Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. spurði hvernig ætti að fækka lífeyrissjóðum. Það er nú svo sem ekkert algilt svar við því til frá einum manni, en ég hygg að menn geti komið sér saman um hvernig það skuli gert, þeir sem hafa besta yfirsýn yfir það. Ég minni á að með nýjustu tækni er enginn vandi að hafa afgreiðslu lífeyrissjóða úti á landi og í fjarvinnslu væri hægt að gera miklu meira, beina verkefnum til landsbyggðarinnar frá jafnvel lífeyrissjóðum annars staðar. Ég tel nauðsynlegt að fækka lífeyrissjóðum vegna þess að þeir eru allt of margir, 100 lífeyrissjóðir fyrir þessa litlu þjóð, vanmegna lífeyrissjóðir sem sumir hverjir geta ekki sinnt hlutverki sínu. Þessu þarf að breyta og við þurfum að hafa fyrst og fremst í huga réttindi fólksins sem borgar í lífeyrissjóðina. Mér er kunnugt um það að rekstrarkostnaður lífeyrissjóða sumra hefur verið óeðlilega hár. Það getur náttúrlega ekki gengið. Þegar stórar fjárhæðir af innborgunum lífeyrissjóða fara í rekstrarkostnað fer það í lokin þannig að þeir sem eiga að njóta fá ekki það sem tilskilið er. Ég tel sjálfsagt að hafa það að markmiði að landsbyggðin fái þann hlut sem hún á og gjarnan væri hægt að láta þangað meira með þeirri tækni sem nú er í tölvumálum.
    Ég minni á að þegar Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður var það tilskilið að sjóðurinn yrði færður á reikning hvers og eins verkalýðsfélags og gert yfirlit um það hvað hvert félag ætti þar inni. En það reyndist ekki hægt vegna skriffinnsku. Nú ætti það að vera hægt. Menn hafa að vísu fallið frá því að það verði gert, en það ætti að vera hægt sem ekki var hægt áður vegna aukinnar tækni.
    Ég tel nauðsynlegt að lífeyrissjóðafrv. sem hæstv. fjmrh. var að geta um hér áðan og hv. 3. þm. Vestf. verði flutt á þessu Alþingi og vonandi tekst samstarf um að afgreiða það. Ég veit að það eru ýmis ljón þar í veginum. Það er víða afturhaldið. En vonandi verður það hægt sem allra fyrst.
    Hvað varðar lífeyrisréttindi kvenna þá hafa sumir miklað það fyrir sér að heimavinnandi húsmæður bæru skarðan hlut frá borði. Það er einn allsherjar misskilningur sem þarf náttúrlega að leiðréttast. Það er hægt að gera það með því að kynna sér málin. Tilfellið er að kona sem unnið hefur í 20 ár í fiskvinnslu og greitt 10% af sínum launum allan þann tíma fyrir erfið störf úti á vinnumarkaðinum auk þess að sinna heimili, sem er nú það algenga í þessu þjóðfélagi, fær þegar til kastanna kemur aðeins nokkur hundruð kr. meira en kona sem aldrei hefur farið út á vinnumarkaðinn. Það er vegna tekjutryggingarinnar sem þetta virkar svona. Og ég get bara sagt það hér að þrátt fyrir að menn tala um þessa hluti í vandlætingartón er það fólk sem hefur þurft að greiða í þessa lífeyrissjóði ekki sátt við þessa mynd. Þær konur sem hafa þannig þurft að leggja 10% af sínum launum í þessa sjóði eru ekki sáttar við það að fá ekkert meira en aðrir vegna þessa kerfis sem við búum við. En það er staðreyndin í dag að svona lítur dæmið út.

    Verkafólk er almennt mjög óánægt með það hvernig lífeyrissjóðsféð er skattlagt með þessum hætti. Það er að vísu gert í jöfnunarskyni en þessar raddir eru orðnar mjög harðar hjá því fólki sem þannig er ástatt með.