Áfengislög
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins þakka hv. flm. fyrir að endurflytja þetta mál. Mér finnst í raun og veru dálítið súrt þegar ég hugsa um að það þurfi að endurflytja slíkt mál, að við skyldum bara ekki afgreiða það þegar það var flutt á síðasta þingi því hér er auðvitað um mjög þarft og sjálfsagt mál að ræða. Það sem ber að leggja mesta áherslu á varðandi mannvernd í okkar þjóðfélagi er forvarnarstarf af öllu tagi og þetta er að sjálfsögðu einn mikilvægur liður í því.
    Það að merkja umbúðir utan um áfengi er auðvitað aðeins spurning um framkvæmd og breytt vinnubrögð og ef einhver tregða er til þess þá skil ég hana ekki. En ég vildi sem sé aðeins lýsa hér stuðningi mínum við þetta nauðsynjamál og vona að við getum afgreitt það hratt í gegnum þingið.