Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Góður áheyrendur. Einn ötulasti baráttumaður frelsis á okkar tímum, Havel, forseti Tékkóslóvakíu, hefur lýst stjórnmálamanni nútímans á þann veg að kerfið, hugmyndafræðin og valdatæknin hafi svipt stjórnmálamenn samvisku sinni, náttúrlegri skilningsgáfu og eðlilegu orðfæri. Mér varð hugsað til þessarar lýsingar Havels undir þeirri efnahagsþulu sem forsrh. flutti okkur í kvöld. Að hætti hins hefðbundna stjórnmálamanns talaði hann til okkar á hagfræðimáli. Hvers vegna gerði hann það? Var það í von um að orðavalið hindraði okkur í að sjá samhengisleysið og mótsagnirnar í ræðu hans eða var það til þess að draga athygli okkar frá þeirri staðreynd að í ræðunni er ekkert fjallað um þau grundvallaratriði sem daglegt líf okkar snýst um? Hefði ræðan verið hátíðarræða, er þá ekki líklegt að hann hefði farið fögrum orðum um gildi menningar, börnin og framtíðina og fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins?
    Forsrh. sat nýlega ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kjör og aðbúnað barna í heiminum. Þrátt fyrir þá vitneskju sem hann hlýtur að hafa fengið þar og þrátt fyrir þá staðreynd að vernd og réttarstaða barna er um margt bágborin í okkar samfélagi vék hann ekki einu orði að málefnum barna. Hvaða boðskap hafði hann að færa fjölskyldunum í landinu? Hafðir þú, hlustandi góður, á tilfinningunni að forsrh. viti hvað það kostar að halda heimili? Hvað með þá sjálfsögðu kröfu að dagvinnulaun dugi til framfærslu? Fékkstu svar við því hvernig hann ætlar að endurreisa húsnæðiskerfið sem ríkisstjórn hans kom á með lögum? Hvað með tvö skattþrep og styttingu vinnutímans? Hvað kom fram um aðbúnað skólanna, aðgerðir til að koma á samfelldum skóladegi og skólamáltíðum fyrir börn?
    Forsrh. sem heldur stefnuræðu og nefnir kjör aldraðra og fatlaðra í hálfri setningu, svona í framhjáhlaupi, og minnist ekki einu orði á fjölskyldumál og velferð barna minnir óneitanlega á lýsingu Havels á stjórnmálamanninum sem hefur glatað náttúrlegri skilningsgáfu sinni. Sú þróun er hættuleg að stjórnmálamenn svamli eingöngu í feni hagfræðinnar og líti á fólkið sem tölfræðilegan hóp. Þeir eru með öllu ófærir um að setja sig í spor annarra og löngu hættir að sjá tengslin milli þeirra ákvarðana sem þeir taka og hvaða áhrif þær hafa á líf fólksins. Þeir gleyma að dýrmætasta auðlind landsins er fólkið sjálft og að framtíð okkar allra veltur á því hvernig við búum að fólkinu í samfélaginu. Stjórn hagkerfisins á því fyrst og fremst að snúast um velferð einstaklinganna sem í þjóðfélaginu búa.
    Virðulegur forseti. Það var nauðsynlegt að minnast á þessi mikilvægu atriði sem forsrh. sá ekki ástæðu til að fjalla um í ræðu sinni. Þetta eru þó aðeins örfá atriði sem varða aðbúnað og kjör fólks og við kvennalistakonur teljum að eigi að vera meginviðfangsefni stjórnmálanna. En það er ekki síður nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þær mótsagnir og það samhengisleysi sem einkenndi ræðu forsrh. og

hlýtur að grafa undan trú fólks á að einhver alvara fylgi orðum hans og þau séu af heilindum mælt.
    Forsrh. minntist á að ríkisstjórnin legði aukna áherslu á ,,vaxandi uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu``, eins og segir orðrétt í ræðu hans. Hefur þú, hlustandi góður, orðið þess áskynja að ríkisstjórnin hafi haft frumkvæði eða skapað skilyrði fyrir nýsköpun í atvinnulífi í þínu byggðarlagi? Nei, mótun atvinnustefnu fyrir alla landsmenn hefur kristallast í áformum um risavaxið mengandi álver. Þetta telja ráðamenn lausn fyrir alla landsmenn en neita að horfast í augu við þá staðreynd að stórfyrirtæki á suðvesturhorninu mun auka enn frekar á atvinnuvanda landsbyggðarinnar og fólksflutningar munu enn aukast.
    Forsrh. minntist á að hann mundi líta á byggðamálin út frá nýju sjónarhorni. Hvað skyldi hann hafa í huga? Í hverju birtast nýjar áherslur og ný viðhorf til þeirra mála? Þess sér hvergi stað. Hafa menn gert sér grein fyrir að við erum komin í eindaga með uppbyggingu atvinnulífsins fyrir andvaraleysi ríkisstjórna sem forsrh. hefur sjálfur átt aðild að undanfarna tvo áratugi? Í stefnuskrá Kvennalistans segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í byggðamálum, sem á öðrum sviðum þjóðlífsins, er þörf fyrir nýtt verðmætamat sem byggir á kvenlegri lífssýn.`` Það er einmitt hér sem við komum að því sem máli skiptir um þróunina í framtíðinni. Atvinnustefna framtíðarinnar er gagnslaus ef ekki er tekið mið af þörfum kvenna. Við vitum að meðal kvenna er að hluta til ónýttur forði hugmynda, orku og tilfinninga, en það er ekki síst það síðastnefnda sem baráttan gegn byggðarröskun byggir á. Það nýja og ferska sem nú er þörf á í atvinnumálum getur komið frá konum ef nauðsynlegar forsendur eru fyrir hendi, fjármagn, stuðningur og fræðsla.
    Kvennalistakonur hafa oft bent á stöðu kvenna þegar atvinnumálin ber á góma hér í þinginu. Við höfum m.a. lagt fram frv. um að komið verði á fót sérstakri atvinnuþróunardeild fyrir konur við Byggðastofnun. Þessi hugmynd hefur ríkisstjórninni þótt allt að því fáránleg og lýsir það best skilningsleysi þeirra á því að framtíð byggðarinnar hvílir að sjálfsögðu á herðum kvenna.
Á norrænni ráðstefnu um konur og byggðarþróun sem haldin var hér á Íslandi fyrir tveimur vikum kom fram að á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld fyrir löngu gert sér ljósan þann vanda sem landsbyggðin stendur frammi fyrir ef konur hafa þar ekki atvinnu. Því hafa þar verið gerðar ýmsar athyglisverðar tilraunir með það fyrir augum að leysa atvinnuvanda kvenna, m.a. með því að eyrnamerkja sérstaklega fé til fræðslu og atvinnusköpunar fyrir konur, einmitt í sama anda og við kvennalistakonur höfum lagt til. Í grein um flóttann af landsbyggðinni eftir Lilju Mósesdóttur hagfræðing bendir hún á mikinn brottflutning ungs fólks frá landsbyggðinni og þá sérstaklega kvenna. Einnig bendir hún á að ef koma á í veg fyrir frekari brottflutning þarf atvinnulífið á landsbyggðinni að geta tekið við 1380 nýjum einstaklingum á ári hverju næstu tvo áratugina. Hafa stjórnvöld hugleitt þetta og gert áætlanir um hvaða skilyrði þau ætla að skapa fólki sem vill taka frumkvæði í atvinnulífinu? Það örlaði ekki á framtíðarsýn í ræðu forsrh. og því vart viðbragða að vænta af hans hálfu. Kvennalistakonur hafa borið fjölmargar tillögur í atvinnumálum inn í sali Alþingis, t.d. um nýsköpun í ferðaþjónustu, fjarvinnslustofur, byggðakvóta í sjávarútvegi og kvennadeild við Byggðastofnun sem ég nefndi áðan. Það er sannfæring okkar að þó að þessar tillögur hafi ekki allar verið samþykktar og okkur þyki oft miða hægt við að koma hugmyndum okkar í framkvæmd hefur reynslan sýnt að þær hugmyndir sem við berum fyrir brjósti sanna gildi sitt miklu fyrr en menn órar. Við höfum í starfi okkar náð ótrúlegum árangri þótt sigrar okkar séu ekki alltaf augljósir. Við höfum beitt okkur fyrir lengingu fæðingarorlofs með þeim árangri að öðrum var ekki lengur stætt á að bíða með að hrinda því í framkvæmd. Þannig er ungbörnum nú tryggð umönnun foreldra sinna fyrstu sex mánuði ævinnar.
    Umhverfismál hafa verið okkar hjartans mál og nú er a.m.k. þeim áfanga náð að umhverfisráðuneyti hefur verið stofnað þótt við hefðum viljað sjá það öflugra og metnaðarfyllra.
    Við höfum ávallt verið sannfærðar um að umræða um utanríkismál eigi að vera um frið en ekki um fjendur. Konur um allan heim hafa með samstöðu sinni og starfi í friðarhreyfingum séð til þess að svo hefur orðið.
    Konur eru nú meira en fjórum sinnum fleiri á þingi en þær voru þegar Kvennalistinn bauð fyrst fram fyrir liðlega sjö árum. Fjölgun kvenna í sveitarstjórnum hefur líka orðið umtalsverð. Þótt róðurinn sé þyngstur í launamálum munum við vinna áfram af þrautseigju til að rétta hlut kvenna. Þar er mikið verk óunnið en árangurs aðeins að vænta ef konum skilst hverju þær geta breytt með samstöðu sinni. Reynslan hefur sýnt að þetta verk verða konur að vinna. Þær þekkja það best í eigin lífi að það gengur ekki til lengdar að láta skammta sér úr hnefa.
    Kvennalistinn lítur á það sem grundvallaratriði að þeir sem taka þátt í stjórnmálum standi við orð sín og gerðir. Það höfum við að leiðarljósi í öllu okkar starfi. Við munum halda áfram að vinna af þeirri trúmennsku, krafti og framsýni sem hefur einkennt starf okkar, fullvissar um það að stefna okkar á ekki síður brýnt erindi við þjóðina nú en þegar við byrjuðum. --- Góða nótt.