Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það vildi svo óvenjulega til að ég gat ekki mætt á þingfund, og kemur það nú örsjaldan fyrir, fyrr en klukkutími var liðinn af fundartímanum. Því heyrði ég ekki þær umræður sem hér höfðu farið fram áður og var hreint ekki viss um hvaða mál var á dagskrá. En ég get ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að koma hér í ræðustólinn vegna þeirra stóryrða sem hæstv. fjmrh. notaði og sem hann ætíð notfærir sér þegar hann finnur sér tilefni til, og það er að ráðast á Sjálfstfl. og ég tala nú ekki um ef hann getur nefnt borgarstjórann í Reykjavík. Vegna þess að hann nefndi mitt nafn og var að reyna að blanda mér inn í þau mál sem Mosfellsbær, mitt sveitarfélag, á í viðskiptum við Reykjavíkurborg, þá gekk svo fram af mér að ég gat ekki annað en vakið á þessu athygli. Satt að segja veit ég ekki hvað maðurinn er að fara og ég efast um að hann viti það sjálfur. Ég bara spyr: Er það óeðlilegt að nágrannasveitarfélög eigi samstarf á frjálsum vettvangi og þau notfæri sér ef þau hafa tækifæri til þess að fá góða þjónustu hjá sveitarfélagi sem getur boðið hana og veitt hana? Eiga þau að gera það án þess að greiða fyrir?
    Ég vil aðeins taka það fram að Salome Þorkelsdóttir, eins og hann títtnefndi hér í sinni ræðu, hefur ekki lagt það í vana sinn að taka ráðin af heimafólki, hún hefur ekki lagt það í vana sinn. Hún er ekki á sama grunni kannski, starfar ekki með sama hugsunarhætti og hæstv. fjmrh., sem telur sig ætíð geta sagt fólki fyrir verkum og hvernig það eigi að haga sér og hvernig það eigi að tala.
    Ég tel að sveitarstjórnarmenn í Mosfellsbæ, eins og reyndar hvar sem er annars staðar, séu fullfærir um að semja um sín mál og vinna þau án þess að aðrir séu að skipta sér af þeim að tilefnislausu. Þetta vildi ég láta koma skýrt fram. Og ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, ef hann hefur ekki gert sér grein fyrir því, að það er nokkuð gott samstarf sveitarfélaganna sem heitir Landshlutasamtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ég hefði haldið að hann ætti góðan og greiðan aðgang að því að kynna sér þau samtök og vita hvernig þau eru byggð upp og að þau starfa á jafnréttisgrundvelli. Þetta vil ég aðeins minna hæstv. fjmrh. á og ég efast ekki um að þetta rifjast upp fyrir honum ef hann fer í leynihólfin í huga sínum. Þessi samtök hafa nýlega haldið sinn aðalfund og rætt sín mál og ég held að þau séu alveg einfær um það, hver einasti maður sem þar tekur þátt í því samstarfi. Og ég held að þeir þurfi ekki mína aðstoð eða hæstv. fjmrh. í sínum innri málum. Þetta vil ég nú láta koma fram.
    En það mál sem hér er á dagskrá, eða var í upphafi, varðar lífeyrismálin. Mál það sem hv. 14. þm. Reykv. flytur hér er stór málaflokkur og mikið réttlætismál á ferðinni. Það er mikið óréttlæti í þessum málum og full ástæða til þess að ræða þau. Ég sagði hæstv. forseta að ég skyldi vera stuttorð. Þótt ég eigi mjög erfitt með að hætta núna og mig langi til þess að halda áfram vil ég aðeins geta þess að í gær var ég á leið heim í bílnum mínum og eins og fleiri þá

opna ég oft fyrir útvarpið. Þá var Þjóðarsálin á dagskrá, að ég held, og hæstv. fjmrh. sat þar fyrir svörum. Og þá var hann að leika þennan leik sinn sem hann er afar iðinn við. Þegar hann kemst í vörn og verið er að gagnrýna eitthvað sem hann veit að er kannski ástæða til að gera athugasemdir við, að þeir sem eru að gagnrýna hafa eitthvað til síns máls, þá notar hann þá tækni að fara offari og taka yfirgengileg dæmi eins og hann einmitt nefndi þar. Ég tók eftir því að það var kona þar með miklar áhyggjur af því hvað yrði um hennar hag ef ætti að fara að breyta almannatryggingakerfinu í þá veru að skerða ellilífeyri fólks við ákveðin tekjumörk. Og þá kom fjmrh. eins og vant er og spurði hvaða óréttlæti væri í því að sleppa þessum 10 þús. kalli fyrir fólk sem er með 500 þús. kr. mánaðartekjur. Hann hlýtur að vera vel kunnugur þeim hópi manna sem fá þessar 500 þús., ég þekki hann ekki. Og ég hef grun um að þó sá hópur sé til þá sé hann ekki stór í þessu þjóðfélagi. ( KP: Hann er klókur.) Hann er klókur, hæstv. ráðherra, sagði 3. þm. Vestf. og ég býst við að það séu margir farnir að gera sér grein fyrir því ( KP: Já, það er rétt.) að hann er doktor í stjórnmálafræðum og kann svolítið til verka í þessum efnum. Það er ekki eins og þessir almennu venjulegu þingmenn sem komast ekki í 200 þús. kr. eftirlaunin eftir að þeir fara hér af þingi, jafnvel þó þeir komist upp í hæstu prósentuna. En það getur vel verið að hann þekki einhverja þingmenn sem komist upp í slík eftirlaun. Það er kannski eitthvað honum tengt en það er alla vega ekki mér tengt. Ég get ekki séð hvernig jafnvel þingmaður, þó hann sitji í hálaunaflokki, ætti að komast upp í þessi 200 þús. kr. laun.
    Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram núna, hæstv. forseti. Ég er víst farin að syndga upp á tímann en ég ætla að geyma mér frekar að ræða þessi mál, það óréttlæti og þau viðhorf sem ríkja og eru að verða æ ríkari í þjóðfélaginu undir stjórn þessarar ríkisstjórnar, sem kennir sig við félagshyggju og líklega jafnrétti, en er í raun og veru ríkisstjórn forræðishyggju og óréttlætis.