Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Guttormur Einarsson :
    Virðulegi forseti. Á þessum tímamótum þegar hið háa Alþingi tekst á við afgreiðslu fjárlaga, sem öðru fremur er eitt af mikilvægustu málum þingsins, þá vekur það sérstaka athygli mína að fjárlagafrv. er einstaklega vel úr garði gert að þessu sinni og það er greinilegur áfangi að settum markmiðum sem þessi ríkisstjórn lagði upp með, að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi. Að vísu saknaði ég þess sérstaklega að geta ekki skynjað í fjárlögunum sjálfum þær breytingar, þau stefnumarkmið sem hæstv. fjmrh. ræddi svo rækilega í lok sinnar ágætu ræðu hér áðan; stefnumarkmið sem varða framtíðarsýn og eru í anda hinna nýju stjórnmála um alla Mið - Evrópu í dag og hinn vestræna heim; eru í anda þeirra miklu breytinga sem við sjáum að eru að skella á í stjórnmálasögu okkar.
    Á landsfundi Borgfl. fyrir rúmum tveim árum var gert mjög vandað landsfundargagn með öllum þeim landsfundarmálum sem þar voru afgreidd. Þetta er 40 síðna rit og það vill svo skemmtilega til að í þessu riti má sjá flesta þá megin stefnuvísa sem hafði verið gert ráð fyrir að kæmu samkvæmt nýju stjórnmálunum og hæstv. fjmrh. var mjög að gera hér að umtalsefni. Það er því alveg ljóst að sé svo að skilja að Alþb. sé ákveðið í því að tileinka sér þessa stefnu, þá mun Borgfl. vissulega vera búinn að fá keppinaut um hana, það efast ég ekki um. En ég vil lýsa því að ég er í hæsta máta ánægður með frv. fram sett eins og það er, sakna þess þó að í því eru ekki strax nú á þessu þingi róttækari breytingar sem marka ný tímamót í pólitískum málum.
    Ég veitti því m.a. athygli í ræðu hæstv. fjmrh. að hann benti á líklegan samdrátt í hagvexti sem er að bresta á í fjármálum þjóðarinnar og hann nefndi þar margar vísbendingar. Ég vil því eilítið stinga niður fingri á nokkrum stöðum. Hann talar um að vextir fari lækkandi. Það er alveg rétt, þeir hafa lækkað en það hafa þó heyrst raddir ábyrgra manna úti í þjóðfélaginu um að vextir hafi ekki lækkað jafnhratt og skyldi verið hafa vegna þess að einhvers staðar er tregða í kerfinu. Við heyrum gjarnan um það talað að ríkissjóður sé að keppa við hinn almenna fjármagnsmarkað með útboðum á sínum skuldabréfum. Ég þykist vita, þótt ég hafi ekki fulla vissu fyrir því, að ríkissjóður bjóði sín ríkisskuldabréf með litlum sem engum afföllum eða með a.m.k. skynsamlegum afföllum, á meðan það hefur liðist að í hinu almenna fjármagnskerfi hafa verið teknir upp þeir viðskiptahættir að taka grófleg afföll í hvers konar lánafyrirgreiðslu. Það er því sýndarmennska að halda því fram að vaxtakjör séu orðin verulega lág á Íslandi, síður en svo. Þetta heitir bara orðið nýjum nöfnum allt saman í dag.
    Svo mjög sem hefur verið bent á það að ýmsir gjaldaliðir hafi verið skorðaðir af í útgjöldum ríkisins, tel ég bráðnauðsynlegt þó að gera að umtalsefni ákveðna þætti sem þurfa nánari athugunar við. Það háttar svo til í dag í íslensku þjóðfélagi að það er að bresta á hér töluverður atgervisflótti ungs, vel menntaðs fólks sem sér ekki í hendi nýja atvinnumöguleika hér á landi og er farið að líta stórlega til erlendra atvinnumöguleika. Ég ætla að lesa hér úr minnisblaði frá Rannsóknaráði ríkisins upplýsingar sem koma frá OECD og fjalla nánar um þetta atriði, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Einna athyglisverðast er að flest ríki OECD sjá nú fram á mikinn skort á sérhæfðum starfskröftum á sviði raunvísinda og verkfræði því eftirspurn fer ört vaxandi en ungu fólki í viðkomandi aldursflokkum og á viðkomandi fræðasviðum fer fyrirsjáanlega fækkandi. Það veldur mönnum því áhyggjum að samtímis því sem þróun á Íslandi bendir til ört fjölgandi fólks með sérhæfða menntun er sáralítil aukning í samsvarandi starfstækifærum. Þess vegna eru vaxandi horfur á atgervisflótta frá Íslandi á næstu árum.``
    Það fer ekki á milli mála að við Íslendingar sem höfum fjárfest mjög í æsku þessa lands og menntakerfinu getum horft fram á það að tapa ungu atgervisfólki frá okkur á tiltölulega fáum árum ef ekki verður snarlega við brugðið. Og þá situr hér eftir hnípin þjóð í vanda. Hér ber því að skoða vandlega hvort ekki sé bráðnauðsynlegt að snúa blaðinu við og veita ríflega fjármunum á nýjan leik í hagnýtar rannsóknir, því þar hefur samdráttur orðið geigvænlegur á síðustu árum. Þær rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem við höfum komið á fót hafa orðið að líða skort í fjárveitingum, því miður, og ég sé fram á að verði ekki þar eða í gegnum þær opnaðar nýjar atvinnuleiðir, þá er voðinn vís.
    Einnig má benda á það að fjárveitingar til Rannsóknaráðs ríkisins hafa dregist saman um allt að 40% á árunum 1985 -- 1990. Þetta gerist á Íslandi meðan aðrar þjóðir innan OECD, og ekki síst þær sem hingað til hafa verið taldar mjög vanþróaðar, hafa stóraukið allar fjárveitingar sínar í rannsóknastörf til að skapa ný atvinnutækifæri og opna menntuðu fólki möguleika til að setjast að í sínum heimalöndum og takast á við tæknivædd verkefni.
    Virðulegi forseti. Það er á fleiri stöum sem rétt er að bera niður í þessum umræðum. Ég tel einnig nauðsynlegt að við sinnum betur þeim atvinnusprota sem ekki er njörvaður í kvótum hér á landi og á ég þar við almenna ferðaþjónustu. Á meðan við stöndum frammi fyrir þeim vandamálum að atvinnumál byggðarlaganna, hinna dreifðu byggða í landinu, eru bundin í kvótum er vís vegur til að opna ákveðnar leiðir fyrir þau byggðarlög til að takast á við ný verkefni og ég sé í hendi mér að það liggur fyrir að reyna það á sviði ferðamála. Það ber því að beita ákveðnum aðgerðum til að renna styrkari stoðum undir þessi mál. Ég vil beina þeim orðum mínum til hæstv. fjmrh. að hann láti endurskoða fjárveitingar til Ferðamálaráðs því að þar mun töluvert á skorta að veitt hafi verið því fjármagni sem því réttilega ber.
    Á sama hátt og ég hef gert nú að umtalsefni æsku þessa lands og líklegan atgervisflótta hennar vil ég einnig benda á það að okkur ber að styrkja þær menntastofnanir sem líklegastar eru til að geta skilað starfhæfu, vel menntuðu fólki út í atvinnulífið á sem

skemmstum tíma. Og mér verður þá starsýnt á skólastofnun eins og Tækniskóla Íslands því þar má á tiltölulega skömmum tíma virkja ungt fólk til að skapa ný atvinnutækifæri á Íslandi. Að sjálfsögðu gera aðrar skólastofnanir það einnig en ég er sannfærður um að með því leggja rækt við Tækniskóla Íslands megi með skjótum hætti renna styrkari stoðum undir skilvirkara skólanám fyrir frumkvöðla í atvinnulífinu.
    Ef við lítum aðeins á mál sem snerta skattabreytingar á Íslandi, þá tel ég nauðsynlegt að lækka þá skattliði sem hafa valdið okkur ákveðnum erfiðleikum. Þar vil ég nefna skattgjöld eins og aðstöðugjöld sem hafa röng áhrif á uppbyggingu í atvinnustefnu landsmanna. Þess í stað getur ríkissjóður að sjálfsögðu náð til sín tekjum af viðkomandi starfsemi í tengslum við arð sem fyrirtækin skila. Því ber að leggja áherslu á skatttekjur af hagnaði fyrirtækja eins og hann liggur fyrir en vera ekki að selja þeim aðgangseyri að atvinnumarkaði þjóðarinnar í formi veltuskatta.
    Virðulegi forseti. Svo mjög sem ég gæti eytt löngum tíma í að ræða þessi mál þá hef ég þó staldrað við þau tvö meginatriði sem á þessum tíma eru mér hugstæð. Ég mun svo síðar fjalla nánar um þau, sjái ég tilefni til, eða aðrir borgaraflokksmenn gefa sig að því. En að lokum þetta:
    Það ber brýna nauðsyn til að hefjast nú handa við að renna nýjum stoðum undir atvinnutækifæri á Íslandi. Við getum víða leitað og fundið
góða viðsemjendur um að koma hér til samstarfs við Íslendinga og þá er ég ekki að tala um stóriðju. Ég er að tala um meðalstór og smá fyrirtæki. Slíkur valkostur getur boðist okkur Íslendingum nú ef fallist verður á að eiga samvinnu við alþjóðafyrirtækið Plant Location International sem býður þá þjónustu að leita uppi slík fyrirtæki og gangast fyrir því að þau komi til samninga við okkur. Hér er um að ræða fyrirtæki sem flestöll starfa í hátækniiðnaði. Það verður mikil verðmætasköpun í meðförum þeirra afurða sem þar eru framleiddar. Þar með skiptir ekki öllu að vegalengdir eru miklar frá Íslandi til Evrópu og annarra landa heldur hitt miklu frekar að við eigum þá auðlind, Íslendingar, sem er vel menntuð æska og það er einmitt slíkt umhverfi sem svona fyrirtæki leita að.
    Ég læt svo máli mínu lokið, virðulegur forseti, og þakka fyrir.