Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Ellert Eiríksson :
    Hæstv. forseti. Örstutt innskot í þessar umræður. Hæstv. fjmrh. hafði mörg orð um Sjálfstfl. og treggáfur okkar varðandi skattheimtuútreikninga og að við berum brigður á það sem OECD segir um skattáþján Íslendinga. Það má vel vera að við reiknum ekki rétt í Sjálfstfl. en það er þó klausa hér í ræðu hæstv. fjmrh. sem ég vil vekja athygli á. Það segir hér og er undirstrikað:
    ,,Árið 1988 voru öll aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA með hærra skatthlutfall en Ísland. Fyrirliggjandi upplýsingar um árið 1989 benda til að öll aðildarríki Evrópubandalagsins, og öll EFTA - ríkin nema Sviss, hafi enn verið með hærra skatthlutfall en hér.``
    Mér þykir þetta ekki gott að hér hafi bæst við ríki sem er komið niður fyrir Ísland í skatthlutfalli. Ég vil telja okkur sjálfstæðismönnum til tekna að skatthlutfall á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópubandalags - og EFTA - löndunum. Ég vona að það sé ekki viðhorf hæstv. fjmrh. að við eigum að þokast upp þennan stiga, að við eigum að komast í þá stöðu að fleiri EFTA - og Evrópubandalagsríki verði fyrir neðan okkur í skattaáþján. Ég þakka hins vegar boðið um að mæta í febrúar á ráðstefnu með mönnum frá OECD. Ég ætla sannarlega að mæta og taka þátt þar til þess að vera betur upplýstur um hvernig þetta gerist. En ég ætla ekki með því að taka þátt í því að hækka skatta á Íslandi, langt frá því.
    Í annan stað vil ég hér aðeins stuttlega fylgja eftir fyrirspurn hv. 11. þm. Reykn. sem hann kom hér fram með til hæstv. fjmrh. og vísaði þar í þskj. 1, bls. 271. Síðdegis í dag fengum við þingmenn Reykjaneskjördæmis leyfi hér á hv. Alþingi til að fara út á Seltjarnarnes og ræða þar við sveitarstjórnarmenn. Þeir vöktu athygli okkar á því sem stendur á þskj. 1, bls. 271, sem hv. þm. hefur lesið upp. En spurningin sem ég vil aðeins ítreka frekar er um álagningarstuðul á hið nýja tryggingaiðgjald sem menn eru að velta fyrir sér í ráðuneytinu og boða sérstakt frv. um. Þar segir: ,,Enn fremur er álagið hugsað til að mæta auknum kostnaði ríkisins vegna ýmiss konar þjónustu við sveitarfélög, sérstaklega hin stærri, á síðari árum.`` Í fyrsta lagi langar mig til að vita hver eru þessi nýju verkefni við hin stærri sveitarfélög sem til hafa komið á hinum síðari árum sem við þurfum að leggja fé í. Og síðan: ,,Hins vegar kemur til greina að í stað álagsins komi aukin þátttaka sveitarfélaga í þessum kostnaði.`` Þá er það spurningin: Er þá meiningin að fella niður álagið og leggja skatt á sveitarfélögin til að taka þátt í verkefnum sem ríkið ætlaði að taka að sér með álaginu? Það er rétt að fá svar við þessu og ítrekað af hálfu sveitarstjórnarmanna á Seltjarnarnesi að þeir hafa mikinn hug á því.
    Þó svo að styttist í ræðutíma vil ég ekki ljúka þessari umræðu öðruvísi en að taka undir og gleðjast yfir því sem ég veitti athygli í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann talaði um skattkerfið, skattamálin, hvernig að þeim yrði staðið. Það gleður mig sérstaklega að hæstv. fjmrh. telji það rétt núna að bjóða út endurskoðun á skattframtölum fyrirtækja og hinna stærri aðila. Það finnst mér rétt stefna og hann talar sérstaklega í anda okkar sjálfstæðismanna.