Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Ólafur G. Einarsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er ekki oft sem ég sakna hæstv. fjmrh. en ég verð að viðurkenna að ég geri það nú. Mér er að vísu alveg ljóst að það er hæstv. forsrh. sem flytur þetta frv. en mér þykir satt að segja alveg ótækt að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við þessa umræðu. Samningsgerðin er á hans hendi sem fjmrh. og honum ber að vera hér viðstaddur.
    Það er að vísu svo sem af nógu að taka til að ræða þessi mál hér. Bæði liggur frv. sjálft fyrir og ekki síður hefur hæstv. forsrh. nestað hv. þm. ríkulega með þeim orðum sem hann hefur hér þegar sagt. Engu að síður þykir mér alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur þessa umræðu og ég spyr hæstv. forseta hvort honum þyki það eðlilegt að fjmrh. sé ekki við. Ég spyr líka þá hv. þm. sem þegar hafa kvatt sér hljóðs hvort þeir sætti sig við fjarveru hæstv. fjmrh.