Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég tel rétt að það komi hér fram að seinni partinn í júlí sl. hafði starfandi forsrh., hæstv. sjútvrh., samband við mig þar sem ég var norður í landi til þess að ræða við mig um þau mál sem hér eru til umræðu. Ég var með aðvörunarorð um að setja bráðabirgðalög um þetta efni. Ég benti honum á að það hefði verið eðlilegast að þegar þjóðarsáttin svokallaða var gerð hefðu verið sett lög eða samið um þetta atriði vegna þess að það blasti við öllum þá að þessir samningar voru í gildi og ef þeir væru í gildi og framkvæmdir mundu þeir raska þeirri þjóðarsátt sem lá þá fyrir ef það er niðurstaða hjá mönnum að svo hafi verið. Ég óttaðist og óttast það mjög að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér að setja slík lög sem þessi því að samningar sem menn gera og skrifa undir eiga að standa og meira að segja þó þeir skrifi ekki undir, ef þeir lofa einhverju þá eiga slík orð að standa. Ég er því hræddur um og ég finn þannig til að það verði erfitt að semja við ríkisstarfsmenn eftir setningu þessara bráðabirgðalaga. Ef ég væri í þeirra sporum mundi ég ekki koma að samningaborði. Ég mundi vilja þá frekar fá gerðardóm um kjörin, eins og þingmenn og fleiri aðilar í þjóðfélaginu verða að sæta, vegna þess að þarna er komin reynsla á það að samningar standa ekki. Þeir eru ómerktir af þeim sem semja. Ég vil að þetta komi fram en ætla ekki að eyða tíma þingsins með fleiri orðum.