Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins útskýra það sem ég kallaði fram í hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni vegna þess að mér fannst í hans ræðu örla dálítið á þeim misskilningi sem ég hef orðið var við víða, að það sé ríkissjóður sem taki meginhlutann til sín af tekjuskattskerfinu sem er hér á Íslandi. Það er rangt. Þegar það dæmi er gert upp þá fara til sveitarfélaganna um 12 milljarðar en til ríkissjóðs um 10 milljarðar vegna þess að meginhlutann af þeim upphæðum sem koma inn í gegnum tekjuskattskerfið borgar ríkissjóður út aftur í formi persónuafsláttar, barnabóta og vaxtabóta.
    Það er nefnilega mjög merkileg staðreynd að tekjuskatturinn á Íslandi er meiri tekjulind fyrir sveitarfélögin en fyrir ríkissjóð. Og þá er ég auðvitað, eins og eðlilegt er, að telja útsvarið til tekjuskattskerfisins vegna þess að það er eðli málsins samkvæmt, eins og kerfið er uppbyggt, hluti af tekjuskattskerfinu. Það er þess vegna þannig að t.d. íbúi í Reykjavík borgar meira til borgarsjóðs Reykjavíkur í gegnum tekjuskattskerfið en til ríkissjóðs. Vilji menn gera þær breytingar á tekjuskattskerfinu sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson gerði grein fyrir hér áðan, þá mun það rýra tekjur sveitarfélaganna meira en ríkisins og þá mest tekjur borgarsjóðs Reykjavíkur.
    Þetta er í sjálfu sér ekki nein ný skilgreining, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, vegna þess að eins og allir vita leggst útsvarið á og er innheimt einnig sem hluti af hinu víðtæka tekjuskattskerfi sem í landinu er og þegar verið er að meta tekjuskattsstigið, eins og t.d. hv. þm. Halldór Blöndal hefur oft gert í þessari deild, þá leggur hann með réttu saman útsvarsprósentuna og tekjuskattsprósentuna sem fer til ríkisins vegna þess að þetta er hluti af sama kerfinu. Og það er einnig mikil samtenging á milli jöfnunarákvæðanna í tekjuskattinum, eins og persónuafsláttar og annarra ákvæða, og útsvarsákvæðanna til þess að tryggja að jöfnunarþættir tekjuskattsins gangi einnig yfir útsvarsgreiðslurnar svo að útsvarsgreiðslurnar falli ekki með sérstaklega þungum hætti á lágtekjufólk. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta sérstaklega hér, en mér fannst hins vegar nauðsynlegt að skýra þetta nánar af því að ég vék að þessu í tveimur setningum sem ég kallaði fram í fyrir hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Mér fannst hann eins og ýmsir ræða þetta mál eingöngu út frá því að þetta snerti tekjustofna ríkisins.
    Af þeirri heildarprósentu sem innheimt er í útsvar og tekjuskatt situr eftir hjá ríkinu, ef ég man rétt, í kringum 6%. Allt annað er borgað út, ýmist í jöfnunargreiðslum til einstaklinga, barnabótum, vaxtabótum og persónuafslætti eða fer til sveitarfélaganna í gegnum útsvarið.
    Ég held þess vegna að það væri fróðlegt að ræða þetta mál einnig við forsvarsmenn sveitarfélaganna vegna þess að þær tillögur, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson reifaði hér til breytingar á tekjuskattinum, munu fyrst og fremst rýra tekjustofna sveitarfélaganna.