Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs vegna þess að ég hef efasemdir gagnvart ýmsum þáttum í meðferð málsins í höndum hæstv. ríkisstjórnar. Einnig hef ég komist á þá skoðun að á sumum sviðum væri rétt að breyta nokkuð um stefnu í því máli sem við erum hér að ræða um. Ástæðan til þessara skoðana minna er störf í Evrópustefnunefnd, upplýsingar sem við höfum fengið við þau störf og samanburður á því sem er að gerast í dag og því sem Alþingi var gerð grein fyrir fyrir ári síðan og reyndar nokkrum mánuðum fyrr, á Alþingi vorið 1989. Mér þykja mál hafa breyst æðimikið og raunar nokkrar af forsendunum sem skýrðar voru fyrir okkur þegar verið var að undirbúa hinar sameiginlegu viðræður EFTA og EB. Og einnig hafa þeir þættir verið að breytast á meðan á öllu þessu ferli hefur staðið.
    Það er auðvitað ljóst að mikið ferli fór af stað eftir að Jacques Delors hélt fræga ræðu sína í miðjum janúarmánuði 1989 þess efnis að æskilegast væri að stefna að stærra evrópsku efnahagssvæði með aðild EFTA - ríkja og EB - ríkja á þann veg að fundin væri svokölluð tveggja stoða lausn. Þegar sá góði maður Jacques Delors talaði um tvær stoðir meinti hann þær stoðir sem annars vegar samanstæði af EFTA - ríkjum og hina sem samanstæði af EB - ríkjum. Jacques Delors gerði um það mjög ákveðna tillögu þá þegar að til þess að þetta samstarf gæti gengið yrði EFTA að endurskoða sitt innra skipulag, nánast að koma á skipulagi sem væri sambærilegt, eftir því sem stærð EFTA leyfði, við það sem ríkti innan EB. Mörgum þótti það allsérkennilegt að formaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins skyldi fara að gera tillögur um innra skipulag EFTA. Raunar var það ljóst síðar að ýmis aðildarríki EFTA töldu þessa tillögu engan veginn raunhæfa, hún væri bæði dýr og flókin í framkvæmd og leiddi til ýmiss konar tvíverknaðar og ónauðsynlegrar starfsemi og hægt væri að halda fundi um hugsanlegt og væntanlegt samstarf án slíks nýs skrifræðis.
    Nú er það alveg ljóst að fljótlega var það ákveðið á sameiginlegum fundi ráðherra vorið 1989 að hverju stefna bæri og ýmsar ákvarðanir voru þar teknar, m.a. af hálfu Íslendinga, um þær kröfur sem við töldum nauðsynlegt að gerðar yrðu. Það var líka fljótlega ljóst, og sérstaklega gerð grein fyrir því það vor af hálfu íslenskra valdhafa og reyndar haustið sama ár, þ.e. fyrir rúmu ári síðan, að tvö atriði væru stærst í þessu samstarfi, ef ekki forsenda af hálfu Íslands og ýmissa annarra EFTA - ríkja þá a.m.k. mjög veigamikil skilyrði. Annað var það sem rætt hefur verið hér í dag mjög mikið, krafa Íslands um fríverslun með sjávarafurðir innan EFTA og að EFTA tæki þá kröfu upp á sína dagskrá sem sameiginlega kröfu EFTA. Það kom meira að segja stundum fram í umræðum manna, m.a. í ræðu eins ráðherra hér á síðasta ári, að þetta mál hefði forgang innan EFTA í viðræðum þess við Evrópubandalagið svo að nokkurrar bjartsýni gætti hér. Af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar var það skýrt fyrir Alþingi að það væri eitthvert stærsta skrefið sem

stigið hefði verið fram á við til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf sem við hefðum lengi staðið frammi fyrir.
    Hitt atriðið sem mikil áhersla var lögð á að gerði þennan kost þátttöku í EFTA - ferlinu svo fýsilegan fyrir Íslendinga var það að með því fengist réttur til sameiginlegrar ákvörðunartöku EFTA - ríkja og EB - ríkja um sameiginleg mál Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ef ég byrja á því að ræða um síðara atriðið af þessum tveimur þá eru þar óneitanlega margar spurningar sem ég tel að Alþingi þurfi að fá svör við og hæstv. ráðherra hafi engan veginn gert viðhlítandi skil því innan þess ramma eru atriði sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfræði og fullveldi Íslendinga að þetta verður að vera ljóst snemma á þessum ferli. Nú erum við e.t.v. ekki að tala um neitt sem er snemma á þessum ferli því að allt er þetta í fullum gangi og þegar eru farin að berast mikilvæg svör sem hæstv. ráðherra telur til mikilla tíðinda. Þetta atriði, um sameiginlegu ákvörðunartökuna, eins og það er orðað, skiptir sannarlega miklu. En það var aftur á móti atriði sem bæði ég og fjölmargir hv. þm. muna að hæstv. utanrrh. gerði afarlítið úr á fyrstu stigum umræðu um þetta mál. Hæstv. ráðherra sagði m.a. að á því sviði yrðu engin vandamál. Ef menn kæmust að niðurstöðu um meginatriði efnisins yrði það auðvelt mál að leysa hin svokölluðu lagalegu og stofnanalegu atriði, eins og það hefur verið þýtt.
    Annað hefur komið á daginn. Það liggur fyrir nú að á þessu sviði eru aðalágreiningsefnin milli EFTA og EB, sbr. neðst á bls. 33 í skýrslunni. Og menn geta velt því fyrir sér, hvers vegna skyldi það hafa verið sem hæstv. ráðherra gerði svona lítið úr þessu atriði?
    Í fyrsta lagi dettur manni auðvitað í hug að hæstv. ráðherra hafi talið þessi atriði raunverulega skipta svo litlu, að samkvæmt þingreynslu hæstv. ráðherra kæmu svona lagaleg atriði, stofnanaleg og slíkt, bara einhvern veginn af sjálfu sér. Ekki veit ég það en svo mikið er víst ef þau atriði hefðu verið tekin fyrir strax þá hefði fljótlega komið í ljós að það hefði þurft stjórnarskrárbreytingu á Íslandi. Það er líka ljóst ef það hefði legið fyrir að það þyrfti stjórnarskrárbreytingu til þess að komast að niðurstöðu í viðræðunum um hið Evrópska efnahagssvæði þá hefðu stjórnarflokkarnir ekki aðeins verið ósammála heldur hefði ríkisstjórnin ekki verið sammála um framhald málsins. Þarna er því enn ein af mörgum ja, það er skrýtið að segja það, af mörgum líftaugum ríkisstjórnarinnar. Þarna er enn eitt atriði þar sem menn hafa kæft þetta mikilvæga atriði í tali um aðra þætti, frestað því þangað til núna og reyndar lengur því að á þessu atriði hafa ekki enn fengist viðhlítandi skýringar.
    Þess vegna leyfi ég mér að óska þess að hæstv. ráðherra skýri það hvað við er átt á vissum stað í skýrslunni, sem hér liggur fyrir til umræðu. Í kaflanum um laga - og stofnanamál segir svo á bls. 34 um bein réttaráhrif, með leyfi hæstv. forseta: ,,EFTA - ríkin hafa lýst því yfir að þau mundu gera ráðstafanir til þess að einstaklingar hefðu sömu réttarstöðu samkvæmt EES - reglum í öllum EFTA - ríkjunum og þeir hefðu innan EB, þ.e. að þeir gætu leitað réttar síns á grundvelli EES - reglna fyrir dómstólum í EFTA-ríkjunum,`` --- þá væntanlega hver í sínu heimalandi. Þessu hafa EFTA-ríkin lýst yfir. Ég held áfram tilvitnun, frú forseti: ,,Til þess að einstaklingur geti leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum verða þær reglur, sem ætlað er að veita einstaklingum réttindi eða skyldur, að gilda sem lög á Íslandi.`` Á þá að lögleiða á Alþingi hverja þá breytingu EB-laga sem snerta EES - svæði í framtíðinni? Eða á að breyta stjórnarskrá þannig að sá þáttur EB-laga gildi á Íslandi?
    Síðar í þessum sama kafla segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Innan EB hefur EB - réttur forgang umfram landslög. EB hefur lagt áherslu á að gildi EES - reglnanna verði tryggt gagnvart landslögum sem hugsanlega yrðu sett í andstöðu við reglurnar. Að öðrum kosti mundi grundvöllur fyrir samræmdum reglum svæðisins raskast fljótt. Samkvæmt íslensku réttarkerfi þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að tryggja algjöran forgang EES - réttar fyrir landslögum.`` Ég lýk þessari tilvitnun í bili. Síðan er fjallað um það hvernig EES - lög væru skýrð sem sérlög gagnvart nýrri landslögum, en síðan kemur: ,,Endanlegt mat á því hvort landslögin gangi framar EES - reglunum er alltaf í höndum íslenskra dómstóla.`` Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvaða reglur munu gilda? Með hvaða hætti verður þetta gert ljóst? Hvernig kemur þetta heim og saman við það að rætt er um að sérstakur dómstóll, þ.e. eins konar útvíkkaður EB-dómstóll, þar sem EFTA - ríkin ættu einnig fulltrúa, fjallaði um ágreiningsmál af þessu tagi? Og hvernig kemur sú ætlan heim og saman við 60. gr. stjórnarskrárinnar um að dómstólar skeri úr um embættistakmörk yfirvalda?
    Ég held að mörg þessara laga sé unnt að lögfesta hér á Alþingi. Um það er ekki vandasamt að fjalla út af fyrir sig. Það liggur fyrir að þar hljóta íslenskir dómstólar að hafa lögsögu. En þar sem um er að ræða atriði sem gilda á efnahagssvæðinu öllu og koma til sameiginlegs eftirlits og sameiginlegra dómstóla þá finnst mér Alþingi þurfa nánari skýringa.
    Í skýrslunni segir, ef ég má vitna í hana, frú forseti: ,,EB hefur jafnframt verið tjáð að viðkomandi ríki hafi ekki hug á að breyta stjórnarskrám sínum vegna þessa.`` Þá er spurning: Ætlar þá Evrópubandalagið að falla frá þeirri grundvallarreglu sinni að Evrópudómstóllinn fjalli um vafaatriði í skiptum ríkis við Evrópubandalagið? Er ætlunin að láta þá EB - reglu ekki gilda um EB - lög sem einnig ná til Evrópska efnahagssvæðisins? Það er eiginlega þetta sem mér virðist þurfa að skýra nánar. Á þessu geta mikilvægir hagsmunir oltið er frá líður ef af hinu Evrópska efnahagssvæði verður með þeim hætti sem nú hefur verið stefnt að.
    Í ferð sem Evrópustefnunefnd fór til upplýsingaöflunar nú á haustdögum lá það fyrir af hálfu þings Evrópubandalagsins, Evrópuþingsins, að þar verður ekki samþykkt að EFTA fái ákvörðunarrétt um það sem kallast lög Evrópubandalagsins. Það liggur alveg

ljóst fyrir. Það má vel vera að sú hafi verið skoðun embættismanna á einhverju stigi málsins og sé það enn. En spurningin um ákvörðunarrétt EFTA verður, samkvæmt reglum EB, að koma fyrir Evrópuþingið og þar verður slíkur réttur ekki samþykktur til handa þeim sem eru ekki EB-ríki. Þess vegna er annað atriði sem mér finnst nauðsynlegt að fá skýringu á: Hvernig ætla þær EFTA - þjóðir, sem hæstv. ráðherra hefur vikið hér að í dag að stefni að þátttöku í ákvörðunum, að láta það gerast? Á hvaða stigi máls á að taka þátt í þeim ákvörðunum? Á það að vera í framkvæmdaráðinu, ráðherraráðinu, þinginu, í öllum þessum stofnunum sem EFTA - ríkin munu enga aðild eiga að? Ég fæ ekki séð hvernig það á að gerast eins og málum er komið.
    Mér virðist, frú forseti, að í umfjöllun um þetta mál komi fram ýmsar röksemdir af hálfu hæstv. ráðherra sem ganga hver gegn annarri og standast þess vegna ekki. Vissulega er það erfitt fyrir dugnaðarmenn, sem eru ákveðnir í sinni sök og eru að berjast fyrir málstað sem þeir trúa á, þegar þeir þurfa að horfast í augu við það að forsendur fyrir því máli sem þeir eru að berjast fyrir eru ekki fyrir hendi, ekki lengur. Forsendan fyrir sameiginlegri ákvarðanatöku er ekki fyrir hendi. Forsendan fyrir alíslenskri lögsögu, ég er ekki viss um að hún sé fyrir hendi samkvæmt öðrum þeim upplýsingum sem liggja í þessum plöggum. Og forsendan fyrir fríverslun með sjávarafurðir, sem var nokkurn veginn efst á blaði hjá EFTA gagnvart EB, er brostin. Það kom í ljós nú nýlega og líka samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í dag. Hvað stendur þá eftir af þeim hagsmunum sem við lögðum áherslu á í upphafi? Jú, það er spurningin um að fá aflétt, með samningi til langframa, tollum af íslenskum sjávarafurðum. Og samkvæmt máli hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. er helst að skilja að því máli sé best borgið með því að Sviss, Austurríki, Svíþjóð, Norðmenn og Finnar tali fyrir okkur, að við fáum kannski að vera með.
    Ég er þeirrar skoðunar að því máli sé mun betur borgið í höndum okkar sjálfra. Samninga um þau mál og önnur sérhagsmunamál Íslands gagnvart Evrópubandalaginu eigum við sjálf að hafa með höndum. Þess vegna er það að mér þykir okkur í hæsta máta koma það við þegar aðrar EFTA - þjóðir, valdhafar annarra EFTA - þjóða, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, lýsa því yfir með ýmsum hætti að nú standi fyrir dyrum ákvörðun um það að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Heldur hæstv. ráðherra í raun og veru að það komi okkur ekki við ef það gerist sem fjölmiðlar voru að fjalla um í gær, að Svíþjóð kynni að sækja um aðild fyrir vorið? Samkvæmt því sem fyrrv. og e.t.v. tilvonandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland segir, þá væru Svíar um leið að sækja fyrir hönd Noregs. Forsætisráðherra Noregs og hans flokkur, svo og meiri hluti norska Stórþingsins, telur að stefna beri að aðild. Sömuleiðis hægrimenn í Svíþjóð. Sænskir sósíaldemókratar eru farnir að hallast í þessa átt. Meðan þessu fer fram heyrist helst það hljóð úr horni hæstv. utanrrh. að allt þetta fólk sé

annaðhvort haldið misskilningi eða þá óskynsamt. Til vandræða sé þegar hinir og þessir norrænir ráðherrar ,,tali út og suður`` um þessi mál. Sömu afgreiðslu fá stjórnmálamenn annarra Evrópuríkja ef þeir hvetja Norðurlönd til aðildar eða tvíhliða viðræðna. Það skilur hvert mannsbarn sem hefur heyrt í hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum um þessi mál að hann leggur harla lítið upp úr þessu.
    Ég tek til máls, frú forseti, til þess að vekja athygli á því að bæði ég og margir aðrir þingmenn og margir Íslendingar utan þings telja að þessar yfirlýsingar varði Íslands hagsmuni miklu. En ríkisstjórnin ætlar að horfa á það aðgerðarlaus eða bókstaflega að bíða átekta á meðan þessu fer fram og segja sem svo: Hvað sem tautar og raular þá ætlar utanrrh. Íslands að ljúka þessu EFTA - EB samningaferli. Á hverju lýkur þessu EFTA - EB samningaferli? Er hæstv. ráðherra viss um að því ljúki með samningi? Hvað gerist ef þrjú EFTA - ríki og kannski fleiri verða búin að sækja um aðild að Evrópubandalaginu áður en þessu samningaferli lýkur? Er ekki hætt við því að lítið verði úr samningum? Ég held að svo geti farið. En segjum að samningar tækjust. Þá er það ljóst að þau ríki sem hafa sótt um aðild munu mjög fljótlega verða aðilar. Þá eru eftir Ísland og líklega Sviss, ég veit ekki um Finnland.
Ætlum við, ásamt Sviss, að vera sú stoð sem heldur utan um íslenska hagsmuni gagnvart öllum hinum ríkjunum, eigandi enga möguleika til að hafa áhrif á ákvarðanatöku? Ég held, frú forseti og hæstv. utanrrh., að það sé meira en tímabært að við segjum það upphátt að við skulum láta á það reyna hversu okkar málum verður tekið ef við sækjum í alvöru um aðild að Evrópubandalaginu, leggjandi áherslu á þá íslensku sérhagsmuni sem við erum öll sammála um. Það hefur margsinnis komið fram gagnvart þeim stjórnmálamönnum, og vafalaust fleirum en íslenskum, sem hafa átt samskipti við og leitað upplýsinga hjá stjórnmálamönnum Evrópubandalagsríkjanna, að umfjöllun um þessi sérhagsmunamál okkar, einkanlega á sviði sjávarútvegsins, verði miklu auðveldari á grundvelli viðræðna um aðild. Slíkar viðræður yrðu byggðar á aðildarumsókn, með þessu fororði að sjálfsögðu. Og það liggur fyrir af hálfu margra valdhafa þessara ríkja, og það veit hæstv. utanrrh., að það er fullur vilji til þess að líta með sérstökum skilningi hagsmuna ríkis sem á allt sitt undir einhæfu atvinnulífi, sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er vissulega grundvöllur mjög sérstæðna reglna innan Rómarsamningsins. Endurskoðun þeirra reglna stendur fyrir dyrum. En það er heimild nú til þess að gera aðildarsamning sem væri með sérstöku fyrirkomulagi við ríki sem á efnahagslíf sitt undir sjávarútvegi. Þá gerir það okkur auðveldara að ræða um fjölmarga þætti í atvinnulífi okkar og efnahagslífi, ekki aðeins sjávarútveg, heldur líka aðra þætti. Það sem við höfum aftur á móti verið vöruð við er að tala um sjávarútveginn einan og sér því að þá koma á móti af hálfu Evrópubandalagsins kröfur sem byggjast á reglum þeirra um sjávarútveginn einan. Það eru

hins vegar miklu fleiri atriði sem koma til skoðunar ef verið er að ræða um aðildarumsókn.
    Enn önnur ástæða fyrir því að ég tel það tímabært og raunar nauðsynlegt að taka afstöðu til þessa máls er sú að ég óttast það beinlínis að hagsmunir okkar kunni að verða látnir mæta afgangi ef við bíðum eftir því að ríki, sem eru núna samstarfsríki okkar innan EFTA, komi sinni ár fyrir borð með aðildarviðræðum við Evrópubandalagið og þar á eftir komi að okkur og þá förum við að hugsa um að sækja um aðild. Á meðan á þessu stæði væri svo enn annar þáttur í þessu stóra dæmi sem er Austur- og Mið-Evrópuþjóðirnar, fyrrverandi kommúnistaríkin. Það er mikill og augljós vilji fyrir því innan Evrópubandalagsins að veita þeim sérstaka afgreiðslu, að búa til sérstaka tegund aðildarmöguleika fyrir þau ríki. Okkur hefur verið bent á það. ,,Þið gætuð hugsanlega sótt um einhvers konar aukaaðild eins og verður að öllum líkindum komið á laggirnar fyrir Austur-Evrópuríkin.`` Ég leyfi mér að spyrja: Vill Alþingi Íslendinga að við fáum einhvers konar aukaaðild, sams konar og þykir nauðsynleg fyrir Austur-Evrópuríkin sem búið hafa við ofstjórn kommúnismans og efnahagslega eymd í öll þessi ár, eða viljum við ganga til þessa leiks á sama grundvelli og Vestur-Evrópuríkin? Viljum við ganga sjálf til þessa leiks, setja fram okkar óskir og segja á hvaða grundvelli við getum samið og á hvaða grundvelli við viljum ekki semja og tryggja þar með fjölbreyttara og stöðugra atvinnulíf, tryggja okkar unga fólki meiri möguleika en það gæti hugsanlega átt eftir að allt þetta svæði lokast meira og minna fyrir þeim sem standa utan þess, að ég ekki tali um hina marglofuðu þekkingu sem við viljum geta nýtt í samstarfi við aðrar þjóðir og helst flutt út? Hvernig ætlum við að gera allt þetta ef við ætlum að bíða átekta þangað til Evrópubandalagið verður svo þreytt á öllum undanþágubeiðnunum frá hinum að því finnst ekki taka því að sinna slíku frá svona smáþjóð? Það er mín skoðun að nú sé lag. Ég held að það sé ,,stemning``, ef ég má svo segja, það sé viss vilji meðal stjórnmálamanna hjá Evrópubandalagsríkjunum að taka sérstaklega á hagsmunamálum þessa matvælaframleiðsluríkis okkar og líta á það með skilningi að við eigum samleið með þessum ríkjum og við viljum taka ákvarðanir með fullum rétti, með aðild að valdastofnunum Evrópubandalagsins til þess að hafa sjálf eitthvað um það að segja hvaða lög og reglur kunna að gilda um efnahagslífið. Ég sé ekki annað en við verðum að líta á það að þau eru aðalviðskiptaaðili okkar. Hvernig því verður háttað í framtíðinni vitum við ekki, en það er alveg ljóst ef við ætlum að halda þeim viðskiptum, ef við ætlum að opna þær dyr sem í þessu felast fyrir okkar fólk og ef við ætlum að nýta þann byr og þann áhuga sem er á meginlandi Evrópu núna fyrir því að varðveita sérstæða menningu og tungumál þá eigum við að gera þetta fyrr en seinna. Ég held að það sé áhætta að fresta því miklu lengur. Ég held líka ef við gerum þetta nokkuð fljótlega þá höfum við möguleika á að ræða um hugsanlega aðild um svipað leyti, eða jafnvel fyrr, en aðrar Norðurlandaþjóðir sem við höfum talið okkur á margan veg eiga mikla samleið með, einkanlega þó menningarlega. Og við skulum einnig líta á það hver verður sameiginlegur styrkur Norðurlandaþjóðanna innan þessa svæðis.
    Frú forseti. Ég hef nefnt það sem mér er efst í huga í þessu máli. Ég kom í þennan ræðustól með ljósrit af ýmsum ummælum hæstv. ráðherra frá því í fyrra sem sýna að í þessu máli hafa verið farnir nokkrir hringir eða hnýttar nokkrar slaufur, ég veit ekki hvað ég á að kalla það. Það sem var höfuðhagsmunamál fyrir ári síðan að fá framgengt, sú krafa sem við töldum efsta á blaði í fyrra hefur verið hafnað, virðist samkvæmt upplýsingunum í dag hefði orðið afar erfiður baggi, ef samþykkt hefði verið. Það verður ekki annað greint en að fögnuður, bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., sé mikill yfir því að kröfunni var hafnað. Sú höfnun styrkir samningsstöðu okkar samkvæmt áliti þeirra í dag.
    Hæstv. utanrrh. sagði 29. mars --- það er ekki lengra síðan: ,,Spyrja má hvað það er sem gerir Evrópskt efnahagssvæði að aðdráttarafli fyrir Ísland, efnahagssvæði sem nær til nítján ríkja og 350 millj. íbúa. Þessu er best svarað með því að horfa á stöðu Íslands ef við Íslendingar sættum því hlutskipti að lenda utan þeirrar þróunar sem nú virðist óumflýjanleg í Evrópu.`` Ég er sammála hæstv. ráðherra um þetta atriði.
    Ef ég má halda áfram lestri úr þessari klausu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Komi ekki til virk þátttaka Íslands við mótun þeirrar markaðsheildar án aðildar að bandalaginu er enginn vafi á því að viðskiptakjör okkar í framtíðinni yrðu mun lakari gagnvart þeim ríkjum sem nú taka við um það bil 70% af vöruútflutningi okkar. Ber þar auðvitað hæst að fá viðurkenningu á grundvallarreglunni um fríverslun með fiskafurðir sem eru í reynd okkar iðnaðarafurðir.`` --- Þetta eru ályktunarorð hæstv. utanrrh. 29. mars 1990. Að það sé þetta sem gerir Evrópskt efnahagssvæði að aðdráttarafli fyrir Ísland. Það er grundvallarreglan um fríverslun með fiskafurðir sem eru í reynd okkar iðnaðarafurðir. Þetta var 29. mars. Hvað segir hæstv. ráðherra 29. okt.? Þá segir hæstv. ráðherra að það sé eiginlega mikill léttir að þessari kröfu var hafnað, staða okkar sé í raun miklu sterkari, og undir þetta tekur og undirstrikar sérstaklega hæstv. forsrh. Það eru venjulegir framsóknarfimleikar ef ég má svo segja. Ég er undrandi á hæstv. utanrrh. sem hefur svona snarsnúið við blaðinu og hvers vegna í ósköpunum hann athugar ekki þá hlið þessa máls sem felst í því að horfast í augu við staðreyndir og taka afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að við tökum sams konar stefnu og Norðmenn, Svíar, Austurríkismenn og Danir hafa fyrir löngu gert.
    Frú forseti. Ég ætla að láta þessu máli lokið en ég vonast til þess að fá nánari skýringar hæstv. ráðherra á þessum hugleiðingum um ákvarðanatöku, hvernig menn stefni að ákvarðanatöku sem þegar hefur verið hafnað að veita mönnum hlutdeild í, og hvernig verður háttað með lögsögu þegar taka þarf afstöðu til

álitaefna um embættistakmörk yfirvalda hins Evrópska efnahagssvæðis gagnvart einstökum ríkjum.