Samvinnulög
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka svar hæstv. viðskrh. þó að ég út af fyrir sig harmi það að málið skuli ekki vera komið það langt að hægt hefði verið að leggja frv. fram strax í upphafi þings. En ég vil leggja á það mikla áherslu að málið fái hér góða og skilvirka meðferð á Alþingi. Sagan sýnir að það veitir ekkert af því að ýta svolítið á eftir þessu máli því margsinnis á umliðnum árum hefur
málið nánast verið komið á það stig sem það er á núna, að það hefur verið komin af stað vinna við að endurskoða samvinnulögin en málið alltaf dagað uppi. Ég treysti því að nú verði málinu fylgt eftir og treysti þar á stuðning allra áhugamanna um samvinnurekstur á Alþingi, hvar í flokki sem þeir standa.