Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1991 er nú komið til 1. umr. hér á Alþingi. Hæstv. fjmrh. hefur flutt sína ræðu og hann virtist tala fyrir hönd jafnaðarmanna. Þingheimur hefur orðið vitni að leikþætti. Enn á ný segist hæstv. fjmrh. vera að leggja nýjan grundvöll að jafnvægi í ríkisfjármálum. Enn á ný segir hæstv. fjmrh. að hann sé að leggja hornstein að stöðugleika í efnahagslífinu. Enn á ný flytur hæstv. fjmrh. fjárlagafrv. sem hann er að reyna að telja öðrum trú um að eigi þessar einkunnir skilið.
    Leiksýning hæstv. fjmrh. var fólgin í því að vefja ríkisfjármálin inn í glanspappír og mála síðan utan á þennan pappír fallegar myndir til að sýna hv. Alþingi og fólkinu í landinu. Þegar glanspappírinn er á hinn bóginn tekinn utan af innihaldinu kemur raunveruleikinn í ljós. Sá raunveruleiki birtir á ýmsan máta ískyggilega framtíðarsýn. Hann sýnir okkur að þetta fjárlagafrv. rís ekki undir því að kallast nýr hornsteinn að stöðugleika í efnahagslífi né grundvöllur að jafnvægi í fjármálum ríkisins. Svo var heldur ekki um þau fjárlagafrv. fyrri sem þessi hæstv. ráðherra hefur flutt.
    Áður en ég hef að lýsa megineinkennum þessa fjárlagafrv. og tengslum þess við þróun ríkisfjármála á allra síðustu árum þykir mér rétt með tilliti til ræðu hæstv. ráðherra að fara örfáum orðum almennt um efnahagsumhverfið. Þrátt fyrir óstjórn í fjármálum ríkisins er nú að ýmsu leyti bjartara yfir en var fyrir ári. Eftir að aðilar vinnumarkaðarins höfðu snemma á þessu ári mótað nýjan efnahagsgrundvöll sem gengur undir nafninu þjóðarsátt hefur náðst meiri stöðugleiki í verðlagsþróun hér á landi en verið hefur um langt skeið. Vegna hins nýja efnahagsgrundvallar og með tilliti til batnandi verðlags á afurðum okkar erlendis er staða útflutningsgreinanna betri en var fyrir ári síðan. Segja má að þetta hafi gerst þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki fyrir hennar tilverknað nema að litlu leyti. Hæstv. ríkisstjórn hælir sér af þessu ástandi og telur það sér að þakka.
    Hæstv. ríkisstjórn hafði fyrir ári síðan lagt upp sinn efnahagsgrundvöll fyrir þjóðina. Sá efnahagsgrundvöllur boðaði verulegar verðlagshækkanir á þessu ári. Hann boðaði einnig að kaupmáttur launafólks í landinu mundi lækka um 5,5% ofan á alla þá lækkun kaupmáttar sem orðið hafði á árunum á undan í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Það má enn rifja upp að frá 1988 hefur kaupmáttur launafólks lækkað um 17% og frá árinu 1987 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna launafólks lækkað um 21%. Ef efnahagsgrunnur hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. sem hér var að ljúka máli sínu hefði orðið ráðandi á þessu ári, þá má vænta þess að þessi áætlun ríkisstjórnarinnar hefði gengið eftir og kaupmáttur launafólks og ráðstöfunartekna þess hefði lækkað um 26% frá árinu 1987. Þessu vildu aðilar launa - og vinnumarkaðarins ekki una, sem ekki var von. Þeir tóku því ráðin í sínar hendur og mynduðu nýjan efnahagsgrundvöll og tóku um leið ráðin af hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn

varð síðan nauðug viljug að koma til liðs til að þetta gæti gengið fram þó í smáu væri.
    Nú hefur það gerst, vegna þessara atburða í íslensku þjóðlífi á fyrri mánuðum þessa árs, að náðst hefur betra jafnvægi en fyrr. Ekki hefur orðið rýrnun kaupmáttar á þessu ári, raunar fremur hið gagnstæða þó í litlu sé. Það var ekki fyrir gerðir þessarar hæstv. ríkisstjórnar né þessa hæstv. ráðherra. Það var fyrir það að aðilar úti í þjóðfélaginu, ríkisstjórninni óviðkomandi, aðilar vinnumarkaðarins tóku ráðin í sínar hendur og fengu almennan stuðning í þjóðfélaginu til að koma því fram.
Það er því í hæsta máta einkennilegt þegar hæstv. fjmrh. lofar ríkisstjórnina og sína fjármálastjórn með þeim hætti að segja að þetta sé henni að þakka.
    Ég vil gjarnan taka það fram að það verður eitt hið allra þýðingarmesta viðfangsefni íslenskra stjórnmála á komandi tímum að leitast við að tryggja að hér verði ekki um stundarfyrirbrigði að ræða. Þrátt fyrir þetta er staða margra fyrirtækja of veik og önnur eru í algerri úlfakreppu vegna langvarandi hallarekstrar.
    En þrátt fyrir það að þessi árangur hafi náðst spáir ríkisstjórnin því að atvinnuleysi á næsta ári verði 2,25%, eða meira en á þessu ári. Og við skulum heldur ekki gleyma því að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið sett landsmet í skuldasöfnun okkar við útlönd, þannig að erlendar skuldir eru nú um 50% af landsframleiðslu. Samtímis hefur greiðslubyrði af erlendum lánum hækkað hrikalega á síðustu árum og því er spáð að hún hækki enn á næsta ári um liðlega 2% og verði 21,7% af útflutningstekjum. Þessa alvarlegu stöðu þjóðarbúsins út á við er rétt að hafa í huga um leið og við erum að skoða þær meginlínur sem birtast í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu.
    Eftir að glansumbúðum fjmrh. er flett utan af fjármálum ríkisins og fjárlagafrv. blasir raunveruleikinn við meðal annars á eftirfarandi hátt:
    1. Frv. er lagt fram með 3,7 milljarða halla. Heitstrengingar fjmrh. um jafnvægi í rekstri ríkissjóðs hafa snúist upp í andhverfu sína.
    2. Samansafnaður halli ríkissjóðs á fjórum árum, 1988 -- 1991, miðað við verðlag fjárlagafrv. nemur nálega 27 milljörðum kr. Miðað við fyrri reynslu á sú tala eftir að hækka við afgreiðslu og framkvæmd fjárlaga fyrir næsta ár og við lok þessa fjárlagaárs.
    3. Þessi gífurlegi hallarekstur á drýgsta þáttinn í því að vaxtagreiðslur A-hluta ríkissjóðs verða á næsta ári 9 -- 10 milljarðar kr.
    4. Tekjur ríkissjóðs, þ.e. skattar á þjóðina, fara vaxandi á næsta ári, þrátt fyrir að öðru sé haldið fram með villandi samanburði í fjárlagafrv. Þetta bætist við 13 milljarða skattahækkun næstu þrjú árin á undan, 1988 -- 1990. Hækkun skatta á næsta ári verður fyrst og fremst á tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja og með stórhækkun á launatengdum gjöldum atvinnulífsins, sem ætlunin er að steypa saman í eitt svokallað tryggingaiðgjald.
    6. Hinn nýi hafnarskattur og fleiri tekjupóstar ríkisins en áður hefur tíðkast koma ekki fram í tekjuyfirliti A-hluta frv. heldur er þeim smeygt inn í uppgjör á fjárhag einstakra stofnana.
    7. Útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið meira en tekjurnar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Frv. boðar þar enga stefnubreytingu.
    8. Umsvif ríkiskerfisins halda áfram að vaxa. Launaútgjöld frv. virðast tákna fjölgun ríkisstarfsmanna um allt að 400 á næsta ári. Á hinn bóginn eru enn skorin niður framlög til opinberra framkvæmda, félagslegra sjóða og atvinnuvega. Sérmerktum tekjustofnum sem ríkissjóður innheimtir er ekki skilað til samræmis við það sem lög kveða á um.
    9. Frv. boðar gífurlegan vanda í fjármálum ríkisins á komandi árum vegna skuldbindinga af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þá falla í gjalddaga og vegna þýðingarmikilla sjóða sem eru komnir að fótum fram. Fjmrh. viðurkennir að það geti tekið tvö til þrjú kjörtímabil að vinna ríkissjóð út úr þessum þætti af þeim vandamálum sem núverandi ríkisstjórn skilur eftir sig.
    Þetta eru nokkrir drættir í ásýnd ríkisfjármála þegar glansumbúðum fjármálaráðherrans hefur verið svipt í burtu. Sum af þessum meginatriðum liggja í augum uppi. Önnur þarfnast nánari skýringa. Enn fremur eru fjöldamörg einstök atriði frv. þess efnis að nauðsynlegt er að vekja á þeim athygli. Þó að vikið verði að nokkrum þeirra hér á eftir verða þau nánar tekin til meðferðar við 2. umr., svo sem eðlilegt má teljast.
    Þegar núverandi ríkisstjórn settist að völdum á haustdögum 1988 hóf hæstv. fjmrh. starf sitt í fjmrn. með því að ausa fé úr ríkissjóði á báðar hendur umfram það sem fjárlög heimiluðu. Afleiðingin varð gífurlegur hallarekstur ríkissjóðs á því ári. Þegar hann síðan á þeim haustdögum 1988 lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrv. þá skyldu nú verða mikil þáttaskil. Þá lagði hann sinn fyrsta hornstein að jöfnuði í fjármálum ríkisins. Stefnan var skýr og afdráttarlaus. Hallarekstri ríkissjóðs skyldi ljúka, aðhald og rekstrarafgangur skyldi taka við af eyðslu og sóun. Fjárlagafrv. var þá lagt fram með góðum rekstrarafgangi og Alþingi afgreiddi fjárlögin í samræmi við það.
    Samt fór það svo á árinu 1989 að stefnunni var ekki fylgt, hornsteinninn reyndist orðin tóm. Aðhaldið brást, eyðslan og útþensla ríkisútgjaldanna hélt áfram. Afleiðingin varð 7,4 milljarða halli á verðlagi núverandi fjárlagafrv. Ekki þurfti nema þetta eina ár til þess að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn gæfist algerlega upp við að reyna að ná jöfnuði, hvað þá rekstrarafgangi, í fjármálum ríkisins.
    Fjárlagafrv. fyrir þetta ár var fyrir ári síðan lagt fram með tæplega 3 milljarða kr. halla og því er spáð af fjmrn. að halli á ríkissjóði á þessu ári verði í kringum 5 milljarðar. Við getum þá að sinni látið liggja á milli hluta færslu á skuldum frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem á þessu ári verða teknar á ríkissjóð, og útúrsnúninga hæstv. ráðherra í sjónvarpinu um það mál í gærkvöldi.
    Að þessu sinni leggur hæstv. fjmrh. fram fjárlagafrv. með 3,7 milljarða halla og segir um leið að halli á ríkissjóði fari nú lækkandi. Allt er það nú miklum vafa undirorpið. Reynslan af fjármálastjórninni síðustu árin bendir raunar til hins gagnstæða, því mey skal að

morgni lofa en fjárlagafrv. að ári, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson sagði eitt sinn.
    Þetta yfirlit sýnir þó að stefnumál þessa hæstv. ráðherra um jöfnuð í rekstri ríkissjóðs, að ekki sé talað um rekstrarafgang, stóðu ekki nema fáar vikur og hornsteinar hans frá því í fyrra og hittiðfyrra hafa reynst hjóm eitt. Trúir því einhver þegar hæstv. ráðherra leggur nú fram fjárlagafrv. með meiri halla en í fyrra að þá reynist það traustari hornsteinn en hinir fyrri? Að nú reynist það leiða til þess að halli á rekstri ríkissjóðs fari lækkandi. Auðvelt er að leiða getur að hinu gagnstæða.
    Hæstv. ráðherra gagnrýndi hér í ræðu sinni fjármálastjórn í tíð okkar sjálfstæðismanna. Og hann gagnrýndi hagstjórn sem verið hafði við lýði á miðjum síðasta áratug og hvernig haldið hefði verið á þeim tíma á málum ríkissjóðs. Ef litið er á greiðsluyfirlit A - hluta ríkissjóðs frá þessum tíma sést að árið 1984 voru tekjur ríkissjóðs 25,2% af vergri landsframleiðslu. En gjöldin voru 24,5% af vergri landsframleiðslu. Rekstrarafgangur ríkissjóðs var þá 0,8% af vergri landsframleiðslu. Skyldi ekki þetta vera eitthvað annað en sá samfelldi hallarekstur sem hæstv. fjmrh. núv. hefur staðið fyrir? Að vísu varð nokkur halli á rekstri ríkissjóðs á árunum þar á eftir. En ef litið er á hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa þróast í stórum dráttum frá þessu tímabili sést það að til að mynda árið 1984, sem ég nefndi áðan, voru tekjur ríkissjóðs 25,2% af landsframleiðslu en voru 27% árið 1989 og 27,6% á árinu 1990 samkvæmt spám.
    Ég mun rekja hér á eftir hvernig tekjur fjárlagafrv. líta út. Gjöldin hafa einnig hækkað stórkostlega eða meira en tekjurnar frá því á þessum tíma, því þá voru útgjöld ríkissjóðs 24,5% af landsframleiðslu en eru nú á þessu ári áætluð 29,1% af landsframleiðslu. Og stóra stökkið verður í þessum efnum bæði að því er lýtur að tekjum ríkissjóðs og útgjöldum þegar hæstv. núv. fjmrh. kemur í fjármálaráðherraembættið. Hann á þann vafasama heiður að hafa sprengt upp skattheimtu í landinu og aukið hana stórkostlega, en þó um leið aukið útgjöld ríkissjóðs meira, þannig að skattheimtan á landsmenn hefur ekki orðið til þess að jafna afkomu ríkissjóðs heldur hefur það líka mistekist.
    Svo kemur þessi hæstv. ráðherra hér í dag ferð eftir ferð í ræðustól á Alþingi og ræðst að okkur sjálfstæðismönnum og okkar mönnum fyrir fjármálastjórn á miðjum síðasta áratug. Ég held að honum væri hollt að líta betur í eigin barm.
    Ég sagði áðan að tekjur ríkissjóðs, þ.e. skattar á þjóðina, færu vaxandi á næsta ári miðað við fjárlagafrv. þrátt fyrir að öðru sé haldið fram í frv. sjálfu með villandi samanburði. Í fjárlagafrv. eru heildartekjur ríkissjóðs, sem reiknaðar eru á A - hluta, tæpir 100 milljarðar kr. og hækka heildartekjur þessa árs um 7,5% frá nýlegri áætlun meðan verðlagshækkanir milli ára eru reiknaðar 7%. Séu tekjur ríkissjóðs í fjárlagafrv. nú hins vegar miðaðar við fjárlög fyrir árið 1990 hækka þær um 10,6 milljarða, eða tæplega 12%. Reynslan sýnir að tekjur ríkissjóðs og útgjöld hækka

á fjárlagaárinu og því afar hæpið að gera hlutfallslegan samanburð á áætlun um tekjur svo síðla ársins sem nú er gert annars vegar og fjárlagafrv. fyrir næsta ár hins vegar.     Til þess að sanna þetta er ástæða til þess að rifja upp að í frv. til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs lækkuðu að raungildi frá árinu á undan um 1,5 milljarða kr. Reyndin er hins vegar sú miðað við þá áætlun sem nú liggur fyrir að tekjurnar hækki að raungildi frá árinu á undan um 2,5 milljarða kr. en lækki ekki um 1,5. Þetta bendir því þegar til þess að um verulega skattahækkun verði að ræða á næsta ári en ekki hið gagnstæða. Því má svo bæta við að þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrir ári gumaði hæstv. fjmrh. mjög af því að gert væri ráð fyrir að útgjöldin lækkuðu frá árinu á undan um 4 milljarða kr. að raungildi. Þetta stenst nú ekki frekar en aðrir hornsteinar þessa hæstv. ráðherra. Reyndin er sú miðað við áætlanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar um útgjöld ríkissjóðs á þessu ári að gjöldin hækka um 5 milljarða kr. að raungildi frá því árið á undan en lækki ekki um 4 milljarða. Þetta er eitt dæmið um snilld þessa hæstv. fjmrh. í fjmrn.
    Það sem mesta athygli vekur í tekjuyfirliti fjárlagafrv. er að tekjuskattar hækka frá fjárlögum fyrir þetta ár um 20,6% og þau launatengdu gjöld atvinnulífsins sem nú eiga að mynda hið svokallaða tryggingaiðgjald eiga að hækka frá fjárlögum í fyrra um 34,3%. Hæstv. fjmrh. vitnaði í grg. með fjárlagafrv. varðandi tryggingaiðgjald þar sem vikið er að því að álag á þetta tryggingaiðgjald verði hugsað til þess að mæta auknum kostnaði ríkisins vegna ýmiss konar þjónustu við sveitarfélög, sérstaklega hin stærri. Hins vegar komi einnig til greina að í stað álagsins komi aukin þátttaka sveitarfélaga í þessum kostnaði. Nú vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Um hvaða þjónustu er verið að ræða og um hvaða þátttöku sveitarfélaga í kostnaði er einnig verið að ræða? Hvaða þátttaka er það í kostnaði ríkisins sem sveitarfélögin ættu að taka að sér miðað við þessa framsetningu?
    Ég vil svo einnig vekja á því athygli að Póstur og sími á að innheimta í póstburðargjöldum og símgjöldum 550 millj. kr. á næsta ári sem eiga að renna beint í ríkissjóð.
    Með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Hinn nýi hafnarskattur, 560 millj. kr., skattur á sláturleyfishafa vegna yfirmats á sláturafurðum og svokallaðar ICAO-tekjur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni eru nú ekki reiknaðar inn í tekjuyfirlit A-hluta ríkissjóðs. Hér er um að ræða 970 millj. kr. sem haldið er utan við tekjuyfirlit ríkissjóðs og koma ekki inn í samanburð á tekjum ríkissjóðs, þ.e. sköttum á þjóðina á milli ára. Þess í stað eru þessir skattar og þessar tekjur færðar sem sértekjur inn á hlutaðeigandi stofnanir og þannig leynt í skattasamanburðinum. Sömu sögu er raunar einnig að segja um flugvallargjald sem er tekjustofn í flugmálaáætlun. Það er ekki fært með tekjum ríkissjóðs heldur fært sem sértekjur hjá Flugmálastjórn. Þetta hefur auðvitað þau áhrif að samanburður á milli ára varðandi tekjur ríkissjóðs, þ.e. skatta á þjóðina, er villandi.

     Ég lýsi ánægju minni með þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að hann skuli ætla að efna til ráðstefnu síðar í vetur með sérfræðingum frá OECD. Þær aðferðir sem notaðar eru m.a. í þessu fjárlagafrv. og fela í sér villandi samanburð á tekjum, þ.e. sköttum á þjóðina, á milli ára koma þá væntanlega til umræðu og verða bornar undir þá sérfræðinga. Það er hins vegar rangt hjá hæstv. fjmrh. að yfirlit yfir skatta í OECD - löndum, þar á meðal Íslandi, hafi ekki legið fyrir fyrr en nú á þessu ári. Að hæstv. fjmrh. hafi fundið þetta upp af snilld sinni. Þessi skattayfirlit hafa legið fyrir til fjölda margra ára.
    Ég ítreka það að samanburður um tekjur ríkissjóðs þ.e. skatta á þjóðina, er því villandi og skattahækkun er veruleg þó hinu gagnstæða sé haldið fram. Þar ofan í kaupið er stefnan ekki gæfuleg. Í fyrsta lagi tel ég það rangt að ríkissjóður leggi skatt á þá sem nota hafnirnar, þ.e. fiskiskip og vöruflutninga, og hlýtur þannig að leggjast á atvinnulífið úti á landsbyggðinni og á vöruverð. Í annan stað er það meira en hæpið að ætlast til þess að Hafnamálastofnun innheimti þessa skatta af höfnum landsins og þaðan eigi síðan að deila peningunum út. Þetta hlýtur að auka kostnað hjá Hafnamálastofnun sem þarf að koma sér upp innheimtudeild og sérstakri gjaldadeild til þess að annast þessi málefni.
    Reynslan af að færa flugvallargjaldið sem sértekjur hjá Flugmálastjórn sýnist ekki ætla að verða góð, miðað við erindi sem fjvn. hefur fengið frá Flugmálastjórn og komið hefur til umræðu á Alþingi, þar sem því eru gerðir skórnir að Flugmálastjórn og e.t.v. flugráð og hæstv. samgrh. hundsi ákvarðanir Alþingis við afgreiðslu flugmálaáætlunar sl. vor. Er því líkast að sú stofnun líti nú orðið á sig sem sjálfseignarstofnun. Ég vildi ekki sjá hafnamálin í þeim farvegi.
    Í tekjuyfirliti ríkissjóðs er gert ráð fyrir 700 millj. kr. í jöfnunargjald enda þótt því hafi verið marglýst yfir að þetta jöfnunargjald yrði fellt niður. Líkur benda hins vegar til þess að jöfnunargjaldið skili miklu stærri fjárhæðum en þarna er tilgreint að öllu óbreyttu. Verði lögum ekki breytt má gera ráð fyrir því að jöfnunargjaldið skili á næsta ári í ríkissjóð, ekki 700 millj. heldur 1100 -- 1200 millj. kr. Ræð ég það m.a. af líkum, því að á þessu ári var gert ráð fyrir að jöfnunargjaldið skilaði til ríkissjóðs 500 millj. kr. en það virðist ætla að skila 1 milljarði. Með því að halda áfram innheimtu jöfnunargjalds er verið að bregðast þeim fyrirheitum, margítrekuðum fyrirheitum, sem gefin hafa verið auk þess sem þarna er verið að leyna tekjum miðað við það að óbreytt lög gildi um jöfnunargjaldið.
    Gífurleg skattahækkun síðustu ára, sem í þrjú ár, 1988 -- 1990, hefur vaxið um 13 milljarða kr., heldur því áfram en er ekki að stöðvast. Við hlýddum hér á í ræðu hæstv. ráðherra margvísleg áform hans um skattkerfisbreytingar sem í flestum tilvikum mundu verða notaðar til þess að þyngja skattbyrði á þjóðina ef hann fengi að ráða. Ef hann fengi aðstöðu til þess í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili að fara áfram með stjórn ríkisfjármála þarf ekki að því að spyrja, þá

mundu skattar á þjóðina verða þyngdir að miklum mun og það væri verið um leið að fela þá inni í skattkerfisbreytingum og tilfæringum, eins og verið er að gera í þessu fjárlagafrv. Þetta sjá allir sem fylgst hafa með störfum þessa hæstv. ráðherra og allir þeir sem kunna að lesa í gegn þau gögn sem frá honum koma.
    Við sjálfstæðismenn gagnrýnum þessar miklu skattahækkanir. Við teljum einnig að skattar eigi að koma fram í tekjuyfirliti A - hluta ríkissjóðs en þeim eigi ekki að leyna í samanburðartölum með því að fela þá inni í fjárhag einstakra stofnana. Stefna ríkisstjórnarinnar að hækka skatta til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum hefur mistekist því útgjöldin hafa vaxið enn þá hraðar en tekjurnar. Ég vil taka það fram að ég tel að það þurfi að gera margvíslegar leiðréttingar á framkvæmd ríkisfjármála. Sumt af því sem fjmrh. nefndi í því efni getur komið til athugunar, annað ekki, að mínum dómi, og skal ég ekki fara nánar út í það. En hluti af þessum lagfæringum í sambandi við framkvæmd ríkisfjármála var flutt í frv. sem fjvn. í heild stóð að á síðasta Alþingi. Liðsmenn ríkisstjórnarinnar komu þá í veg fyrir það að þetta frv. næði afgreiðslu þrátt fyrir það að það væri flutt af fulltrúum allra flokka sem sæti eiga í fjvn. Og ríkisstjórnin virðist nú ætla að beita áhrifum sínum til þess að þetta frv. sé svæft en fái ekki að koma fyrir Alþingi með eðlilegum hætti. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. og raunar hv. formann fjvn. hvað þessu líði.
    Við sjálfstæðismenn teljum óhjákvæmilegt að stöðva útþenslu ríkiskerfisins og ná raunverulegum sparnaði sem hefjist hjá ráðherrunum sjálfum. Þar hefur eyðslan vaxið mest og hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það. Við viðurkennum að við gífurlegan vanda er að etja eftir óstjórn núverandi valdhafa. En á þessum vanda verður að taka og við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til þess að ráðast að því verki.
    Í umræðum um svokallaða stefnuræðu forsrh. sagði hv. þm. Jón Kristjánsson að Sjálfstfl. hefði ekki skýra stefnu og bætti við: ,,Varðandi ríkisfjármál er haldið uppi almennu snakki um skattpíningu, en tekið undir hverja kröfu til aukinna útgjalda ríkissjóðs``.
    Ég lýsi því yfir að þessi orð hv. þm. eru bull. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. og á Alþingi ekki flutt eina einustu tillögu til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Við fluttum á hinn bóginn brtt. við fjáraukalagafrv. ríkisstjórnarinnar sl. vetur, en þær fólu í sér aukinn niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs en ekki hið gagnstæða. Auk ósanninda sem í orðum hv. þm. felast er það svo næsta hlálegt þegar Framsóknarþingmaður er að brigsla öðrum um óskýra stefnu.
Samkvæmt fjárlagafrv. hækka útgjöld ríkissjóðs á næsta ári um 10,4% frá fjárlögum þessa árs sem er rúmlega 3% meira en verðlagshækkun á milli ára. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að um lækkun útgjalda væri að ræða um 1%. Þá visku fékk hann með því að bera saman útgjöld fjárlagafrv. og áætlun um útkomu þessa árs. Ég hef áður sýnt fram

á hversu villandi slíkur samanburður er.
    Ég minni enn á í þessu sambandi að þegar frv. var lagt fram í fyrra var ætlast til að ríkisútgjöldin lækkuðu um 4 milljarða að raungildi en staðreyndin varð sú að þau aukast um 5 milljarða að raungildi. Það er því ljóst að umsvif ríkiskerfisins fara enn vaxandi. Hækkun útgjalda er að sjálfsögðu mjög misjöfn eftir einstökum gjaldaliðum. Ríkisumsvifin mælast ekki hvað síst með launaútgjöldum en gert er ráð fyrir því að laun hækki frá fjárlögum þessa árs um 15,2%. Þegar búið er að draga frá þeirri tölu samningsbundnar launahækkanir á næsta ári má reikna með að það þýði ígildi allt að 400 nýrra starfa hjá ríkinu.
    Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því í frv. að samdráttur í opinberri fjárfestingu verði um 2% og er þar enn höggvið í sama knérunn og fyrr. Framlög til verklegra framkvæmda eru alltaf að minnka. Framlög til samfélagslegra sjóða eru skert, þrengt er að hagsmunum atvinnuvega og mjög skortir á að gert sé ráð fyrir í frv. að gera upp við sveitarfélögin, eins og til hefur verið ætlast. Í því sambandi þykir mér ástæða til að spyrjast fyrir um framkvæmd á heimildarákvæði í 6. gr. núgildandi fjárlaga þar sem kveðið er á um heimild til þess að semja við sveitarfélög með yfir 10.000 íbúa um greiðslu á hluta ríkissjóðs í kaupum eða framkvæmdum til að ljúka brýnum sameiginlegum verkefnum o.s.frv. Ég hef ástæðu til að ætla að það samkomulag sem varð á milli hæstv. fjmrh. og fjvn. annars vegar og til að mynda þingmanna úr Reykjavíkurkjördæmi og sumra annarra hins vegar um þetta efni hafi ekki verið framkvæmt. Og ég hlýt að spyrja: Hvað líður þessu viðfangsefni?
    Svo langt gengur ríkisstjórnin í þessu frv. að ekki er til þess ætlast að ríkissjóður skili 95 millj. kr. af sóknargjöldum sem ríkið innheimtir fyrir kirkjuna. Spyrja má hvað þeir séu almennt kallaðir sem taka að sér að innheimta fé fyrir annan aðila og skila síðan ekki nema hluta af því. Svari hver sem vill.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að ná sparnaði í lyfjakostnaði um 500 -- 600 millj. kr. án þess að gerð sé grein fyrir því hvernig það er hugsað. Þetta virðist a.m.k. við fyrstu sýn vera þeim mun ólíklegra þegar þess er gætt að lyfjakostnður fer a.m.k. sömu fjárhæð fram úr áætlun, fram úr fjárlögum, á þessu ári.
    Framlag ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og til Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna er skert um 573 millj. kr. Og í niðurgreiðsluliðinn vantar líklega 400 -- 500 millj. kr. til þess að niðurgreiðsluhlutfallið haldist óbreytt á næsta ári. Enn hef ég þó ekki fengið svör við fyrirspurnum mínum um þetta efni frá fjmrn.
    Út yfir tekur þó meðferðin á höfnunum. Þrátt fyrir áætlanir um að leggja á hinn nýja skatt er gert ráð fyrir að framkvæmdafé hafna verði einungis 315 millj. kr. á næsta ári eða mun lægra en það hefur verið í mörg ár. Slíkar kveðjur til þessara lífæða atvinnulífs og byggðar um land allt ættu að verða minnisstæðar.
    Breytingar á uppsetningu gjaldaliða í frv. og tilfærslur á milli einstakra fjárlagaliða eru óvenjulega miklar að þessu sinni og gera allan samanburð milli

einstakra liða á gjaldahlið frv. erfiðan. Sem dæmi um þetta má nefna að sjúkrahúsum í Reykjavík er steypt saman í eitt, á einn fjárlagalið. Síðan á að stofna svokallað samstarfs - og þróunarráð sem á að fá það verkefni að skipta fjárveitingum á milli sjúkrahúsanna og taka þar með að sér verkefni sem til þessa hefur verið unnið af Alþingi. Þetta er víst það sem hæstv. fjmrh. kallar að auka sjálfstæði stofnana. Að mínum dómi eru það öfugmæli. Og óvíst er hver vinningur er að slíku starfi miðað við það að eitthvað kostar það að setja á laggir nýtt ráð til að annast það verkefni sem til þessa hefur verið unnið hér á hinu háa Alþingi.
    Í fjárlagafrv. fær hið nýja og þarflausa umhvrn. til ráðstöfunar samkvæmt áætlun um 418 millj. kr. Ógreinilegt er á hvern hátt sparnaður kemur fram á móti hjá þeim ráðuneytum sem láta af hendi starfsemi yfir til þessa nýja ráðuneytis. Hitt er ljóst að áfram heldur sama þróun og fyrr, að kostnaður eykst við aðalskrifstofur ráðherranna sjálfra. Og að öðru leyti vex sem fyrr kostnaður við þau verkefni sem næst ráðherrunum sjálfum standa. Hinir sem fjær eru mega víða hvar búa við skertan hlut.
    Þótt enn hafi ekki verið farið yfir málefni sjóða og ríkisfyrirtækja í B - hluta á vegum fjvn. sést í grg. frv. að þar er áætluð fjárvöntun um 800 millj. kr. til þess að jafnvægi geti orðið í fjármunahreyfingum. Æskilegt væri að fá upplýsingar um hvernig þessari fjárvöntun verði mætt. Enn fremur kemur fram að Skipaútgerð ríkisins er ekki ætlað að bera kostnað af vanskilaskuldum sínum við ríkissjóð og Ríkisábyrgðasjóð, en þær námu á síðustu áramótum 586 millj. kr.
    Eins og ég sagði boðar fjárlagafrv. gífurlegan vanda í fjármálum ríkisins sem velt er á herðar framtíðarinnar. Þetta gerist í fyrsta lagi með þeirri gríðarlegu skuldabyrði sem safnast hefur saman við hallareksturinn á undangengnum árum. Í öðru lagi með þeim starfsháttum ríkisstjórnarinnar að greiða út lögboðin framlög úr ríkissjóði með skuldabréfum sem koma til gjalda á næstu árum eftir að ríkisstjórnin er farin frá. Í þriðja lagi með því að þýðingarmiklir sjóðir, sem sækja styrk sinn til framlaga úr ríkissjóði og ríkissjóður ber ábyrgð á, hafa verið vanræktir svo í tíð núverandi ríkisstjórnar að þeir eru að éta upp sitt eigið fé eða eru jafnvel að komast í þrot. Skýrasta dæmi á þessum vettvangi er um húsnæðissjóðina en húsnæðiskerfið sem á þeim byggir er nú að heita má í rúst. Í fyrsta skipti frá upphafi Byggingarsjóðs ríkisins er nú ekki gert ráð fyrir að leggja honum til eina einustu krónu úr ríkissjóði, en sá sjóður þyrfti á næsta ári að fá framlag sem nemur 1,1 milljarði kr. til þess að halda í horfinu með eigið fé.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um byggingarsjóðina kemur fram hvert ástand þeirra raunverulega er. Ef útlánastarfsemi sjóðanna væri nú stöðvuð og framlög ríkissjóðs sömuleiðis þá þyrfti ríkissjóður eigi að síður að greiða 62 milljarða kr. á árinu 2028 til að gera upp skuldir við lánardrottna. Þetta er framtíðarsýn sem núv. hæstv. ríkisstjórn skilur eftir í málefnum þessara sjóða. Þrátt fyrir þetta verður á hinn bóginn ekki sagt að áætlanir um rekstrargjöld og launakostnað við

stjórn sjóðanna séu skornar við nögl því að til þeirra hluta eru áætlaðar 410 millj. í fjárlagafrv.
    Ýmsir aðrir sjóðir eru að ganga verulega á sitt eigið fé eða eyða því. Að mati stjórnar Byggðastofnunar þyrfti Byggðasjóður að fá í framlög 400 -- 500 millj. kr. umfram það sem gert er ráð fyrir á fjárlögum næsta árs til þess að halda eiginfjárstöðu sjóðsins í viðunandi horfi. Ljóst er einnig miðað við að atvinnuleysi fari enn vaxandi á næsta ári, svo sem ríkisstjórnin spáir, muni eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs ganga til þurrðar á næstu einum til tveimur árum. Eigi að síður vanrækir ríkisstjórnin að standa við skuldbindingar um framlög til sjóðsins, svo sem hún hefur einnig gert á síðustu árum. Eigið fé Lánasjóðs ísl. námsmanna er að ganga til þurrðar svo sem fjmrh. lýsti hér áðan. Og skuldbindingar sem skella á ríkissjóði vegna Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs munu á næstu árum nema milljörðum króna. Hér er auðvitað ýmislegt ótalið, þar á meðal ríkisábyrgðir vegna fiskeldis og loðdýraræktar. En af þessari upptalningu má þó ljóst vera að þær byrðar sem leggjast á ríkissjóð á komandi árum eru gífurlegar og sá vandi sem þessi ríkisstjórn mun skilja eftir sig í fjármálum ríkisins er hrikalegur. Meira að segja var það viðurkennt af hæstv. fjmrh. í fréttatilkynningu fjmrn. og raunar í ræðu hans hér áðan að þessi vandi sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skilur eftir sig í fjármálum ríkisins sé svo alvarlegur að það muni taka tvö til þrjú kjörtímabil að ráða við hann.
    Þannig er staðan í raun og veru. Öll hin sjálfbirgingslegu faguryrði hæstv. fjmrh,. bæði nú og á undangengnum árum, um traustan grundvöll í fjármálum ríkisins, nýja hornsteina, jafnvægi og stöðugleika, að ekki sé nú talað um rekstrarafgang sem var meðal stefnumiða þessa hæstv. ráðherra, verða lítils virði þegar staðið er frammi fyrir slíkum veruleika.
    Öll þessi orð hæstv. fjmrh. eiga því skilið háðsmerki sem ómerkilegir orðaleppar. Allt hjal hans um sparnað og byltingu í fjármálum ríkisins hefur reynst vera orðin tóm. Sparnað er auðvitað síst að finna í ráðuneyti og á aðalskrifstofu hæstv. fjmrh. sjálfs þar sem útþenslan og sóunin hefur verið hvað mest. Sú meðferð fjármuna og sú þenslustefna sem þar hefur ríkt er auðvitað meðal þeirra orsaka sem hafa ráðið því að ríkisstjórnin hefur endanlega gefist upp við að ná tökum á stjórn ríkisfjármála.