfélagið allt, þ.e. að útgjöld fari ekki fram úr tekjum. Þessu jafnvægi hefur alls ekki verið náð í búskap þjóðarinnar og það sem þokast hefur í rétta átt hefur verið gert á kostnað okkar sem landið byggjum en ekki með hagsýni í rekstri og viðskiptum eins og ætla mætti. Heimilin og launþegarnir í landinu hafa þurft að reiða fram fórnirnar.
    Í orðum hæstv. forsrh. er fallega búið um veruleika hinnar svokölluðu þjóðarsáttar. Þann raunveruleika að þjóðarsáttin byggist á því að launþegar sætti sig við örsmáar kauphækkanir sem gerðu svo innlendum matvælaframleiðendum fært að hafa sínar verðhækkanir aðeins 1,3%. Og bændur fengu að feta sömu slóð með nánast sömu verðhækkunum. En þar með er þjóðarsáttinni lokið. Erlendar vörur fengu að hækka um 9,2% og þjónusta einkaaðila hækkaði um 11,2%. Þeir sem stunda erlend viðskipti eða selja þjónustu sína fengu að leika lausum hala, langt fram yfir það sem verðhækkanir erlendis kölluðu á. Launþegar og bændur fá að bera þunga þessarar svonefndu þjóðarsáttar með blessun Vinnuveitendasambandsins.
    Forsrh. skýrði einnig frá því að ríkið hefði tekið á sig stóran hluta aðhaldsbyrðanna með því að hækka opinbera þjónustu aðeins um 4,2%, þ.e. þrisvar sinnum meira en landbúnaðurinn fékk að hækka afurðir sínar.
    Forsrh. nefndi réttilega hættuna af víxlverkun verðlags og launa og er það að vonum. Allar tilraunir til að rjúfa vítahring þeirra hafa verið sársaukafullar og þungbærar fyrir heimili og launþega því að verðhækkanahjólið hefur ætíð fengið að rúlla hraðar og lengur en kauphækkanir hafa komist. Nú gyllir hann framtíðina fyrir okkur og segir að ef við verðum góð börn og keipum ekki mikið muni laun hækka um 8% en verðbólga vera 6 -- 7%. Það væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að standa við þetta fyrirheit á sama tíma og velta á lánsfé til framkvæmda vegna nýs álvers inn í iðu efnahagslífsins. En það mun viðurkennt að ein helsta orsök verðbólgu er erlent lánsfé sem veitt er inn í efnahagslíf þjóðar án þess að eiga sér nokkra stoð í framleiðslu atvinnuveganna.
    Hæstv. forsrh. segir í ræðu sinni að vöruskipti við útlönd hafi verið hagstæð. Samt bregður svo við að viðskiptahallinn er 1,6%, svo þung er byrði erlendra vaxta enda eru erlendar skuldir ríkissjóðs yfir 50% af landsframleiðslunni. Og ekki mun viðskiptahallinn verða minni á næsta ári. Vaxtabyrði okkar mun þyngjast á sama tíma og erlendir vextir lækka þó almennt. Það er því rétt hjá forsrh. að eitt mikilvægasta verkefni ríkis og þjóðar er að lækka erlendar skuldir. En það virðist ríkisstjórnin bara alls ekki ætla sér að gera. Þvert á móti, hún ætlar að steypa þjóðinni út í miklu

meiri lántökur erlendis til að fjármagna næsta álævintýri.
    Ríkisstjórnin hefur reynt að hemja vexti og lánskjaravísitölu. Eins og allir skuldarar þekkja hefur sú vísitala fengið að tifa þó lánskjaravísitalan hafi verið heft. Og þeir skuldarar sem allra erfiðast eiga og komnir eru næst gjaldþroti þekkja að dráttarvextir hafa leikið lausum hala líkt og Karíus og Baktus í skemmdri tönn. Þar hefur engu verið þyrmt.
    Síðasta ríkisstjórn og sú sem nú er við völd eiga það sameiginlegt að horfa vonaraugum til þess að erlendir aðilar fjárfesti á Íslandi. Það var í tíð fyrri iðnrh. Sjálfstfl., að hans ráðuneyti lagði fram og samþykkt voru lög um það að erlendir aðilar mættu eignast meiri hluta í íslenskum fyrirtækjum. Það var hættulegt spor. Sú galopnun á íslensku efnahagslífi sem virðist stefnt í mun ekki síður bjóða heim fjárglæframönnum en snjöllum fjármálamönnum og allir munu þeir eiga eitt og sama markmið, að fá arð frá okkur í eigin vasa.
    Eitt áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar er hægur vöxtur landsframleiðslunnar, sem þó hefur vaxið um 22% á tíu árum. Hver hefur sagt forsrh. að 22% aukning sé lítil? Jú, hann las það í skýrslu frá OECD. En þar á bæ er hagvöxtur sama og aukin velta. Ef þú bakar brauð og etur það sjálf þá er lítill hagvöxtur í því fólginn en ef þú selur slíkt brauð á veitingastað sem aftur selur það viðskiptavinum sínum í sneiðum þá er það mikill hagvöxtur. Svona fara hagfræðingar að því að reikna út hagvöxt. Annað enn eftirtektarverðara dæmi um hagvöxt er dæmið um olíumengunarslysið mikla í Alaska sem jók hagvöxtinn um mörg prósent þar í landi því svo margir fengu vinnu við að bæta skaðann. Skemmd á lífríki og náttúru er ekki talin í því dæmi.
    Þess vegna finnst sumum svo gott að fá álver til Íslands. Það er að vísu ætlunin að selja orkuna með afslætti og fella niður skatta og afgjöld um sinn en ágóðinn á að koma seinna, og mengun og náttúruspjöll eru ekki reiknuð með í hagvaxtardæminu. Það verður sannarlega sveifla í hagvextinum og landsframleiðslan vex.
    Forsrh. segir í ræðu sinni að ríkisstjórnin sé að leita leiða til að breikka grundvöll atvinnulífs og skapa atvinnutækifæri. Vonandi eygir hún eitthvað jákvæðara en ál, vonandi grillir ríkisstjórnin í það að hún hefur vanrækt okkar stærstu stóriðju, fiskiðnaðinn, og skotið gildum stoðum undir það sem hún helst vill varast, að hráefnin séu flutt út ónýtt.
    Við höfum ekki nýtt fiskinn sem skyldi, við flytjum inn fiskisósur, fiskisúpur og fiskikraft í stað þess að framleiða slíkt og selja úr landi. Sama er að segja um aðra matvöru. Við eigum ekki að reyna að útrýma okkar stofnhreinu sauðkind. Við eigum að finna nýjar leiðir til að fullnýta það sem til fellur þegar henni er slátrað, hætta að sóa verðmætum með því að kasta þeim og grafa þau í jörð. Það getur vel verið að landsframleiðslan verði ekki nema 20% við slíka vinnslu en ég er viss um að raunveruleg hagsæld lands og lýðs mun vaxa miklu hraðar. Þannig mætti

lengi telja í matvælaframleiðslunni, hinum vanrækta fjársjóði okkar. Kvennalistinn er þess fullviss að þar er okkar framtíð falin en ekki í áli né öðrum málmi.
    Að lokum vil ég minna á hugmynd Landsbergis, forseta Litáens, sem kom hér í heimsókn fyrir nokkru. Hann á sér draum um bandalag og samstöðu smáþjóða til að standast ofríki stórvelda og efnahagslegan yfirgang þeirra, bandalag sem gæti leyst litlar þjóðir undan húsbóndavaldi stóru þjóðanna þannig að menningarleg, efnahagsleg og félagsleg velsæld fylgist að. Við ættum að huga að orðum hans og reyna að gera heimi það skiljanlegt að EB mun liðast í sundur því að það byggist ekki á jafnri stöðu frjálsra þjóða, á enga sameiginlega arfleifð, hvorki tungu, sögu né menningarfjársjóði, bara peninga.
    Íslenska þjóðin barðist lengi fyrir sjálfstæði sínu. Hún veit vel að sjálfstæði í efnahagsmálum er undirstaða annars sjálfstæðis. Það er því hlutverk hverrar ríkisstjórnar sem svarið hefur eið að stjórnarskránni að gæta þess að við gloprum ekki hinu efnahagslega sjálfstæði okkar í hendur annarra manna. --- Góðar stundir.