Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Herra forseti. Ég tel það frv. sem hér liggur fyrir þess eðlis að rétt sé að það verði samþykkt. Ég tel að víðast hvar séu þessi mál í góðu lagi sem hér er rætt um í frv. Þau eru í góðu lagi þar sem lífeyrissjóðir eru stórir og sterkir en þar sem þeir eru smáir og meðlimir eru fáir þá grunar mig að betur mætti fara víða og reyndar hefur það komið upp í einstaka tilvikum.
    Í frv. er kveðið á um eðlilega hluti sem ekki ætti að þurfa að kveða á um en ég hygg að það sé til bóta að svo verði farið að sem segir hér í þessu frv. Hins vegar tel ég að það þurfi að vinda bráðan bug að því að fækka lífeyrissjóðum eða sameina lífeyrissjóði beinlínis til þess að gera þá hæfari til að sinna sínu hlutverki. Er eðlilegt að það sé eftirlit með því að þeir séu reknir á þann hátt sem eðlilegt getur talist.
    Þetta frv. flytur hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem allra manna mesta reynslu hefur af starfsemi lífeyrissjóðanna og þekkir þessi mál mjög vel. Veit ég að tilurð þessa frv. er vegna þess að hann sér hver vandinn er hjá þeim lífeyrissjóðum sem starfa nú þegar í landinu.