Endurskoðun barnalaga
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans og fagna því að sú vinna skuli vera komin af stað að skoða bæði þessi frv. Mér láðist reyndar að geta um það frv. sem kom fram hér sl. vor, sennilega vegna þess að það kom ekki einu sinni til umræðu. Varðandi það sem hæstv. dómsmrh. nefndi um sameiginlega forsjá vil ég aðeins minna á að hugsjónin um sameiginlega forsjá er auðvitað mjög göfug en spurningin er um tilfinningalega þáttinn þegar til skilnaðar kemur. Mér er kunnugt um að það eru uppi miklar efasemdir um slík ákvæði meðal þeirra sem í daglegum störfum sínum fara með þessi mál.
    Ég vona að við fáum þetta frv. sem fyrst til umfjöllunar hér inni á þinginu vegna þess að það þarf að vanda til vinnubragða við það og auðvitað að gæta þess að hafa rétt barna fyrst og fremst að leiðarljósi. Til þess að við getum vandað okkar vinnubrögð sem skyldi þarf frv. auðvitað að koma fram sem allra fyrst. Þessi mál eru í ólestri núna eins og við vitum öll og því brýnt að taka á þeim.