Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þar sem talsmenn allra flokka hafa nú talað langar mig aðeins að nefna það að þessar umræður hafa verið mjög málefnalegar og athyglisverðar og kannski nokkuð með öðrum brag en hér um þetta leyti í fyrra þegar við deildum harkalega. Ég var meðal þeirra sem tóku dálítið stórt upp í sig. Síðan hefur eitt ár liðið og menn hafa haft tíma til að skoða öll málin betur. Ég hygg að hvort sem menn eru sammála um alla hluti eða ekki þá hafi málin mjög skýrst svo að þingmenn séu nær því að geta myndað sér skoðun sem er í meginefnum sameiginleg eða það vona ég a.m.k.
    Ég held ég þurfi ekki að hafa mál mitt mjög langt. Formaður flokks míns, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, hefur lýst skoðunum okkar í megindráttum. Ég vitna til ræðu hans en hann gat þess sérstaklega að það væri enginn jöfnuður sem ríkti ef Evrópubandalagið hefði tollfrelsi á öllum iðnaðarvörum sem það selur hingað en við borguðum hins vegar verulega tolla til bandalagsins. Það sjá allir menn. Að þessu vék raunar Henning Christophersen, sem er okkur Íslendingum mjög vinsamlegur og þekkir mjög til mála hér, í ferð sem Evrópustefnunefnd fór fyrir nokkrum vikum. Hann eyddi miklu af tíma sínum til þess beinlínis að ráðleggja okkur hvað við ættum að gera. Og hann sagði, ekki orðrétt en að efni til, að það væri auðvitað alveg ljóst að þegar við borguðum miklu meiri tolla hlutfallslega til Evrópubandalagsríkja heldur en við tækjum af þeim, þá þyrfti að leiðrétta það, það væri alveg ljóst. Það er þetta sem við höfum verið að ræða um, þetta yrði að leiðrétta.
    Þessi ágæti maður gat þess raunar líka að hann teldi hyggilegast fyrir okkur að sækja um viðræður á breiðum grundvelli, nefna ekki fiskinn. Hann væri ekki aðalatriðið hjá Evrópubandalaginu og það væru aðeins ein eða tvær þjóðir, eina nefndi nú hæstv. utanrrh., það væru Spánverjar einir sem væru að rembast við að krefjast þess að tollfríðindi yrðu einhvers konar verslunarvara gegn fiskveiðum í landhelgi annarra þjóða. Þetta hafa ríki í GATT - viðræðunum raunar fjallað um og fordæmt algerlega. Þar stóðu Efnahagsbandalagsríkin algerlega einangruð. Engir aðrir léðu máls á því að tengja mætti saman fiskveiðiheimildir og tollfríðindi. Það er gersamlega fráleitt, það styður varla nokkur maður, kannski bara þessi eini í Evrópubandalaginu. Það er auðvitað sá sem fer með fiskimálefni þar, Marin heitir víst sá ágæti maður, sem stóð til að fá hingað til Íslands en kom ekki, sem betur fer, því hann hafði ekkert hér að gera. Hann verður eitthvað að ýja að þessu, býst ég við, þegar þessar umræður eru uppi, en náttúrlega alls ekki þegar ekkert er verið að ræða um fiskinn.
    Við höfðum ekkert ætlað okkur að ræða um neinn fisk, allt frá því að bókun 6 var gerð 1972 og tók gildi 1976. Þá fór síðasti togarinn út fyrir og mér datt ekki í hug, og ég held engum, að einhvern tíma síðar, kannski 15 árum eða þá tveim áratugum, svo að við notum nú þetta merkilega ártal 1992 sem allir eru

að tala um, þá væri farið að tala um að flotinn kæmi aftur. Þetta er fáránlegt, að nokkrum Íslendingi geti dottið í hug að það komi til greina að Evrópuflotinn fari að veiða hér aftur, 20 árum eftir að bandalagið samdi um það að fara út. Um þetta þarf auðvitað engin orð að hafa og sem betur fer hef ég engan mann heyrt í þessum umræðum hafa nein slík orð. Þau eru dauð, búin, grafin og eiga auðvitað aldrei að koma til umræðu á Alþingi Íslendinga, áttu aldrei að koma til umræðu og eiga aldrei að koma til umræðu.
    Þetta er mergurinn málsins og um þetta heyrist mér allir vera sammála. Ég held að menn séu líka sammála um það að við þurfum að taka upp tvíhliða viðræður. Ráðherrarnir báðir viku að því mjög drengilega. Og ekki ætla ég að fara að þræta mikið um það hvort það hefði átt að gerast í fyrra eða gerast nú. Það átti auðvitað að gerast í fyrra, árið er liðið í aldanna skaut, eins og þar stendur, og það er alveg ástæðulaust að fara að rifja þetta upp, það er líka liðin tíð.
    Það var hvorki meira né minna en hæstv. forsrh. sem sagði orðrétt: ,,Nú eigum við að snúa okkur af fullum krafti að því að fá tollana fellda niður``, þ.e. annaðhvort að breyta bókun 6 eða gera sérsamninga, tala um tollamál og önnur almenn viðskiptamál við Evrópubandalagið, alls ekki um fiskveiðar. Þær eru ekkert á dagskrá og hafa aldrei verið. Við eigum 200 mílurnar, það var viðurkennt í ferð þessarar nefndar, Evrópustefnunefndar í fyrra, hún fór þá líka í ferðalag, af þeim sem fer með íslensk málefni í framkvæmdastjórninni. Það væri alveg ljóst að Íslendingar ættu 200 mílurnar og enginn gæti gert neinar kröfur til nokkurs innan þeirra. Það var alveg ljóst. Aðspurt var þetta tvítekið og það er allt bókað í bókakerfi nefndarinnar.
    Af því að ég er að nefna nefndina þá vil ég geta þess, og nota kannski tækifærið til óheiðarlegrar samkeppni að auglýsa rit hér úr ræðustól, en þessi nefnd tók út með sér þýðingu af nefndaráliti sem útbýtt var á Alþingi í vor. Það er álit nefndarinnar í heild sinni og sérálit nefndarmanna. Þessu útbýttum við auðvitað alls staðar og ýmsum gögnum öðrum. Ég hygg að margir Íslendingar mundu vilja senda þessa bók til viðskiptavina sinna og vina erlendis til þess að menn sjái þar að það þýðir ekkert að vera að tala um nein fiskveiðiréttindi við Íslendinga, þau verða aldrei að veruleika, sem betur fer. Ég vil geta þess jafnframt að það eru að koma út í einu bindi þau sjö hefti sem nefndin sendi frá sér og það hjálpar auðvitað til við að kynna þessi mál. En það kom hér fram, og er alveg rétt, að það vantar meiri kynningu á Evrópumálum yfirleitt. Menn þurfa auðvitað að kynna sér þetta allt saman mun betur en nú er.
    Hæstv. forsrh. sagði líka að það hefði ekki verið rétt að óska tvíhliða samninga í fyrra. Við getum látið það liggja á milli hluta en hitt er ljóst að núna er tíminn kominn, eins og ég áður vék að. Og hann sagði raunar að núna væru allar líkur á að við gætum fengið tvíhliða samninga, það sagði hæstv. forsrh. hér úr þessum ræðustól áðan. Ég er alveg fullviss

um það að þar getum við fengið mjög hagstæða samninga. Það er auðvitað alveg ljóst, hvernig sem menn velta vöngum, að ef við förum að gerast aðilar að Evrópubandalaginu þá höfum við enga tryggingu fyrir því um lengri tíma að það yrði ekki komin krafa um að við mundum hlíta hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu bandalagsins. Hún nær auðvitað ekki til annarra en bandalagsríkja. Hún nær ekki til okkar og hefur aldrei gert. Þetta er bara innbyrðis samkomulag þessara ríkja. Og það er hvergi getið um það, allt frá Rómarsáttmálanum frá 1957 og til þessa dags, ekki í einu einasta skjali bandalagsins, að það sé til einhver sameiginleg fiskveiðistefna sem gildi utan bandalagsins, eins og það sé komið löggjafarvald um heim allan. Þetta er bara dellukenning. Það er della sem var búin hér til, ekki kannski hér á Íslandi, en einhvers staðar búin til og á hvergi nokkra stoð.
    Það kom alveg skýrt fram, m.a. frá þessum ágæta manni sem ég var að nefna hér áðan, að það sem stendur í þessum skjölum er að eitthvað kæmi fyrir eitthvað. Það er ekki hægt að krefjast fiskveiðiheimildar af Svisslendingum eða Austurríkismönnum þegar verið er að semja við þá. Hvernig eiga þær að láta bandalagið hafa fiskveiðiréttindi? Þetta er della upp úr og niður úr, stendur ekki í einu einasta skjali bandalagsins og þess vegna er ekkert um það að tala.
    Það er auðvitað alveg ljóst að ef við gengjum í bandalagið, kannski verðum við að gera það einhvern tíma og við vitum náttúrlega ekkert hvernig bandalagið verður eftir eitt eða tvö ár, bandalagið getur breyst æði mikið á einu ári. Því geta menn held ég gert sér grein fyrir. Við vitum ekkert hvað þetta bandalag verður. Ef við förum að ganga í það, þá er náttúrlega alveg ljóst að við yrðum að undirgangast einhverjar af hinum almennu reglum. Ef þessi almenna regla þeirra um sameiginleg fiskveiðiréttindi á að gilda áfram, sem við vitum náttúrlega ekkert hvort verður, þá hlýtur hún með einhverjum hætti að taka til okkar. Við fengjum kannski einhverjar undanþágur, tímabundnar væntanlega, en hvað framtíðin ber í skauti sér, það er óvissa sem við vitum ekkert um og förum auðvitað ekki að undirgangast. Í mínum huga er það alveg fráleitt.
    En það var mjög ánægjulegt að hér þurftu menn ekki mikið að rífast og ég vil sérstaklega þakka hæstv. utanrrh., sem gengur nú í salinn, fyrir hans ræðu og skýrsluna líka, þá skrifuðu. Ég held að ég geti tekið undir svo til allt sem hæstv. ráðherra sagði um það. Við munum kýta eitthvað um málsmeðferð og kannski deila um hana nokkuð hastarlega. En það er rétt sem hv. þm.
Þorsteinn Pálsson sagði hér áðan að við eigum auðvitað ekki að fara að tína til á opinberum vettvangi öll rök andstæðinganna.
    Við höfum verið að gera það okkar á milli árum saman og kannski áratugum saman. Við höfum sérstakan vettvang til þess. Það er utanrmn. Alþingis þar sem trúnaður ríkir. Hún er nú orðin 62 ára, sú ágæta nefnd, og þar hefur eiginlega ekkert lekið út allan tímann svo að orð sé á gerandi. Þar gerum við okkur auðvitað grein fyrir veikleikum okkar. En við erum ekki að tíunda þá við útlendinga þegar við hittum þá og setja á skjöl og tíunda hér á Alþingi. Um það þegjum við einfaldlega.
    Við tíundum okkar rétt, og við höfum vissulega margháttuð réttindi. Við höfum t.d. söguleg réttindi, við höfum lagaleg réttindi, sem lítt er haldið á loft hér. Þau sögulegu réttindi eru að strax á annarri hafréttarráðstefnunni, sem var haldin 1960, fluttum við í tillöguformi að ríki sem mjög væru háð fiskveiðum um efnahag sinn skyldu undanþegin ákveðnum reglum. Og þetta gekk til atkvæða við svonefnda tillögu Kanada um 12 mílna almenna landhelgi, en söguleg réttindi í tíu ár, þ.e. 6 plús 6 reglan, sem svo var kölluð. Fyrst var okkar tillaga um sérréttindi þeirra sem lifðu algerlega á fiskveiðum borin undir atkvæði. Hún var felld með litlum meiri hluta, var ekki samþykkt þar, en er þó sögulegt plagg engu að síður. Síðan varð það til þess að þegar kanadíska tillagan var borin upp greiddum við atkvæði gegn henni. Hún var um 12 mílur en sex ára söguleg réttindi hér á okkar miðum fyrir Breta, væntanlega, og Þjóðverja. Við greiddum atkvæði gegn þeirri tillögu sem við annars hefðum greitt atkvæði með og þá sætum við kannski enn þá uppi með 12 mílurnar, hver veit. En hún féll á einu atkvæði, okkar atkvæði.
    Við höfum þarna söguleg réttindi til þess að halda fram sérstöðu þjóða eins og Íslendinga. Í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna er grein nr. 71, alltaf kölluð ,,íslenska ákvæðið``, um þetta sama, að ríki sem algerlega eru háð fiskveiðum varðandi lífsafkomu sína skuli njóta algerra sérréttinda, ekki að útlendingar geti veitt hjá þeim. Hún stóð í hafréttarsáttmálanum í 12 ár án þess að nokkur maður gerði tilraun til þess að hagga orði í henni. Þannig fengum við lagalegan rétt líka til að neita öllum veiðum í íslenskri landhelgi um aldur og ævi. Þess vegna ætti auðvitað að fara að linna öllum bollaleggingum um eitthvað annað. Og náttúrlega alveg fáránlegt að við nokkurn tíma gerum nokkra milliríkjasamninga eða göngum í milliríkjasamstarf ef við þessu verður hreyft. Það verður aldrei við því hreyft og við skulum snúa saman bökum um það að túlka þessar skoðanir okkar.
    Það er margt fleira sem við getum bætt við sem þessir ráðamenn hjá Evrópubandalaginu skilja algerlega og viðurkenna. Við veiðum auðvitað fiskinn ódýrara með meira öryggi og framleiðum betri vöru en nokkur annar getur gert. Þeir eru alltaf að tala um að það eigi að hagnýta auð þjóðanna sem best, með vöruskiptum og að framleiða þar sem framleiðslan er ódýrust. Þar að auki erum við betur í stakk búnir til þess að verjast hér áföllum í öllu okkar skammdegi o.s.frv. og haga veiðunum þannig að þetta fari vel úr hendi. Þetta viðurkenna þeir þegar maður talar við þá. Auðvitað er það fásinna, segja þeir, meira að segja í ræðum, margir hverjir. Og í samræðum eins og við okkur í þessum nefndum segja þeir jafnvel að það sé algerlega ljóst að Íslendingar eigi að veiða fiskinn. Þeir þurfa að fá þennan fisk aftur á móti. Við getum gert samning um það að þeir fái einhvern ákveðinn

hluta af okkar fiski, að sjálfsögðu á gangverði. En við tryggjum þeim eitthvert magn af þessum fiski. Þá vantar þennan fisk, þeir verða að fá hann. Þeir kaupa hann hvergi annars staðar, hann er ekki til. Þeir eru sjálfir búnir, með þessari sameiginlegu fiskveiðistefnu, að gereyðileggja öll mið við strendur sínar. Þetta vita allir menn og þeir ætlast ekki til að við förum að fallast á að þeir komi líka til með að eyðileggja okkar mið. Þeir segja þetta bæði opinberlega og eins við okkur og við alla. Þess vegna má aldrei nein íslensk rödd heyrast um annað. --- [Fundarhlé.]