Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í þessum umræðum, að við erum að fjalla hér um einhverja mikilvægustu samninga sem Ísland hefur tekið þátt í um langan tíma. Það er einnig rétt að þessir samningar eru á miklu óvissustigi og erfitt að meta hvernig þeir kunna að þróast. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að gera í nokkrum orðum grein fyrir afstöðu Alþb. til þessara viðræðna og lýsa einnig afstöðu minni til fáeinna atriða sem fram hafa komið í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar.
    Alþb. hefur stutt þá afstöðu að Íslendingar tækju þátt í viðræðum milli EFTA og EB og verið þeirrar skoðunar að þær viðræður gætu styrkt hagsmuni Íslands. Jafnvel þótt þær leiddu ekki til endanlegrar niðurstöðu væru Íslendingar betur settir til þess að fá fram sín hagsmunamál á eftir og einnig væri margt sem benti til þess að slíkar viðræður gætu leitt til jákvæðrar niðurstöðu fyrir Íslendinga.
    Afstaða Alþb. er einnig á þann veg að við teljum mjög mikilvægt að Íslendingar taki fullan þátt í þeirri jákvæðu þróun til aukins viðskiptafrelsis sem er í heiminum nú og teljum afar mikilvægt að jákvæð niðurstaða fáist í þeim viðræðum, GATT-viðræðum, sem eru á næstu vikum á örlagatímamótum.
    Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, gera grein fyrir þessari afstöðu Alþb. með því að lesa þá samþykkt sem felst í stjórnmálaályktun aðalfundar miðstjórnar Alþb. sem haldinn var um síðustu helgi, en í þessari samþykkt aðalfundar miðstjórnarinnar, sem er æðsta stofnun flokksins milli landsfunda, kemur fram skýr afstaða til þessara mála.
    Í fjórða kafla ályktunarinnar sem ber heitið Ísland og umheimurinn, alþjóðleg aðlögun, segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Miklar breytingar eiga sér nú stað í heiminum á sviði utanríkisviðskiptamála og alþjóðlegs efnahagssamstarfs. Þróun innri markaðar Vestur-Evrópu er aðeins einn þátturinn af mörgum. Í þessu sambandi má nefna yfirstandandi GATT-viðræður sem ná m.a. til alþjóðaviðskipta með landbúnaðarafurðir, þjónustu og hugverka, svo og almennra tollalækkana og afnáms viðskiptahindrana. Viðræður eiga sér stað um að Norður-Ameríka og Mexíkó myndi eitt fríverslunarsvæði. Viðræður eiga sér einnig stað milli EFTA-landanna og EB um myndun Evrópsks efnahagssvæðis og lönd Austur-Evrópu aðlaga sig öflugu kerfi alþjóðlegrar fríverslunar.
    Á sama tíma hefur átt sér stað þróun í átt til óheftari fjármagnshreyfinga í heiminum í heild. Ísland mun með margvíslegum hætti aðlaga sig þessari þróun.
    Íslendingar eru fámenn þjóð með tiltölulega opið hagkerfi og eiga allt sitt undir utanríkisverslun. Það er því mikilvægt fyrir Ísland að kerfi fríverslunar í alþjóðaviðskiptum nái að þróast og dafna. Það eru því hagsmunir Íslands að GATT - viðræðurnar beri árangur. Ísland þarf einnig með alþjóðasamningum að tryggja viðskiptahags muni sína. Tollfrjáls aðgangur fyrir sjávarafurðir að mörkuðum EB og lækkun styrkja

til fiskvinnslu í aðildarlöndum þess eru mikilvægir viðskiptahagsmunir Íslands. Því hefur Ísland tekið þátt í viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði en EFTA - löndin hafa sameiginlega sett fram kröfuna um fríverslun með fisk í þeim viðræðum. Jafnvel þótt þær viðræður steyti á skeri hefur þessi þátttaka styrkt samningsstöðu Íslands í væntanlegum tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um þessi efni.
    Miðstjórnin telur að sú stefna Alþb. að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina sé enn í fullu gildi þar sem hún felur í sér framsal á hluta af stjórnarfarslegu fullveldi þjóðarinnar og opnar náttúruauðlindir landsmanna fyrir ágangi erlendra auðfélaga. Aðild að EB snýst því um mun meira en utanríkisviðskiptahagsmuni.``
    Virðulegi forseti. Hér lýkur tilvitnun í nýgerða stefnumótandi samþykkt Alþb. um þetta atriði sem hér er til umræðu.
    Af þessari samþykkt flokksins kemur skýrt fram að við teljum að þær viðræður um Evrópskt efnahagssvæði sem hér eru til umræðu þjóni hagsmunum Íslands, en við leggjum jafnframt áherslu á þá víðtæku viðskiptahagsmuni sem Íslendingar hafa annars staðar í heiminum og mikilvægi þess að við stuðlum að sem frjálsustum viðskiptaháttum á öllum sviðum. Við leggjum einnig áherslu á að við teljum aðild að Evrópubandalaginu ekki koma til greina, m.a. vegna þess að þar er um að ræða tengingu við nýtingu erlendra þjóða á okkar grundvallarauðlindum.
    Ég er hins vegar sammála því sem hér hefur komið fram, að nauðsynlegt er að ræða alla þessa þætti máls. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að ræða kosti og galla aðildar að Evrópubandalaginu því að aðeins með umræðunni eflist skilningur manna á því um hvað hér er að ræða.
    Ég vil hins vegar, virðulegur forseti, vekja athygli á einu atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að gera alveg skýrt í þessari umræðu vegna þess að ég hef tekið eftir því að hugtakið ,,fríverslun með fisk`` er skilið með nokkuð mismunandi hætti.
    Annars vegar er um að ræða þann skilning, sem m.a. kom fram hér í lýsingu hæstv. forsrh., að fríverslun með fisk fæli í sér frjáls viðskipti með þá vöru og án þess að viðskiptaaðilarnir væru með víðtækt styrkjakerfi hver fyrir sig til þeirra fyrirtækja sem sjávarútveg stunda. Það er í þessum skilningi sem krafan um fríverslun með fisk var sett fram innan EFTA. Og það er í þessum skilningi sem EFTA gerði þá samþykkt að fríverslun með fisk yrði tekin upp innan EFTA og felur þá jafnframt í sér að Norðmenn eigi að leggja af það víðtæka styrkjakerfi sem þeir hafa þróað í sjávarútvegi. Slík stefna er auðvitað mikilvæg fyrir okkur Íslendinga sem erum ein af fáum þjóðum sem hafa byggt upp sjávarútveg sem stenst alþjóðlega samkeppni án þess að til ríkisstyrkja komi.
    Hins vegar er sá skilningur á hugtakinu ,,fríverslun með fisk``, að í því felist kerfi verslunar þar sem engir tollar og engar magntakmarkanir eru á innflutningi vörunnar til annarra landa. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa það alveg skýrt að þótt

við náum ekki fríverslun með fisk í samræmi við fyrri skilninginn, sem ég var hér að lýsa, í viðræðum við Evrópubandalagið er engu að síður mjög mikilvægt að ná þar fram fríverslun með fisk samkvæmt síðari skilningnum, þ.e. að Evrópubandalagið afnemi allar tollahindranir og magnhindranir hvað snertir innflutning sjávarafurða til Evrópubandalagsins.
    Ég hef alltaf efast um að Evrópubandalagið mundi breyta fiskveiðistefnu sinni þótt Íslendingar settu fram kröfu um það. Ef Evrópubandalagið breytir ekki fiskveiðistefnu sinni er ljóst að fríverslun með fisk í fyrra skilningnum kemur ekki til greina og verður ekki á dagskrá af hálfu Evrópubandalagsins. Þá er mikilvægt fyrir okkur að halda fram hinum síðara skilningi sem er fyrst og fremst í þágu okkar eigin viðskiptahagsmuna, að tollar og magnhindranir séu lagðar niður.
    Virðulegi forseti. Ég gat þess áðan að ég ætlaði ekki að taka hér langan tíma en vil þó segja að lokum að ég tel margt benda til þess að þær viðræður sem fram undan eru um Evrópskt efnahagssvæði verði mjög erfiðar. M.a. vegna þess að mér sýnist Evrópubandalagið leggja á það mjög litla áherslu að þessum viðræðum ljúki með jákvæðri niðurstöðu. Af viðræðum við einstaka erlenda forustumenn, eftir þeim upplýsingum sem maður hefur úr ýmsum áttum, er erfitt að álykta á annan veg en þann að Evrópubandalagið, a.m.k. enn sem komið er, virðist ekki vilja mikið á sig leggja til þess að ná jákvæðri niðurstöðu í þessum viðræðum. Og þá verðum við, eins og aðrar EFTA - þjóðir, að horfast í augu við þá staðreynd.
    Ég tel það þess vegna alveg rétt, sem hér hefur komið fram í umræðunum, að við verðum nú fyllilega að ræða málið á þeim grundvelli að allt eins getur svo farið að viðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði sigli í strand á næstu mánuðum, hverjar svo sem orsakirnar kunna að vera. Þess vegna er það alveg rétt skoðun, sem hér hefur komið fram í umræðunum, að við þurfum með frjálsum og opnum hætti að ræða alla þá möguleika sem þá kunna að taka við en láta þá umræðu alls ekki hindra okkur í því að sækja engu að síður í félagi með öðrum EFTA - þjóðum eins mikinn árangur í þessum viðræðum og hægt er.
    Ég tek einnig undir þau orð sem komu fram, m.a. hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni, að það er mikilvægt að sem víðtækust samstaða þjóðarinnar skapist í þessu máli því hér er um eitt stærsta efnahagslegt hagsmunamál okkar Íslendinga að ræða, og fagna því að mér hefur fundist tónninn í þessum umræðum, sem ég hef hlýtt á hér í dag, vera yfirvegaður og efnislegur. Við ættum þess vegna í sameiningu að geta leitt þessi mál til lykta á næstu árum á þann veg að það þjóni sem best íslenskum hagsmunum.
    Virðulegur forseti. Ég vona að þessi lýsing feli í sér kjarnann í þeim áherslum sem við í Alþb. viljum leggja á þessu stigi málsins og feli í sér með skýrum hætti afstöðu flokksins til þess máls sem hér er til umræðu.