Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Hliðstætt frv. var lagt fram í efri deild á síðasta þingi og hlaut góðar undirtektir en því miður dagaði það uppi í neðri deild. Það má ef til vill segja að það hafi gerst vegna þess að frv. kom seint fram á síðasta þingi en ég verð þó að lýsa furðu minni yfir því að þetta mál skyldi ekki hafa fengist afgreitt þar sem hér er um að ræða mjög viðamikið hagsmunamál tuga þúsunda lífeyrissjóðsfélaga.
    Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að samkvæmt lögum ber sérhverjum vinnufærum Íslendingi að vera aðili að lífeyrissjóði. Þau lög voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi, ef ég man rétt, árið 1981 eða 1982. Við það að skylda alla landsmenn til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði er raunverulega verið að skylda alla vinnufæra Íslendinga til þess að leggja stóran hluta af tekjum sínum í ákveðið sparnaðarform sem er svonefnt lífeyristryggingaform í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
    Allir lífeyrissjóðir starfa samkvæmt reglugerð sem er staðfest af fjmrh. Í þeim reglugerðum er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir færi upp ársreikninga sína og þeir séu endurskoðaðir með svipuðum hætti og tíðkast í fyrirtækjum. Er allt gott um það að segja og reynslan hefur yfirleitt verið sú að lífeyrissjóðir hafa skilað góðum niðurstöðum, þ.e. hafa skilað sínum ársreikningum eins og lög mæla fyrir. En því miður hefur orðið allmikill misbrestur á því hjá nokkrum sjóðum að þeir gengju frá ársreikningum og endurskoðun með þeim hætti sem kröfur eru gerðar um almennt til annarra, auk þess sem enn vantar mikið á að sjóðfélagar fái þær upplýsingar sem þörf krefur. Hafa ber einnig í huga að nú munu starfræktir á Íslandi um 100 lífeyrissjóðir. Heildareignir þessara sjóða munu um mitt þetta ár hafa verið komnar upp í 116 milljarða. Þegar maður hefur það í huga að hér er um að ræða miklar eignir, hvort sem litið er á það frá sjónarmiði þeirra einstaklinga sem eru þátttakendur í lífeyrissjóðunum eða út frá heildartölunni, þá gegnir það mikilli furðu, svo ekki sé meira sagt, að hið háa Alþingi skuli ekki hafa samþykkt þetta frv. til laga um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða sem ég lagði fram á síðasta þingi. Það gegnir mikilli furðu þegar haft er í huga að lífeyrissjóðakerfið sem slíkt hefur legið undir ákveðinni gagnrýni m.a. með tilliti til þess hvernig gengið væri frá ársreikningum. Þetta frv. er nokkuð í samræmi við það sem kemur fram í frv. því til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem lagt var fram á hinu háa Alþingi á síðasta þingi og í meginatriðum hliðstætt þeim ákvæðum í því frv. er lúta að ársreikningum og endurskoðun sjóðanna. Þó eru veigamiklar breytingar á þessu frv. frá þeim hugmyndum sem koma fram í frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem ég mun víkja að hér nokkuð á eftir.
    Nú kann einhver að spyrja: Er þörf fyrir það að koma með sérstakt frv. um þennan þátt í starfsemi lífeyrissjóðanna? Nægir ekki að bíða þess dags að heildarfrv. um starfsemi lífeyrissjóðanna verði samþykkt í framtíðinni? Því er til að svara að þótt frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða hafi verið kynnt á síðasta þingi fer því víðs fjarri að því er virðist að það frv. verði lagt fram á þessu þingi og fái fullnaðarafgreiðslu eins og æskilegt væri. Þess vegna er nauðsynlegt að þetta frv. sem ég mæli hér fyrir verði samþykkt nú þegar á þessu þingi.
    Ég mun ekki, virðulegi forseti, víkja að einstökum greinum út af fyrir sig en þó verð ég að drepa á nokkur atriði til þess að undirstrika mikilvægi þess sem hér um ræðir.
    Í fyrstu grein segir svo, virðulegi forseti:
    ,,Stjórn lífeyrissjóðs skal sjá um að saminn sé ársreikningur fyrir hvert almanaksár í samræmi við reglur sem Seðlabanki Íslands setur. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjármagnsstreymi og skýringar. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju, bæði að því er varðar mat á hinum ýmsu liðum og framsetningu.
    Í ársskýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
    Ársreikningur lífeyrissjóðs skal lagður fyrir skoðunarmenn eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Ársreikningur skal undirritaður af öllum stjórnarmönnum lífeyrissjóðs. Hafi einhver stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.``
    Í þessari grein er verið að árétta þau grundvallar- og meginatriði sem lúta að ársreikningum yfirleitt og er full þörf á því að sett séu lög hvað lífeyrissjóði áhrærir.
    Í þriðju grein er lagt til að: ,,Skoðunarmenn skulu framkvæma endurskoðun í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur og reglur Seðlabanka Íslands þar að lútandi. Með endurskoðun sinni skulu þeir komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem ársreikningurinn veitir. Þeir skulu ganga úr skugga um að ársreikningurinn sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta varðandi meðferð fjármuna, ráðstöfun fjár, ávöxtun og upplýsingaskyldu lífeyrissjóða.``
    Þeir skulu einnig árita reikninginn og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Telji skoðunarmenn að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar, sem þar eigi fram að koma, þá skulu þeir geta þess í áritun og koma með viðbótarupplýsingar.
    Þá segir einnig: ,,Skoðunarmönnum er skylt að veita bankaeftirliti Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar um málefni lífeyrissjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og þeir geta látið í té. Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla

í rekstri lífeyrissjóðs varðandi innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði, sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins eða skaðað hann að öðru leyti, skulu skoðunarmenn gera stjórn sjóðsins og Seðlabanka Íslands viðvart.
     Skoðunarmenn hafa rétt til að sitja stjórnarfund þar sem fjallað er um ársreikning.``
    Síðan segir í 4. gr.: ,,Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1991`` --- þar hefur orðið villa. Þar á að standa 1. jan. 1992, vegna þess að það er varla við því að búast að hið háa Alþingi geti afgreitt þetta mál með þeim hraða sem æskilegt væri né heldur mögulegt að hrinda lögunum í framkvæmd með svo stuttum fyrirvara verði þau samþykkt fyrir áramót.
    Ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að hér er um mikið og stórt mál að ræða. Við búum við bankakerfi sem er þess eðlis að bankar og aðrar fjármálastofnanir lúta mjög ströngu, ákveðnu opinberu eftirliti. Á ég þar við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Þess vegna er það með hreinum ólíkindum að þetta frv. skyldi ekki vera samþykkt á síðasta þingi þegar haft er í huga, eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, að sá sparnaður sem er núna í eignum lífeyrissjóðanna er orðinn meiri en heildarinnlán í öllu banka- og sparisjóðakerfi landsins. Það gerðist um mitt ár að heildareignir lífeyrissjóðanna fóru upp fyrir heildarinnlán í banka- og sparisjóðakerfinu. Þess vegna hlýt ég að ítreka það og segja að ég skil ekki hið háa Alþingi að það skuli ekki hafa komið þessu frv. í höfn á sl. vori. Það var að vísu afgreitt hér í Ed. með viðeigandi hætti en dagaði uppi á leiðinni niður í Nd. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt og áður en ég gef þá yfirlýsingu sem ég ætla að gefa nú á eftir þá vil ég taka það fram að auðvitað veit ég að flestallir lífeyrissjóðir gegna þeirri skyldu að ganga vel frá sínum ársreikningum og framkvæma eðlilega endurskoðun og haga sínum málum með þeim hætti í starfsemi sinni að það er hafið yfir allan vafa um að þar sé ekki rétt að staðið. En hvað sem því líður er það mjög alvarlegt mál fyrir alla þá sem leggja mánaðarlega 10% af sínum launum inn í lífeyrissjóðakerfið að ekki skuli hafa verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi hvernig eftirliti og ársreikningum hjá þessum sjóðum skuli háttað.
    Ég kalla þess vegna hið háa Alþingi til ábyrgðar vegna þess að það hefur vanrækt þennan --- ég vil segja nauðsynlega eftirlitsþátt sem felst í því frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég mun ekki orðlengja þetta frekar, virðulegi forseti, en ég vil ítreka þó eitt atriði í frv., þ.e. að í frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða er gert ráð fyrir því að sett sé á stofn lífeyrissjóðaeftirlit. Í því eftirliti eru fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og fulltrúar ríkisins og þeirra sjóða sem eru í tengslum við ríkisvaldið. Ég var einn nefndarmanna sem stóðu að samningu þessa frv. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég var ekki sammála um en ég undirritaði frv. sem sent var til ráðherra með fyrirvara, m.a. með tilliti til þessa atriðis þó það kæmi ekki fram í mínum fyrirvara, ég hafði

fyrirvara við önnur atriði sem er ástæðulaust að tíunda hér undir þessu máli, en ég tel eðlilegra og sjálfsagðara að þetta eftirlit sé í höndum Seðlabanka Íslands, þ.e. í útvíkkuðu verkefni svokallaðs bankaeftirlits, þar sem gerðar yrðu þá aðrar og meiri kröfur til bankaeftirlitsins en nú er í dag. Þar á ég við að hér er um víðtækara svið að ræða en það að fylgjast með bankastofnunum sem starfa samkvæmt öðrum reglum og siðavenjum. Ég tel það eðlilegra að Seðlabankinn og bankaeftirlitið hafi með þetta eftirlit að gera heldur en nefnd sem skipuð er fulltrúum viðkomandi, ég vil segja, hagsmunaaðilum. Ég tel að slík tengsl séu ekki eðlileg. Þeir aðilar sem skipa menn eða kjósa í stjórnir lífeyrissjóðanna eiga ekki einnig að velja menn til þess hlutverks að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það verður að koma annars staðar frá, þ.e. frá hlutlausum aðila sem fullnægir þeim kröfum sem gera verður til þeirra sem eiga að fylgjast með þessum miklum fjármunum og ráðstöfun þeirra.
    Einnig tel ég eðlilegt að fjmrn. sé eftir sem áður aðili að þessu lífeyrissjóðakerfi og verði það áfram í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. En eins og hv. þm. vita staðfestir fjmrn. reglugerðir sjóðanna og fær ársreikninga og aðrar upplýsingar frá sjóðunum eftir því sem það óskar.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar það sem felst í þessu frv. Ég legg áherslu á að það fái afgreiðslu hér í Ed. sem fyrst þannig að það geti farið til Nd. og verði afgreitt sem lög á hinu háa Alþingi, þ.e. helst fyrir áramót en þó í síðasta lagi áður en þingi lýkur.