Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. ,,Unz kyrrðin er allt í einu rofin: stjórnmálamennirnir eru farnir að öskra, það á að kjósa. Þetta óskemmtilega félag, sem ekki er hægt að losna við með neinum þekktum ráðum, en sú huggun ein, að vita það í fjarlægð, hefur nú flutzt til okkar um stundarsakir. Ókvæðisorð þeirra og gagnkvæmar aðdróttanir um glæpi fylla þessa kyrrlátu orðvöru byggð.``
    Góðir hlustendur. Þannig hóf Magnús Kjartansson sína ræðu í útvarpsumræðum 14. maí 1969 með því að vitna í frásögn Halldórs Laxness í Atómstöðinni af þingmálafundi í dal fyrir norðan. Og þessi sama tilvitnun getur vel átt við hér í kvöld. Þá, líkt og núna, virtist takmarkaður áhugi þjóðarinnar á stjórnmálum hafa valdið þingmönnum áhyggjum því Magnús sagði m.a. í ræðu sinni: ,,Stjórnmálin eru engin sérmál okkar, sem atvikin hafa skolað inn á þing. Þau eru ekki einvörðungu fólgin í starfsemi flokka og boðskap stjórnmálablaða. Þau eru sjálf hin hversdagslega lífsbarátta fólksins í landinu, vandamál heimilanna, örlög einstaklinganna.`` Þessi orð Magnúsar eru jafnrétt nú og þegar þau voru sögð hér í sal Alþingis fyrir 21 ári síðan. E.t.v. er áhugi fólks ekki meiri nú en þá og jafnmargir sem afgreiða stjórnmál sem eitthvert leiðindaþras og skítkast, jafnvel mannskemmandi. Ef svo er höfum við brugðist ykkur, hlustendur góðir, brugðist því hlutverki okkar að vekja hjá ykkur áhuga á öllum þeim mikilvægu málum sem stjórnmálin eru. Það er slæmt því að það skiptir svo miklu fyrir framtíð þjóðarinnar á hvern hátt landinu er stjórnað og hvaða leiðir, hvaða stefnu menn velja. Pólitík er ekki alltaf skemmtileg en hún er nauðsynleg og nátengd daglegu lífi okkar.
    Í ræðu forsrh. hér fyrr í kvöld var grein gerð fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Alþb. á hlut í þeirri stefnu. Eins og jafnan þegar um samsteypustjórn er að ræða höfum við ekki náð öllum okkar stefnumiðum fram. Margt hefur þó áunnist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Nefni ég þar fyrst að verulegur árangur hefur náðst í efnahagsmálum. Það gerðist ekki sársaukalaust. Þjóðarsáttin svokallaða hefur eflaust verið þeim erfið sem vonuðu að samningar um kaup og kjör hefðu í för með sér fleiri krónur í launaumslagið. Flestir eru þó á þeirri skoðun að lítil verðbólga og lækkun vaxta feli í sér verulega kjarabót og þegar samið hefur verið á núlli hlýtur leiðin að liggja upp á við á nýjan leik.
    Frv. til fjárlaga fyrir næsta ár hefur verið lagt fram á Alþingi. Þetta frv. einkennist ekki af því að kosningar eru í vændum heldur að áhersla er lögð á að varðveita þann árangur sem náðst hefur. Stefna Alþb. hefur m.a. skilað sér í ýmsum breytingum á skattalöggjöfinni í átt að auknu réttlæti og jöfnuði. En þar eigum við þó verk óunnið. Enn þá hefur t.d. ekki náðst samkomulag um tvö skattþrep eða um skatta á fjármagnstekjur, hvort tveggja brýn réttlætismál sem þurfa að ná fram.
    Þegar ný ríkisstjórn tók við haustið 1988 voru gríðarlegir erfiðleikar í atvinnumálum landsmanna. Einna verst var ástandið hjá stóriðju okkar Íslendinga, sjávarútveginum. Sjóðirnir tveir, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður, sem þá voru settir á laggirnar til að rétta þessa atvinnugrein við eru nú að ljúka störfum. Þar hefur verið unnið mikið og gott starf en þó má ljóst vera að stofnun slíkra sjóða er neyðarúrræði og án stöðugleika í efnahagslífi væru aðgerðir sjóðanna gagnslausar. Ný lög um stjórn fiskveiða taka gildi um áramót. Þar er helst til bóta að sveitarfélög fá aukinn rétt til að koma í veg fyrir að kvóti verði seldur úr viðkomandi byggðarlögum. Þarna hefði ég viljað sjá algert bann við hvers konar braski með óveiddan fisk og að meira tillit væri tekið til þeirra svæða sem eiga allt undir útgerð og fiskvinnslu. Það er einnig ljóst að ef sjávarútvegur á í framtíðinni að vera sú stóriðja sem við byggjum afkomu okkar á, þá verður að endurskoða og endurskipuleggja vinnslu - og sölukerfið þannig að ávallt fáist sem best verð fyrir afurðir okkar.
    Stöðugleiki í efnahagslífinu skapar möguleika á nýjum atvinnutækifærum. Stöðugleikinn veitir okkur einnig og ekki síður tækifæri til þess að treysta stöðu þeirra fyrirtækja og stofnana sem við eigum í dag. Efling atvinnulífs í landinu þarf ekki nauðsynlega að þýða ný og ný fyrirtæki. Það er ekki síður mikilvægt að styrkja rekstur þeirra sem fyrir eru, t.d. í iðnaði.
    Íslenskur landbúnaður hefur átt við mikla erfiðleika að etja undanfarinn áratug og fyrir séð að samdráttur mun áfram verða í hefðbundnum búgreinum og störfum mun fækka. Þessu þarf að mæta en ekki endilega með því að búa til nýjar atvinnugreinar. Við skulum minnast þess að ræktun loðdýra og fiskeldi hafa enn ekki verið það bjargráð sem til var ætlast. Það mætti t.d. vel hugsa sér að bændur tækju að verulegu leyti við verkefnum í landgræðslu og skógrækt sem nú eru unnin af ríkisstofnunum. Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins sæju um áætlanagerð, leiðbeiningar og eftirlit en framkvæmdir yrðu á vegum bænda. Fáir þekkja landið betur en þeir og þarna eru möguleikar til að styrkja búsetu um landið með tilfærslum einum saman. Þessi leið hefur ýmsa aðra kosti í för með sér og er vel til þess fallin að efla landgræðslu - og gróðurverndarstarfið.
    Virðulegi forseti. Eðlilega verður okkur tíðrætt á kvöldi sem þessu um þá þýðingu sem stöðugleiki í efnahagsmálum hefur fyrir þjóðina. Hann er undirstaða þess að við horfum nú bjartari augum til framtíðar en áður. Stöðugleiki í efnahagslífinu er svo stór þáttur í stjórnmálunum í hversdagslegri lífsbaráttu okkar allra, í vandamálum heimilanna og örlögum einstaklinganna. Öðrum stórmálum, eins og álmálinu svokallaða, hafa verið gerð skil hér í kvöld. Í því sambandi vil ég aðeins segja þetta. Við þurfum vissulega að styrkja atvinnulíf okkar og þar er nýtt álver aðeins einn kostur af mörgum sem við eigum og munum skoða á jákvæðan hátt. Þegar ákvörðun er tekin verðum við að tryggja að uppbygging slíkrar atvinnustarfsemi kosti okkur ekki meira en hún gefur og hún hafi ekki í för með sér skaðleg áhrif á náttúruna. Varnir

gegn umhverfisspjöllum og mengun verða að vera tryggar. Við erum fámenn þjóð og það á að vera auðvelt fyrir okkur að taka ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga. Ef það er gert, þá náum við árangri.
    Ég hóf ræðu mína hér í kvöld með því að vitna í ræðu Magnúsar heitins Kjartanssonar og enn ætla ég að taka mér hans orð í munn úr sömu ræðu. Þar segir hann: ,,Einmitt vegna þess að við erum smáþjóð þar sem allir þekkja alla getum við í verki tryggt raunverulegt lýðræði og jafnrétti með auðveldara móti en unnt er í risavöxnum þjóðríkjum.``
    Góðir hlustendur. Á þeim tveimur árum sem Alþb. hefur átt aðild að ríkisstjórn hefur verið unnið gott starf. Á þessu síðasta þingi fyrir kosningar munum við alþýðubandalagsmenn leggja okkar af mörkum til þess að varðveita þennan árangur og bæta um betur. --- Góða nótt.