Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagsmálum og án þess að ég vilji gera lítið úr þeim erfiðleikum sem íslenskar fjölskyldur eiga við að etja á þessum tímum liggur engu að síður fyrir að íslenska þjóðfélagið er eitt það ríkasta í heimi. Ég efast um að nokkurt það land sé til þar sem lífskjör eru jafnari en á Íslandi. Ef borin eru saman neysluútgjöld þjóða eru Íslendingar yfirleitt í einhverju af efstu sætum. Fáar þjóðir veita sér jafnmikið og Íslendingar. Fjáar þjóðir fara jafnoft í dýrar ferðir, bæði innan lands og til útlanda, og Íslendingar. Engin þjóð í veröldinni býr í vandaðra húsnæði en Íslendingar gera. Fáar þjóðir hafa jafnmikið af hvers konar neysluvarningi handbæran eins og Íslendingar. Og engin þjóð leggur jafnmikið á sig og Íslendingar til þess að taka þátt í neyslu- og lífsgæðakapphlaupinu. Þess vegna undrar mig á því að ábyrgir alþingismenn, eins og sá sem talaði hér síðast, skuli orða það úr ræðustól á Alþingi að Íslendingar lifi við hungurmörkin. Ég er alveg sannfærður um það að hv. þm. gerir sér grein fyrir því, og fulla grein, að hér er ofsagt. Íslendingar lifa ekki við hungurmörk. Hafa hv. alþm. séð fólk sem lifir við hungurmörk? Ég hef ekki séð það eigin augum, ég hef séð það í sjónvarpi hvernig það fólk lítur út og við hvaða aðstæður það fólk býr sem lifir við hungurmörk. Og hvernig getur það gerst að alþingismaður á Alþingi Íslendinga sem á að þekkja sæmilega til ætli að telja íslensku þjóðinni trú um það, þessari í hópi ríkustu þjóða heims, þar sem jafnari tekjuskipting er en í nokkru öðru landi, að þessi þjóð lifi við hungurmörk. Þetta er alveg fráleitt. Og það sem verst er þó við þetta er að Íslendingar eru þannig skapi farnir að allt of margir landsmenn vilja trúa þessu. Þeir vilja trúa því að þeir hafi það slæmt þegar allar tölur og allar kannanir sem gerðar hafa verið segja þveröfugt. En það er ekkert skemmtilegt og engin ábyrgð í því fólgin og síður en svo vænlegt til árangurs að taka undir þennan harmagrát því það er ekki satt að fólkið á Íslandi lifi við hungurmörkin.
    Sama viðhorf kemur fram hjá forustumönnum þjóðarinnar þegar þeir koma í fjölmiðla og segja að ríkisstjórnin verði að sjá til þess að olíuverðshækkanir á heimsmarkaði komi ekki við almenning á Íslandi. Hvernig á slíkt að gerast? Hvaða þjóð í víðri veröld getur látið sér það til hugar koma að olíuverðshækkun á heimsmarkaði komi ekki við lífskjör almennings hjá þeirri þjóð? Þetta er jafnfjarri raunveruleikanum og það að halda því fram, eins og gert var áðan, að Íslendingar lifi á hungurmörkum. Sá sem það gerir hefur annaðhvort ekki lesið eða ekki séð þær fréttir sem okkur hafa verið sagðar í útvarpi, blöðum og sjónvarpi af því fólki sem við þannig aðstæður lifir. Ætlar hv. þm. að líkja íslensku þjóðinni við flóttamennina sem komu frá Persaflóasvæðinu, flóttamennina sem áttu ekki klæðin utan á sig, áttu ekki matinn ofan í sig, áttu ekki húsaskjól yfir höfði sér, hvað þá heldur þær bifreiðar, þau sjónvarpstæki, þær utanlandsferðir o.s.frv. sem Íslendingar veita sér?
    Það er ekkert gaman að því að leika sér að því að kynda undir sjálfsblekkingarhvöt íslensku þjóðarinnar sem vissulega er til staðar. Þá sjálfsblekkingarhvöt að þessari einhverri ríkustu þjóð í heimi líði illa, hún lifi á hungurmörkum.
    Með sama hætti er gjörsamlega fráleitt að halda því fram að það hafi enginn árangur orðið í efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar. Það eru ekki mörg ár síðan að verðbólgan á Íslandi var 70 -- 80% og fór meira að segja yfir 100%. Hún er núna orðin lægri en í sumum helstu viðskiptalöndum okkar, eins og bæði í Bretlandi og í Svíþjóð. Er þetta ekki árangur? Er hann einskis virði? Er hann einhverjum öðrum að þakka en stjórnvöldum? Hverjum? Er það fólkinu að þakka sem er að segja við íslensku þjóðina að hún lifi á hungurmörkum? Er það fólkinu að þakka sem er að boða þá kenningu í útvarpi og sjónvarpi að verðhækkun á olíu á heimsmarkaði eigi að sjálfsögðu ekki að koma við landsmenn, heldur eigi einhver útlendingur, einhver ríkissjóður sem er einhver aðili í útlöndum sem engum kemur við, bara að standa undir því og borga brúsann? Er þetta viðhorf hinnar hyggnu húsmóður?
    Er það árangur sem er einskis virði að innlendur sparnaður hefur nú aukist svo mikið að ríkissjóður Íslands þarf ekki lengur að leita til erlendra lánardrottna til þess að fjármagna rekstrarvanda sinn, sem vitaskuld er fyrir hendi? Það er ekki langt síðan að það þurfti bókstaflega að neyða Íslendinga með tilskipunum frá Alþingi til að leggja það fé sem þeir gátu af séð inn í banka eða í annan sparnað. Það þurfti að fyrirskipa það með valdboði að Íslendingar spöruðu. Nú er búið að snúa þessu gersamlega við á þremur árum. Er það enginn árangur? Eða er það kannski þeim að þakka sem segja að íslenskur almenningur lifi við hungurmörkin?
    Þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum voru horfurnar þannig að allur atvinnurekstur við sjávarsíðuna mundi leggjast niður. Bæði Kvennalistinn og Sjálfstfl. spáðu því að fjöldaatvinnuleysi væri hinum megin við hornið og mundi skella á. Hvar er það fjöldaatvinnuleysi? Hvar er það hrun sjávarútvegsins og sjávarþorpanna hringinn í kringum landið sem þessir ágætu fulltrúar spáðu? Því var forðað. Var það fyrir tilverknað þeirra afla sem segja að Íslendingar lifi á hungurmörkum sem þessu áfalli var forðað? Vissulega bauðst þingmönnum Kvennalistans kostur á því á þessu kjörtímabili, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum að vera með í því að finna leið út úr þessum vanda. En í öll þau þrjú skipti hlupust fulltrúar Kvennalistans úr leik. Ef einhver lifir á hungurmörkum á Íslandi þá er það Kvennalistinn sem lifir á pólitískum hungurmörkum vegna þess að hann hefur aldrei verið reiðubúinn til þess að leggja fram sitt lið til þess að leysa úr erfiðum og vandasömum viðfangsefnum.
    Auðvitað er það ljóst að sá árangur sem tekist hefur að ná á þessum þrem árum er ekki ríkisstjórninni einni að þakka. Fjarri fer mér að halda því fram að það sé ríkisstjórninni einni að þakka. Það er ekki. Það

er því að þakka að ríkisstjórninni hefur tekist að vinna sér það traust meðal aðila vinnumarkaðarins að þeir hafa verið reiðubúnir til að taka höndum saman við ríkisstjórnina til þess að fá fram þær úrlausnir sem við munum nú senn njóta. Og það gera ekki aðilar vinnumarkaðarins nema að þeir treysti þeim sem eru við stjórnvölinn í landinu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að til að ná þessum árangri hefur launafólkið í landinu orðið að sætta sig við og semja um 15% kaupmáttarskerðingu. Halda menn að samtök launafólksins í landinu mundu nokkurn tímann fást til þess að semja yfir sig slíka kaupmáttarskerðingu ef þau treystu ekki þeim stjórnvöldum sem með völd fara þegar slíkir samningar eru gerðir, ef þau treystu ekki stjórnvöldum til að þessar fórnir mundu skila árangri? Það er ekki núverandi ríkisstjórn sem upphaflega fékk þetta tilboð, þetta tilboð um niðurfærslu kaupmáttar til þess að ná árangri í efnahagsstjórnun. Það var ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem fyrst fékk þetta tilboð. Það tilboð var samið af sérstakri nefnd sem þáverandi forsrh., Þorsteinn Pálsson, skipaði til þeirra starfa og vann í daglegu samráði við hann. Í nefndinni átti m.a. sæti sá maður sem síðar kom í ljós að var sá aðili innan Vinnuveitendasambands Íslands sem þeir treystu öllum öðrum fremur til að veita sér forustu. Það var þessi nefnd sem fyrst kom fram með tillöguna um niðurfærslu lífskjara og þjóðarsátt svo hægt yrði að byrja að byggja upp á ný. En jafnvel þó að þessi nefnd starfaði í umboði og á vegum sjálfs forsrh. þá var hann fyrstur manna til að segja nei. Á sama tíma og samstarfsflokkar Sjálfstfl. í ríkisstjórn voru tilbúnir til þess að reyna þá leið sem þarna var boðið upp á var það Þorsteinn Pálsson forsrh. sem var fyrstur til þess að segja nei. Hans tillaga var sú að í staðinn fyrir slíka þjóðarsátt, í staðinn fyrir að reyna þá niðurfærslu lífskjara sem orðið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem var óhjákvæmileg til þess að hægt yrði að ná þeim árangri sem nú yrði náð, í staðinn fyrir þetta yrði gripið til þess gamla úrræðis að fella gengið mjög verulega. Hvað hefði það haft í för með sér? Það hefði að sjálfsögðu haft það í för með sér að verðbólgan hefði farið á bullandi gang enn eina ferðina með þeim kaupmáttarskerðingum, atvinnumissi og öðru því tjóni sem við Íslendingar þekkjum af reynslunni að slíkar ákvarðanir hafi í för með sér.
    Það var því ekki bara Kvennalistinn sem fékk tækifæri til að vera með og forðaði sér að sínum pólitísku hungurmörkum í staðinn fyrir að taka því boði. Það var Þorsteinn Pálsson og Sjálfstfl. sem lét búa til fyrir sig og samstarfsmenn sína það tilboð um niðurfærslu lífskjara sem gert var þeim stjórnvöldum sem treystu sér til að taka slíku tilboði og fylgja því eftir til árangurs. Hann hljóp líka brott frá ábyrgðinni eins og sætabrauðsdrengurinn sem hljóp brott frá hundinum, kettinum og endaði að lokum í kjaftinum á úlfinum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að ræða langt mál um fjárlagafrv. enda fæ ég tækifæri til þess í fjvn. síðar. En að sjálfsögðu eru ýmsar tillögur í þessu fjárlagafrv. sem er ekki fyrir fram gefið að nái fram

að ganga. Það hefur aldrei verið í neinu fjárlagafrv. síðan ég kom hingað inn á Alþingi að allar þær tillögur um útgjaldamál og tekjuaflanir sem ríkisstjórn hefur gert hafi náð fram að ganga í meðförum Alþingis. Auðvitað getur það verið, án þess að ég sé neitt að fullyrða um það, að einhverju af þeim tillögum verði breytt í meðförum Alþingis nú eins og svo oft áður, enda er Alþingi til þess að taka við tillögum frá framkvæmdarvaldinu og leggja sitt sjálfstæða mat á þær tillögur og afgreiða þær síðan eins og meiri hluti Alþingis stendur að hverju sinni.
    Þessar tillögur markast af tvennu. Í fyrsta lagi eru gerðar tillögur af hálfu hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar um að afla nýrra tekna fyrir útgjöldum. Í öðru lagi eru gerðar tillögur um að lækka útgjöld sem fyrir eru. Auðvitað eru þær tillögur ekki sársaukalausar. Menn eru ekkert að leika sér að því að gera tillögur t.d. um að reyna að draga úr útgjöldum í heilsugæslu með því að samræma yfirstjórn. Menn eru ekkert að leika sér að því að gera tillögur um að draga úr kostnaði, við skulum segja almannatrygginga með því að tekjutengja tryggingabætur. Menn eru ekkert að gera þetta að gamni sínu. Menn eru að gera þetta vegna þess að þeir vilja koma fram á Alþingi með ábyrgar tillögur og það er meiri kjarkur að leggja slíkar tillögur fram en að viðhafa þau vinnubrögð sem hér hafa m.a. komið fram frá stjórnarandstöðunni að segja nei, bæði við tillögunum um að auka tekjur og við tillögunum um að lækka útgjöld. Í málflutningi þeirra hér, það sem af er a.m.k., hef ég enga tillögu heyrt um hvaða aðrar tekjuaflanir eigi þá að viðhafa í stað þeirra sem stjórnarandstaðan neitar. Og ég hef ekki heldur heyrt neinar tillögur frá stjórnarandstöðunni um hvað eigi þá að skera niður í staðinn fyrir þær tillögur til niðurskurðar sem ríkisstjórnin hefur gert og stjórnarandstaðan neitar.
    Það má vel vera að það skapi tímabundnar vinsældir með þjóðinni að vera í senn bæði á móti tekjuöflun og niðurskurði útgjalda. Það er bara í samræmi við það sem fram hefur komið í skoðanakönnunum fyrir nokkrum mánuðum síðan að það virðist vera almenn afstaða Íslendinga að enginn eigi að borga skatta en allir eigi að fá allt fyrir ekki neitt frá ríkinu. Svona geta menn talað á kaffihúsum og yfir glasi en svona geta alþingismenn, sem eiga að hafa ábyrgðina með höndum um stjórn þjóðarskútunnar og um afkomu ríkissjóðs, ekki talað, en gera það engu að síður.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur unnið stórvirki í sambandi við endurskoðun og endurhönnun á öllu tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Á því er enginn vafi. Menn geta auðvitað deilt um það, og gera það tæpitungulaust, hvort skatthlutfall á Íslandi sé svona mikið lægra en í þessu eða hinu OECD-landinu eða svona mikið hærra. Vissulega er margt sérstakt með íslenska samfélagið, m.a. það að tryggingaiðgjöld hér á Íslandi eru í mörgum tilvikum, þó ekki öllum, greidd beint til lífeyrissjóðanna, þegar tryggingaiðgjöld í nágrannalöndunum eru greidd í gegnum ríkissjóð sem verður þá nokkurs konar gegnumstreymissjóður fyrir almannatryggingar.

En menn mega ekki gleyma því að þó að svo sé þá eru mjög verulegar fjárhæðir sem ríkissjóður þarf að greiða og afla tekna fyrir til þess að greiða opinberum starfsmönnum lífeyri umfram það sem iðgjöld þeirra sjálfra og mótframlag ríkissjóðs stendur til. Ég efast um það þegar þessir reikningar yrðu gerðir upp að þá hallaði mjög mikið á ríkissjóð Íslands í því sambandi.
    Það er líka rétt að aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er nokkuð önnur en ýmissa nágrannaþjóða en að halda því fram að sérfræðingar OECD kunni ekki á þetta og viti þetta ekki og hafi ekki menntun eða getu til þess að reikna með svo sjálfsögðum hlutum í skattamati sínu, þegar þeir bera saman skattbyrði á Íslandi og skattbyrði í OECD-löndunum, er auðvitað út í hött. Einhver strákur hér uppi á Íslandi hleypur til, Þorsteinn Pálsson, og segir:
Þessir sérfræðingar frá OECD hafa bara ekki hundsvit á þessu. Ég, lögfræðingurinn hér uppi á Íslandi, ætla að kenna þessum mönnum hvernig þeir eiga að fara að. --- Þetta er auðvitað gersamlega út í hött. Honum gefst nú tækifæri til að prédika yfir sérfræðingunum og kenna þeim hvernig þeir eigi að meta skattbyrði í hinum einstöku löndum á þeirri ráðstefnu sem hæstv. fjmrh. var að upplýsa okkur um hér áðan að hann ætlaði að bjóða til. Væntanlega boðar hann sérstaklega til forsvarsmenn Sjálfstfl. í skattamálum svo þeim gefist nú kostur á því, strákunum þar, að kenna þessum hagfræðingum OECD hvernig þeir eigi að vinna sína heimavinnu. Sjálfsagt munu þeir gera það með mjög góðum árangri, ég efa það ekki.
    Þessi ágreiningur um skattbyrði á Íslandi samanborið við önnur lönd breytir ekki því að á núverandi kjörtímabili hefur allt tekjuöflunarkerfi ríkisins verið endurskipulagt. Ég get upplýst menn um það ef þeir vita það ekki að nágrannar okkar á Norðurlöndum öfunda Íslendinga af því tekjuskattskerfi sem við höfum. Hvergi á Norðurlöndum eru skattleysismörkin jafnhá og hér á Íslandi, þó svo að Íslendingum finnist þau ekki vera nógu há því að enginn Íslendingur vill borga skatta. Hvergi á Norðurlöndum er skattbyrði í tekjuskatti eins lág og hér. Ég get upplýst menn um það að ég kem dálítið nálægt atvinnuskiptum ungs fólks milli Norðurlanda, fólks á aldrinum 18 -- 26 ára. Það sem þetta unga fólk sem vinnur hér á Íslandi hefur sérstakt orð á er hvað okkar tekjuskattskerfi sé einfalt og auðskilið og hve skattbyrðin í tekjuskattinum sé lág miðað við það sem það þekkir til í sínum heimalöndum. Það er varla einn einasti af þessum ungu konum og körlum sem hingað hefur komið til atvinnu sem ekki hefur haft sérstakt orð á þessu. En fólkið sem vill telja Íslendingum trú um það að þeir lifi við hungurmörk heldur því auðvitað fram að hvergi í veröldinni sé önnur eins skattaáþján eins og á íslenskum skattborgurum og fylgir því svo eftir með því að segja: Þú átt auðvitað ekkert að borga í skatt, en þú átt að fá allt það sem þú vilt fyrir ekki neitt frá ríkinu og Kvennalistinn mun sjá um það.
    Sú vinna sem unnin hefur verið í fjmrn. og af embættismönnum fjmrn. hvað varðar endurskipulagningu á tekjuhlið frv. með endurhönnun alls skattkerfisins er afrek. Það er ekki bara afrek þeirra pólitísku aðila sem hafa haft forustu um þetta í fjmrn., hæstv. núv. og fyrrv. fjmrh. Þetta er afrek hjá því fámenna starfsliði sem hefur þurft að leysa alla þessa vinnu af hendi hjá íslenska skattkerfinu.
    Hæstv. fjmrh. talaði hér áðan um næstu stórverkefni sem vinna þyrfti á sviði ríkisfjármála. Þau næstu stóru verkefni lúta að því að taka þarf útgjaldahlið fjárlaganna nákvæmlega sömu tökum og menn eru búnir að taka tekjuhlið fjárlaganna á síðasta kjörtímabili. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við stöndum nú uppi með að mínu viti innbyggðan halla á ríkissjóði upp á 3 -- 5 milljarða kr. Útgjöld ríkissjóðs sem við komumst ekki hjá að greiða eru um það bil þetta mikið yfir þeim tekjum sem við getum gert okkur vonir um að tekjustofnarnir skili við eðlilegar aðstæður. Þegar vel árar í þjóðfélaginu og uppsveifla er, kaupmáttur eykst, neysla eykst, þá aukast tekjur ríkisins af veltusköttum. Þá dregur úr þessum innbyggða halla og jafnvel losnum við við hann og rúmlega það. Í erfiðu árferði eins og verið hefur undanfarin ár dregst kaupmáttur saman, tekjur af veltusköttum minnka og þessi halli getur orðið meiri, eða allt upp í 10 milljarðar kr. eins og var á árinu 1987. Engu að síður er það staðreynd að í meðalárferði horfumst við í augu við það að bundin útgjöld, útgjöld sem við eigum í erfiðleikum með að neita okkur um, eru 3 -- 5 milljörðum kr. meiri en tekjurnar sem tekjustofnarnir skila. Á þessu verður að taka. Fólk virðist ekki vera reiðubúið til þess að borga þá skatta sem leggja þarf á til þess að jafna þetta bil með auknum tekjum. Þess vegna verða menn að takast á við þennan vanda útgjaldahliðarmegin. Þá er heldur fátt um fína drætti vegna þess að sá tekjuhalli sem ég er hér að tala um er t.d. að nefna frá því að vera um það bil 1 / 3 af öllu framkvæmdafé ríkisins upp í það að vera um 2 / 3 hlutar af öllu framkvæmdafé ríkisins. Menn sjá það auðvitað í hendi sér að þessum vanda verður ekki mætt með niðurskurði á framkvæmdafé umfram það sem orðið er vegna þess að menn munu aldrei ná þeim niðurskurði á framkvæmdum að hann jafni þennan innbygða halla í rekstri ríkissjóðs. Og þá er ekki nema tvennt til sem eitthvað munar um. Það eru hin dýru kerfi sem þjóna almenningi, skólakerfið og heilsugæslan, eða tilfærslurnar sem hæstv. fjmrh. var hér að tala um, niðurgreiðslur og annað slíkt. Fram hjá þessum þröskuldum komumst við ekki. Á þessu verðum við að taka og það er verkefni næsta kjörtímabils að gera þá uppstokkun útgjaldamegin á ríkissjóði sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur gert teknamegin. Að því loknu hafa fjármál ríkissjóðs verið endurskipulögð, ekki bara teknamegin, eins og gert hefur verið, heldur útgjaldamegin líka.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Þetta er frekar almenn hugleiðing en að ég hafi staðnæmst við einstaka þætti í þessu frv., enda gefast mér næg tækifæri á því að gera það síðar.