Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í trausti þess að ráðherrar séu hér staddir til þess að hlusta en ekki til að lesa blöð þá ætla ég að hefja mál mitt.
    Loksins núna, þann 23. okt., næstum þremur mánuðum of seint fær þingið tækifæri til að fjalla um eitt stærsta mál þessa árs. Ákvörðunina um hvort ríkisstjórnin eigi að standa við gerða kjarasamninga. Ákvörðunina um það hvort ríkisstjórnin eigi að hlíta dómi félagsdóms --- ég get alveg beðið ef hæstv. fjmrh. er vant við látinn. Ég var að taka það fram að við værum hér að fjalla um ákvörðunina um það hvort ríkisstjórnin eigi að standa við gerða kjarasamninga. Einnig um ákvörðunina um hvort ríkisstjórnin eigi að hlíta dómi félagsdóms eða brjóta samninga og hunsa dóm með valdbeitingu, þ.e. lagasetningu.
    Það er nógu alvarlegt að einhverjum skuli hafa dottið í hug að spyrja þessara spurninga. Alvarlegra er það þó að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að svara þessum spurningum á þá leið að ekki skuli staðið við gerða kjarasamninga, að ekki skuli hlustað á dómsorð félagsdóms.
    Ég vil leyfa mér að lesa upp ályktun Kvennalistans frá 3. ágúst sl. vegna setningar bráðabirgðalaganna, með leyfi forseta:
    ,,Kvennalistakonur átelja harðlega að enn einu sinni skuli íslensk ríkisstjórn setja bráðabirgðalög á launafólk. Þannig er jafnt og þétt grafið undan lýðræði og mannréttindum í þjóðfélaginu. Núverandi ríkisstjórn hóf feril sinn með því að framlengja bann á kjarasamninga sem var meginástæða þess að Kvennalistinn hafnaði aðild að henni. Ríkisstjórnin setur nú lög á eigin samninga og beitir valdi sínu þannig til að hnekkja dómi félagsdóms. Nú eru það samtök háskólamanna sem beitt eru lögþvingunum til þess að sveigja þau undir vilja stjórnvalda. Hverjir verða næstir?
    Í raun felst í nýsettum bráðabirgðalögum afnám réttar alls launafólks til þess að semja um laun sín, því ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er tilbúin til lögþvingunar á hvað sem er, jafnvel þvert á uppkveðna dóma.`` --- Ég vona að ég sé ekki að trufla. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. heyri mál mitt.
    ,,Þáttur forustumanna ASÍ og BSRB vekur furðu þar sem þeir hafa tekið undir þann áróður að laun almenns launafólks séu meginvaldur verðbólgu og berjast nú jafnvel harðar gegn öðru launafólki en atvinnurekendum. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir almenning í landinu. Á hvaða leið er samfélag þar sem stjórnvöld, atvinnurekendur og stærstu samtök launafólks sameinast um að svipta hluta launafólks samningsrétti? Hvernig er lýðræðinu háttað þar sem stjórnvöld óvirða mannréttindi og dómstóla?
    Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru forkastanleg og bera vott um siðblindu. Ríkisstjórn sem setur lög á eigin gerðir er ekki hæf til að stjórna landinu og á að segja af sér.``
    Í utandagskrárumræðunum sem urðu að frumkvæði Kvennalistans sl. fimmtudag reyndi hæstv. forsrh. að

snúa sig út úr tilvistarvanda sem hver siðmenntaður maður hlýtur að lenda í sem misbeitir valdi sínu með því að setja lög á dóm. Hann reyndi að sleppa frá málinu með því að segja að ekki hafi verið sett lög á dóm heldur lög sem breyttu forsendum dómsins. Þetta endurtók hann nú í svokölluðum svörum við spurningum hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur sl. fimmtudag. Ég spyr því: Hvers vegna í ósköpunum var málið ekki tekið upp á ný fyrst forsendur dómsins voru brostnar?
    Varðandi skilningsleysi hæstv. forsrh. á því hvað þetta komi við nýjum lögum um aðskilnað dóms - og umboðsvalds og fleira sem ekki virtist alveg ljóst hjá honum vil ég segja þetta: Framkvæmdarvald á ekki að setja lög á dómsvald. Þetta er mjög skýrt, þetta er andi þeirra laga sem hér er vitnað til og þetta er það sem við höfum alvarlega út á að setja. Við þessum ásökunum og við þessum spurningum, siðferðilegum spurningum höfum við ekki enn fengið svör. Ég ítreka því, hvernig er hægt að verja það að framkvæmdarvald setji lög á dómsvald? Því miður er þetta ekki eina skilningsleysið sem upp hefur komið í þessu endemismáli. Hæstv. fjmrh. skildi það ekki á meðan öll þjóðin var búin að uppgötva það að félagsdómur mundi komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst. Slíkt skilningsleysi hlýtur að bera vott um vanhæfni. Því finnst mér enn skorta mikið á að við höfum fengið svör við þeim spurningum sem við lögðum fyrir. Hafi brýna nauðsyn borið til að athuga þessa samninga, hafi þær umræður og þær viðræður ekki dugað sem ríkisstjórnin átti við forsvarsmenn BHMR, af hverju í ósköpunum var Alþingi þá ekki kallað saman í þessu mikilvæga máli? Fyrst málið var svona mikilvægt hvers vegna fengu þá ekki þeir sem til þess eru kjörnir að fjalla um það?
    Umræða um bráðabirgðalög, sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd eins og nú er í gangi, er sýndarumræða nema þingmenn hafi möguleika á að breyta einhverju um efni laganna og taka efnislega afstöðu til þeirra. Bráðabirgðalög eru rædd eftir að ákvarðanir hafa verið teknar og framkvæmdarvaldið hefur tekið ráðin af þinginu, í fyrsta sinn með því að setja bráðabirgðalög, í annað sinn ef lögin eru samþykkt vegna þess að of seint er að breyta orðnum hlut. Það má ekki gerast, hvorki nú né í öðrum tilvikum þegar bráðabirgðalög eru sett sem ekki eiga rétt á sér. Þannig hafa stjórnvöld kosið að túlka leikreglur lýðræðisins. Þær eru hins vegar alls ekki í anda raunverulegs lýðræðis. Því má velta fyrir sér hvort stjórnvöld séu ekki slegin blindu yfir valdi sínu og líti leikreglur lýðræðisins sem leik þar sem þau setji reglurnar. Þeirra sé mátturinn, þótt alveg vanti nú dýrðina, og þau ákveði hvaða leiki þjóðin eigi að leika og eftir hvaða reglum. Það er óþolandi að ætla fólki að verða leiksoppar misvitra stjórnvalda sem eru reiðubúin til að setja ósanngjarnar reglur, t.d. um kjaraskerðingu. Þess vegna höfum við kvennalistakonur lagt fram frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum sem felur í sér afnám heimildar til setningar bráðabirgðalaga.
    Í dag er ekki runnin upp sú stund að búið sé að

afnema heimild til setningar bráðabirgðalaga. Við okkur blasa þessi ólög sem við eigum að taka afstöðu til. Þau hafa þegar gert mikinn skaða en það er hægt að grípa í taumana nú og færa sjálfstætt vald aftur til þingsins, vald sem byggist á skynsemi og yfirvegun. Það er hægt að taka ákvarðanir út frá staðreyndum, réttsýni og siðferðilegum styrk og fella þessi gerræðislegu og siðlausu lög.
    Lögin voru sett í nafni þjóðarsáttar. En hvenær var sú sátt gerð að taka af kjarabætur sem samið var um í frjálsum samningum? Ég kannast ekki við að launþegar í öðrum stéttarfélögum hafi verið spurðir þessarar spurningar né að þeir hafi talið að það væri þeirra að svara henni. Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um hvert svar þeirra hefði verið. Nei, auðvitað ekki. Það eru hagsmunir allra að kjarasamningar séu virtir. Ekki síst er það brýnt ef litið er á það siðleysi stjórnvalda að hafa níu sinnum á tíu árum gripið inn í frjálsa samninga með lagasetningu og þetta var bara ef litið er til þess sem gerðist árið 1989. Þar af gerðist þetta sex sinnum með bráðabirgðalögum.
    Ég er hrædd um að forusta stéttarfélaga hafi ekki talað máli félaga sinna þegar þrýst var á um að taka af BHMR kjarabætur sem samið hafði verið um í frjálsum samningum. Ég vitna í grein Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur úr Þjóðviljanum þann 31. júlí sl. Sigurlaug er félagi í Iðju og hún segir þar m.a., með leyfi forseta:
    ,,Allan síðasta áratug voru gerðar átakalausar sættir um kjararýrnun miðað við verðbólgu. Stærsti hluti landsmanna lifir af laununum. Ég vil setja fram þá staðhæfingu að lægstu laun hafi mikla þýðingu fyrir launakjörin í heild. Dæmi er yfirstandandi BHMR - deila. Kaup verkafólks sem lifir ekki af 40 stunda vinnuviku er svipa á BHMR að samþykkja kjararýrnun.
    Annað dæmi eru vinnustaðir þar sem kaup er af sérstökum ástæðum betra en t.d. kaup verkafólks í mínu félagi, Iðju. Þar vofir stöðugt yfir hótun um að Iðjutaxtar séu það sem koma skal. Hótanir sem þessar byggjast vitaskuld á klofningi sem er fyrir hendi meðal launafólks. Hann má yfirvinna með því að hækka kaup hinna lægst launuðu og það er mikilvægt því að það sem atvinnurekendur komast upp með að borga okkur, kvenmönnum, unglingum og innflytjendum, gefur tóninn. Kaup hinna sem hærra eru launaðir hefur ekki samsvarandi þýðingu. Það er ekki reglan að leitað sé viðmiðunar við hátekjumenn þegar settar eru fram kröfur um kauphækkanir. Það er miðað við lífskjör. Við höfum ekki hag af að laun BHMR - fólks séu lækkuð.
    Verðbólga. Verðbólga er í þriggja stafa tölu í löndum þar sem kaup er nær ekki neitt. Verð hefur bólgnað án þess að kaup hækkaði neitt. Hér er ekkert ótvírætt samhengi heldur ríkir millibilsástand. Árið 1983 greiddi verkafólk niður verðbólgu með 30% af kaupmætti tekna sinna. Var hún samt ekki okkur að kenna?``
    Það var ekki fólkið í almennum stéttarfélögum sem

vildi að lög yrðu sett á BHMR. Þetta fólk hafði ekki hag af því og það hafði ekki vilja til þess og það sá að verið var að grafa undan því sjálfu í leiðinni. Við vitum þetta. Þetta sögðu okkur konurnar sem við kvennalistakonur hittum á ferð okkar víða um landið í haust. Þetta sagði okkur launafólk utan BHMR án þess að vera spurt í viðtölum, einkaviðtölum, blaðaviðtölum og í blaðagreinum, fólk eins og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir. Það var ekki sátt við stefnu forustunnar.
    Önnur röksemdin fyrir setningu bráðabirgðalaga var sú að ef þau yrðu ekki sett færi af stað óðaverðbólga. Mikið er búið að leggja á fólk með þessum rökum. Ekki nóg með að það sé kúgað til að sætta sig við laun langt undir því sem dugar til lífsviðurværis, heldur á það líka að þola annan órétt, svo sem hækkun á nauðþurftum, allt til þess að verðbólgan æði ekki af stað og án þess að biðja um nokkuð í staðinn. Og ofan á allt á að gefa eftir umsamdar launahækkanir, hækkanir sem samið hefur verið um við stjórnvöld. Þetta er fásinna. Þetta er því nöturlegra á að hlýða fyrir það að með þessu virðast menn vera búnir að samþykkja og kyngja þeim áróðri stjórnvalda að það séu kauptaxtarnir sem stýri verðbólgunni. Að láta sér detta það í hug að örfárra hundraða króna hækkun á launum undir framfærslumörkum komi af stað verðbólgu, að láta sér detta það í hug að þó að það fari upp í einhverjar þúsundir króna, en undir framfærslumörkum, þá hleypi það verðbólgu af stað. Að láta sér yfir höfuð detta í hug að það séu launin sem valdi verðbólgunni á meðan allt verðlag utan vísitölu æðir upp. Að láta sér detta það í hug að á meðan karpað er um örfárra prósenta kauphækkun eða prósentubrota en launaskrið hálaunamanna utan samninga er á sama tíma óstöðvandi, þeirra sem standa utan torsóttra kjarasamninga, þeirra sem hafa aðstöðu í samfélaginu. Nöturlegast er auðvitað að heyra forsvarsmenn stéttarfélaga taka undir þennan söng, taka sér þannig stöðu með stjórnvöldum í blekkingaleik en ekki með umsemjendum sínum.
    Það er léleg efnahagsstjórn sem reynir að koma böndum á verðbólgu með því einu að láta þá borga sem þiggja lægstu launin í samfélaginu, láta þá borga sem eru á töxtum, því lægri laun gerast ekki, hvort sem um er að ræða BHMR - taxta eða aðra taxta. Það segja okkur tölur.
    Það eru konur sem eru á töxtum, láglaunakonur. Það eru fjölskyldurnar sem gjalda, fjölskyldur sem bera allar byrðarnar. Í nafni þessarar efnahagsstjórnar, þess árangurs sem enginn er eða verri en enginn, því hann bitnar svo alvarlega á lágtekjufólki, er okkur ætlað að kyngja því að lög séu sett á gerða samninga og að lög séu sett á dóma. --- Mér sýnist að hæstv. fjmrh. sé kannski búinn að tapa þræðinum eða hvað? Vonandi ekki.
    BHMR hefur gripið til málshöfðunar vegna þessa máls og ég er ekki í vafa hver niðurstaðan verður úr þeim málarekstri. Hins vegar fyndist mér Alþingi setja ofan ef BHMR - félagar þyrftu að ná rétti sínum á þann hátt einan. Það ætti að vera sæmd okkar að fella þessi

bráðabirgðalög úr gildi nú þegar og það þolir ekki nokkra bið.