Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég skal reyna að svara í stuttu máli því sem til mín hefur verið beint. Ég vil fyrst taka það fram að mér þótti vænt um að heyra það frá hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur að hér væri ekki verið að setja sýningu á svið í einhverri atkvæðaleit og ég vona að það hafi komist til skila til þeirra sem fylltu hér pallana við utandagskrárumræðuna fyrir helgina og svo aftur nú því að hér er vissulega um mjög stórt og alvarlegt mál að ræða sem við þurfum að ræða án slíks og ræða vitanlega á mjög breiðum grundvelli, ræða m.a. afleiðingar af því ef þetta hefði ekki verið gert, sem mér finnst því miður æðimargir vísa til hliðar.
    Hv. þm. spurði hvort gjafsókn yrði veitt ef um hana yrði sótt. Það hefur ekki verið um hana sótt. Það mun að sjálfsögðu verða um hana fjallað eins og aðrar umsóknir um gjafsókn og þar er það dómsmrh. sem verður að taka ákvörðun, ekki ríkisstjórnin, en venjulega er það byggt á þeim reglum sem hafa gilt um gjafsókn, þeim fordæmum sem eru o.s.frv., og ég þori ekki að svara þeirri spurningu, hvorki játandi né neitandi, á þessari stundu, en um hana hefur ekki verið sótt. Það er misskilningur hjá hv. þm. að ekki verði heimilt að segja upp þessum samningi BHMR ef öðrum samningum er sagt upp, það segir beinlínis í, ef ég man rétt, 4. gr. frv. að verði samningum á hinum almenna markaði eða samningi ríkisins og BSRB sagt upp skuli aðrir aðilar hafa heimild til að segja upp sínum samningi með eins mánaðar fyrirvara. Ég hygg að hv. þm. muni sjá það í frv. og bráðabirgðalögunum.
    Jú, það var athugað hvaða áhrif 4,5% hækkun hefði á verðbólguskrúfuna. Hins vegar er það mjög erfitt mál því að í það mat verða að koma áhrif 4,5% hækkunar á almenn laun, t.d. í fiskvinnslu og útflutningsiðnaði. Það var mat þeirra sem við var rætt að slík hækkun hlyti að leiða til þess að bæta þyrfti samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar með gengisfellingu. Ég held að reynslan sýni okkur að slíkt leiðir náttúrlega til víxlhækkana sem mjög erfitt er að segja hvar stöðvast. Bein áhrif af 4,5% hækkun án þess að nokkuð annað kæmi til, þ.e. víxlverkanir, voru líka skoðuð. Mig minnir að þá hafi verið metið að verðbólga yrði af þeirri ástæðu einni af stærðargráðunni 10 -- 11%. Vitanlega er það ekki nema hluti af því sem yrði ef um víxlverkanir yrði að ræða með gengisbreytingum o.s.frv. Náttúrlega var alvarlegasta atriðið í þessu það að þá væri vafalaust sá samningur sem gerður var á hinum almenna markaði brostinn, þ.e. honum hefði verið sagt upp og algjör óvissa þá í launamálum. Satt að segja hélt ég að þetta hefði ekki farið fram hjá neinum manni því að forustumenn launþega tóku mjög djúpt í árinni þegar þeir voru spurðir um afleiðingar af slíkri hækkun.
    Hvers vegna ekki viðræður? Það er hárrétt, sem kom fram einnig hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að ég nefndi að rétt væri að fara í viðræður. Þetta var rætt og það verður að segjast eins og er að flestir, og

reyndar ég einnig, töldu að þetta ákvæði í 1. gr., um að þannig skyldi staðið að þessum samningum að ekki ylli almennum breytingum á kjarasamningunum, stæðist, hvernig þetta er nú orðrétt, ég ætti reyndar að muna það. Reyndar var það minn skilningur, eins og kemur fram í þeirri samantekt sem ég bað þann mann að gera sem var með mér í þessum viðræðum, að fullur skilningur væri á milli samningsaðila, að þetta mætti ekki verða til almennrar hækkunar og þannig breyta þeim almennu kjarasamningum sem hefðu verið gerðir, enda alveg ljóst að þá hefðu háskólamenntaðir menn bókstaflega ekkert upp úr krafsinu.
    Einnig var sú skoðun mjög ríkjandi að afar vafasamt væri að samanburðurinn leiddi til nokkurs tilefnis til hækkunar. Það voru verulega skiptar skoðanir hjá þeim mönnum sem að þessu unnu. Meðal annars t.d. á mati á ýmsum kjaraliðum opinberra starfsmanna, hvernig á að meta þau fríðindi sem felast í verðtryggðum lífeyrissjóði. Mat á slíkum lífeyrissjóði var frá 3% upp í 14 -- 15% í launum. Og það var skoðun allra þeirra manna sem að þessu unnu lengi framan af að takast mundi að ljúka þessum samanburði fyrir 1. júlí. Þetta var því metið og þetta var rætt og ekki var talin rík ástæða til að hefja þessar viðræður. Ég átti einn fund með forustumönnum Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna þar sem þessi mál bar m.a., að vísu lauslega, á góma.
    Hér hefur hvað eftir annað verið sagt að ekki hafi verið staðið við niðurstöðu félagsdóms. Það er ekki rétt. Farið var að lögum, 4,5% hækkun var greidd út í tvo mánuði. Það var fullkomlega farið eftir niðurstöðu félagsdóms að þessu leyti. Hins vegar, eins og ég hef margsinnis sagt, var síðan ákveðið með lögunum, af þeim ástæðum sem ég hef rakið, að breyta þessum samningum með lögum, breyta þeim ákvæðum samninganna sem greiðslurnar byggðust á. Það er því misskilningur hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni að niðurstaða dómsins hafi ekki verið virt. Hún var virt. Það var borgað út í tvo mánuði eða þar til ný lög tóku gildi sem breyttu þeim forsendum sem þarna var byggt á. Það eru þess vegna ekki sett bráðabirgðalög á niðurstöðu dómsins.
    Ég verð að vísa því mjög harðlega á bug að ríkisstjórnin hafi ekki ætlað að standa við samninginn. Þetta er náttúrlega slík fullyrðing að það er ekki hægt að láta hana standa. Það var unnið mjög ötullega að þessari samningsgerð og ég vil leyfa mér að halda því fram að það hafi verið mikill skilningur á milli aðila, a.m.k. get ég borið það þann tíma sem ég tók þátt í þessu. Menn lögðu sig fram við að reyna að gera samning sem gæti leiðrétt, ef ástæða væri til að leiðrétta, hjá háskólamenntuðum mönnum. Ég fór áðan vandlega yfir þær ítarlegu viðræður sem fóru fram um þessa 1. gr. samningsins og það ákvæði sem hér hefur hvað eftir annað verið vísað til. Það var gert í góðri trú. Félagsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að byggja á þessu ákvæði. Ég hef ekki vefengt það. Ég hef mínar skoðanir að sjálfsögðu á því, en ég sé ekki að mér sé kleift að deila við dóminn í þessu sambandi. Ég vísa til þess sem segir í

dómsorðinu, að þetta ákvæði nái ekki til þess hluta 5. gr. sem fjallar um hækkun ef ekki er lokið þessum samanburði. Ég vil hins vegar leyfa mér að leggja áherslu á það að í okkar meðferð á þessu atriði samninganna var ætíð haft í huga að þetta næði til allrar framkvæmdar samninganna, að það mætti ekki verða til þess að raska samningum á hinum almenna markaði.
    Hv. þm. segir að augljóst sé að ekki hafi verið ætlunin að standa við þetta því þetta hefði hvort eð er leitt til röskunar. Menn geta lagt mismunandi túlkun í röskun. Ég tel það ekki röskun ef þarna verður niðurstaða sem hinn almenni markaður viðurkennir, skoðar og viðurkennir og segir, það er ljóst, að háskólamenntuðum mönnum á vegum ríkisins er greitt minna en t.d. vinnuveitendur greiða á hinum almenna markaði og að launþegar á hinum almenna markaði viðurkenni þessa niðurstöðu. Við það voru að sjálfsögðu vonirnar bundnar.
    Hv. þm. taldi ekki stórmannlegt að vísa þessari framkvæmd fram yfir þjóðarsátt. Það getur hver haft sína skoðun á því að vísa þannig fram yfir kosningar. Hinir almennu kjarasamningar hafa að sjálfsögðu runnið sitt skeið, í september, og þar með það ákvæði í þessum kjarasamningum sem segir að þeir séu háðir því að ekki verði meiri launahækkun annars staðar. Og þá verður að gera nýja kjarasamninga í ljósi þeirrar niðurstöðu sem hefur fengist af þessum samanburði. Þá er það a.m.k. þeirra sem þá kjarasamninga gera að taka eða taka ekki tillit til þess samanburðar. Og ég sé á því mjög mikinn mun og á hinu að ganga gegn þeim forsendun sem liggja til grundvallar í þeim kjarasamningum sem voru gerðir.
    Menn geta vitanlega sagt, eins og einhver sagði hér áðan, að það sé ámælisvert af hinum almenna markaði að gera kjarasamning með slíkum forsendum eftir að vitað er að kjarasamningur ríkisins og háskólamenntaðra manna liggur fyrir. Um það skal ég ekkert segja. Þeir kusu að gera hann og ég ætla ekki að deila á þá sem það gerðu. Þar hafa eflaust ráðið nauðsyn til að ná saman kjarasamningum, skilyrði sem þarna er sett og kannski þeirra mat á því að í þessu fælist ekki stór hætta miðað við þann fyrirvara sem var í öðrum kjarasamningum, m.a. BHMR. Ég vek einnig athygli á því að þau lög sem ríkisstjórnin setti eru almenn að öllu leyti nema síðasta greinin sem nemur úr gildi tvær greinar úr kjarasamningi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og varð m.a. til þess að það varð að endurskoða kjarasamning hjá flugumferðarstjórum. Ég leyfi mér að vona að þessi lög hafi haft þau áhrif að náðst hafa allir aðrir kjarasamningar í anda hinna almennu samninga. Til frekari árekstra hefur ekki komið. Minni m.a. á farsæla lausn á deilu Farmanna - og fiskimannasambandsins nú nýlega við sína atvinnuveitendur sem er fullkomlega í anda hinna almennu kjarasamninga.
    Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hneykslaðist á því að ég hefði sagt að ekki væri munur á bráðabirgðalögum og lögum settum af Alþingi. Ég var nokkuð undrandi að heyra þetta frá lögfræðingnum Ragnhildi

Helgadóttur. Stjórnarskráin heimilar að sett séu bráðabirgðalög, enda sé brýn ástæða og þau lögð fyrir þing svo fljótt sem má. Ef þessa er gætt er ekki munur. Þá eru þau jafngild.
Ég hef margsinnis rakið það hér að það var mjög vandlega farið í gegnum það hvort telja mætti þarna vera brýna nauðsyn. Um það geta menn deilt en þeir lögfræðingar sem við var rætt um þessi atriði komust að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðalögin eins og þau eru sett væru brýn. Ég get ekki annað en vísað til þess og þess sem ég hef áður sagt um þau áhrif sem orðið hefðu í efnahagsmálum ef bráðabirgðalögin hefðu ekki verið sett.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson stóð hér með mikinn geislabaug og var gaman að horfa á það. Ég er sannfærður um að sá geislabaugur hefði ekki verið minni ef við hefðum staðið hér í rökræðu um nýja verðbólguskrúfu. Þá hefði ríkisstjórninni verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir það. Ef fyrirtæki væru að stöðvast um allt land hefði hv. þm. áreiðanlega deilt mjög hart á ríkisstjórnina og réttilega. Hv. þm. spyr hvað ríkisstjórnin muni gera ef bráðabirgðalögin verða dæmd ómerk. Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu hér. Það þarf að svara æði mörgum spurningum ef það gerist og enginn vafi á því að þá þarf að gera upp þjóðhagsáætlunina nýju og allt það sem lagt er til grundvallar til framfara hér á næstu árum.
    Ekkert skal ég segja um það hvort virðing Alþingis hafi vaxið við setu hv. þm. hér. Hann taldi að virðingu Alþingis hefði mjög hrakað. Ég held ekki. Ég geri mér vonir um að á þessu verði tekið málefnalega hér á Alþingi og ég geri mér vonir um að það verði gert á þeim breiða grundvelli sem var forsenda fyrir því að þessi bráðabirgðalög voru sett. Það er stundum svo að það liggja fyrir tveir kostir, báðir slæmir. Þá verður ríkisstjórn að hafa þor og kjark til að velja þann kostinn sem er þó skárri þegar á heildina er litið. Og ríkisstjórnin taldi að svo væri í þessu tilfelli.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir talaði um að ríkisstjórnin liti á heildina en ekki einstaklinginn. Einstaklingurinn er hluti af heildinni og einstaklingnum mun ekki farnast vel nema heildinni farnist vel og nema grundvöllur til þess að hér sé starfsemi og atvinnurekstur í góðu horfi sé fyrir hendi. Ríkisstjórnin valdi því þann kostinn sem hún taldi skárri af tveimur slæmum í þessu tilfelli.