Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að vonandi næst breið samstaða um þetta mikilvæga mál, bæði hér á hinu háa Alþingi og sömuleiðis með þjóðinni. Hins vegar þótti mér sumt af því sem hann sagði ekki vera þess eðlis að stuðli að þeirri samstöðu og mun ég koma að þeim atriðum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál hafi þróast á þann veg sem vel mátti búast við og það er sömuleiðis staðreynd að við stöndum nú á tímamótum og þurfum að taka ýmsar mikilvægar ákvarðanir. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið afar mikilvægt að fá samþykki EFTA - ríkjanna fyrir því að fríverslun yrði innan EFTA með fiskafurðir.

    Ég vil nefna það hér að sem utanrrh. átti ég fundi með forustumönnum EB í Brussel og flutti þar að sjálfsögðu það mál sem við erum öll sammála um, að við vildum fá frjálsan aðgang með okkar sjávarafurðir. Svarið sem ég fékk þá var þetta: Þið hafið þetta ekki einu sinni innan EFTA. Er ekki rétt að þið tryggið þetta innan þeirra samtaka sem þið eruð í? Þetta tókst og ég tel það mikilvægt þótt það sé hins vegar hárrétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., að þetta er fyrst og fremst okkar hagsmunamál.
    Ég tel einnig að það svar sem hefur nú verið knúið fram í viðræðunum við EB sé mikilvægt, eða með öðrum orðum að fríverslun með fisk komi ekki til greina. Ég tel mikilvægt að fá þetta fram til að geta þá snúið okkur af fullum krafti að því sem hér er komið fram, að fá tollfrjálsan aðgang að Evrópumarkaðinum og án magntakmarkana.
    Á þessu er vitanlega töluverður munur. Fríverslun með sjávarafurðir felur að sjálfsögðu í sér að þá verða allar hindranir, eins og t.d. niðurgreiðslur eða styrkir til fiskvinnslunnar, að hverfa. Fríverslun, og þetta verða menn að hafa í huga, felur í sér jafna aðstöðu beggja vegna. Því hefur nú verið hafnað og Evrópubandalagið tilkynnir okkur að þess sé a.m.k. ekki að vænta á næstunni að þeir hverfi frá þessari stefnu sinni í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, að styrkja sína vinnslu verulega eins og allir hér þekkja. Þetta er nú komið fram.
    Hver er þá okkar staða í þessum viðræðum? Það er von að spurt sé. Við höfum vissulega, með þeim samningi sem við höfum þegar við Evrópubandalagið, fallist á afar mikið frelsi, nánast fullt frelsi fyrir þeirra varning hingað til lands, þ.e. þó ekki á landbúnaðarafurðum. Við fengum, að því er við töldum á sínum tíma, viðunandi tollalækkanir og frelsi fyrir okkar sjávarafurðir. Þetta hefur breyst, sem ég þarf ekki að rekja hér, vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópubandalaginu. Er unnt að ná fram fyrir Ísland tollfrjálsum aðgangi og án magntakmarkana? Því er erfitt að svara á þessari stundu, en ég tel að fyrir okkur sé nú mikilvægast að halda áfram í þessum viðræðum innan EFTA og leggja áherslu á þessa kröfu okkar og ég er sannfærður um það, og reyndar þarf ekkert að spyrja að því, að þegar dæmið er gert upp fyrir okkur Íslendinga liggur á borðinu að það er miklu meira sem er EB-megin í þessum samningum, með tilliti til okkar Íslendinga, en okkar megin. Og það er afar auðvelt að færa rök fyrir því að þá verður Ísland, sem fyrst og fremst byggir sinn iðnað á framleiðslu sjávarafurða, að fá þar eitthvað sín megin til að jafna metin.
    Þó að það sé út af fyrir sig rétt að þetta með sjávarafurðirnar sé ekki eins stórt hagsmunamál annarra EFTA-ríkja er ég sannfærður um að EFTA-ríkin muni gefa mikið fyrir það að samstaða þeirra á meðal rofni ekki ef þetta kemst á lokastig og gengið verður frá samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vísa jafnframt til þess sem komið hefur fram aftur og aftur hjá mörgum forustumönnum EB-landanna og hjá forustumönnum í Brussel, m.a. á þeim fundi sem ég átti þar 18. apríl sl., um okkar viðræður að sjálfsögðu, þegar formaður framkvæmdastjórnar EB tók fram að það væri alveg augljóst að við Íslendingar værum með sérstöðu sem yrði að taka tillit til. Þetta kom einnig fram á fundi með tólf af framkvæmdastjórum EB. Það kom einnig fram á fundi í Gautaborg í vor þar sem Delors tók sérstaklega fram að ef öll önnur mál leystust, þ.e. undanþágurnar og ákvarðanatakan o.s.frv., mundi þetta mál leysast gagnvart Íslendingum. Ég tel þessar yfirlýsingar afar mikils virði og ég tel það afar mikils virði að að þessu máli hefur verið unnið látlaust, bæði af ráðherrum og þingmönnum í heimsóknum þeirra, eða heimsóknum manna EB og annarra ríkja hingað til lands. Það hefur alls staðar komið fram skilningur á þessari sérstöðu Íslands. Og þar er þá ekki mælt af heilindum ef á lokastiginu fæst ekki fram vilji til að taka tillit til þessarar sérstöðu Íslands þegar augljóst jafnvægisleysi er á milli þess sem Evrópubandalagið fær og þess sem við Íslendingar fáum. Þess vegna lít ég svo á að við eigum á þessu stigi ekkert að örvænta í þessum samningum heldur halda okkar striki og leggja áherslu á að það geri EFTA-löndin öll.
    Núna standa málin þannig að til að höggva á þann hnút sem er orðinn í þessum samningum þurfa báðir aðilar að gefa nokkuð eftir, þ.e. sérstaklega þurfa EFTA-löndin að hverfa frá ýmsum undanþágum sem þau hafa óskað eftir og EB-löndin að hverfa frá þeirri mjög stífu afstöðu sem þau hafa haft til ákvarðanatöku, ákvarðanamyndunar og töku innan væntanlegs Evrópsks efnahagssvæðis. Það er nú gerð mjög ítarleg tilraun til að ná einhverjum slíkum áfanga þannig að samningarnir haldi áfram.
    Við Íslendingar erum sem betur fer aðeins með fáar og mikilvægar grundvallarundanþágubeiðnir og stöndum að því leyti miklu betur að vígi en t.d. Svíar sem eru með fleiri síður af undanþágum. Við stöndum vitanlega fast á t.d. slíkri undanþágu að ekki verði leyfð erlend fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi og frumvinnslu sjávarafurða. Út af fyrir sig er það jafnvel enn auðveldara en fyrr vegna þess að Evrópubandalagið hefur hafnað fríverslun með sjávarafurðir og það er í raun og veru alls ekkert í myndinni. Við

stöndum einnig mjög ákveðið á því að við leyfum ekki erlenda fjárfestingu í orkulindum landsins. Það er hygg ég ekkert svo erfitt því að hér á landi hagar svo til að langmestu leyti að ríkið hefur einkarétt á virkjun fallvatna. Ég tel líka afar mikilvægt að við höldum vel til skila þeim fyrirvara að erlendir aðilar eignist hér ekki land, a.m.k. ekki í stórum stíl og þá eingöngu tengt þeim atvinnurekstri sem þeir kunna að taka þátt í hér. Vitanlega eru örfáar fleiri undanþágur sem þarf að skoða en ég held að það sé tiltölulega mjög auðvelt mál fyrir okkur af því að við erum með svo fáar á heildina litið. Um þetta er nú fjallað. Ég skal ekki segja hvað út úr því kemur. Ég hugsa að Evrópubandalagið eigi í meiri erfiðleikum en EFTA-löndin að ná samstöðu um það að heimila EFTA-löndunum að taka þátt í ákvarðanamótun og töku. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að það náist.
    Hér var nýlega á ferðinni sá maður sem nú veitir þessum viðræðum forustu, fyrir hönd EFTA-ríkjanna, Delamuraz. Svisslendingar eru að vísu með annað fyrirkomulag en við en hann er svona utanríkisviðskiptaráðherra þeirra nú og ég skildi hann svo að það væru nokkurn veginn jafnar líkur á því hvort þetta mistekst eða tekst. Þess vegna getur þarna brugðið til beggja vona.
    Hv. 1. þm. Suðurl. talaði um deilur sem hér voru á síðasta þingi um sérstaka samninga fyrir okkur Íslendinga á því stigi, eða sérsamninga sem margir lögðu áherslu á að ætti að hefja þá þegar. Ég tel að það hafi verið rétt niðurstaða að fara ekki fram á slíka samninga þá, og ég tel að það hafi hins vegar verið rétt að því unnið með fjölmörgum fundum og viðræðum að undirbúa það að annaðhvort fáist sérákvæði í lokasamningum EFTA og EB sem tekur til aðstæðna hér á landi og sérstöðu okkar Íslendinga sem ég hef rakið eða, ef þessir samningar mistakast, að sérsamningar fyrir okkur geti þá hafist. Það hefur hver einasti maður sem við höfum talað við tekið undir sérstaklega þetta sjónarmið og lagt áherslu á að EFTA-EB-samningarnir verði að hafa forgang.
    Forseti Frakklands var hér, eins og menn muna, í sumar og það mátti e.t.v. skilja hans ummæli þannig að eðlilegt væri að við Íslendingar bæðum þegar um sérstaka samninga. Ég hef fyrir nokkru ritað forseta Frakklands og farið fram á það að hann skýri þetta og styðji okkur í því ef hann telur að við getum þegar fengið tekna upp sérstaka samninga. Ég hef ekkert svar fengið við því bréfi enn þá, því miður, og nokkuð um liðið. Hins vegar hefur svokölluð EFTA-EB-nefnd þingsins verið þarna á ferðalagi og ég veit að þar var þetta mikið rætt og e.t.v. getur hún upplýst þetta nánar.
    En hvers vegna þessi óþolinmæði? Staðreyndin er sú að þessum viðræðum lýkur í síðasta lagi fyrir mitt næsta ár, jafnvel þyrfti henni að ljúka fyrr, annaðhvort með því að þetta tekst, og þá reynir á það í þeim áfanga að við fáum viðurkennda þessa séraðstöðu okkar og það jafnvægisleysi sem er í samningum með tilliti til okkar og sem allir hafa lofað að skoða, eða þetta mistekst og þá biðjum við um sérsamninga og það er búið að undirbúa þann jarðveg að mínu mati með miklum ágætum. Svo ég tek undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að það er vonandi að menn geti nú náð samstöðu um þessa málsmeðferð og keyrt málið til enda.
    Ég get ekki annað en komið nokkrum orðum að því sem kölluð hefur verið full aðild. Mér þótti leitt að heyra það að hv. 1. þm. Suðurl. fór með rangt mál þegar hann sagði að ég hefði sagt að það versta sem gæti komið fyrir Ísland væri full aðild. Ég veit að hann les Morgunblaðið mjög vel. Í stórri fyrirsögn í Morgunblaðinu á viðtali við mig segir: ,,Eitt hið versta sem gæti komið fyrir Ísland.`` Og þetta náttúrlega sýnir hvernig óvandaðir fjölmiðlar geta heilaþvegið jafnvel slíka menn sem hv. 1. þm. Suðurl., ef hann hefur meint það sem hann sagði áðan. Ég endurtek að ég tel að eitt hið versta sem gæti komið fyrir okkur Íslendinga væri full aðild. Og að gefnu tilefni hlýt ég að skýra það nánar.
    Við Íslendingar erum með mjög ólíkan efnahags- og atvinnugrundvöll hinum þjóðunum sem þarna eru að ræða um samstarf. Það þarf ég út af fyrir sig ekki að rekja. Við erum auk þess afar litlir og mig grunar að við mundum hafa afar lítil áhrif á ákvarðanatöku í EFTA-EB. Ég ræddi þetta mál nýlega við sænskan iðnrekanda, Curt Nicolin, sem margir munu kannast við og er mjög áhrifamikill maður þar. Í samtali okkar bar hann saman stöðuna hér og í Svíþjóð og hann sagði: Svo er nú ástatt í Svíþjóð að sænskur iðnaður fjárfestir tólf sinnum meira í löndum Evrópubandalagsins en lönd Evrópubandalagsins í Svíþjóð. Og um 80% af fjárfestingu í Svíþjóð rennur til þessara landa. --- Og hann sagði: Ég tel afar eðlilega ósk frá sænskum iðnaði að ríkisvaldið gæti okkar hagsmuna innan Evrópubandalagsins og það verður ekki gert öðruvísi en með fullri aðild. --- Hann bætti hins vegar við: Ég hef aldrei heyrt af neinni íslenskri fjárfestingu sem um munar í þessum löndum og ég trúi því ekki að hún geti nokkurn tímann orðið nokkuð sem vegur eitthvað. --- Og ég er sannfærður um, sagði hann, að hin stóru fyrirtæki í Evrópubandalaginu mundu fjárfesta mikið hér og eignast það sem þeim sýnist á tiltölulega skömmum tíma.
    Það er líka mikill misskilningur sem oft kemur fram að í fullri aðild gætum við fengið undanþágur frá Rómarsáttmálanum eins og t.d. þær að fjárfesting í sjávarútvegi komi ekki til greina eða þá t.d. að stjórn fiskveiða verði í okkar höndum. Við mundum geta fengið einhvern aðlögunartíma að þessu en ekki fulla undanþágu. Þetta kom t.d. mjög greinilega fram hjá forseta Frakklands þegar hann kom sl. vetur. Hann sagði nokkurn veginn með þessum orðum, í þýðingu minni, að að sjálfsögðu væri með sérsamningum unnt að taka tillit til sérstöðu okkar Íslendinga en í fullri aðild yrðum við vitanlega fyrr eða síðar að sætta okkur við Rómarsáttmálann, honum yrði ekki breytt fyrir eina þjóð. Og þetta kom fram hjá öllum sem ég hef rætt við um þessi mál, og ég hygg að fleiri geti borið það.
    Ég tel allar líkur á því að við getum fengið sérsamning og þurfum ekkert að örvænta í þessu sambandi og verðum að láta reyna á það til hlítar.
    Ég skal nú ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég held ég hafi komið að flestum þeim atriðum sem ég vildi nefna. Þó er kannski eitt sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á. Ég held að við Íslendingar þurfum að hugleiða það mjög vel hvernig við viljum hafa okkar viðskipti í framtíðinni. Er rétt, með svo einhæfa framleiðslu eins og hér er, þ.e. sjávarafurðir, að hafa eggin öll í einni körfu? Þurfum við ekki að leggja mikla áherslu á að halda og jafnvel styrkja okkar markað í Bandaríkjunum, hann hefur stundum reynst okkur afar mikils virði, og þurfum við ekki einnig að styrkja okkar markaðshlutdeild og auka, t.d. í Japan og löndunum þar í kring þar sem mjög mikil eftirspurn er eftir sjávarafurðum? Ég held við þurfum að skoða þetta betur í heild sinni og það er von mín að sú umræða sem hér fer fram á næstunni verði opin, vissulega til þess að ná samstöðu með þjóðinni, ekki að skipta henni, heldur ná samstöðu með þjóðinni um þetta mjög mikilvæga mál, og tek undir það sem hér hefur verið sagt, að þau gerast ekki stærri á þessari stundu fyrir íslenska þjóð og hennar sjálfstæði og hennar framtíð.