Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil taka undir þau ummæli sem hér hafa fallið um það að umræðurnar í dag hafa um flest verið málefnalegar og varpað ágætu ljósi á stöðu þessa máls. Þar hafa komið fram mörg ný sjónarmið og ljóst að við stöndum frammi fyrir nýjum viðfangsefnum frá því sem var þegar málin voru til umræðu á síðasta þingi. Umræðan hefur að sumu leyti einkennst af þessu, kannski fyrst og fremst vegna þess að á síðasta þingi dró hæstv. ríkisstjórn og hæstv. utanrrh. upp mikla glæsimynd af stöðu þessara samninga og tveggja stoða nýju efnahagskerfi Evrópu. Nú er það hins vegar svolítið erfitt fyrir hæstv. ráðherra að gera Alþingi grein fyrir því að glæsimyndin er að hrynja og í mesta lagi getur orðið úr henni bráðabirgðalausn, ef samningar takast á annað borð.
    Það hefur komið fram í þessum umræðum að hæstv. ríkisstjórn á í nokkrum erfiðleikum með að fóta sig gagnvart þessum nýju aðstæðum og móta markvissa stefnu Íslands í ljósi þessara nýju aðstæðna. Um margt er það eðlilegt, ekki síst með tilliti til þess hvernig hæstv. ríkisstjórn er samsett. En hæstv. utanrrh. reyndi í síðari ræðu sinni að hylja þessa stöðu hæstv. ríkisstjórnar með því að reyna að varpa ljósi á, það sem hann var að ímynda sér, ágreining sjálfstæðismanna í þessu efni, en varð nokkur fótaskortur á í því efni. Því er nauðsynlegt að leiðrétta strax þá fullyrðingu hæstv. ráðherra að einhverjir þingmanna Sjálfstfl. væru tilbúnir til að færa nú þegar fórnarkostnað í þessu efni, og átti þá við yfirráð yfir fiskveiðilögsögunni. Enginn þingmanna Sjálfstfl. hefur nokkru sinni, hvorki fyrr né síðar, gefið hæstv. ráðherra minnsta tilefni til þess að ætla að innan Sjálfstfl. séu uppi hugmyndir um það að færa fórnarkostnað í þessu efni. Um það hefur verið full samstaða í Sjálfstfl., eins og öðrum flokkum, að við ætlum að verja rétt okkar til yfirráða yfir fiskveiðilögsögunni. Hvaða framtíðarform sem við finnum á tengslum okkar við Evrópubandalagið verður það í öllum tilvikum höfuðverkefni þeirra samninga að verja þennan rétt. Þess vegna er það útúrsnúningur að gera því skóna að einhverjir séu tilbúnir að færa þann fórnarkostnað að láta undan í þessu efni. (Gripið fram í.) Það eina sem mér er kunnugt um að Evrópubandalaginu hafi verið gefið til kynna í þessu efni er yfirlýsing sem þeir gáfu, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., á fundi með forustumönnum Evrópubandalagsins í Brussel, ég hygg að það hafi verið í apríl, þar sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir að Íslendingar væru reiðubúnir til þess að ræða gagnkvæm skipti á veiðiréttindum. Það eru einu yfirlýsingarnar sem farið hafa fram og, svo best ég veit, einu yfirlýsingarnar um að einhverjir væru tilbúnir að færa fórnarkostnað í þessu efni. En þessar yfirlýsingar liggja yfir.
    Varðandi hugtakið ,,fórnarkostnaður`` þá er einnig rétt að ræða það í þessu samhengi að ég held að það sé nokkuð einkennileg skýring að færa nú fram sem rök fyrir þeirri afstöðu, sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft varðandi meðferð á þessum sérstöku íslensku

hagsmunum og lýtur að sjávarútvegsmálunum, að líklegt væri að EFTA - ríkin tækju á sig fórnarkostnað Íslands. Það hefur nú þegar komið fram að Norðmenn tóku ekki samkomulagið um fríverslun hátíðlegar en svo að þeir hafa, í stað þess að nota aðlögunartímann til að draga úr styrkjum, stóraukið styrki sína. Og ætla svo að halda því fram við Alþingi Íslendinga að EFTA - þjóðirnar, sem hafa enga hagsmuni af fiskveiðum fyrir utan Norðmenn lítillega, taki á sig fórnarkostnað vegna Íslendinga, það er að mínu mati heldur bágborin rökræða.
    Það er svo svolítið einkennilegt hvernig hæstv. ráðherra fer á handahlaupum frá fríverslunarumræðunni. Menn muna það að hæstv. ríkisstjórn barði sér á brjóst eftir Óslóarsamkomulagið og lýsti yfir stærsta sigri Íslendinga fyrr og síðar. Nú væri EFTA búið að samþykkja fríverslun með fisk. Og hæstv. ráðherra hefur ekki hlaupið frá þeim stóru siguryfirlýsingum. Nú segir hæstv. ráðherra að það sé annar stærsti sigur Íslendinga þegar Evrópubandalagið neitar að ræða um fríverslun með fisk og hafnar kröfu EFTA um fríverslun með fisk. Með öðrum orðum, það var mesti sigur að ná samstöðu um fríverslun með fisk til þess að gera þá sameiginlegu kröfu gagnvart Evrópubandalaginu. Og þegar Evrópubandalagið hafnar þeirri kröfu, þá er það aftur mesti sigur sem Íslendingar hafa unnið. Hæstv. ráðherra var að reyna að gera Alþingi grein fyrir því að í þessu fælist ekki þversögn en ég skildi ekki þá útskýringu og ég hygg að svo sé um fleiri.
    Hæstv. ráðherra gerði líka að umtalsefni sérstakar bréfaskriftir þeirra ráðherranna, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., til forseta Frakklands. Þær voru mjög sérkennilegar. Út af fyrir sig hefði verið ósköp eðlilegt að þessir tveir hæstv. ráðherrar hefðu skrifað forseta Frakklands til áréttingar á viðfangsefnum sem Íslendingar eða þeir sjálfir hefðu tekið upp á fundum með forseta Frakklands. En hitt þykir mér heldur kauðskt að skrifa bréf vegna ummæla sem falla á blaðamannafundi. Það hefði verið meiri reisn yfir því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hefðu tekið þessi mál upp á fundi með forseta Frakklands og fylgt slíkum ummælum eftir með bréfakriftum. En bréfaskriftir í framhaldi af blaðamannafundum, mér þykir frekar líklegt að þeim sé miður vel tekið af móttakanda, enda hefur verið upplýst að engin svör hafi komið við bréfaskriftunum.
    Þá vék hæstv. ráðherra að ummælum sem hér hafa fallið um ákvarðanatöku á Evrópska efnahagssvæðinu. Í mínum ummælum fólst að ég lít svo á að Evrópubandalaginu sé ljóst að stærri EFTA - þjóðirnar stefna að fullri aðild að Evrópubandalaginu innan skamms tíma. Það skipti Evrópubandalagið af þeim sökum minna máli hver niðurstaða verður í þessu efni. Þvert á móti geti það leitt til þess að draga úr misskilningi og tortryggni ef fulltrúar þessara ríkja taka þátt í nefndarstörfum innan Evrópubandalagsins.
Þess vegna lýtur það fyrst og fremst að afstöðu Evrópubandalagsins að það er meiri ástæða en ella fyrir því að gefa eftir á þessu sviði. Eftir stendur að menn

hafa ekki kynnt eða getað kynnt neinar lausnir á því hvernig taka eigi ákvarðanir í framtíðinni á Evrópska efnahagssvæðinu. Kannski fellur hugmyndin í raun og veru fyrir þá sök og að þjóðirnar sem hér um ræðir eru að taka á sig skyldur með því að gera löggjöf Evrópubandalagsins um sinn innri markað að sinni eigin löggjöf án þess að hafa það tryggt að geta haft áhrif, bein áhrif á þær ákvarðanir sem Evrópubandalagið tekur í framtíðinni. Vitaskuld liggur í augum uppi að þar verður frumkvæðið og þar verða hinar raunverulegu ákvarðanir teknar.
    Umræðan hefur um margt verið athygli verð hér í dag, ekki síst fyrir þá sök að komið hefur mjög skýrt fram hvernig áherslur og hugmyndir manna hafa breyst á einu ári í þessu efni. Það kemur líka skýrar fram hvernig stjórnarflokkarnir tala nú með mismunandi áherslum. Og að hluta til hefur afstaða þeirra breyst. Það var til að mynda mjög athygli vert að hlýða hér á formann Alþb. Hann lýsti afstöðu Alþb. með gerólíkum hætti en á síðasta þingi. Að vísu hafa undur og stórmerki gerst í Alþb. Mér skilst að þeir hafi allt í einu fundið upp hlut sem heitir miðja og allt í einu er orðin til miðja í Alþb. Ég veit ekki hvort það er miðjan á milli þess að vera út og suður eða upp og niður, en allt í einu fundu þeir miðju og hún hefur kynnt hér alveg nýja stefnu af hálfu Alþb., gerólíka þeirri sem formaður Alþb. kynnti fyrir ári síðan.
Og það er um margt athygli vert að formaður Alþb. segir að rétt sé að ræða alla kosti. Hann gefur sem sagt hæstv. forsrh. og formanni Framsfl. langt nef og segir: Það er nauðsynlegt að ræða alla kosti. Hann tekur undir þær hugmyndir sem ég setti fram á fundinum í Leiru og hann segir að það verði að ræða framhaldið með tilliti til þess að að viðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið geti siglt í strand. Hann gerir sér gleggri grein fyrir því en hæstv. utanrrh. í hvaða stöðu umræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið eru komnar og að við stöndum nú frammi fyrir alveg nýjum aðstæðum. Þetta finnst mér um margt athygli vert að leiðtogi þessarar nýju miðju í Alþb. virðist reiðubúinn að ræða þessi mál með mjög opnum huga og stendur að ýmsu leyti mjög nærri Alþfl. í þessu efni.
    Á hinn bóginn virðast þeir hlutar sem eru sitt hvoru megin miðjunnar í Alþb., hvort sem þeir eru fyrir ofan hana eða neðan eða utan hana eða sunnan, fylgja gömlu stefnunni. Sá hv. þm., 2. þm. Austurl., sem hefur verið aðaltalsmaður flokksins í þessum málaflokki fram til þessa hefur lýst þeim viðhorfum. Þau viðhorf fara mjög saman við viðhorf formanns Framsfl., þ.e. neikvæð viðhorf. Þeir líta báðir, fulltrúar þessara afla í Alþb. og Framsfl., á þetta viðhorf frá neikvæðum forsendum. Þeir líta á viðfangsefnið út frá því hvað ekki megi gera og hvað síst megi henda en ekki frá jákvæðum forsendum. Þeir tala báðir um það að ekki megi setja öll eggin í sömu körfuna. Það verði að leita annarra leiða til þess að tryggja markaðsstöðu Íslands. Auðvitað er þetta kórrétt en af máli þeirra má glöggt ráða að með þessu er verið að draga athyglina frá því mikilvæga markmiði að tryggja stöðu

okkar á þessum markaði og draga athyglina frá því að við eigum ekki neinna kosta völ í því efni að henda Evrópu frá okkur. Það þykir mér vera orðið athygli vert að formaður Framsfl. og hv. 2. þm. Austurl. skuli nú eiga orðið mesta samleið í umræðum um þessi efni en formaður Alþb. skuli vera kominn miklu nær Alþfl. í umræðum um þetta efni. Það eru auðvitað býsna mikil tíðindi í öllum þessum umræðum.
    Það er líka ástæða til þess að vekja á því athygli enn á ný að hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að komast hjá því að taka á einstökum afmörkuðum viðfangsefnum sem Íslendingar hjóta að þurfa að taka afstöðu til áður en gengið verður til endanlegra samninga. Það hefur verið á það bent að norska ríkisstjórnin sagði af sér í morgun vegna ágreinings. Eitt aðalágreiningsefnið var það að Miðflokkurinn í Noregi var og er á móti því að samþykkja þau lagaákvæði um innri markað Evrópubandalagsins sem kveða á um frjálsar fjárfestingar ríkja í milli að því er varðar landareignir. Fjárfesting á landi er atriði sem Miðflokkurinn, systurflokkur Framsfl. í Noregi, gat ekki fallist á og af þeirri ástæðu sagði sú ríkisstjórn af sér í morgun.
    Ég ætla að nefna hér tvö atriði af þessu tagi. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í umræðunni fyrr í dag að Framsfl. hefði einmitt slíkan fyrirvara að því er varðaði erlenda fjárfestingu á íslensku landi. Nú er ástæða til þess að spyrja: Hver er afstaða hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni? Hverjir eru fyrirvarar íslensku ríkisstjórnarinnar í því efni sem leiddu til stjórnarslita í Noregi í morgun? Eru stjórnarflokkarnir sammála um þennan fyrirvara?
    Annað atriði lýtur að máli sem kom til mikillar umræðu á síðasta þingi. Þá lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að það væri mjög mikilvægt að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög, m.a. til þess að opna möguleika og styrkja eiginfjárstöðu þeirra í væntanlegri frjálsri samkeppni banka eftir að við hefðum gerst aðilar að Evrópubandalaginu. Brýnt væri að hefja þessar breytingar hið fyrsta svo að íslensku bankarnir gætu hafið aðlögun sína og hefðu náð nægilegum styrk þegar ákvarðanir tækju gildi um frjálsa bankastarfsemi landa í milli. Þetta var mjög athygli vert sjónarmið sem ég tók undir þá og tek enn undir með hæstv. viðskrh. En hæstv. forsrh. svaraði að bragði og sagði að þetta kæmi aldrei til greina. Hvernig er með þessar skoðanir, þennan ágreining í hæstv. ríkisstjórn? Hefur hann verið leystur? Það eru fjöldamörg atriði af þessu tagi sem aðrar þjóðir eru að fjalla um og takast á um og taka ákvarðanir um. En mér virðist að þessi hæstv. ríkisstjórn keppi að því að ýta atriðum af þessu tagi til hliðar og ætli greinilega að reyna að fresta þeim fram yfir kosningar til þess að þurfa ekki að standa frammi fyrir hinum raunverulega ákvörðunarefnum.
    Hv. 2. þm. Austurl. beindi spurningu til mín, sem ég í sjálfu sér skil ekki hvers vegna hann gerði. Spurningin var eitthvað á þá leið hvort ég gæti á þá tillögu hans fallist að þessi mál yrðu í heild sinni tekin til meðferðar í nefndum þingsins þannig að viðkomandi málaflokkar yrðu ræddir í þingnefndum. Ég skil það nánast svo að þetta yrði gert undir stjórn

Evrópustefnunefndar Alþingis eða utanrmn., eins og hann orðaði það. Væntanlega yrðu þetta þá að vera samvinnunefndir beggja deilda. Fyrst þessari fyrirspurn var beint til mín, þó að kannski hefði verið eðlilegra að beina henni til hæstv. ríkisstjórnar eða þeirra sem hafa forustu um þinghaldið, þá vil ég svara því af minni hálfu að ég tel mjög eðlilegt að vinnubrögð af þessu tagi verði viðhöfð í þessu mikilvæga máli og að einstakar fagnefndir þingsins fjalli um þá málaflokka sem undir þær heyra. Þeim álitum verði safnað saman og málið rætt að nýju að fenginni þeirri umfjöllun í nefndum. Einmitt á þeim vettvangi gefst kjörið tækifæri til þess að taka á ýmsum þeim atriðum sem hæstv. ríkisstjórn er greinilega að víkja sér undan að taka á en aðrar þjóðir taka afstöðu til áður en til lokasamninga verður gengið. Þess vegna vil ég fyrir mitt leyti taka undir þessa hugmynd og tel að hún mundi leiða til þess að Alþingi ynni hér með betri og vandaðri hætti að þessu mikilvæga máli en áður hefur verið stefnt að.